2011
Lifa í fullri gnægð
janúar 2011


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, janúar 2011

Lifa í fullri gnægð

Í upphafi nýs árs hvet ég Síðari daga heilaga hvarvetna til að hefja af kostgæfni mikilvæga og persónulega leit að því sem ég vil nefna gnægðarlíf — lífi sem einkennist af ríkulegum árangri, góðvild og blessunum. Á sama hátt og við lærðum stafrófið í skóla, þá legg ég fram einfaldar reglur okkur öllum til hjálpar við að lifa gnægðarlífi.

Hafa jákvæða afstöðu

A. Fyrsta reglan í mínu stafrófi er afstaða. William James, sálfræðingur, heimspekingur og bandarískur brautryðjandi, ritaði: „Mesta bylting okkar kynslóðar er að hafa uppgötvað, að ef menn breyta innri afstöðu hugans, geti þeir breytt ytri sviðum lífsins.“1

Svo margt í lífinu er háð eigin afstöðu. Hvernig við kjósum að horfa á hlutina og bregðast við þeim skiptir algjörlega sköpum. Að gera það besta sem við getum og síðan að ákveða að vera hamingjusöm í aðstæðum okkar, hverjar sem þær kunna að vera, leiðir til gleði og friðar.

Charles Swindoll — rithöfundur, fræðimaður og kristinn prestur — sagði: „Afstaða er mér mikilvægari en … fortíðin, … peningar, aðstæður, mistök, velgengni og hvað aðrir hugsa, segja eða gera. Hún er mikilvægari en útlit, snilli og hæfileikar. Hún byggir upp eða rífur niður félagsskap, kirkju eða heimili. Það undraverða er að við getum valið hver afstaða okkar verður dag hvern.“2

Við getum ekki stýrt vindinum, en við getum aðlagað seglin. Gætum þess að velja jákvæða afstöðu, til að hámarka hamingju okkar, frið og gleði.

Hafa trú á sjálfum sér

B. Önnur reglan er að hafa trú — á sjálfum sér, þeim sem umhverfis eru og á eilífum reglum.

Verið heiðarleg við ykkur sjálf, aðra og föður ykkar á himnum. Einn þeirra sem ekki var heiðarlegur við Guð fyrr en það reyndist of seint, var Wolsey kardináli, sem, að sögn Shakespeare, helgaði langa ævi sína þjónustu við þrjá drottnara og naut auðæfa og veldis. Að því kom svo að óþreyjufullur konungur svipti hann valdi sínu og eigum. Wolsey kardináli hrópaði:

Ef ég hefði aðeins þjónað Guði mínum af hálfum þeim ákafa,

sem ég þjónaði konungi mínum,

hefði hann ekki falið mig allslausan á vald óvinum mínum.3

Thomas Fuller, enskur trúmaður og sagnfræðingur sem var uppi á sautjándu öld, færði sannleika þennan í ritmál: „Sá sem ekki lifir eftir eigin trúarsannfæringu er ekki trúaður.“4

Setjið ykkur ekki skorður og látið ekki aðra telja ykkur trú um að ykkur séu settar skorður í afrekum ykkar. Hafið trú á ykkur sjálfum og hagið lífi ykkar þannig að þið fáið nýtt möguleika ykkar.

Þið fáið afrekað því sem þið trúið að þið fáið afrekað. Treystið og hafið trú.

Takist á við áskoranir af dirfsku

Dirfska verður tilvinnandi og þýðingarmikil dyggð einsetji menn sér fremur að lifa siðsamlega, heldur en að vera fúsir til að deyja karlmannlega.

Bandaríski rithöfundurinn og ljóðskáldið Ralph Waldo Emerson sagði: „Hvað sem þið gerið þarfnist þið hugdirfsku. Hvaða stefnu sem þið einsetjið ykkur að taka, þá verður alltaf einhver sem tjáir ykkur að þið séuð á rangri leið. Það eru alltaf erfiðleikar sem kveða dyra og feista ykkar til að trúa að gagnrýnendur ykkar hafi rétt fyrir sér. Að útleggja og framkvæma málstað og fylgja honum eftir allt til enda krefst álíka hugdirfsku og hermaður þarf að búa yfir. Friður vinnst með sigrum, en það þarf hugdjarfa karla og konur til að vinna sigrana.“5

Þær stundir koma er þið verðið slegin ótta og vonleysi. Ykkur kann þá að finnast þið bíða ósigur. Líkurnar á að sigur vinnist kunna að virðast afar litlar. Stundum getur ykkur liðið líkt og Davíð við að reyna að sigra Golíat. En hafið í huga — Davíð vann sigur!

Dirfsku þarf til að hefja keppni að þráðu marki, en það þarf jafnvel enn meiri dirfsku til að standa upp og reyna aftur, ef menn missa fótana í fyrstu tilraun.

Hafið staðfestu til að vinna verkið, einbeittan huga til að ná verðugu markmiði, og ekki aðeins dirfsku til að takast á við óhjákvæmilegar áskoranir, heldur einnig til að gera aðra tilraun, sé það nauðsynlegt. Stundum er hugdirfska hljóða röddin í dagsins lok sem segir: „Ég reyni aftur á morgun.“

Við skulum hafa þessar einföldu reglur í huga við upphaf ferðar okkar á nýju ári, tileinka okkur jákvæða afstöðu, trú til að ná fram markmiðum okkar og úrlausnum og dirfsku til að takast á við þær áskoranir sem á vegi okkar verða. Þá munum við lifa gnægðarlífi.

Heimildir

  1. William James, í samant. Lloyds Albert Johnson, A Toolbox for Humanity: More Than 9000 Years of Thought (2003), 127.

  2. Charles Swindoll, í Daniel H. Johnston, Lessons for Living (2001), 29.

  3. William Shakespeare, King Henry the Eighth, leikþáttur 3, sviðsmynd 2, línur 456–58.

  4. Thomas Fuller, í H. L. Mencken, ritst., A New Dictionary of Quotations (1942), 96.

  5. Ralph Waldo Emerson, í Roy B. Zuck, The Speaker’s Quote Book (2009), 113.

Hvernig kenna á boðskapinn

Íhugið að biðja fjölskylduna að miðla persónulegri reynslu þar sem jákvæð afstaða, sjálfstraust og dirfska hafa komið að gagni. Þið getið einnig kosið að biðja hana að finna dæmi um þessar þrjár reglur í ritningunum. Þið getið búið ykkur undir kennslu með því að hugsa í bænaranda um ritningargreinar og eigin reynslu.

Prenta