Hið heilaga musteri—leiðarljós fyrir heiminn
Mikilvægustu og æðstu blessanir aðildar að kirkjunni eru þær sem meðteknar eru í musterum Guðs.
Kæru bræður og systur, ég votta ykkur öllum elsku mína og bestu óskir og bið þess að himneskur faðir veiti mér innblástur í orði og anda, er ég tala til ykkar í dag.
Ég vil byrja á því að minnast á tvennt varðandi þann góða boðskap sem við höfum hlýtt á þennan morgun frá systur Allred og Burton biskupi og öðrum varðandi velferðarstarf kirkjunnar. Eins og sagt var markar þetta ár 75 ára afmælishátíð þessa innblásna starfs sem hefur blessað líf margra. Ég naut þeirra forréttinda að þekkja persónulega nokkra af frumherjum þessa mikla átaks — menn með mikla samúð og forsjálni.
Eins og Burton biskup, systir Allred og aðrir minntust á er biskupi kirkjudeildarinnar falin sú ábyrgð að annast hina þurfandi sem búa innan marka deildar hans. Þetta voru forréttindi mín þegar ég var mjög ungur biskup í Salt Lake City, yfir deild sem í voru 1.080 meðlimir, þar á meðal 84 ekkjur. Það voru margir sem þörfnuðust aðstoðar. Hve þakklátur ég er fyrir Velferðarstarf kirkjunnar og fyrir hjálp Líknarfélagsins og prestdæmissveitanna.
Ég lýsi því yfir að Velferðarstarf Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er innblásið af almáttugum Guði.
Bræður mínir og systur, á þessari ráðstefnu eru þrjú ár síðan ég var studdur sem forseti kirkjunnar. Að sjálfsögðu hafa það verið annasöm ár, full af margs konar vanda, en einnig af óteljandi blessunum. Þau tækifæri sem ég hef fengið til að vígja og endurvígja musteri hafa verið meðal gleðilegustu og helgustu blessananna, og það er um musterið sem ég vil ræða við ykkur í dag.
Á aðalráðstefnu í október árið 1902 lét Joseph F. Smith forseti í ljós þá von í opnunarræðu sinni, að einhvern tíma myndum við „byggja musteri á ýmsum stöðum í [heiminum] þar sem þeirra væri þörf til hagræðis fyrir fólkið.“1
Á fyrstu 150 árunum eftir stofnun kirkjunnnar, frá 1830 til 1980, var 21 musteri byggt, þar á meðal musteri í Kirtland, Ohio og Nauvoo í Illinois. Aftur á móti hafa á 30 árum, frá 1980, 115 musteri verið byggð og vígð. Með tilkynningunni í dag um þrjú ný musteri, eru þar að auki 26 musteri annað hvort í byggingu eða í undirbúningi. Fjöldi þeirra mun halda áfram að vaxa.
Markmiðið sem Joseph F. Smith forseti vonaðist eftir árið 1902 er orðið að veruleika. Þrá okkar er að gera musterin eins aðgengileg fyrir meðlimi og hægt er.
Eitt þeirra mustera sem nú eru í byggingu er í Manaus, Brasilíu. Fyrir mörgum árum las ég um hundrað manna hóp meðlima sem hélt frá Manaus, sem er í hjarta regnskóga Amasons, og til þess musteris sem næst þeim var, í Sao Paulo í Brasilíu — í nærri 4.000 kílómetra fjarlægð frá Manaus. Þessir dyggu heilögu ferðuðust með bátum í fjóra daga á Amasonfljótinu og þverám þess. Eftir að hafa lokið ferð sinni á vötnunum ferðuðust þau með rútubílum í aðra þrjá daga — eftir ósléttum vegum. Þau höfðu lítið til matar og gátu hvergi notið þægilegs svefns. Eftir sjö daga og nætur komu þau til musterisins í Sao Paulo, þar sem helgiathafnir, eilífar í eðli sínu, voru framkvæmdar. Að sjálfsögðu var heimferðin alveg jafn erfið. En þau höfðu tekið á móti helgiathöfnum og blessunum musterisins, og þótt budda þeirra hafi verið tóm, voru þau sjálf full af anda musterisins og þakklæti fyrir þær blessanir sem þau höfðu hlotið.2 Nú, mörgum árum síðar, fagna kirkjuþegnar í Manaus er þeir sjá sitt eigið musteri taka á sig mynd á bökkum Rio Negro árinnar. Musterin veita trúföstum meðlimum okkar gleði hvar sem þau eru reist.
Frásagnir af fórnunum, sem færðar eru til þess að fá notið þeirra blessana sem hljóta má í musterum Guðs, snerta ávallt hjarta mitt og endurvekja þakklæti mitt fyrir musterin.
Má ég deila með ykkur sögu Tihi og Tararainu Mou Tham og 10 börnum þeirra. Öll fjölskyldan gekk í kirkjuna snemma á sjöunda áratug síðustu aldar, þegar trúboðar komu til eyjarinnar, sem staðsett er um 160 km suður af Tahiti. Fljótlega fóru þau að þrá blessanir eilífrar fjölskylduinnsiglunar í musterinu.
Á þeim tíma var næsta musteri fyrir Mou Tham fjölskylduna Hamilton musterið á Nýja Sjálandi, í um 4.000 km í suðvestur frá þeim, og aðeins hægt að komast þangað loftleiðis, sem var mjög dýrt. Hin stóra Mou Tham fjölskylda, sem bjó við fátækleg kjör á lítilli plantekru, hafði ekki ráð á flugfari, og þau höfðu enga möguleika á að fá neina vinnu á Kyrrahafseyjunni sinni. Því tók bróðir Mou Tham og sonur hans, Gerard, þá erfiðu ákvörðun að sameinast öðrum syni sem vann í nikkelnámum í Nýju Kaledóníu, um 4.800 km í vestur. Vinnuveitandinn greiddi kostnaðinn við ferðina til námunnar, en ekki ferðina til baka heim.
Þessir þrír Mou Tham menn unnu í fjögur ár í hitasvækju nikkelnámanna, grófu og hlóðu hinn þunga málm. Bróðir Mou Tham yfirgaf syni sína í Nýju Kaledóníu og sneri einn heim í stutta heimsókn einu sinni á ári.
Eftir fjögurra ára mikið og þungt erfiði höfðu bróðir Mou Tham og synir hans safnað nægilegu fé til að fara með fjölskylduna til Nýja Sjálands musterisins. Allir voru þar nema ein dóttir. Þau voru innsigluð um tíma og eilífð, ólýsanlega gleðileg reynsla.
Bróðir Mou Tham fór frá musterinu beint til Nýju Kaledóníu, þar sem hann vann tvö ár í viðbót til að greiða fargjaldið fyrir eina dótturina, sem ekki hafði komið til musterisins með þeim — gifta konu og barn hennar og eiginmann.
Á síðari árum sínum þráðu bróðir og systir Mou Tham að þjóna í musterinu. Á þeim tíma hafði Papeete musterið á Tahiti verið byggt og vígt, og þau þjónuðu tvö trúboðstímabil þar.3
Bræður og systur, musterin eru meira en aðeins steinsteypa og járn. Þau eru full af trú og föstu. Þau eru byggð úr raunum og vitnisburðum. Þau eru helguð með fórnum og þjónustu.
Fyrsta musterið sem reist var á þessum ráðstöfunartímum var musterið í Kirtland, Ohio. Hinir heilögu á þeim tíma voru fátækir, en þó bauð Drottinn að musteri yrði reist, og því reistu þeir það. Öldungur Heber C. Kimball skrifaði um þessa reynslu: „Aðeins Drottinn þekkir fátæktina, þrengingarnar og neyðina sem við gengum í gegnum til að ná því.“4 Og síðan, eftir að öllu var samviskusamlega lokið, neyddust hinir heilögu til að yfirgefa Ohio og ástkært musteri sitt. Þeir fundu loks athvarf — þótt það yrði aðeins tímabundið — á bökkum Mississippi fljótsins í Illinois fylki. Þeir nefndu byggð sína Nauvoo, og fúsir til að gefa allt sitt enn á ný, og með trúna óskerta, reistu þeir Guði sínum annað musteri. Ofsóknir herjuðu engu að síður og þegar Nauvoo musterið var fullbyggt voru þeir á ný hraktir frá heimilum sínum og leituðu sér athvarfs í eyðimörk.
Baráttan og fórnirnar hófust enn og aftur þegar þeir erfiðuðu í 40 ár við að byggja Salt Lake musterið, sem stendur tignarlegt á lóð rétt sunnan við okkur í Ráðstefnuhöllinni.
Fórn að vissu marki hefur ávallt fylgt byggingu musteris og musterisþjónustu. Óteljandi eru þeir sem unnið hafa og barist til þess að þeir og fjölskyldur þeirra fengju notið þeirra blessana sem finna má í musterum Guðs.
Hvers vegna eru svo margir fúsir til þess að gefa svo mikið til að hljóta blessanir musterisins? Þeir sem skilja þær eilífu blessanir sem frá musterinu streyma vita að engin fórn er of stór, ekkert gjald of hátt, engin barátta of erfið til að hljóta þær blessanir. Aldrei er ferðast of langt, aldrei er sigrast á of miklum hindrunum og aldrei verða óþægindin of mikil. Þeir skilja að hinar endurleysandi helgiathafnir, sem við tökum á móti í musterinu og gera okkur mögulegt að snúa síðar aftur til föður okkar á himnum í eilífum fjölskylduböndum og hljóta blessanir og kraft frá upphæðum, eru alls erfiðis og allra fórna virði.
Í dag þurfum við flest ekki að leggja svo hart að okkur til að komast til musterisins. Áttatíu og fimm prósent þegna kirkjunnar búa nú innan 320 kílómetra fjarlægðar frá musteri og hjá okkur mörgum er fjarlægðin mun styttri.
Ef þið hafið farið til musterisins ykkar sjálfra vegna, og ef þið búið tiltölulega nálægt musteri, gæti fórnin sem þið þyrftuð að færa verið sú að gefa ykkur tíma frá annasömu lífi til að sækja musterið reglubundið heim. Það þarf margt að vinna í musterum okkar í þágu þeirra sem bíða handan hulunnar. Þegar við vinnum fyrir þau munum við vita, að við höfum unnið fyrir þá það sem þeir geta ekki gert sjálfir. Joseph F. Smith forseti sagði í kröftugri yfirlýsingu: „Með vinnu okkar í þeirra þágu munu fjötrarnir falla af þeim, og mykrið sem umlykur þá mun hverfa, ljósið mun skína á þá og þeir munu heyra í andaheiminum að börn þeirra hér hafi unnið fyrir þá, og þeir munu fagna með ykkur við framkvæmd þessa skyldustarfs.“5 Bræður mínir og systur, okkur er ætlað að vinna þetta verk.
Í minni eigin fjölskyldu er helgasta og dýrmætasta reynslan meðal annars sú, er við höfum sameinast í musterinu til að framkvæma innsiglunarathafnir fyrir látna áa okkar.
Ef þið hafið enn ekki farið til musterisins, eða ef þið hafið farið en eruð ekki nú verðug musterismeðmæla, er ekkert markmið sem þið getið unnið að mikilvægara en að vera verðug þess að fara í musterið. Fórn ykkar gæti verið sú að samræma líf ykkar því sem krafist er til að hljóta meðmæli, ef til vill að láta af langvarandi vana sem gerir ykkur óverðug. Hún kann að vera sú að eiga trú og sjálfsaga til að greiða tíund. Hver sem hún er, verið verðug þess að fara inn í musteri Guðs. Tryggið ykkur musterismeðmæli og lítið á það sem dýrmæta eign, sem það og er.
Ekki fyrr en þið hafið farið í Hús Drottins og tekið á móti öllum þeim blessunum sem bíða ykkur þar, hafið þið hlotið allt sem kirkjan hefur að bjóða. Mikilvægustu og æðstu blessanir aðildar að kirkjunni eru þær sem meðteknar eru í musterum Guðs.
Og þið, ungu vinir mínir, sem nú eruð á unglingsárum, beinið augum ykkar alltaf að musterinu. Gerið ekkert sem mun koma í veg fyrir að þið gangið inn um dyr þess og meðtakið þar hinar helgu og eilífu blessanir. Ég hrósa ykkur sem þegar farið í musterið reglulega til að taka þátt í skírnum fyrir dána, ykkur sem rísið mjög árla úr rekkju til að geta tekið þátt í slíkum skírnum áður en skóli hefst. Ég get ekki hugsað mér betri leið til að byrja daginn.
Með ykkur, foreldrum ungra barna, vil ég deila nokkrum viturlegum ráðum frá Spencer W. Kimball forseta. Hann sagði: „Það væri gott ef … foreldrar hefðu í hverju svefnherbergi í húsi sínu mynd af musterinu, svo að [börn þeirra], allt frá fyrstu bernsku, geti horft á myndina dag hvern [þar til] hún verður hluti af lífi [þeirra]. Þegar [þau] ná þeim aldri að [þau] þurfa að taka [hina] mikilvægu ákvörðun [varðandi musterisför], þá hafa þau þegar tekið hana.“6
Börn okkar syngja í Barnafélaginu:
Ég sárbæni ykkur um að fræða börn ykkar um mikilvægi musterisins.
Heimurinn getur stundum verið vandasamur og erfiður staður að lifa í. Við erum iðulega umlukt því sem dregur okkur niður. Þegar við förum í heilagt hús Guðs, þegar við minnumst sáttmálanna sem við höfum gert þar, munum við geta staðist allar raunir og sigrast á hverri freistingu. Í þessu helgidómi munum við finna frið; við munum endurnýjast og eflast.
Bræður mínir og systur, ég vil minnast á enn eitt musteri áður en ég lýk máli mínu. Innan ekki langs tíma, er ný musteri rísa víða um heim, mun eitt þeirra rísa í borg sem varð til fyrir meira en 2.500 árum. Ég tala um musterið sem nú er verið að byggja í Róm á Ítalíu.
Öll musteri eru hús Guðs, með sömu starfsemi og samskonar blessanir og helgiathafnir. Musterið í Róm er sérstakt að því leyti að það er byggt á einum sögulegasta stað heimsins, í borg þar sem hinir fornu postular, Pétur og Páll, prédikuðu fagnaðarerindi Krists og þar sem hvor um sig leið píslardauða.
Í október síðastliðnum, þegar við komum saman á unaðslegum sælureit í norðausturhorni Rómar, gafst mér tækifæri til að flytja helgunarbæn þegar fyrsta skóflustungan var tekin. Mér fannst ég eiga að biðja ítalska þingmanninn, Lucio Malan, og varaborgarstjóra Rómar, Ciuseppe Ciardi, um að taka fyrstu skóflustungurnar. Þeir höfðu báðir tekið þátt í þeirri ákvörðun að leyfa musterisbyggingu í borg þeirra.
Dagurinn var skýjaður en heitur, og þótt regn virtist yfirvofandi, féllu ekki nema einn eða tveir dropar. Þegar hinn stórkostlegi kór söng á ítölsku hinn fagra texta, „Guðs andi nú ljómar,“ fannst manni sem himinn og jörð sameinuðust í dýrðlegum lofsöng og þakklæti til almáttugs Guðs. Við tárin var ekki ráðið.
Á komandi tímum munu hinir trúföstu í þessari „eilífu borg“ taka á móti helgiathöfnum, eilífum í eðli sínu, í heilögu húsi Guðs.
Ég læt í ljós ævarandi þakklæti til himnesks föður míns fyrir musterið sem nú er verið að byggja í Róm og fyrir öll okkar musteri, hvar sem þau eru. Hvert þeirra stendur sem leiðarljós fyrir heiminn, vitnisburður okkar um að Guð, eilífur faðir, lifir, að hann þráir að blessa okkur og sannlega að blessa syni sína og dætur með öllum kynslóðum. Sérhvert musteri er vitnisburður okkar um að lífið handan grafar er raunverulegt og jafn öruggt og líf okkar hér á jörðu. Um það vitna ég.
Kæru bræður og systur, megum við færa allar nauðsynlegar fórnir til að sækja musterið og hafa anda musterisins í hjörtum okkar og á heimilum okkar. Megum við fylgja í fótspor Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists, sem færði hina endanlegu fórn fyrir okkur, svo við megum einnig njóta eilífs lífs og upphafningar í ríki okkar himneska föður. Það er einlæg bæn mín í nafni frelsara okkar, Drottins Jesú Krists, amen.
© 2011 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/10. Þýðing samþykkt: 6/10. Þýðing á First Presidency Message, May 2011. Icelandic. 09765 190