Tækifæri til góðverka
Háttur Drottins til hjálpar þeim sem búa við efnislegan skort krefst þess að í kærleika helgi fólk sig og eigur sínar Guði og verki hans.
Kæru bræður og systur, með orðum mínum hyggst ég heiðra og lofa það sem Drottinn hefur gert til að þjóna fátækum og þurfandi börnum sínum á jörðu. Hann elskar þau börn sín sem búa við neyð og líka þau sem vilja liðsinna. Og hann hefur séð til þess að bæði þeir sem þarfnast hjálpar og þeir sem vilja hjálpa verði blessaðir.
Himneskur faðir heyrir bænir barna sinna um allan heim, sem biðja þess að hafa mat á borðum, klæði til verndar líkama sínum og að njóta þeirrar virðingar sem felst í því að geta séð fyrir sjálfum sér. Slíkar bænir hafa borist til hans allt frá því að hann setti karla og konur á jörðina.
Þið verðið vör við slíka neyð þar sem þið búið og víða um heiminn. Meðaumkun og samúð fylla oft hjörtu okkar. Þegar einhver á í erfiðleikum með að finna sér atvinnu finnið þið löngun til að hjálpa. Þið finnið það líka þegar þið komið á heimili ekkju og sjáið að þar er ekkert matarkyns. Þið finnið það þegar þið sjáið ljósmynd af börnum sem eftir jarðskálfta eða eldsvoða sitja grátandi í rústum þess sem áður var heimili þeirra.
Þar sem Drottinn heyrir kveinstafi þeirra og skynjar einlæga samúð ykkar með þeim, hefur hann allt frá upphafi tímans séð til þess að lærisveinar hans geti komið til hjálpar. Hann hefur boðið börnum sínum að helga tíma sinn, eigur og sig sjálf, því að sameinast honum í þjónustu við aðra.
Hjálparleið hans hefur stundum verið sögð að lifa eftir helgunarlögmálinu. Á öðrum tímum hefur leið hans verið nefnd Sameiningarreglan. Á okkar tíma er hún nefnd Velferðarstarf kirkjunnar.
Nöfnum og starfsháttum hefur verið breytt til aðlögunar að þörfum og aðstæðum fólks. En háttur Drottins til hjálpar þeim sem búa við efnislegan skort, krefst þess að fólk helgi sig og eigur sínar Guði og verki hans af kærleika.
Hann hefur boðið og gefið fyrirmæli um að við tökum þátt í því verki hans að liðsinna nauðstöddum. Við gerum sáttmála um að gera svo í skírnarvatninu og hinum helgu musterum Guðs. Við endurnýjum sáttmálann á sunnudögum með því að meðtaka sakramentið.
Ætlunarverk mitt í dag er að gera grein fyrir sumum þeirra tækifæra sem hann hefur séð okkur fyrir til að liðsinna hinum nauðstöddu. Ég megna ekki að geta þeirra allra á þessari stuttu stundu sem ég á með ykkur. Von mín er sú að þið hljótið endurnýjaðan þrótt til að ganga til verks.
Hér er sálmur um boð Drottins til að vinna verk hans, sem ég hef sungið frá barnæsku. Þegar ég var drengur hlustaði ég meira á glaðlegan taktinn en á áhrifaríkan textann. Ég bið þess að þið fáið skynjað textann í hjörtum ykkar í dag. Við skulum rifja aftur upp textann:
Hef ég drýgt nokkra göfuga dáð í dag?
Hef ég huggað í harmi og nauð?
Hef ég hungraðan satt? Hef ég hugdapran glatt?
Hef ég brugðist að veita brauð?
Var nokkurri mannveru lífsbyrðin létt,
það lítið ég fúslega bar?
Fengu sjúkir og mæddir þá mannlegu stoð,
var meðhjálp mín tilbúin þar?
Því vakna! Ei dugir að dreyma
dýrðina er enn eigi sást,
því að góðverk er yndi á gleðinnar tindi
og blessun í umhyggjuást.1
Drottinn sendir okkur öllum reglubundið uppvakningarboð: Stundum hvolfist yfir okkur samúð með einhverjum nauðstöddum. Faðir kann að hafa fundið það þegar hann sá barn hrasa og hrufla hné. Móðir kann að hafa fundið það þegar hún heyrði óttablandinn grátur barnsins síns að nóttu til. Sonur eða dóttir kann að hafa fundið til samúðar með einhverjum sem virðist sorgmæddur eða óttasleginn í skóla.
Öll höfum við upplifað tilfinningu samúðar með öðrum sem við jafnvel þekkjum ekki. Þegar ykkur bárust til að mynda tíðindin um að flóðbylgja hefði komið æðandi af Kyrrahafinu vegna jarðskjálftans í Japan, funduð þið til samúðar með þeim sem gætu hafa skaðast.
Samúð vaknaði hjá þúsundum ykkar þegar þið fréttuð um flóðin í Queensland í Ástralíu. Fréttirnar fjölluðu aðallega um fjöldann sem varð fyrir neyðinni. En mörg ykkar skynjuðu þjáningar fólksins. Yfir 1.500 kirkjumeðlimir í Ástralíu svöruðu uppvakningarkallinu og buðu sig fram til hjálpar og liðsinnis.
Þeir fundu til samúðar og einsettu sér að breyta samkvæmt sáttmálum sínum. Ég hef séð blessanir berast hinum nauðstadda sem liðsinnið hlýtur og þeim sem notar tækifærið og veitir það.
Virtir foreldrar sjá hvernig synir þeirra og dætur geta uppskorið blessanir með því að þjóna hinum nauðstöddu. Þrjú börn komu nýverið færandi hendi með dásamlegan kvöldverð að húsdyrum okkar. Foreldrar þeirra vissu að við þurftum hjálp og þau létu börnin taka þátt í því að þjóna okkur.
Foreldrar þessir blessuðu fjölskyldu okkar með örlátri þjónustu. Með því að láta börn sín vera með í þjónustunni, framlengdu þau blessanirnar til framtíðar barnabarna sinna. Bros barnanna þegar þau fóru frá heimili mínu sannfærðu mig um að svo yrði. Þau munu segja börnum sínum frá þeirri gleði sem þau upplifðu af því að veita ljúfa þjónustu fyrir Drottin. Ég minnist þeirrar ánægju sem ég upplifði í barnæsku af því að reita illgresi fyrir nágranna að boði föður míns. Alltaf þegar mér er boðið að þjóna minnist ég þessa sálms og trúi orðum hans: „Ljúft er verk Guðs, míns herra.“2
Ég veit að textinn var skrifaður til að lýsa þeirri gleði sem hlýst af því að tilbiðja Drottin á hvíldardegi. En börnin sem komu á heimili okkar upplifðu gleðina af því að vinna verk Drottins í miðri viku. Og foreldrar þeirra komu auga á tækifæri til að gera góðverk og veita gleði til kynslóða.
Háttur Drottins til að sjá um hina þurfandi veitir foreldrum annars konar tækifæri til að blessa börn sín. Ég sá það í kapellu á sunnudegi. Lítið barn færði biskupi gjafaumslag fjölskyldu sinnar áður en hann fór í kapelluna til sakramentissamkomu.
Ég þekkti fjölskylduna og drenginn. Fjölskyldan hafði komist að því að einhver í deildinni liði neyð. Faðir drengsins hafði sagt barninu frá þessu er hann setti meira í umslagið en venjubundna föstufórn. „Við föstuðum í dag og báðum fyrir hinum nauðstöddu. Viltu afhenta biskupinum þetta umslag fyrir okkar hönd. Ég veit að hann mun gefa þetta einhverjum sem hefur meiri þörf fyrir þetta en við.“
Í stað þess að minnast aðeins hungursins þennan sunnudag, mun drengurinn minnast hans af hlýju. Ég gat séð af brosi hans og föstu handtaki hans um umslagið, að hann fann að faðir hans bar mikið traust til hans að fela honum að afhenta föstufórn fjölskyldunnar í þágu hinna fátæku. Hann mun minnast þessa dags þegar hann verður djákni og hugsanlega að eilífu.
Ég sá þessa sömu gleði á andlitum þeirra sem liðsinntu fólki fyrir Drottin í Idaho fyrir mörgum árum. Teton-stíflan brast 5. júní á laugardegi, árið 1976. Ellefu manns létust. Þúsundir neyddust til að yfirgefa heimili sín á örfáum klukkustundum. Sum húsanna sópuðust í burtu. Og hundruð húsa urðu aðeins gerð íbúðarhæf með mun meiri vinnu en eigendurnir sjálfir megnuðu að inna af höndum.
Þeir sem heyrðu tíðindin um hörmungarnar fundu til samúðar og sumir skynjuðu boðið um að koma til hjálpar. Nágrannar, biskupar, Líknarfélagsforsetar, sveitarleiðtogar, heimilis- og heimsóknarkennarar yfirgáfu heimili sín og atvinnu til að hreinsa hús annarra eftir flóðbylgjuna.
Ein hjón komu heim til Rexburg eftir flóðið að loknu sumarleyfi. Þau fóru ekki til að skoða eigið hús. Þess í stað fóru þau til biskupsins til að spyrja hvað þau gætu gert. Hann sendi þau til fjölskyldu í neyð.
Að nokkrum dögum liðnum fóru þau að skoða húsið sitt. Það var horfið, flóðið hafði tekið það með sér. Þau fóru hreinlega aftur til biskupsins og spurðu: „Hvað viltu að við gerum núna?“
Hvar sem þið búið hafið þið séð hvernig kraftaverk samúðar knýr fólk til óeigingjarnra verka. Það þarf ekki að hafa verið eftir gríðarlegar náttúruhamfarir. Ég hef séð það gerast í prestdæmissveit þar sem bróðir hefur staðið upp til að segja frá neyð karls eða konu sem leitar sér atvinnu til að sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni. Ég skynjaði samúðina í salnum og sumir greindu frá nöfnum fólks sem ef til vill gæti veitt hinum nauðstadda atvinnu.
Það sem átti sér stað í þessari prestdæmissveit og í Idaho eftir að flætt hafði yfir húsin, sýnir hvernig Drottinn hjálpar hinum nauðstöddu að verða sjálfbjarga að nýju. Við finnum til samúðar og vitum hvernig bregðast á við til hjálpar að hætti Drottins.
Á þessu ári fögnum við 75 ára afmæli Velferðarstarfs kirkjunnar. Það var sett á laggirnar til að uppfylla þarfir þeirra sem misstu atvinnuna, býlin sín og jafnvel heimili sín í því sem við nefnum Kreppuna miklu.
Mikil efnisleg neyð barna himnesks föður hefur að nýju skollið yfir á okkar tíma, líkt og áður hefur gerst og mun gerast á öllum tímum. Reglurnar sem lagðar voru til grundvallar við stofnun Velferðarstarfs kirkjunnar gilda ekki aðeins á einum tíma eða einum stað. Þær eiga við alla tíma og alla staði.
Þessar reglur eru andlegar og eilífar. Af þeirri ástæðu er okkur unnt að skilja þær og grundvalla í hjörtum okkar, svo við fáum séð og gripið tækifærin sem bjóðast til að hjálpa, hvenær og hvar sem Drottinn býður okkur.
Hér eru nokkrar reglur sem ég fer eftir þegar ég hyggst hjálpa að hætti Drottins og hef þegið hjálp annarra.
Í fyrsta lagi líður öllum betur og sjálfsvirðing þeirra eykst þegar þeir geta séð fyrir sjálfum sér og fjölskyldu sinni og síðan rétt öðrum hjálparhönd. Ég er þakklátur þeim sem hafa hjálpað mér að uppfylla þarfir mínar. Og ég hef jafnvel verið enn þakklátari í gegnum árin fyrir þá sem hafa hjálpað mér að verða sjálfbjarga. Og loks hef ég verið þakklátastur þeim sem hafa sýnt mér hvernig ég get nýtt umframeigur mínar til hjálpar öðrum.
Mér hefur lærst að umframeigur myndast þegar maður eyðir minna en aflað er. Með þeim umframeigum hef ég lært að það er í raun betra að gefa en þiggja. Það er að hluta til vegna þess að þegar við hjálpum að hætti Drottins, blessar hann okkur.
Marion G. Romney forseti sagði um velferðarstarfið: „Þið getið ekki gefið ykkur til fátæktar í þessu verki.“ Og síðan vitnaði hann í trúboðsforseta sinn, Melvin J. Ballard, og sagði: „Menn geta ekki gefið brauðskorpu í þágu Drottins án þess að fá brauðhleif í staðinn.“3
Ég hef komist að sannleiksgildi þess í lífi mínu. Þegar ég er örlátur við nauðstödd börn himnesks föður, sýnir hann mér örlæti.
Önnur trúarregla sem hefur hjálpað mér í velferðarstarfi, er kraftur og blessun samstöðu. Þegar við tökum höndum saman til að þjóna fólki í nauð, mun Drottinn sameina hjörtu okkar. J. Reuben Clark yngri forseti orðaði það svo: „Sú gjöf … hefur … stuðlað að almennu bræðralagi, er fólk af öllum þjóðfélagsstigum hefur starfað hlið við hlið að velferð eða öðrum verkefnum.“4
Sú tilfinning bræðralags er raunveruleg bæði hjá þiggjanda og gefanda. Fram að þessum degi hefur maður nokkur, sem ég vann með við að moka aur út úr húsi hans í Rexburg, verið tengdur mér vinarböndum. Og sjálfsvirðing hans hefur aukist við að gera allt sem hann gat til að koma sjálfum sér og fjölskyldu sinni til bjargar. Ef við hefðum unnið hvor í sínu lagi, hefðum við báðir orðið af andlegum blessunum.
Það leiðir af sér þriðju regluna um velferðarstarf: Fáið fjölskylduna í lið með ykkur, svo henni lærist að bera umhyggju fyrir hvert öðru, með því að bera umhyggju fyrir öðrum. Synir ykkar og dætur, sem starfa með ykkur að því að þjóna nauðstöddum, eru líklegri til að hjálpa hvert öðru þegar neyð kemur upp.
Fjórðu gagnlegu regluna um velferðarstarf kirkjunnar lærði ég sem biskup. Hún er sú að fylgja hinu ritningarlega boði að finna hina nauðstöddu. Skylda biskupsins er að finna þá sem enn eru hjálparþurfi, eftir að þeir sjálfir og fjölskylda þeirra hafa gert allt sem í þeirra valdi stendur, og liðsinna þeim. Ég komst að því að Drottinn sendir heilagan anda til að hægt sé að beita reglunni „leitið, og þér munuð finna“5 við að annast hina fátæku, líkt og á við um að finna sannleikann. En mér lærðist líka að fá Líknarfélagsforsetann til liðs við þá leit. Hún gæti hlotið opinberun á undan ykkur.
Sum ykkar þurfið á slíkum innblæstri að halda á komandi mánuðum. Er við höldum upp á 75 ára afmæli Velferðarstarfs kirkjunnar, mun meðlimum um heim allan verða boðið að taka þátt í þjónustudegi. Leiðtogar og meðlimir munu sækjast eftir opinberun við hvaða verkefnaval sem er.
Þrennt þarf til, að mínu viti, við að skipuleggja þjónustuverkefni ykkar.
Í fyrsta lagi að undirbúa ykkur sjálf og þá sem þið leiðið andlega. Aðeins ef hjörtu okkar láta mildast af friðþægingu frelsarans, fáum við greinilega séð takmark verkefnisins sem blessun, bæði andlega og stundlega, fyrir börn himnesks föður.
Önnur ábending mín er sú að velja þiggjendur þjónustunnar innan ríkisins eða samfélagsins þannig að það verði til að snerta hjörtu fólksins sem lætur þjónustuna í té. Þeir sem þau þjóna munu skynja elsku þeirra. Það kann að gleðja þá meira, líkt og söngurinn lofar, heldur en einungis að uppfylla stundlegar þarfir þeirra.
Síðasta ábending mín er sú að ráðgera að nýta kraftinn sem felst í sambandi fjölskyldna, sveita, aðildarfélaga og fólksins sem þið þekkið í samfélagi ykkar. Samstaðan mun margfalda góðu áhrifin sem felast í þjónustu ykkar. Og sú samstaða í fjölskyldum, kirkjunni og samfélögum mun eflast og verða varanleg arfleifð löngu eftir að verkefninu lýkur.
Mér gefst nú tækifæri til að segja ykkur hve þakklátur ég er fyrir ykkur. Ég hef notið þess að taka á móti þökkum fólks sem þið hafið hjálpað, er ég hef hitt það, fyrir þá kærleiksríku þjónustu sem þið hafið innt af hendi fyrir Drottin um heim allan.
Ykkur tókst að lyfta því á hærra svið með því að hjálpa að hætti Drottins. Þið, og auðmjúkir lærisveinar líkt og þið eruð, hafið varpað brauði ykkar út á vatnið með þjónustu ykkar og þeir sem þið hafið hjálpað hafa reynt að færa mér brauðhleif til að sýna þakklæti sitt.
Ég fæ sama þakklætið frá þeim sem þið hafið starfað með. Ég minnist þess er ég stóð eitt sinn við hlið Ezra Taft Benson forseta. Við höfðum rætt um velferðarþjónustu í kirkju Drottins. Hann kom mér á óvart með æskuþrótti sínum þegar hann sagði með áherslu og handbendingu: „Ég ann þessu verki og það er vinna!“
Ég færi meistaranum þakkir fyrir starf ykkar við að þjóna börnum himnesks föður. Hann þekkir ykkur og sér erfiði ykkar, kostgæfni og fórnir. Ég bið þess að hann veiti ykkur þá blessun að sjá ávöxt erfiðis ykkar, sem er gleði þeirra sem þið hafið hjálpað í þágu Drottins.
Ég veit að Guð faðirinn lifir og bænheyrir okkur. Ég veit að Jesús er Kristur. Þið og þeir sem þið þjónið getið hreinsast og styrkst með því að þjóna honum og halda boðorð hans. Þið getið vitað, líkt og ég veit, fyrir kraft heilags anda, að Joseph Smith var spámaður Guðs við að endurreisa hina sönnu og lifandi kirkju, sem hér er. Ég ber vitni um að Thomas S. Monson forseti er lifandi spámaður Guðs. Hann er frábær fyrirmynd um það sem Drottinn gerði: Að fara um og gjöra gott Ég bið þess að við munum leita tækifæra til að „lyft[a] máttvana örmum og styrk[ja] veikbyggð kné.“6 Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.
© 2011 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/10. Þýðing samþykkt: 6/10. Þýðing á Visiting Teaching Message, May 2011. Icelandic. 09765 190