Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, júlí 2011
Bróðir, ég er staðráðinn
Tveir ungir bræður stóðu efst á brún klettaveggs ofan við ósnortið og bláfagurt stöðuvatn. Þetta var vinsæll dýfingastaður og bræðurnir höfðu oft rætt um að stökkva ofan í vatnið — nokkuð sem þeir höfðu horft á aðra gera.
Báðir vildu þeir stökkva, en hvorugur vildi taka af skarið og verða fyrri til. Kletturinn var ekki mjög hár, en drengjunum ungu fannst langt niður þegar þeir litu fram af honum — og hugrekkið fór hratt dvínandi.
Loks setti annar drengjanna fótinn ákveðinn fram á brúnina. Bróðir hans hvíslaði þá um leið: „Við ættum kannski að bíða með þetta fram á næsta sumar.“
Skriðþungi hins bróðurins var orðinn svo mikill að hann var á leið fram af. „Bróðir,“ sagði hann, „ég er staðráðinn!“
Hann stökk ofan í vatnið og skaut fljótt upp sigrihrósandi. Bróðir hans stökk strax á eftir. Á eftir hlógu þeir báðir að því sem sá fyrri hafði sagt áður en hann stökk í vatnið. „Bróðir, ég er staðráðinn.“
Að vera staðráðinn er svolítið líkt því að stökkva ofan í vatnið. Annaðhvort ætlar maður sér eitthvað eða ekki. Annaðhvort lætur maður vaða eða stendur í sömu sporunum. Það er engin millileið. Öll þurfum við að taka ákvarðanir sem geta breytt lífi okkar algjörlega. Við þurfum að spyrja okkur sem meðlimi kirkjunnar: „Ætla ég að láta vaða eða bara standa áfram á brúninni? Ætla ég að stökkva fram af eða bara dýfa tánni ofan í til að finna hversu kalt það er?“
Sumar syndir eru afleiðing rangrar breytni; aðrar syndir eru afleiðing þess að ekkert er aðhafst. Það getur valdið vonbrigðum, óhamingju og sektarkennd, ef við erum ekki staðráðin í því að lifa eftir fagnaðarerindinu. Það ætti ekki að eiga við um okkur, því við erum sáttmálslýður. Við gerum sáttmála við Drottin þegar við skírumst og förum í hús Drottins. Karlmenn gera sáttmála við Drottin þegar þeir eru vígðir prestdæminu. Ekkert er mikilvægara en að einsetja sér að halda loforð sem gefin eru Drottni. Gleymum ekki því sem Rakel og Lea sögðu við Jakob í Gamla testamentinu. Það var skírt og skorinort og var lýsandi fyrir skuldbindingu þeirra: „Og gjör þú nú allt, sem Guð hefir boðið þér“ (1 Mós 31:16).
Þeir sem ekki eru nógu einarðir geta vænst þess að njóta ekki fyllilega blessana vitnisburðar, gleði og friðar. Gáttir himins eru slíkum varla galopnar. Er ekki heimskulegt að hugsa sem svo: „Ég skuldbind mig að hálfu nú, en þegar Kristur kemur í síðari komunni verð ég algjörlega skuldbundinn.“
Trúarumbreyting okkar er ávöxtur sáttmálsskuldbindingar okkar við Drottin. Skuldbindingin við frelsara okkar og kirkju hans eflir persónuleika okkar og styrkir anda okkar, svo að þegar við eigum fund við Krist, mun hann vefja okkur örmum og segja: „Gott, þú góði og trúi þjónn“ (Matt 25:21).
Það er munur á ásetningi og breytni. Þeir sem aðeins hyggjast gera eitthvað geta fundið sér heilmargt til afsökunar. Þeir sem eru algjörlega staðráðnir í því að takast á við áskoranir sínar og segja við sig sjálfa: „Já, þetta er góð ástæða til að fresta hlutunum, en ég gerði sáttmála og mun því breyta að skuldbindingu minni.“ Þeir kanna ritningarnar og leita einlæglega leiðsagnar himnesks föður. Þeir taka á móti kirkjuköllunum og efla þær. Þeir sækja þá fundi sem þeim ber. Þeir rækja heimsóknar- eða heimiliskennslu sína.
Þýskt máltæki segir: „Loforð eru líkt og fullt tungl. Séu þau ekki strax efnd, munu þau smám saman hverfa.“ Við, sem meðlimir Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, höfum skuldbundið okkur að feta veg lærisveinsins. Við höfum einsett okkur að fylgja fordæmi frelsara okkar. Hugsið ykkur hve það yrði heiminum til mikillar hagsældar og blessunar, ef allir meðlimir kirkju Drottins lifðu eins og best þeir gætu — trúaðir af öllu hjarta og staðráðnir í því að byggja upp ríki Guðs.
Á einhvern hátt stendur hvert okkar á tímamótum ákvörðunar og horfum yfir vatnið. Ég bið þess að við höfum trú, að við höldum áfram, tökumst hugrökk á við ótta okkar og efasemdir og segjum við okkur sjálf: „Ég er staðráðinn!“
© 2011 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/10. Þýðing samþykkt: 6/10. Þýðing á First Presidency Message, July 2011. Icelandic. 09767 190