Boðskapur heimsóknarkennara, júlí 2011
Komið til musterisins og gerið tilkall til blessana ykkar
Lærið efnið og ræðið það við systurnar sem þið heimsækið, eins og við á. Nýtið spurningarnar ykkur til hjálpar við að styrkja systurnar og gera Líknarfélagið að virkum þætti í lífi ykkar.
Systur, við erum afar blessaðar. Frelsarinn er höfuð þessarar kirkju. Við erum leidd af lifandi spámönnum. Við höfum hinar helgu ritningar. Og við höfum mörg helg musteri hvarvetna um heim, þar sem við getum meðtekið nauðsynlegar helgiathafnir, til að geta komist að nýju til föður okkar á himnum.
Við förum fyrst til musterisins í eigin þágu. „Megin tilgangur musterisins,“ útskýrði öldungur Robert D. Hales, í Tólfpostulasveitinni, „er að veita helgiathafnir sem nauðsynlegar eru fyrir upphafningu okkar í himneska ríkið. Helgiathafnir musterisins leiða okkur til frelsarans og veita okkur blessanirnar sem koma til okkar með friðþægingu Jesú Krists. Musterin eru yfirgripsmesti háskóli sem menn þekkja, sem veita okkur þekkingu og visku um sköpun heimsins. Leiðsögn musterisgjafarinnar kveður á um hvernig okkur ber að haga lífi okkar hér í jarðlífinu. … Helgiathöfnin skiptist í leiðsagnarþætti um hvernig okkur ber að lifa og sáttmála sem við gerum um að lifa réttlátlega með því að fylgja frelsaranum.“1
En musterisþjónusta okkar takmarkast ekki við þetta. Boyd K. Packer, forseti Tólfpostulasveitarinnar, kenndi: „Þegar þið eruð staðgenglar fyrir einhvern sem farið hefur handan hulunnar, munu sáttmálarnir sem þið gerðuð rifjaðir upp fyrir ykkur. Þær undursamlegu andlegu blessanir sem tengjast húsi Drottins munu eflast í huga ykkar. … Blessanirnar sem þið getið gert tilkall til í hinu helga musteri eru þungamiðja sáttmálanna og helgiathafnanna.“2
Farið í musterið og komið aftur. Að gera og halda sáttmála setur okkur stefnuna á mestu blessun allra — eilíft líf.
Barbara Thompson, annar ráðgjafi í aðalforsætisráði Líknarfélagsins.
Úr ritningunum
Úr sögu okkar
Spámaðurinn Joseph Smith talaði oft til Líknarfélagssystra á fundum þeirra. Þegar Nauvoo musterið var í byggingu veitti spámaðurinn systrunum fræðslu um kenninguna og bjó þær undir að taka á móti meiri þekkingu fyrir tilstilli helgiathafna musterisins. Árið 1842 sagði hann við Mercy Fielding Thompson að musterisgjöfin „mundi færa [hana] úr myrkri yfir í undursamlegt ljós.“3
Áætlað er að um 6.000 Síðari daga heilagir hafi tekið á móti helgiathöfnum musterisins fyrir burtförina frá Nauvoo. Brigham Young forseti (1801–77), sagði: „Slíkan áhuga sýndu hinir heilögu á að hljóta helgiathafnir [musterisins], og slíkan áhuga höfðum við á að veita þeim þær með þjónustu okkar, að ég hef helgað mig algjörlega verki Drottins í musterinu dag og nótt, og ekki hef ég sofið að meðaltali meira en fjórar klukkustundir á sólarhring né farið heim oftar en einu sinni í viku.“4 Styrkurinn og krafturinn sem felast í sáttmálum musterisins efldu hinum heilögu þrótt, er þeir yfirgáfu borgina og musterið og tókust á við ferð sína út í hið ókunna.
© 2011 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/10. Þýðing samþykkt: 6/10. Þýðing á Visiting Teaching Message, July 2011. Icelandic. 09767 190