2011
Standið á heilögum stöðum
nóvember 2011


Standið á heilögum stöðum

Kæru bræður og systur, samskipti okkar við himneskan föður—þar með taldar bænir okkar til hans og innblástur hans til okkar—eru nauðsynleg til að lægja storma og erfiðleika lífsins.

Kæru bræður og systur, við höfum hlýtt á yndislegan boðskap nú í morgun og ég lofa alla sem tekið hafa þátt. Það er okkur sérstök ánægja að öldungur Robert D. Hales er meðal okkar að nýju við betri heilsu. Við elskum þig Bob.

Ég hef íhugað hver boðskapur minn til ykkar ætti að vera í dag og fundið mig knúinn til að deila með ykkur ákveðnum hugsunum sem mér finnast viðeigandi og tímabærar. Ég bið þess að njóta leiðsagnar í máli mínu.

Ég hef nú lifað á þessari jörðu í 84 ár. Ég ætla að veita ykkur nokkra yfirsýn. Ég fæddist sama ár og Charles Lindbergh flaug fyrstur einn síns liðs í eins hreyfils vél beint frá New York til Parísar. Margt hefur breyst á þeim 84 árum. Maðurinn hefur farið til tunglsins og til baka aftur. Vísindaskáldskapur gærdagsins er nú orðinn að veruleika. Og sá raunveruleiki, þökk sé tækni okkar tíma, tekur svo hröðum breytingum að við fáum vart haldið í við hann —ef okkur tekst það þá. Þau okkar sem muna eftir skífusímunum og gömlu ritvélunum finnst tæknin undraverð.

Siðferðisvitund samfélagsins hefur líka breyst hröðum skrefum. Hegðun sem áður taldist óviðeigandi og ósiðleg er nú ekki aðeins umborin, heldur telja stöðugt fleiri hana ásættanlega.

Ég las nýlega grein í Wall Street Journal eftir Jonathan Sacks, breskan yfirrabbína. Hann ritaði meðal annars: „Í næstum öllum vestrænum samfélögum átti sér stað siðferðisbylting á sjötta áratugnum, þar sem gengið var gegn öllum hefðbundnum siðferðisgildum sjálfstjórnar. Og Bítlarnir sungu að ástin væri allt sem við þyrftum. Hinum gyðinglega og kristilega staðli var varpað fyrir róða. Í hans stað komu [spakmælin]: [Gerðu] allt sem þú hefur hag af. Boðorðin tíu voru endurskrifuð sem Hinar tíu skapandi tillögur.“

Sacks rabbíni heldur harmandi áfram:

„Við höfum sóað siðferðisgildum okkar af sama ákafa og við höfum sóað fjármunum okkar. …

Í stórum hluta heimsins heyra trúarbrögð fortíðinni til og engar raddir heyrast sem vilja kaupa þau, flagga þeim eða heyra um þau, líkt og þau væru einhvers virði. Skilaboðin eru þau að siðferði sé orðið úrellt, samviskan sé fyrir gungur og orðsendingin sem hæst heyrist er: ‚Þú skal ekki láta koma upp um þig.‘ “1

Bræður mínir og systur, þessi orð lýsa — því miður — að miklu leyti heiminum umhverfis okkur. Erum við stundum örvæntingarfull og veltum fyrir okkur hvernig við fáum komist af í slíkri veröld? Nei, því vissulega höfum við fagnaðarerindi Jesú Krists og við vitum að siðferði er ekki úrelt, að samviskan er til að leiða okkur og að við erum ábyrg gerða okkar.

Þótt heimurinn hafi breyst, þá eru lögmál Guðs þau sömu. Þau hafa ekki breyst; þau munu ekki breytast. Boðorðin tíu eru einmitt það — boðorð. Þau eru ekki tillögur. Þau eru alveg jafn ómissandi í dag og þau voru þegar Guð gaf þau Ísraelsmönnum. Ef við aðeins hlustum, heyrum við rödd Guðs hljóma til okkar nú:

„Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér. …

Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma. …

Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. …

Heiðra föður þinn og móður. …

Þú skalt ekki morð fremja.

Þú skalt ekki drýgja hór.

Þú skalt ekki stela.

Þú skalt ekki bera ljúgvitni. …

Þú skalt ekki girnast.“2

Siðferðisgildi okkar eru endanleg; þau eru ekki umsemjanleg. Þau eru ekki aðeins sett fram í Boðorðunum tíu, heldur líka í Fjallræðunni, sem frelsarinn flutti okkur þegar hann var á jörðinni. Þau finnast hvarvetna í kenningum hans. Þau finnast í orðum nútíma opinberana.

Faðir okkar á himnum er hinn sami í gær og í dag og að eilífu. Spámaðurinn Mormón segir að Guð sé „óumbreytanlegur frá allri eilífð til allrar eilífðar.“3 Í þessum heimi, þar sem allt virðist breytingum háð, er óumbreytanleiki hans eitthvað sem hægt er að reiða sig á, haldreipi sem við getum haldið fast í og fundið öryggi, ef við viljum ekki falla í gruggug vötn.

Ykkur kann stundum að finnast að þeir sem í heiminum eru njóti meiri skemmtunar en þið gerið. Sumum ykkar kann að finnast þið heft af þeim lífsgildum sem við í kirkjunni lifum eftir. Bræður og systur, ég staðhæfi við ykkur að það er ekkert sem getur fyllt líf okkar meiri gleði eða sál okkar meiri friði, en andinn sem okkur veitist þegar við fylgjum frelsaranum og höldum boðorðin. Sá andi fær ekki dvalið við þá breytni sem svo margir í heiminum temja sér. Páll postuli mælti þennan sannleika: „Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andlega.“4 Orðin án anda geta átt við hvert okkar, ef við leyfum okkur að verða svo.

Við verðum að vera vökul í heimi sem hefur vikið svo langt af leið hins andlega. Mikilvægt er að við höfnum öllu því sem ekki samræmist stöðlum okkar, og neitum að gefa upp á bátinn það sem við þráum mest — eilíft líf í ríki Guðs. Stormarnir munu endrum og eins halda áfram að dynja á dyrum okkar, því þeir eru óhjákvæmilegur hluti af hinni jaðnesku tilveru. Við verðum þó mun betur í stakk búin til að fást við þá, læra af þeim og sigrast á þeim, ef við lifum eftir fagnaðarerindinu og berum elsku frelsarans í hjörtum okkar. Jesaja spámaður sagði: „Ávöxtur réttlætisins skal vera friður, og rósemi og öryggi að eilífu.“5

Þar sem við erum í heiminum en ekki af heiminum, er nauðsynlegt að við eigum samskipti við himneskan föður í bæn. Hann þráir að við gerum það; hann mun svara bænum okkar. Frelsarinn aðvarar okkur, líkt og skáð er í 3. Nefí 18, um að „halda vöku [okkar] og biðja án afláts, svo að [við föllum] ekki í freistni. Því að Satan þráir að eignast [okkur]. …

Þess vegna verðið þér ávallt að biðja til föðurins í mínu nafni.

Og hvers sem þér biðjið föðurinn í mínu nafni, sem er rétt, og í trú, að þér hljótið það, sjá, það mun yður hlotnast.“6

Ég hlaut vitnisburð um mátt bænarinnar þegar ég var um 12 ára gamall. Ég hafði lagt hart að mér við að vinna mér inn peninga og leggja fyrir 5 dollara. Það var í kreppunni miklu, þegar 5 dollarar voru heilmiklir peningar — einkum fyrir 12 ára dreng. Ég lét föður minn fá alla smápeningana, samtals 5 dollara, og hann lét mig fá 5 dollara seðil í staðinn. Ég veit að ég hugðist kaupa eitthvað sérstakt fyrir þessa 5 dollara, en ég hreinlega man ekki hvað það var eftir öll þessi ári. Ég man bara hve peningarnir voru mér mikilvægir.

Á þessum tíma áttum við ekki þvottavél, svo móðir mín sendi óhreinu fötin okkar í þvottahúsið í hverri viku. Að nokkrum dögum liðnum barst okkur það sem nefndist „blautþvottur“ og móðir mín hengdi hann á þvottasnúrurnar bak við hús, til þerris.

Ég hafði smeygt 5 dollara seðlinum í gallabuxnavasann. Eins og ykkur grunar kannski þegar, þá voru buxurnar sendar í þvottahúsið með seðlinum í vasanum. Þegar mér varð ljóst hvað hafði gerst varð ég sjúkur af áhyggjum. Ég vissi að venjan var að farið var í vasana til öryggis áður en þvegið var. Mér var ljóst, að ef seðillinn minn hefði ekki fundist og einhver tekið hann, væri næstum öruggt að hann hefði dottið úr vasanum í meðferðinni og einhver verkamaðurinn gert kröfu til hans, þar eð hann vissi ekki hver væri réttur eigandi hans, jafnvel þótt hann hefði gjarnan viljað skila honum. Líkurnar á að ég fengi 5 dollara seðilinn aftur voru afar litlar — staðreynd sem móðir mín staðfesti eftir að ég hafði sagt henni frá því að ég hefði gleymt honum í vasanum.

Ég vildi fá peningana aftur; ég þurfti á þeim að halda; ég hafði lagt hart að mér við að afla þeirra. Mér varð ljóst að það var aðeins eitt sem ég gat gert. Í örvæntingu minni leitaði ég til föður míns á himnum og sárbændi hann um að varðveita seðilinn í vasanum, uns blautþvotturinn kæmi til baka.

Tveimur löngum dögum síðar, þegar ég vissi að þvottabíllinn var á leiðinni, sat ég og beið við gluggann. Þegar bíllinn ók í hlaðið tók hjartað að hamast. Um leið og blautu fötinn voru komin í hús, þreif ég buxurnar og hljóp inn í herbergið mitt. Ég fór skjálfandi höndum í buxnavasann. Þegar ég fann ekkert strax, hélt ég að féð væri glatað. En þá snertu fingur mínir blautan 5 dollara seðilinn. Þegar ég dró hann upp úr vasanum, fann ég til mikils léttis. Ég flutti þakkarbæn til föður míns á himnum, því ég vissi að hann hafði bænheyrt mig.

Frá þeirri löngu liðinni stundu hef ég hlotið ótal bænheyrslur. Sá dagur hefur ekki liðið að ég hafi ekki talað við föður minn á himnum í bæn. Það er mér kært samband — sem ég væri í raun glataður án. Ef þið eigið ekki nú slíkt samband við föður ykkar á himnum, þá hvet ég ykkur til að vinna að því. Þegar þið gerið það, eigið þið rétt á innblæstri og handleiðslu hans í lífi ykkar — sem nauðsynlegt er hverju okkar, ef við eigum að lifa af andlega í dvöl okkar hér á jörðu. Innblástur og handleiðsla hans eru gjafir sem hann gefur fúslega, ef við aðeins sækjumst eftir þeim. Hve dýrmætar þær eru!

Ég er alltaf auðmjúkur og þakklátur þegar himneskur faðir talar til mín með innblæstri sínum. Mér hefur lærst að þekkja hann, reiða mig á hann og fylgja honum. Ég hef ótal sinnum notið slíks innblásturs. Ein slík fremur áhrifamikil reynsla átti sér stað í ágúst 1987, meðan á vígslu Frankfurt-musterisins í Þýskalandi stóð. Ezra Taft Benson forseti hafði verið með okkur fyrstu einn eða tvo dagana, en snúið síðan heim, og því gafst mér það tækifæri að stjórna þeim vígsluathöfnunum sem eftir voru.

Á laugardegi var vígsluathöfn fyrir hollenska meðlimi sem voru á svæði Frankfurt-musterisins. Ég var vel kunnugur einum af okkar hæfustu leiðtogum frá Hollandi, bróður Peter Mourik. Nokkru fyrir vígsluna hlaut ég greinilegan innblástur um að kalla bróður Mourik til að tala til hollensku samlanda sinna í víglsuathöfninni og að hann ætti í raun að vera fyrsti ræðumaður. Þar sem ég varð ekki var við hann í musterinu um morguninn, sendi ég fyrirspurn til öldungs Carlos E. Asay, svæðisforsetans, og spurði hvort Peter Mourik væri viðstaddur vígsluna. Rétt áður en ég stóð upp til að hefja vígsluna, barst mér svar frá öldungi Asay, þar sem sagði að bróðir Mourik væri í raun ekki viðstaddur, að hann væri að sinna öðrum erindagjörðum, en hygðist sækja vígsluathöfnina sem vera ætti í musterinu daginn eftir fyrir herþjónustustikurnar.

Þegar ég stóð þarna við ræðustólinn og bauð fólk velkomið og greindi frá dagskránni, hlaut ég aftur greinilegan innblástur um að ég ætti að tilkynna Peter Mourik sem fyrsta ræðumann. Það gekk gegn allri minni skynsemi, því ég hafði rétt í þessu heyrt frá öldungi Asay að bróðir Mourik væri örugglega ekki í musterinu. Ég reiddi mig þó á innblásturinn og tilkynnti söng kórsins, bænina og loks að fyrsti ræðumaðurinn yrði bróðir Peter Mourik.

Þegar ég sneri aftur til sætis míns sá ég aðvarandi svip öldungs Asay. Hann sagði mér síðar, að þegar ég hefði tilkynnt bróður Mourik sem fyrsta ræðumann, hefði hann ekki trúað sínum eigin eyrum. Hann sagðist hafa vitað að mér hafði borist svarbréfið og að ég hefði lesið það og því hefði hann engan veginn getað skilið hvers vegna ég tilkynnti bróður Mourik sem ræðumann, vitandi að hann væri hvergi í musterinu.

Meðan á öllu þessu stóð var Peter Mourik á fundi í svæðisskrifstofunni í Porthstrasse. Á miðjum fundinum sneri hann sér skyndilega að öldungi Thomas A. Hawkes yngri, sem þá var svæðisfulltrúi, og spurði: „Hversu fljótt getur þú komið mér til musterisins?“

Öldungur Hawkes, sem var þekktur fyrir að aka fremur greitt í litla sportbílnum sínum, svaraði: „Ég get komið þér þangað á tíu mínútum! En af hverju þarftu að fara í musterið?“

Bróðir Mourik sagðist ekki vita hvers vegna hann þyrfti að fara í musterið, aðeins að hann yrði að gera það. Þeir tveir fóru þegar í stað til musterisins.

Meðan kórinn söng stórkostlega, skimaði ég í kringum mig og hélt ég mundi sjá Peter Mourik birtast á hverri stundu. Það gerði ég ekki. Furðulegt fannst mér þó að ég skynjaði enga viðvörun. Ég fann aðeins ljúfa, óyggjandi fullvissu um að allt færi vel.

Bróðir Mourik kom inn um aðaldyr musterisins rétt í þann mund sem bæninni lauk og vissi enn ekki ástæðu þess að hann var þarna. Þegar hann gekk hratt inn salinn, sá hann mig á skjánum og heyrði mig tilkynna: „Við munum nú heyra frá bróður Peter Mourik.“

Öldungi Asay til mikillar furðu gekk Peter Mourik rakleiðis inn í herbergið og beint að ræðustólnum.

Eftir vígsluna ræddum ég og bróðir Mourik um það sem gerst hafði áður en þessi óvænti ræðuflutningur átti sér stað. Ég hef íhugað innblástur þessa dags, sem ég hlaut ekki einn, heldur líka bróðir Peter Mourik. Þessi undraverða reynsla hefur verið mér óyggjandi vitnisburður um mikilvægi þess að vera verðugur þess að hljóta slíkan innblástur og að reiða sig síðan á hann — og fylgja honum —þegar hann hlýst. Ég veit án nokkurs vafa að Drottinn ætlaði þeim sem voru viðstaddir þessa vígsluathöfn í Frankfurt-musterinu að hlýða á hinn kröftuga og hjartnæma vitnisburð þessa þjóns síns, bróður Peters Mourik.

Kæru bræður og systur, samskipti okkar við himneskan föður — þar með taldar bænir okkar til hans og innblástur hans til okkar — eru nauðsynleg til að lægja storma og erfiðleika lífsins. Drottinn býður okkur: „Nálgist mig og ég mun nálgast yður. Leitið mín af kostgæfni og þér munuð finna mig.“7 Þegar við gerum það, munum við skynja anda hans í lífi okkar, sem vekur með okkur þrá og hugrekki til að standa stöðug og óhagganleg í réttlæti — að „[standa] … á heilögum stöðum og [haggast] ekki.“8

Þegar vindar snúast og siðferðisþræðir samfélaga halda áfram að flosna upp fyrir augum okkar, skulum við minnast hinna dýrmætu loforða Drottins til þeirra sem reiða sig á hann: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Lát eigi hugfallast, því að ég er þinn Guð. Ég styrki þig, ég hjálpa þér, ég styð þig með hægri hendi réttlætis míns.“9

Hvílíkt loforð! Af einlægni bið ég okkur slíkrar blessunar, í hinu helga nafni Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists, amen.

Prenta