Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, mars 2012
Hvers vegna þurfum við spámenn?
Himneskur faðir elskar börn sín og því ætlar hann þeim ekki að fara í gegnum jarðlífið án handleiðslu og leiðsagnar. Kenningar föður okkar á himnum eru ekki af hinum venjulega og fyrirsjáanlega toga sem hægt er að verða sér úti um á kiljuformi á næsta bókasafni. Þær eru viska almáttugrar og alvitrar himneskrar veru sem elskar börn sín. Í orðum hans finnst leyndardómur tímans – lykillinn að hamingju í þessu lífi og komandi heimi.
Himneskur faðir opinberar börnum sínum á jörðu þá visku með þjónum sínum, spámönnunum (sjá Amos 3:7). Allt frá tíma Adams hefur Guð talað til barna sinna með tilnefndum spámönnum, sem boðið er að opinbera öðrum vilja hans og leiðsögn. Spámenn eru innblásnir kennarar og ávallt sérstök vitni Jesú Krists (sjá K&S 107:23). Spámenn mæla ekki aðeins til samtímafólks síns, heldur líka til manna á öllum tímum. Raddir þeirra hljóma í gegnum aldirnar sem vitnisburður um vilja Guðs varðandi börn hans.
Okkar tími er ekki frábrugðinn löngu liðnum tímum. Drottinn elskar fólk okkar tíma ekki minna en liðins tíma. Einn dásamlegasti boðskapur hinnar endurreistu kirkju Jesú Krists er að Guð mælir enn til barna sinna! Hann er ekki hulinn í himnunum, heldur mælir hann nú líkt og á liðnum tímum.
Margt af því sem Drottinn opinberar spámönnum sínum er til að koma í veg fyrir að við sem einstaklingar og samfélög köllum sorg yfir okkur. Þegar Guð talar, er það til að kenna börnum hans, innblása, fága og aðvara þau. Þegar einstaklingar og samfélög hunsa leiðsögn himnesks föður, eiga þau á hættu að kalla yfir sig raunir, þjáningar og armæðu.
Guð elskar öll sín börn. Þess vegna talar hann af alvöru til okkar með spámönnum sínum. Á sama hátt og við óskum ástvinum okkar alls hins besta, þá óskar himneskur faðir okkur alls þess besta. Af þeirri ástæðu er leiðsögn hans svo mikilvæg og stundum afar brýn. Af þeirri ástæðu hefur hann ekki yfirgefið okkur, en heldur áfram að opinbera okkur vilja sinn með spámönnum sínum. Örlög okkar og örlög heimsins eru bundin því að við hlýðum á og hlítum hinu opinberaða orði Guðs til barna hans.
Hina dýrmætu leiðsögn Guðs til mannkyns er að finna í Biblíunni, Mormónsbók, Kenningu og sáttmálum og Hinni dýrmætu perlu. Auk þess talar Drottinn til okkar með þjónum sínum, líkt og hann mun áfram gera á komandi aðalráðstefnu.
Við alla þá sem efast um að slíkt eigi sér stað – sem gætu spurt: „Er mögulegt að Guð tali til okkar nú?“ – vil ég segja: „Kom þú og sjá“ (Jóh 1:46). Lesið orð Guðs, líkt og það er í ritningunum. Hlýðið á aðalráðstefnu og verið fús til að hlusta á rödd Guðs, sem gefin er með síðari daga spámönnum hans. Kom þú, heyrðu og sjáðu með hjarta þínu! Því „ef þér spyrjið í hjartans einlægni, með einbeittum huga og í trú á Krist, mun … [Guð] opinbera yður sannleiksgildi þess fyrir kraft heilags anda“ (Moró 10:4). Fyrir og með þessum krafti veit ég að Jesús Kristur lifir og stjórnar kirkju sinni með lifandi spámanni, já, Thomas S. Monson forseta.
Bræður og systur, Guð talar vissulega til okkar nú. Og hann þráir að öll hans börn hlýði á og hlíti rödd hans. Þegar við gerum það, mun Drottinn blessa okkur og auka hag okkar stórlega, bæði í þessu lífi og í komandi heimum.
© 2012 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/11. Þýðing samþykkt: 6/11. Þýðing á First Presidency Message, March 2012. Icelandic. 10363 190