2012
Kölluð af Guði og studd af fólki
júní 2012


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, júní 2012

Kölluð af Guði og studd af fólki

Henry B. Eyring forseti

Oft er okkur boðið sem meðlimum kirkjunnar að styðja fólk í köllunum til þjónustu. Fyrir mörgum árum var mér sýnt af 18 ára nemanda hvað í því felst að styðja þjóna Drottins. Auðmjúkt fordæmi hans er mér enn blessun.

Hann var að hefja fyrsta árið sitt í framhaldsskóla. Ekki hafði liðið fullt ár frá því að hann var skírður þar til hann hóf nám í fjölmennum háskóla fjarri heimili sínu. Þar þjónaði ég sem biskup hans.

Í upphafi skólaárs átti ég stutt viðtal við hann í biskupsskrifstofunni. Ég man lítt eftir þessu fyrsta viðtali nema að hann ræddi um áskoranir sínar á hinum nýja stað, en ég gleymi aldrei öðru viðtali okkar.

Hann bað mig að hitta sig í skrifstofu minni. Ég varð hissa þegar hann sagði: „Getum við beðið saman og ég farið með bænarorðin?“ Ég hugðist segja að ég hefði þegar beðist fyrir og vænti þess að hann hefði gert það líka. En þess í stað samþykkti ég.

Hann hóf bæn sína á vitnisburði um að hann vissi að biskup væri kallaður af Guði. Hann bað Guð að segja mér hvað honum bæri að gera í afar mikilvægu andlegu málefni. Ungi maðurinn sagði Guði að hann væri þess fullviss að biskupnum væri þegar ljósar þarfir sínar og yrði gefin sú leiðsögn sem hann hefði þörf fyrir að heyra.

Þegar hann talaði kom í huga minn hin ákveðna hætta sem hann stóð frammi fyrir. Leiðsögnin var einföld en skýr og skorinorð: Bið ávallt, ver hlýðinn boðorðunum og óttast eigi.

Þessi ungi maður, sem hafði verið eitt ár í kirkjunni, kenndi með fordæmi hvernig Guð getur unnið með leiðtoga er hann nýtur trúar og bæna þeirra sem hann hefur verið kallaður til að leiða. Þessi ungi maður var mér fordæmi um gildi lögmáls hinnar almennu samþykktar í kirkjunni (sjá K&S 26:2). Jafnvel þótt Drottinn kalli þjóna sína með opinberun, geta þeir aðeins uppfyllt tilgang sinn eftir að þeir eru studdir af þeim sem þeir eru kallaðir til að þjóna.

Með stuðningi okkar strengjum við hátíðleg heit. Við heitum því að biðja fyrir þjónum Drottins og að við munum fylgja þeim og efla þá (sjá K&S 93:51). Við heitum því að leita og vænta innblásturs frá Guði í handleiðslu þeirra og alltaf þegar þeir starfa í köllun sinni (sjá K&S 1:38).

Það heit þarf að endurnýja oft í hjörtum okkar. Sunnudagaskólakennari ykkar mun reyna að kenna með andanum, en rétt eins og á líka við um ykkur, þá getur þeim orðið á frammi fyrir nemendum sínum. Þið getið hins vegar ákveðið að hlusta og vænta þess að finna innblástur koma. Smám saman munu mistökin verða færri og ummerkin verða fleiri um að Guð styrkir þann kennara.

Þegar við réttum upp hendi til stuðnings einstaklingi, skuldbindum við okkur til hvers þess tilgangs sem Drottinn hefur kallað þann einstakling til að framfylgja. Þegar börn okkar voru mjög ung, var eiginkona mín kölluð til að kenna ungu börnunum í deild okkar. Ég rétti ekki aðeins upp hönd til að styðja hana, heldur bað ég líka fyrir henni og bauð henni hjálp mína. Sú lexía sem ég lærði um að vera þakklátur fyrir það sem konur fá framkvæmt og elsku Drottins til barna sinna, er mér og fjölskyldu minni enn til blessunar.

Ég ræddi nýverið við unga manninn sem studdi biskup sinn fyrir mörgum árum. Ég komst að því að Drottinn og fólkið höfðu stutt hann í köllun til trúboðs, sem stikuforseta og sem föður. Við lok samtals okkar sagði hann: „Ég bið enn fyrir þér dag hvern.“

Við getum ákveðið að biðja daglega fyrir einhverjum sem Guð hefur kallað til að þjóna okkur. Við getum þakkað einhverjum þeim fyrir sem hefur blessað okkur með þjónustu sinni. Við getum ákveðið að bjóða okkur fram þegar einhver sem við höfum stutt biður um sjálfboðaliða.1

Þeir sem styðja þjóna Drottins í ríki hans munu efldir með hinum óviðjafnanlega krafti hans. Við þörfumst öll þeirrar blessunar.

Heimildir

  1. Sjá Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph F. Smith (2007), 211–12.

Hvernig kenna á boðskapinn

Íhugið að lesa eftirfarandi tilvitnun eftir að þið hafið miðlað boðskapnum: „Drottinn mun gera ykkur að verkfæri í höndum sínum, ef þið eruð auðmjúk, trúföst og kostgæfin. … Þið munuð hljóta aukinn styrk þegar þið eruð studd af söfnuðinum og sett í embætti“ (Teaching, No Greater Call [1999], 20). Látið fjölskylduna koma saman umhverfis þungan hlut og biðjið einhvern einn að reyna að lyfta honum. Bætið einum við í senn með því að biðja aðra í fjölskyldunni að hjálpa til við að lyfta hlutnum. Ræðið hvað gerist þegar allir hjálpast að. Íhugið að leggja áherslu á leiðsögn Eyrings forseta um hagnýtar leiðir til að styðja aðra í köllunum þeirra.