2012
Miðla fagnaðarerindinu frá hjarta til hjarta
september 2012


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, september 2012

Miðla fagnaðarerindinu frá hjarta til hjarta

Ljósmynd
Henry B. Eyring forseti

Guð leiðir þá sem vilja hlýða á fagnaðarerindið til þeirra þjóna hans sem fúsir eru til að miðla því. Það hefur gerst í lífi ykkar. Hve oft það gerist er háð fúsleika ykkar í huga ykkar og hjarta.

Ég á vin sem dag hvern biður þess að fá að hitta einhvern sem er fús til að taka á móti fagnaðarerindinu. Hann hefur með sér eintak af Mormónsbók. Kvöld eitt fyrir stutt ferðalag ákvað hann að hafa ekki með sér Mormónsbók, heldur dreifispjöld. En þegar hann hugðist leggja af stað, barst honum andlegur innblástur: „Hafðu Mormónsbók með þér.“ Hann setti eintak í töskuna sína.

Þegar kona sem hann kannaðist við settist við hlið hans í ferðinni, hugsaði hann með sér: „Er það hún?“ Hún var með honum aftur í heimferð hans. Hann hugsaði: „Hvernig á ég að færa fagnaðarerindið í tal?“

En þá sagði hún: „Þú greiðir kirkjunni tíund, er það ekki?“ Hann sagðist gera það. Hún sagði þess vænst að hún greiddi sinni kirkju tíund, en hún gerði það ekki. Hún spurði síðan: „Hvað getur þú sagt mér um Mormónsbók?“

Hann útskýrði að bókin væri ritning, annað vitni um Jesú Krist, þýdd af spámanninum Joseph Smith. Hún virtist áhugasöm, svo hann fór í töskuna og sagði: „Mér fannst ég eiga að hafa þetta eintak með mér. Ég held að það sé ætlað þér.“

Hún hóf að lesa bókina. Þegar hún fór sagði hún: „Við þurfum að tala betur saman um þetta.“

Það sem vinur minn vissi ekki — en Guð vissi örugglega — var að hún leitaði að kirkju. Guð vissi að hún hefði fylgst með vini mínum og velt fyrir sér hvers vegna kirkjan veitti honum slíka hamingju. Guð vissi að hún myndi spyrja um Mormónsbók og að hún yrði fús til að taka á móti kennslu trúboðanna. Hún var undirbúin. Og það var vinur minn líka. Þið og ég getum líka verið undirbúin.

Við þurfum að undirbúa huga okkar og hjarta. Konan hafði heyrt og minntist orða um Mormónabók, endurreista kirkju Drottins og boðorðið um að greiða Guði tíund. Og hún hafði tekið að skynja vitnisburð um sannleikann í hjarta sínu.

Drottinn hefur sagt að hann muni opinbera sannleika í huga okkar og hjarta með heilögum anda (sjá K&S 8:2). Flestir þeir sem þið eigið viðkynni við hafa hlotið slíkan undirbúning. Þau hafa heyrt eða lesið um Guð og orð hans. Séu þau nægilega mild í hjarta, hafa þau skynjað sannleika staðfestan, hversu veik sem boðin hafa verið.

Konan var undirbúin. Og það var vinur minn líka, hinn Síðari daga heilagur sem hafði lært Mormónsbók. Hann hafði hlotið vitnisburð um sannleika hennar og skynjað leiðsögn andans um að taka eintakið með sér. Hann var undirbúinn í huga og hjarta.

Guð undirbýr fólk til að taka á móti vitnisburði ykkar um endurreistan sannleika. Hann þráir að þið trúið og miðlið því óttalaust sem ykkur og ástvinum ykkar er svo dýrmætt.

Búið ykkur undir að miðla öðrum með því að fylla huga ykkar dag hvern af sannleika fagnaðarerindisins. Þegar þið haldið boðorðin og heiðrið sáttmála ykkar, munuð þið skynja vitnisburð andans og kærleika frelsarans í auknum mæli til ykkar sjálfra og þeirra sem þið eigið viðkynni við.

Ef þið gerið ykkar hlut, munið þið í stöðugt auknum mæli eiga viðkynni við fólk sem hefur verið búið undir að hlýða á vitnisburð ykkar um sannleikann — gefinn frá hjarta til hjarta, ykkar til þeirra.

Hvernig kenna á boðskapinn

Íhugið að lesa boðskapinn með fjölskyldunni og ræða næstsíðustu málsgreinina, þar sem Eyring forseti ræðir um hvernig við getum eflt vitnisburð okkar. Ræðið við fjölskylduna um mikilvægi þess að gefa vitnisburð þegar fagnaðarerindinu er miðlað. Börnin í fjölskyldunni gætu haft gaman að því að leika hvernig hægt er að miðla vinum vitnisburði.

Prenta