Æskufólk
Get ég gefið Mormónsbók?
Höfundur býr í Washington, Bandaríkjunum
Á fyrsta ári mínu á efsta stigi grunnskóla, bauð trúarskólakennari minn námsbekknum að gefa vini utan kirkjunnar eintak af Mormónsbók. Ég þáði boðið, þótt ég væri afar óframfærinn.
Það tók mig nokkra daga að telja í mig kjarkinn, en loks lét ég af því verða að gefa vinkonu minni, Britny, bókina í hádegishléinu og vitnisburð minn. Britny þakkaði mér fyrir bókina.
Við lok þessa skólaárs flutti Britny en við héldum sambandi. Hún sagði mér frá nýja skólanum sínum og hvernig næstum allir vinir hennar væru meðlimir kirkjunnar en ræddi aldrei við mig um andlega hluti.
Breyting varð þar á áður en ég fór í trúboð mitt. Mér bárust skilaboð frá Britny, þar sem hún sagði að mín biðu mikil tíðindi: Hún hugðist skírast og vildi þakka mér fyrir að vera vinur hennar og sýna gott fordæmi.
Guð notaði 15 ára gamlan pilt, með enga trúboðsreynslu, og leiddi hann til að miðla þeim fagnaðarerindinu sem hann vissi að myndi taka á móti því. Ég veit að með því að hlusta á andann getum við fundið fólk umhverfis okkur, sem reiðubúið er að hlýða á hið endurreista fagnaðarerindi. Ég veit að ef við hjálpum til við að leiða einhvern til Drottins, mun „gleði [okkar] verða [mikil] með henni í ríki föður [okkar]!“ (K&S 18:15).