Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, desember 2013
Fjölskylda og vinir að eilífu
Hvar sem þið búið eigið þið vini sem leita þeirrar æðri hamingju sem þið hafið fundið með því að lifa eftir hinu endurreista fagnaðarerindi Jesú Krists. Þeir geta kannski ekki skilgreint þá hamingju með orðum, en fá samt þekkt hana þegar þeir verða vitni að henni í lífi ykkar. Mikill áhugi mun vakna hjá þeim fyrir því að kynna sér uppruna hamingju ykkar, þegar þeim verður ljóst að þið upplifið erfiðleika engu síður en þeir.
Þið hafið upplifað hamingju þegar þið hafið haldið boðorð Guðs. Það er hinn fyrirheitni ávöxtur þess að lifa eftir fagnaðarerindinu (sjá Mósía 2:41). Við höldum ekki boðorð Drottins af trúmennsku til að aðrir sjái það en Drottinn er að undirbúa þá, sem greina hamingju ykkar, fyrir að hlýða á hin góðu tíðindi um hið endurreista fagnaðarerindi.
Ábyrgð og dásamleg tækifæri fylgja þeim blessunum sem ykkur hafa verið gefnar. Sem sáttmálslærisveinar Jesú Krists, ber ykkur skylda til að sjá til þess að aðrir fái tækifæri til að finna aukna hamingju, einkum vinir ykkar og fjölskyldumeðlimir.
Drottinn skilgreindi tækifæri ykkar og ábyrgð með þessu boði: „Hverjum manni sem fengið hefur aðvörun ber að aðvara náunga sinn“ (K&S 88:81).
Drottinn auðveldar ykkur að hlýða þessu boði með því að breyta hjarta ykkar, er þið meðtakið og lifið eftir fagnaðarerindi Jesú Krists. Af því leiðir að elska ykkar til annarra eykst, sem og þrá ykkar til að þeir fái notið sömu hamingju og þið hafið upplifað.
Umbreytingu þessa má líka sjá á því hvernig þið takið á móti því tækifæri að þjóna í trúboðsstarfi Drottins. Fastatrúboðar komast brátt að því að þeir sem sannlega hafa snúist til trúar bregðast vel við beiðni þeirra um aðstoð við að finna fólk til að kenna. Hinn trúaði þráir að vinir og fjölskylda fái notið hamingju með sér.
Þegar deildartrúboðsleiðtogi eða trúboðar biðja um nöfn einhverra sem þeir gætu kennt, er það mikið lof fyrir ykkur. Þeim er ljóst að vinir ykkar hafa orðið vitni að hamingju ykkar og því hafa slíkir vinir verið undir það búnir að hlýða á fagnaðarerindið og lifa eftir því. Þeir hafa trú á að þið verðið þeim góðir og tryggir vinir, er þeir koma í ríkið.
Þið þurfið ekki að óttast að missa vini ykkar er þið bjóðið þeim að hitta trúboðana. Ég á vini sem höfnuðu trúboðunum, en hafa þó árum saman þakkað mér fyrir að bjóða þeim það sem þeir vissu að er mér afar dýrmætt. Þið getið eignast eilífa vini með því að færa þeim fagnaðarerindið, sem þeir hafa séð að veitir ykkur hamingju. Látið aldrei tækifæri fara forgörðum til að bjóða vinum, einkum fjölskyldumeðlimum, að velja að fylgja hamingjuáætluninni.
Ekkert tækifæri er æðra hvað þetta boð varðar en í musterum kirkjunnar. Þar fær Drottinn veitt þeim áum okkar helgiathafnir sáluhjálpar sem ekki gátu tekið á móti þeim í þessu lífi. Þeir líta til ykkar með elsku og í von. Drottinn hefur lofað að þeim gefist tækifæri til að koma í ríki hans (sjá K&S 137:7–8), og hann hefur vakið upp elsku í hjörtum ykkar til þeirra.
Mörg ykkar hafa upplifað gleði í því að gera öðrum kleift að taka á móti helgiathöfnum musterisins, á sama hátt og þið gerið þegar þið veitið trúboðunum nöfn fólks til kennslu. Þið hafið jafnvel upplifað æðri gleði við að framkvæma helgiathafnir fyrir áa ykkar. Spámanninum Joseph Smith var opinberað að eilíf hamingja okkar væri aðeins möguleg, ef við gerum þessar blessanir mögulegar fyrir áa okkar með staðgengilshelgiathöfnum musterisins (sjá K&S 128:18).
Á jólum snýr hjarta okkar að frelsaranum og gleðinni sem fagnaðarerindi hans hefur fært okkur. Við sýnum honum þakklæti okkar best með því að færa öðrum þessa hamingju. Þakklætið breytist í gleði þegar við færum trúboðunum nöfn fólks til kennslu og förum með nöfn áa okkar til musterisins. Sú staðfesting á þakklæti okkar stuðlar að eilífum vinum og fjölskyldum.
© 2013 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/13. Þýðing samþykkt: 6/13. Þýðing á First Presidency Message, December 2013. Icelandic. 10672 190