2014
Erum við undirbúin?
september 2014


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, september 2014

Erum við undirbúin?

Ég bjó og þjónaði eitt sinn í hverfi þar sem kirkjan vann að alifuglaverkefni, sem aðallega var skipað sjálfboðaliðum frá deildum svæðisins. Oftast var verkefnið sjálfbært og sá forðabúri biskups fyrir þúsundum nýrra eggja og hundruðum kílóa af alifuglakjöti. Stundum var það svo að sjálboðaliðar alifuglabúskapsins fengu ekki aðeins blöðrur á hendur, heldur urðu líka argir í huga og hjarta.

Ég gleymi til að mynda aldrei þegar við komum saman með Aronsprestdæmishöfunum til vorhreingerninga á búinu. Okkar áhugasami og röski hópur þyrptist að verkefninu og á skömmum tíma reyttum við, söfnuðum saman og brenndum miklu magni af illgresi og rusli. Við birtuna frá bálkestinum borðuðum við pulsur og lofuðum hver annan fyrir vel heppnað verk.

Einn galli var þó á gjöf Njarðar. Hávaðinn og eldlogarnir hræddu svo hinn viðkvæma stofn 5000 hænsna, að flestar þeirra felldu fjaðrir og hættu að verpa. Eftir það umbárum við lítið eitt af illgresi, svo hægt væri að framleiða fleiri egg.

Sérhver meðlimur kirkjunnar sem lagt hefur sitt af mörkum til hjálpar hinum þurfandi sér ekki eftir því eða gleymir þeirri upplifun. Vinnusemi, sparsemi, sjálfsbjörg og gjafmildi eru okkur ekki ókunnug.

Við ættum að minnast þess að besta forðabúrið væri að hver fjölskylda í kirkjunni hefði matarforða, fatabirgðir og aðrar lífsnauðsynjar, væri það mögulegt. Forðabúr Drottins felur í sér tíma, hæfileika, hluttekningu, helgað efni og fjármuni trúfastra kirkjumeðlima. Þessi úrræði eru biskupi aðgengileg til að hjálpa hinum þurfandi.

Við hvetjum eindregið Síðari daga heilaga til að vera hófsamir í áætlunum sínum, að lifa sparlega, og að forðast óhóflegar eða ónauðsynlegar skuldir. Miklu fleira fólk gæti komist í gegnum stormdrifnar öldur efnahagslífs síns, ef það ætti sínar birgðir af matvælum og fatnaði og væri skuldlaust. Við höfum komist að því margir hafa gert þvert á móti: Þeir hafa safnað sér skuldum og eiga engan matarforða.

Ég endurtek yfirlýsingu Æðsta forsætisráðsins fyrir nokkrum árum:

„Síðari daga heilögum hefur verið ráðlagt um langt árabil að búa sig undir mótlæti með því að koma sér upp varasjóði. Sé það gert, mun það óumræðilega auka öryggi og velferð. Sérhver fjölskylda ber ábyrgð á að sjá fyrir eigin þörfum, að svo miklu leyti sem það er hægt.

Við hvetjum ykkur hvar sem þið kunnið að búa í heiminum að vera búin undir andstreymi með því að hafa góða yfirsýn yfir fjármál ykkar. Ég brýni fyrir ykkur að vera hógvær í útgjöldum ykkar. Agið ykkur sjálf í innkaupum til að forðast skuldir. Greiðið upp skuldir eins fljótt og unnt er og losið ykkur undan slíkri ánauð. Leggið smáupphæðir reglubundið til hliðar og komið ykkur þannig upp varasjóði.“ 1

Erum við undir það búin að takast á við neyðartilvik? Höfum við fullkomið verkvit? Erum við hagsýn? Höfum við birgðir tiltækar? Erum við hlýðin boðorðum Guðs? Erum við móttækileg fyrir kenningum spámanna? Erum við reiðubúin að gefa fátækum og þurfandi af eigum okkar? Erum við heiðarleg við Drottin?

Við lifum á ófriðartímum. Oft er framtíðin óviss og því er það hagur okkar að búa okkur undir óvissutíma. Þegar tími ákvarðana rennur upp, er tími undirbúnings liðinn.

Heimildir

  1. Æðsta forsætisráðið, All Is Safely Gathered In: Family Finances (bæklingur, 2007).

Hvernig kenna á boðskapinn

Íhugið þarfir þeirra sem þið heimsækið og reynið að finna út hvernig þið getið hjálpað þeim að verða sjálfbjarga hvað varðar atvinnu, fjárhag, matarforða eða neyðarviðbúnað. Íhugið hvaða verkvit þið getið miðlað þeim, svo sem garðyrkju eða fjármálastjórnun, sem hjálpar þeim að fara eftir leiðsögn Monsons forseta.