Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, júlí 2016
Sönn í trú áa okkar
John Linford var 43 ára þegar hann og eiginkona hans, Maria, og þrír sona þeirra tóku þá ákvörðun að yfirgefa heimilið sitt í Gravely, Englandi, og takast á við mörg þúsund kílómetra leið til að sameinast hinum heilögu í hinum mikla Saltvatnsdal. Þau skildu fjórða son sinn eftir heima, sem var við trúboðsþjónustu, seldu eigur sínar og tóku sér far með skipinu Thornton í Liverpool.
Ferðin yfir haf til New York borgar og því næst yfir land til Iowa, var heldur tíðindalaus. Erfiðleikarnir hófust hins vegar nokkru eftir að Lindford fjölskyldan og fleiri heilagir er sigldu með Thornton héldu frá Iowa borg, 15. júlí 1856, í hinum óheilavænlega handvagnahópi James G. Willie.
Hin illfæra og veðramikla ferð varð mörgum í hópnum erfið, þar með talið John. Hann varð að lokum svo veikur að það þurfti að draga hann í einum handvagnanna. Þegar hópurinn kom loks til Wyoming, hafði honum versnað til muna. Björgunarleiðangur frá Salt Lakeborg náði til hópsins 21. október, aðeins fáeinum klukkustundum eftir að John lauk jarðneskri dvöl sinni. Hann hafði látist árla morguns þann dag, ekki fjarri bökkum Sweetwater árinnar.
Var John fullur eftirsjár yfir að hafa yfirgefið þægindin fyrir erfiðleikana, bjargarleysið og vosbúðina sem fylgdu því að koma fjölskyldu sinni til Síonar?
„Nei, Maria,“ sagði hann við eiginkonu sína, rétt fyrir andlát sitt. „Ég gleðst yfir því að við komum hingað. Ég mun ekki lifa það að sjá Saltvatnsdalinn, en þú og drengirnir munuð gera það, og ég hef enga eftirsjá yfir því sem við höfum upplifað, ef drengirnir okkar fá að alast upp og stofna fjölskyldu í Síon.“1
Maria og synir hennar komust á leiðarenda. Þegar Maria lést, um 30 árum síðar, skildu hún og John eftir sig arfleifð trúar, þjónustu, hollustu og fórnar.
Það að vera Síðari daga heilagur, er að vera brautryðjandi, því brautryðjandi er skilgreindur sem „sá sem fer á undan og greiðir öðrum leið.“2 Brautryðjandi er sá sem kunnugur er fórn. Þótt meðlimir kirkjunnar séu ekki lengur beðnir um að segja skilið við heimili sín, til að fara til Síonar, þurfa þeir oft að segja skilið við venjur, siði og mikils metinn vinskap. Sumir taka þá sáru ákvörðun að segja skilið við fjölskyldumeðlimi, sem setja sig upp á móti kirkjuaðild þeirra. Síðari daga heilagir sækja samt fram og biðja þess jafnframt að ástvinir þeirra muni síðar skilja og samþykkja.
Vegur brautryðjandans er ekki auðveldur, en við fylgjum í fótspor hins mikla brautryðjanda – já, frelsarans – sem fór á undan og sýndi okkur veginn sem fylgja ber.
„Kom … og fylg mér,”3 bauð hann.
„Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið,“4 lýsti hann yfir.
„[Kom] … til mín,“5 sárbað hann.
Vegurinn getur verið torveldur. Sumum reynist erfitt að takast á við hæðandi og andstyggilegar athugasemdir hinna heimsku, sem hæðast að skírlífi, heiðarleika og hlýðni við boðorð Guðs. Heimurinn hefur ávallt gert lítið úr tryggð við lífsgildi. Þegar Nóa var boðið að smíða örkina, litu hinir heimsku á heiðskíran himininn og skopuðust og spottuðust—allt þar til regnið tók að falla.
Á meginlandi Ameríku, fyrir mörgum öldum, efaðist fólkið, véfengdi og óhlýðnaðist, allt þar til eldur kviknaði í Sarahemlaborg, jörðin reis yfir Moróníaborg og hún sökk niður í djúp sjávar. Hæðnin,spottið,klúryrðin og syndin voru ei lengur við lýði. Þeirra í stað ríktu dauðaþögn og niðamyrkur. Þolinmæði Guðs hafði þrotið, tími hans uppfyllst.
Maria Linford glataði aldrei trú sinni, þrátt fyrir ofsóknir í Englandi, hina löngu og ströngu ferð við að „[finna] staðinn, þann sem Guð oss gaf,“6 og þær raunir sem hún síðar þoldi fyrir fjölskyldu sína og kirkjuna.
Við minningarathöfn, til heiðurs Mariu, árið 1937, spurði öldungur George Albert Smith (1870-1951) afkomendur hennar: „Munið þið vera sönn trú áa ykkar? … Keppið að því að vera verðug allra fórna [þeirra] í ykkar þágu.”7
Þegar við keppum að því að byggja upp Síon í hjörtum okkar, samfélögum og löndum, ættum við að minnast hugrekkis og trúar þeirra sem fórnuðu öllu sínu, til þess að við mættum njóta blessana hins endurreista fagnaðarerindis, og vonar og fyrirheita þess fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists.
© 2016 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/15. Þýðing samþykkt: 6/15. Þýðing á First Presidency Message, July 2016. Icelandic. 12867 190