2016
Vonin um eilífan fjölskyldukærleika
ágúst 2016


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, ágúst 2016

Vonin um eilífan fjölskyldukærleika

Af öllum þeim gjöfum sem himneskur faðir hefur gefið okkur, þá er eilíft líf sú dásamlegasta (sjá K&S 14:7). Sú gjöf er að dvelja eilíflega sem fjölskyldur í návist Guðs föðurins og hans ástkæra sonar. Aðeins í æðsta ríki Guðs, himneska ríkinu, mun hinum kærleiksríku fjölskylduböndum viðhaldið.

Öll þráum við þá gleði sem hlýst af því að dvelja saman sem kærleiksríkar fjölskyldur. Sumir hafa ekki upplifað slíkan kærleika – tilfinningar sem þeir hafa enn ekki upplifað en vita að eru raunverulegar. Við gætum hafa séð aðra upplifa slíkt. Margir hafa upplifað raunveruleika fjölskyldukærleika í ríkari mæli þegar dauðinn hefur aðskilið þá frá barni, móður, föður, bróður, systur eða ástkærum ömmum og öfum.

Öll höfum við vonað að geta einhvern tíma upplifað innilega ástúð fjölskyldumeðlims sem við elskuðum heitt og þráum að faðma að okkur aftur.

Okkar kærleiksríki himneski faðir þekkir hjörtu okkar. Tilgangur hans er að veita okkur hamingju (sjá 2 Ne 2:25). Hann gaf okkur því gjöf sonar síns, til að gera okkur mögulegt að njóta eilíflega gleði fjölskyldusambanda. Við munum rísa upp, því frelsarinn rauf helsi dauðans. Sökum friðþægingar Jesú Krists, þá getum við, fyrir trú og iðrun, orðið verðug himneska ríkisins, þar sem fjölskyldur eru innsiglaðar í kærleika að eilífu.

Frelsarinn sendi spámanninn Elía til Josephs Smith, til að endurreisa lykla prestdæmisins (sjá K&S 110). Þeim lyklum fylgdi innsiglunarvaldið, og þar með æðsta gjöf Guðs til barna hans - eilíft og ævarandi líf sameinaðra fjölskyldna.

Það er gjöf sem sérhvert barn Guð sem í heiminn kemur getur gert kröfu til. Þriðjungur anda barna hans hafnaði þessari gjöf hans í fortilverunni. Sá hluti þeirra valdi að kynnast aldrei gleði þessarar gjafar himnesks föður um eilífar fjölskyldur, sökum trúleysis og síðan almennrar uppreisnar.

Hvað þau okkar varðar sem stóðust hina mikilvægu prófraun í andaheimi fortilverunnar, með því að ávinna sér gjöf efnislíkama, þá eigum við enn kost á að velja eilíft líf. Ef við erum svo blessuð að hafa fundið hið endurreista fagnaðarerindi, þá getum við valið að gera og halda sáttmála við Guð, sem gerir okkur hæf fyrir eilíft líf. Ef við erum trúföst þeim sáttmálum, þá mun heilagur andi staðfesta von okkar og vissu um að við séum á vegi eilífs lífs, til að lifa eilíflega sem fjölskyldur í himneska ríkinu.

Sumir eiga kannski litla eða enga von um slíka eilífa gleði. Foreldrar, börn, bræður og systur kunna að hafa gert eitthvað sem virðist gera þau vanhæf til að eignast eilíft líf. Þið gætuð líka velt fyrir ykkur hvort þið sjálf séuð nægilega hæf fyrir tilstilli friðþægingar Jesú Krists.

Spámaður Guðs veitti mér eitt sinn leiðsögn sem veitir mér frið. Ég hafði áhyggjur af því að ákvarðanir annarra hefðu gert fjölskyldu okkar ómögulegt að vera saman að eilífu. Hann sagði: „Þú hefur áhyggjur af röngum vanda. Þú skalt sjálfur lifa verðugur himneska ríkisins og fjölskylduhagir þínir verða dásamlegri en þú færð ímyndað þér.“

Öllum þeim sem búa að persónulegri reynslu eða búa að hjónabandi og eiga börn – eða hafa ekki reynt slíkt – sem skyggir á vonir þeirra, gef ég þennan vitnisburð: Himneskur faðir þekkir og elskar ykkur sem andabörn sín. Þegar þið voruð með honum og hans ástkæra syni í fortilverunni, gróðursettu þeir í hjörtum ykkar vonina um að hljóta eilíft líf. Fyrir tilverknað friðþægingar Jesú Krists og leiðsögn heilags anda, getið þið fundið nú og í komandi heimi þá ást fjölskyldunnar, sem faðir ykkar og hinn ástkæri sonur hans þrá svo heitt að þið upplifið.

Ég ber vitni um að ef þið lifið verðug himneska ríkisins, þá mun loforðið um að „fjölskylduhagir ykkar verði dásamlegri en þið fáið ímyndað ykkur“ verða ykkar.

Hvernig kenna á boðskapinn

Hugleiðið að byrja á því að segja þeim sem þið kennið frá tilviki þar sem þið voruð þakklátir fyrir vonina um eilífa fjölskyldu. Biðjið þau að hugsa um tilvik þar sem þau hafa verið þakklát fyrir eilífa fjölskyldu. Spyrjið hvort þau vilji segja frá einhverju slíku. Þið getið þessu næst boðið þeim að íhuga hvernig þau gætu bætt sig og verið verðugri himneska ríkisins, svo að hið spámannlega loforð um að fjölskylduhagir okkar verði dásamlegri en við fáum ímyndað okkur, verði þeirra.

Prenta