Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, október 2016
Blessanir hlýðni
Thomas S Monson forseti sagði „Mikilvægasta lexían sem við getum lært í jarðlífinu er sú að sýna hlýðni þegar Guð talar, því þá munum við ávallt gera það sem rétt er.“1
Við verðum líka blessuð. Monson forseti sagði líka nýlega á aðalráðstefnu: „Hann veit að þegar við höldum boðorðin, verður líf okkar hamingjuríkara, fyllra og einfaldara. Okkur mun reynast auðveldara að takast á við erfiðleika okkar og áskoranir og við munum hljóta fyrirheitnar blessanir hans.“2
Í eftirfarandi útdrætti kenninga Monsons forseta, sem forseta kirkjunnar, brýnir hann fyrir okkur að boðorðin séu öruggasta leiðin til hamingju og friðar.
Ferðavegvísir
„Boðorð Guðs eru ekki gefin til að ergja okkur eða hindra hamingju okkar. Þvert á móti er það sem réttara reynist. Sá sem skapaði okkur og elskar okkur fullkomlega, veit hvernig við þurfum að haga lífi okkar til að hljóta mesta mögulega hamingju. Hann hefur séð okkur fyrir leiðsögn sem markar veg okkar til öryggis í gegnum þetta oft svo viðsjárverða jarðlíf. Munum við eftir orðum okkar kæra sálms: ‚Boðorðin haldið, því það veitir öryggi, það veitir frið‘ [sjá „Boðorðin haldið,“ Sálmar, nr. 113].”3
Styrkur og þekking
„Hlýðni er aðalsmerki spámanna; hún hefur fært þeim styrk og þekkingu um aldir. Okkur er nauðsynlegt að vita að við eigum líka rétt á þessari uppsprettu styrks og þekkingar. Hún stendur okkur öllum til boða í dag, er við hlítum boðorðum Guðs. …
Þekkingin sem við leitum, svörin sem við þráum og styrkurinn sem við sækjumst eftir, til að takast á við áskoranir hins flókna og síbreytilega heims, geta orðið okkar, ef við lifum fúslega eftir boðorðum Drottins.“4
Veljið að trúa
„Samhljómur okkar tíma er frjálslyndi. Tímarit og sjónvarp draga upp myndir af kvikmyndastjörnum og íþróttahetjum ‒ af þeim sem svo margt ungt fólk þráir að líkjast ‒ sem skeytir engu um lögmál Guðs og flaggar syndugu lífi, sem virðist ekki hafa neinar slæmar afleiðingar. Trúið því ekki! Það er tími reikningsskila ‒ já, tími endanlegs uppgjörs. Sérhver Öskubuska á sér sitt miðnætti ‒ ef ekki í þessu lífi, þá því næsta. Dómsdagur kemur yfir alla. … Ég sárbið ykkur um að velja að hlýða.“5
Gleði og friður
„Ykkur kann stundum að finnast að þeir sem í heiminum eru njóti meiri skemmtunar en þið gerið. Sumum ykkar kann að finnast þið heft af þeim lífsgildum sem við í kirkjunni lifum eftir. Bræður og systur, ég staðhæfi við ykkur að það er ekkert sem getur fyllt líf okkar meiri gleði eða sál okkar meiri friði, en andinn sem okkur veitist þegar við fylgjum frelsaranum og höldum boðorðin.“6
Verið grandvör
„Ég ber ykkur vitni um að þær blessanir sem lofað er, eru ómælanlegar. Þótt skýastrókar hrannist upp og regnið falli, þá mun vitneskjan um fagnaðarerindið og ást okkar á himneskum föður og frelsara okkar hughreysta okkur og styðja og færa okkur gleði í hjarta, þegar við erum grandvör og höldum boðorðin. Ekkert í þessum heimi fær sigrað okkur.“7
Fylgið frelsaranum
„Hver var þessi harmþrungni maður, kunnugur sorginni? Hver er konungur dýrðarinnar, Drottinn hersveitanna? Hann er meistari okkar. Hann er frelsari okkar. Hann er sonur Guðs. Hann er höfundur sáluhjálpar okkar. Hann biður: ‚Fylgið mér.‘ Hann leiðbeinir: ‚Far þú og gjör hið sama.‘ Hann biður: ‚Haldið boðorð mín.‘
Fylgjum honum. Förum að dæmi hans. Hlýðum orðum hans. Með því að gjöra svo færum við honum hina guðlegu gjöf þakklætis.“8
© 2016 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in Germany. Samþykkt á ensku: 6/16. Þýðing samþykkt: 6/16. Þýðing á First Presidency Message, October 2016. Icelandic. 12870 190