2018
Orð Guðs til barna hans
March 2018


Boðskapur Æðsta forsætisráðsins, mars 2018

Orð Guðs til barna hans

Ritningarnar segja að það fyrsta sem Guð gerði eftir að hafa skapað karl og konu, var að tala til þeirra.1 Hann vildi veita þeim mikilvægar upplýsingar og dýrmæta leiðsögn. Tilgangur hans var ekki að íþyngja þeim eða valda þeim áhyggjum, heldur að leiða þau til hamingju og eilífrar dýrðar.

Það var aðeins upphafið. Frá þeim degi til þessa dags hefur Guð haldið áfram að eiga samskipti við börn sín. Orð hans hafa verið varðveitt, mikils metin og lærð af lærisveinum allra kynslóða. Þeir sem sækjast eftir að þekkja vilja Guðs bera djúpa virðingu fyrir orðum hans og þau bera vitni um þann sannleika að „Drottinn Guð gjörir ekkert án þess að hann hafi opinberað þjónum sínum, spámönnunum, ráðsályktun sína.“2

Það hefur verið fyrirmyndin allt frá upphafi tímans og er enn á okkar tíma. Hér er ekki aðeins um að ræða góða biblíusögu, heldur er þetta fyrirbúin leið Guðs til að veita börnum sínum mikilvægan boðskap. Hann reisir upp einstaklinga meðal okkar, kallar þá sem spámenn og felur þeim orð að segja, sem okkur er ætlað að taka á móti „sem kæmi það af [hans] eigin munni.“3 Frelsarinn sagði: „Hvort sem það er sagt með minni eigin rödd eða með rödd þjóna minna, það gildir einu.“4

Þetta eru ein dýrðlegustu, mest hvetjandi og vonbestu orð endurreisnarinnar – Guð er ekki hljóður! Hann elskar börn sín. Hann hefur ekki skilið við okkur til að ráfa um í myrkri.

Tvisvar á ári hverju, í apríl og október, gefst okkur tækifæri til að hlýða á rödd Drottins fyrir tilstilli þjóna hans, á okkar dásamlegu aðalráðstefnum.

Ég gef ykkur minn persónulega vitnisburð um að löngu áður en ræðumaður gengur upp að ræðustólnum, hefur hann eða hún lagt á sig mikla vinnu, með bænum og lærdómi, til að bregðast við því verkefni að tala til okkar. Að baki hvers boðskaps eru ótal stundir undirbúnings og innilegar bænir, til að hljóta vitneskju um hvað Drottinn vill færa sínum heilögu.

Hvað gæti gerst, ef við sem hlustendur hefðum sama háttinn á í undirbúningi og ræðumennirnir? Að hvaða leyti gæti nálgun okkar verið önnur varðandi aðalráðstefnu, ef við litum á ráðstefnuna sem tækifæri til að taka á móti boðskap frá Drottni sjálfum? Við getum vænst þess að hljóta persónuleg svör fyrir tilstilli orða og tónlistar aðalráðstefnu, við hvaða spurningum eða vanda sem við stæðum frammi fyrir.

Ef þið hafið einhvern tíma velt fyrir ykkur hvort himneskur faðir muni í raun tala til ykkar, þá minni ég ykkur á hin látlausu en íhugulu orð Barnafélagssálmsins: „Guðs barnið eitt [þú ert] hann um [þig] heldur vörð.“ Tilgangur hans er að hjálpa ykkur svo „Guði [verðið] hjá.“

Ef þið komið til himnesks föður sem barn hans, get-ið þið spurt hann af einlægu hjarta: „Leið mig, viltu vísa mér á veg sem treysta má. Kenn mér allt sem get ég gert.“ Hann mun tala til ykkar með sínum heilaga anda og það verður svo undir ykkur komið að „læra að hlýða rödd.“ Ef þið gerið það, þá lofa ég ykkur að þið munið hljóta hans „æðstu blessun hér.“5

Leiðsögn Drottins er engu síður nauðsynlegt nú eins og áður í sögu mannkyns. Megum við leita anda sannleikans af kostgæfni, er við búum okkur undir að hlýða á orð Drottins, svo að við megum skilja þegar Drottinn talar með þjónum sínum og læra og fagna saman.6

Ég ber vitni um að „gjörið [þið] það, munu hlið heljar eigi á [ykkur] sigrast. Já, og Drottinn Guð mun dreifa valdi myrkursins frá [ykkur] og láta himnana bifast yður til góðs og nafni sínu til dýrðar.“7