2022
Drottinn, til hvers ættum vér að fara?
Apríl 2022


Boðskapur svæðisleiðtoga

Drottinn, til hvers ættum vér að fara?

Eftir að Jesús hafði mettað fimm þúsund manns með kraftaverki, flutti hann dásamlega prédikun um Brauð lífsins. Hann benti á að margir fylgdu sér ekki vegna boðskapar síns, „heldur af því að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir.“ 1 Af þeirri ástæðu, sagðist hann vera hið sanna Brauð lífsins og að stundlegar blessanir sem hljótast í þessu lífi, jafnvel með kraftaverki, myndu ekki frelsa fólkið: „Feður ykkar átu manna í eyðimörkinni en þeir dóu.“ 2

Áhrif þessa boðskapar voru slík að „upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum.“ 3

Jesús fylgdist með þessum viðbrögðum, horfði til hinna Tólf, sem voru með honum, og spurði: „Ætlið þið að fara líka?“ Pétur fann þegar til ábyrgðar, sté fram og sagði fyrir munn þeirra allra: „Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.” 4

Öll höfum við tekist á við og munum takast á við erfiðar aðstæður í eigin lífi, þar sem við fáum ekki skilið samhengi líðandi raunveruleika.

Það geta komið upp stundir þar sem við erum þreytt, vonsvikin, vonlaus eða innantóm. Við gætum líka jafnvel stundum hugsað eins og þeir gerðu á fornum tíma: „Það er til einskis að þjóna Guði. Hvaða ávinning höfum við af að hlýða boðum hans og ganga í sorgarklæðum frammi fyrir Drottni hersveitanna?“ 5

Á slíkum stundum kjúpum við og hrópum:

„Finn ég hér frið og ást?

Framar vil ei þjást.

Hvar er sú höndin blíð, er blessar sár?

Hvar er sú röddin þíð, er þerrar mín tár?

Hvar er mín hvíldin þráð,

huggun og náð?“ 6

Ég ætla að miðla ykkur nokkrum reglum sem munu hjálpa okkur að takast á við lífið er við lítum fram til betri tíðar, ef við skiljum þær réttilega.

Tilgangur þessa lífs. Russell M. Nelson forseti minnti okkur á að „gleðin sem við finnum hefur lítið að gera með okkar lífsins aðstæður, en þess meira með það sem við einblínum á í lífinu.“ 7  

Missið aldrei sjónar af því að þessi jörð, sem við nú dveljum á, var sköpuð og okkur fyrirbúin til að virkja sáluhjálparáætlunina: „Og með þessu munum við reyna þá og sjá hvort þeir gjöra allt, sem Drottinn Guð þeirra býður þeim,“ 8  hverjar sem aðstæður og áskoranir lífsins eru. Aftur á móti, eins og útskýrt var fyrir spámanninum Joseph Smithi: „Allt mun þetta veita þér reynslu og verða þér til góðs.“ 9 Þrengingar eru í eðli sínu erfiðar. Ef við skiljum það, gætum við áttað okkur á að það sé ekki við okkur sjálf að sakast, heldur að við séum nefnilega að takast á við þann tilgang sem felst í komu okkar hingað.

Stökkvið aldrei út úr bát í miðjum stormi. Ímyndið ykkur andartak að þið séuð í báti í miklum stormi úti á miðju hafi. Ímyndið ykkur „bylgjurnar brotna, og beljandi stormur hvín, og himinninn hulinn er skýjum. Vér hrópum í neyð til þín.“ 10 Ég er viss um að þið upplifðuð sterkar tilfinningar og ýmsar hugsanir, en að stökkva út úr bátnum myndi ekki hvarfla að ykkur. Bátur fagnaðarerindisins mun alltaf vera okkur athvarf og skjól mitt í stormum lífsins.

Haldið fast í þá trú og þekkingu sem þið þegar hafið. Benjamín konungur hvatti okkur til að trúa á Guð, að trúa að hann væri alvitur og almáttugur og að trú að „maðurinn geti ekki haft skilning á öllu, sem Drottinn skilur.” 11 Að nokkru leyti, ætti skilningur okkar á eigin fáfræði að vera hluti af vitnisburði okkar.

Það er hluti af þessari tilveru að við hljótum ekki svör þegar í stað við öllum hugsanlegum spurningum er varða aðstæður lífsins. Fyrst svo er, „haldið [þá] fast í það sem þið þegar vitið og verið sterk allt þar til meiri þekking berst ykkur.“ 12

Það sem við þegar vitum er mikilvægara og áhrifameira en það sem við höfum enn ekki skilning á.

Það er bæn mín, að með því að taka á móti þessum reglum, munum við endurtekið geta sagt eins og Pétur: „Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs.“ 13

Heimildir

  1. Jóhannes 6:26.

  2. Jóhannes 6:49.

  3. Jóhannes 6:66.

  4. Jóhannes 6:67-68.

  5. Malakí 3:14.

  6. Hymn 129, Where Can I Turn for Peace?

  7. Russell M. Nelson forseti, „Gleði og andleg þrautseigja,“ aðalráðstefna október 2016.

  8. Abraham 3:25.

  9. K&S 122:7.

  10. Sálmar 38. Herra, sjá bylgjurnar brotna

  11. Mósía 4:9.

  12. Öldungur Jeffrey R. Holland. „Ég trúi,“ apríl 2013.

  13. Jóhannes 6:67-68.