Líahóna
Skilaboð Drottins til mín
Janúar 2024


„Skilaboð Drottins til mín,“ Líahóna, jan. 2024.

Fyrirmyndir trúar

Skilaboð Drottins til mín

Ég komst að því að góð leið til að öðlast vitnisburð um Mormónsbók er að kenna upp úr henni.

Ljósmynd
karlmaður brosir og heldur á bók

Ljósmyndir: Leslie Nilsson

Þremur dögum eftir að ég flutti til Polokwane árið 1993, í norðurhluta Suður-Afríku, var bankað á hurðina. Þegar ég opnaði hana, stóðu þar tveir trúboðar Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.

Ég ólst upp afar trúaður og fjölskylda mín hafði alltaf sagt mér að halda mig frá trúboðunum. En þeir virtust indælir og ég nýt umræðna um trú, svo ég bauð þá velkomna.

Eftir dásamlega heimsókn, sögðu þeir við mig: „Mættum við gefa þér Mormónsbók?“

„Dokið aðeins við,“ sagði ég. „Ég held ég eigi hana.“

Þeir voru bergnumdir þegar ég sýndi þeim eintakið mitt. Ég útskýrði að fyrir nokkrum árum í heimaborg minni, Höfðaborg, höfðu trúboðar gefið mér Mormónsbók á sýningu. Ég hélt henni og við og við blaðaði ég í henni.

Eftir heimsóknina bauð ég trúboðunum að koma aftur. Ég hafði þó verið alinn upp í annarri kirkju, þar sem stjúpfaðir minn var prestur. Hugsunin um að þurfa að skírast aftur varð hindrun fyrir trúarumbreytingu mína. Þrátt fyrir það tók ég að sækja litla grein kirkjunnar. Um einu og hálfu ári síðar kallaði greinarforsetinn mig inn á skrifstofu sína.

„Við viljum að þú öðlist vitnisburð“

„David, mig langar að gefa þér áskorun,“ sagði greinarforsetinn. „Við viljum að þú öðlist vitnisburð um Mormónsbók. Ég hef það á tilfinningunni að þú getir það ef ég kalla þig til að kenna Kenningar fagnaðarerindisins. Þú ert nú þegar háskólakennari og ert ekki smeykur við að standa fyrir framan fólk.“

Á okkar tíma þurfa kennarar að vera meðlimir kirkjunnar.1 En í þá daga var greinarforsetinn innblásinn til að biðja mig um að kenna. Ég er þakklátur fyrir það.

„Allt í lagi,“ sagði ég.

Hvert laugardagskvöld lærði ég lexíuna ítarlega svo ég fengi skilið hana, þekkt og tengt við frásagnir og persónur Mormónsbókar. Fyrir mig, þá var það að kenna upp úr Mormónsbók góð leið til að finna vitnisburð um hana.

Sunnudag nokkurn, eftir að hafa kennt í um eitt ár, kom trúboðsforsetinn frá Pretoríu til að sækja ráðstefnu og koma í sunnudagaskólabekkinn minn.

„Þakka þér fyrir, bróðir Baxter,“ sagði hann eftir tímann. „Þetta var góð lexía. Hvaðan ertu?“

Þegar ég sagðist vera frá Höfðaborg, spurði hann hvaða deild ég hefði verið í.

„Ég var ekki í neinni deild.“

„Hvað áttu við?“ spurði hann.

„Ég er af Þjóðunum, eins og þið lýsið því,“ sagði ég. „Ég er ekki meðlimur kirkjunnar.“

Hann fölnaði og hraðaði sér til greinarforsetans.

„Einhver sem ekki er meðlimur kennir ritningarnar?“ spurði trúboðsforsetinn.

„Gerði hann það illa?“

„Nei.“

„Var hann hvetjandi?“

„Já.“

„Kenndi hann sanna kenningu?“

„Já.“

Þeir leyfðu mér að halda áfram að kenna. Nokkrum mánuðum síðar heimsótti ég fjölskyldu mína í Höfðaborg á jólunum. Á meðan dvöl minni stóð, sagði móðir mín að hún ætlaði að yfirgefa kirkjuna sína eftir að stjúpfaðir minn lést. Á því augnabliki hjálpaði Drottinn mér að frelsa mig frá hvers konar sektarkennd vegna tryggðar við móður mína og kirkjuna sem ég ólst upp í.

Þegar ég sneri aftur heim, hringdi ég í greinarforsetann.

„Ég vil skírast á morgun,“ sagði ég við hann.

„David, ertu viss?“

„Algjörlega,“ svaraði ég. „Ég fékk skilaboð frá Drottni.“

Ljósmynd
hendur sem halda á bók

„Ég hef nokkuð að gefa þér“

Þegar ég sagði blóðföður mínum að ég væri orðinn meðlimur í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, skildi ég ekki hvers vegna hann var svo rólegur.

„Lof mér að segja þér frá sögu minni,“ sagði hann.

Faðir minn, sem hafði aldrei talað við mig um trúmál, sagði mér að þegar hann var ungur hefði hann sótt Cumorah-deild kirkjunnar í Höfðaborg. Hann var í körfuboltaliði deildarinnar. Hann hafði eignast nokkra nána vini sem voru Síðari daga heilagir. Einn af bestu vinum hans var trúboði sem dó í Víetnam eftir trúboð sitt.

Hefði pabbi minn ekki misst vin sinn, held ég að hann hefði gengið í kirkjuna. Líf hans hefði verið gjörbreytt. Mörgum árum síðar, bar hann enn mikla virðingu fyrir Síðari daga heilögum. Hann iðkaði sjálfur enga trú, en studdi heils hugar ákvörðun mína að ganga í kirkjuna.

Nokkrum mánuðum eftir andlát stjúpföður míns, sagði ég móður minni frá skírn minn. Það gekk ekki jafn vel. Hvað sem því líður, þegar ég ferðaðist til Hollands til að heimsækja ættingja mína í móðurætt, sagði ég þeim frá trúarumbreytingu minni. Það var þá sem ég frétti af annarri tengingu fjölskyldunnar við kirkjuna.

Á meðan heimsókn minni stóð, kom móðurbróðir minn til mín. „Ég hef nokkuð að gefa þér,“ sagði hann. Svo rétti hann mér fyrstu útgáfu Mormónsbókar á hollensku, útgefna 1890.

„Hún hefur verið í ættinni í langan tíma,“ sagði hann. „Ég vil að þú eigir hana.“

Þessar tvær tengingar fjölskyldunnar við kirkjuna voru mér afar hughreystandi. Nú met ég mikils þessa hollensku Mormónsbók. Hún minnir mig á fyrstu trúboðana sem heimsóttu mig. Hún minnir mig á hve mikilvægt það var trúarumbreytingu minni að kenna upp úr Mormónsbók. Hún minnir mig á virðingu föður míns heitins fyrir kirkjunni og að einhverjir af áum mínum höfðu tekið á móti fagnaðarerindinu.

Hún minnir mig líka á að Mormónsbók hefur raunverulegan kraft til að sannfæra bæði „Gyðingana og Þjóðirnar, um að Jesús er Kristur, hinn Eilífi Guð, er opinberar sig öllum þjóðum.“2

Heimildir

  1. Sjá Almenn handbók: Þjónusta í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu, 30.1.3, KirkjaJesuKrists.org.

  2. Titilsíða Mormónsbókar.

Prenta