„Varanleg gleði þess að lifa eftir fagnaðarerindinu,“ Líahóna, febrúar 2024
Mánaðarlegur boðskapur Líahóna, febrúar 2024
Varanleg gleði þess að lifa eftir fagnaðarerindinu
Varanleg gleði kemur af þrautseigju í fagnaðarerindi Jesú Krists og að hjálpa öðrum að sýna slíkt hið sama.
Stutt og hnitmiðuð ummæli um tilgang lífs okkar má finna í spámannlegri kennslu Lehís um upphaf mannlífs á jörðunni. Adam og Eva bjuggu í aldingarðinum Eden í sakleysisástandi. Hefðu þau haldið áfram í þessu ástandi, hefðu þau ekki „[upplifað nokkurra] gleði, þar eð þau þekktu enga vansæld. Og þau hefðu ekkert gott gjört, þar eð þau þekktu enga synd“ (2.Nefí 2:23). Því, eins og Lehís útskýrði síðan „féll [Adam] svo að menn mættu lifa. Og menn lifa, svo að þeir megi gleði njóta“ (2 Ne 2:25; sjá einnig HDP Móse 5:10–11).
Þegar við ölumst upp í föllnum heimi lærum við munin á góðu og illu eftir því sem okkur er kennt og við upplifum. Við„[brögðum] hið beiska, svo að [við metum] hið góða.“ (HDP Móse 6:55). Gleði kemur er við höfnum hinu beiska og metum hið góða stigvaxandi og höldum fast í það.
Finna gleði
Vegna hinnar fullkomnu elsku hans gagnvart okkur er himneskur faðir óðfús að miðla hinni fullkomnu gleði hans með okkur, bæði nú og um eilífð. Það hefur verið hvati hans í öllu frá upphafi, meðal annars í hinni dýrðlegu sáluhjálparáætlun hans og friðþægingarfórn hans eingetna sonar okkur til endurlausnar.
Guð reynir ekki að þröngva gleði eða hamingju á okkur, en hann kennir okkur hvernig að finna það. Hann segir okkur einnig í hverju við finnum ekki gleði – „aldrei hefur hamingjan falist í ranglæti“ (Alma 41:10). Himneskur faðir okkar opinberar okkur leiðina að gleði með boðorðum sínum.
Russell M. Nelson forseti lýsti því á þennan hátt:
„Stóri sannleikurinn er þó þessi: Þótt heimurinn staðhæfi að völd, eignir, vinsældir og nautnir holdsins skapi hamingju, þá er það ekki svo! Það er ekki mögulegt! Það sem þetta getur af sér, er ekkert annað en innantóm eftirlíking þeirrar „[blessunar] og hamingju“ sem þeir njóta sem „halda boðorð Guðs. [Mósía 2:41].
Sannleikurinn er sá, að það er miklu meira lýjandi að leita hamingjunnar þar sem þið getið aldrei fundið hana! Þegar þið aftur á móti gangið sjálf undir ok með Jesú Krist og vinnið hið andlega verk sem þarf til að sigrast á heiminum, hefur hann, og hann einn, máttinn til að lyfta ykkur ofar aðdráttarafli þessa heims.“1
Varanlega gleði er því að finna í því að fylgja boðorðum Guðs og boðorð Guðs má finna í fagnaðarerindi Jesú Krists. Það er hins vegar okkar val. Ef okkur í veikleika okkar, tekst ekki að halda boðorðin um tíma, getum við samt snúið við, hafnað því beiska og leitað aftur hins góða. Elska Guðs afsakar ekki synd – þar væri miskunn að ræna réttlæti – en fyrir friðþægingu hans býður Jesús Kristur okkur endurlausn frá synd.
„Amúlek … sagði … að Drottinn mundi vissulega koma og endurleysa lýð sinn, en að hann kæmi ekki til að endurleysa þá í syndum þeirra, heldur endurleysa þá frá syndum þeirra.
Og hann hefur fengið vald frá föðurnum til að endurleysa þá frá syndum þeirra vegna iðrunar. Þess vegna hefur hann sent engla sína til að boða tíðindin um skilyrði þeirrar iðrunar, sem leiðir menn undir vald lausnarans til hjálpræðis sálum sínum.“ (Helaman 5:10–11; breytt letur hér).
Jesús sagði:
„Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.
„Þetta hef ég talað til yðar, til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn.“ (Jóhannes 15:10–11).
Þannig leið Lehí í draumi sínum er hann bragðaði á ávexti lífsins tré – sem táknar elsku Guðs. Hann sagði: „Þegar ég neytti af ávexti þess, varð sál mín gagntekin ákaflega miklum fögnuði“ (1. Nefí 8:12; sjá einnig 11:21–23).
Lehí opinberaði einnig aðra leið til að færa gleði inn í líf okkar þegar hann sagði: „Ég tók því að þrá, að fjölskylda mín mætti einnig neyta [ávaxtarins]“ (1. Nefí 8:12).
Hjálpa öðrum að upplifa gleði
Eins og fólk Benjamíns konungs erum við „[fyllt] fögnuði“ yfir að hafa fengið fyrirgefningu synda okkar og upplifum „frið við samvisku“ okkar (Mósía 4:3). Við skynjum það aftur þegar við horfum út á við og leitumst við að hjálpa fjölskyldumeðlimum og öðrum að öðlast sömu gleði og frið.
Sem ungur maður leitaði Alma hamingju í öllu sem er andstætt fagnaðarerindi Jesú Krists. Eftir að engill hafði áminnt hann, kom hann langa leið frá hinu „beiska“ til hins „góða“ með iðrun „nær dauða“ (Mósía 27:28) og gnægð náðar frelsarans. Árum seinna lýsti Alma því yfir við son sinn Helaman uppfullur gleði:
„Og ó, hvílík gleði, hve undursamlegt ljós ég sá! Já, sál mín fylltist gleði, jafn yfirþyrmandi og kvalir mínar höfðu áður verið.
Já, og allt frá þeirri stundu og til þessa dags hef ég erfiðað viðstöðulaust til að geta leitt sálir til iðrunar, til að geta gefið þeim hlutdeild í hinni yfirþyrmandi gleði, sem ég kynntist, …
Já, og sjá nú, ó, sonur minn. Drottinn færir mér mikla gleði yfir ávöxtum erfiðis míns.
Því að vegna orðsins [fagnaðarerindis Jesú Krists] sem hann hefur gefið mér, sjá, þá hafa margir fæðst af Guði og upplifað, eins og ég hef upplifað“ (Alma 36:20, 24–26).
Við annað tilefni vitnaði Alma:
„Dýrð mín er sú, að ég verði ef til vill verkfæri í höndum Guðs til að vekja einhverja sál til iðrunar. Í því er gleði mín fólgin.
Og sjá. Þegar ég sé marga bræður mína iðrast af einlægni og snúa til Drottins Guðs síns, fyllist sál mín gleði“ (Alma 29:9–10).
Alma hélt áfram og boðaði þá yfirþyrmandi gleði sem hann upplifði þegar aðrir færðu sálir til Krists á farsælan hátt.
„En ég gleðst ekki einungis yfir mínum eigin árangri, heldur er gleði mín enn fyllri yfir velgengni bræðra minna [sona Mósía] sem hafa verið í Nefílandi.
Sjá, þeir hafa lagt mjög hart að sér og hafa uppskorið ríkulegan ávöxt. Hve mikil munu ekki laun þeirra verða!
Þegar ég nú hugsa um árangur bræðra minna, er sál mín svo upp numin, að hún skilst næstum frá líkamanum, ef svo má að orði komast, svo mikil er gleði mín“ (Alma 29:14–16).
Við getum upplifað sömu gleði er við elskum aðra með sömu „[hreinu] ást Krists“ (Moróní 7:47; sjá einnig vers 48), miðlum endurreistum sannleika með þeim og bjóðum þeim að safnast með sáttmálslýðnum.
Gleði í þrengingum
Við ættum ekki að óttast það að þeir erfiðleikar og þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir hér í jarðlífinu muni hindra eða eyðileggja gleði okkar. Alma var einn þeirra sem greiddi dýru verði fyrir ósérhlífna þjónustu sína. Hann þoldi fangelsisvist, langvarandi hungur og þorsta, barsmíðar, lífshótanir og ítrekað háð og höfnun. Samt var sem það allt „[hyrfi] í fögnuði Krists“ (Alma 31:38). Ef til vill gerðu þjáningar Alma gleðina sem fylgdi enn meiri.
Nelson forseti minnir okkur á að gleðin átti hlutverk í þjáningu frelsarans – „Hann leið með þolinmæði á krossi … því að hann vissi hvaða gleði beið hans“ (Hebreabréfið 12:2).
„Hugsið ykkur það! Frelsari okkar, sem gekk í gegnum óbærilegustu upplifun jarðar, gerði það með því að einblína á gleði!
Í hverju fólst þessi gleði sem hann einbeitti sér að? Sú gleði fólst vissulega í því að hreinsa, lækna og styrkja okkur; þeirri gleði að greiða gjaldið fyrir syndir allra þeirra sem iðruðust; þeirri gleði að gera mér og þér kleift að komst aftur heim – hrein og verðug – til að dvelja hjá himneskum foreldrum og fjölskyldum okkar.
Hvað getum við þolað sem nú virðist yfirþyrmandi, sárt, ógnvænlegt, ósanngjarnt eða einfaldlega ómögulegt, ef við einblínum á þá gleði sem býður okkar eða ástvina okkar?“2
Varanleg gleði kemur af þrautseigju í fagnaðarerindi Jesú Krists og að hjálpa öðrum að sýna slíkt hið sama. Varanleg gleði kemur þegar við höldum okkur í elsku Guðs, hlýðum boðorðum hans og meðtökum af náð frelsarans. Á vegi fagnaðarerindisins er gleði í vegferðinni eins og við lok ferðarinnar. Fagnaðarerindi Jesú Krists er vegur daglegrar gleði.
© 2024 Intellectual Reserve, Inc. Allur réttur áskilinn. Printed in USA. Samþykkt á ensku: 6/19. Þýðing samþykkt: 6/19. Þýðing á Monthly Liahona Message, February 2024. Language. 19276 190