Líahóna
Nærðu sál þína með tíðum bænum
Apríl 2024


„Nærðu sál þína með tíðum bænum,“ Líahóna, apríl 2024

Líahóna: Mánaðarlegur boðskapur, apríl 2024

Nærðu sál þína með tíðum bænum

Við þörfnumst þeirrar andlegu næringar sem hlýst af samskiptum við himneskan föður, en sú blessun stendur okkur til boða alltaf og alls staðar.

Ljósmynd
Enos biðst fyrir

Ljósmynd af leikara í hlutverki Enosar, eftir Matt Reier

Við höfum öll fundið til hungurs. Hungur er aðferð líkamans til að segja okkur að hann þarfnist næringar. Og þegar við erum svöng vitum við hvað við þurfum að gera – borða.

Andi okkar hefur líka aðferð til að láta okkur vita þegar við þörfnumst andlegrar næringar. Okkur reynist þó tamara að hunsa andlegt hungur fremur en líkamlegt hungur.

Á sama hátt og matvælin eru margs konar sem við getum borðað þegar við erum svöng, þá er ýmislegt sem við getum gert til að seðja andlegt hungur okkar. Við eigum til að mynda kost á að „endurnærast af orði Krists“ (2. Nefí 32:3) í ritningunum og af orðum spámanna. Við getum farið reglubundið í kirkju til að meðtaka sakramentið (sjá Kenning og sáttmálar 59:9). Við getum þjónað Guði og börnum hans (sjá Mósía 2:17).

En það er önnur uppspretta andlegrar næringar sem stendur okkur til boða öllum stundum, á hverju augnabliki lífs okkar, hverjar sem aðstæður okkar eru. Við getum alltaf átt samskipti við himneskan föður með bæn.

„Sál mína hungraði“

Þegar spámaðurinn Enos veiddi dýr í skóginum hugsaði hann um „orð föður [síns] um eilíft líf og gleði heilagra, sem [hann] hafði oft heyrt“. Orð þessi „smugu djúpt inn í hjarta [hans]“ (Enos 1:3).

Þar sem Enos var í þessu andlega hugarástandi, fann hann sterka þörf: „Sál mína hungraði,“ sagði hann (Enos 1:4; skáletrað hér).

Hvað gerði Enos þegar hann fann fyrir þessu andlega hungri, þessari þörf fyrir andlega næringu? „Ég kraup niður frammi fyrir skapara mínum,“ sagði hann, „og ákallaði hann í máttugri … bæn fyrir sálu minni“ (Enos 1:4).

Hið andlega hungur Enosar var svo mikið að hann baðst fyrir „allan liðlangan daginn … og þegar kvölda tók, hrópaði [hann] enn hátt, svo að rödd [hans] næði himnum“ (Enos 1:4). Það kom svo að því að Guð svaraði bæn hans og fyrirgaf syndir hans. Enos fannst sekt sinni sópað burtu. En andlegri næringu hans lauk ekki þar með.

Hann lærði um kraft trúar á Jesú Krist og hann úthellti allri sál sinni í þágu fólks síns – jafnvel óvina sinna. Hann gerði sáttmála við Drottin og tryggði loforð frá honum. Eftir hina máttuga bæn sína, fór Enos meðal þjóðar sinnar og spáði og vitnaði um það sem hann hafði heyrt og séð. (Sjá Enos 1:5–19.)

Ekki verður öllum bænum svarað á svo mikilfenglegan hátt, en reynsla okkar af bæn getur samt verið þýðingarmikil og umbreytandi. Við getum lært nokkrar mikilvægar lexíur af reynslu Enosar af bæn. Dæmi:

  • Þegar við reynum einlæglega að lifa eftir fagnaðarerindinu, getur það hjálpað við að skynja andlegt hungur okkar.

  • Andlegt hungur okkar getur og ætti að knýja okkur á knén til að leita hjálpar himnesks föður.

  • Að biðja til himnesks föður getur hjálpað við að seðja andlegt hungur okkar.

  • Við getum beðist fyrir alltaf og alls staðar.

  • Bænin getur hjálpað okkur að iðrast.

  • Bænin getur styrkt trú okkar á Jesú Krist.

  • Við getum öðlast persónulegan vitnisburð um að himneskur faðir hlusti og sé meðvitaður um okkur.

  • Vitnisburðurinn og styrkurinn sem við öðlumst gegnum bæn getur hjálpað okkur að þjóna og styrkja aðra.

Ljósmynd
Öldungur Soares þegar hann var drengur

Reynsla mín af krafti bænar

Eins og Enos, lærði ég nokkrar af þessum sömu lexíum gegnum persónulega reynslu. Foreldrar mínir gengu í Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu þegar ég var ungur drengur og ég var skírður þegar ég var átta ára. Ég hafði alltaf góða, hlýja tilfinningu í hjarta um himneskan föður minn og um Jesú Krist, hið endurreista fagnaðarerindi hans og kirkjuna hans. En það var ekki fyrr en ég var næstum 16 ára að ég tók að biðjast fyrir um sannleiksgildi þessara hluta.

Innblásinn biskup minn bað mig um að kenna sunnudagaskóla ungmenna. Ég átti að kenna lexíu um það hvernig við getum öðlast vitnisburð um fagnaðarerindið gegnum bæn. Þetta verkefni frá biskupnum mínum varð til þess að ég hugsaði meira um eigin vitnisburð. Ég hafði gefið mér tíma til að læra í Mormónsbók og mér fannst alltaf að kirkjan væri sönn. Ég hafði alltaf trúað á frelsarann Jesú Krist, en ég hafði aldrei látið reyna á loforð Morónís í Moróní 10:4–5. Ég hafði aldrei beðist fyrir vegna sannleiksgildi fagnaðarerindisins.

Ég man að ég fann í hjarta mínu að ef ég ætlaði að kenna þessum unglingum hvernig öðlast ætti vitnisburð gegnum bæn, þá ætti ég sjálfur að biðjast fyrir til að öðlast eigin vitnisburð. Sál mína hungraði – ef til vill á annan hátt en Enos, en ég skynjaði engu að síður andlega þörf.

Þegar ég undirbjó lexíuna, kraup ég og bað himneskan föður af hjartans þrá að staðfesta sannleikann sem ég skynjaði hið innra. Ég átti ekki von á neinni máttugri staðfestingu. En þegar ég spurði Drottin hvort fagnaðarerindið væri sannleikur, vaknaði afar ljúf tilfinning í hjarta mínu – og hin lága og hljóðláta rödd staðfesti fyrir mér að það væri sannleikur og að ég ætti að halda áfram að gera það sem ég var að gera.

Tilfinningin var svo sterk að ég gat aldrei leitt hjá mér þetta svar og sagt að ég vissi þetta ekki. Ég var afar glaður allan þennan dag. Hugur minn var í himnasælu og ég hugleiddi þessa yndislegu tilfinningu í hjarta mínu.

Næsta sunnudag stóð ég frammi fyrir þremur eða fjórum bekkjarfélögum mínum, sem allir voru yngri en ég. Ég bar vitni fyrir þeim um að himneskur faðir myndi svara bæn þeirra ef þeir hefðu trú.

Ljósmynd
Öldungur Soares

Bænheyrsla sem öldungur Soares hlaut sem ungur maður hefur gert honum kleift að bera vitni – sem trúboði (að ofan), faðir og eiginmaður og postuli – að himneskur faðir svarar bænum fluttum í trú.

Frá þessum tíma hefur þessi vitnisburður fylgtmér. Hann hefur hjálpað mér að taka ákvarðanir, einkum á stundum er ég hef staðið frammi fyrir áskorunum. Þessi bæn þennan dag, ásamt fleiri vitnisburðum sem ég hef öðlast í gegnum árin, hefur gert mér kleyft að bera vitni fyrir fólki, af sannfæringu, að það geti hlotið svör frá himneskum föður ef það biður í trú. Sú hefur verið raunin er ég hef vitnað sem trúboði, sem leiðtogi kirkjunnar, sem faðir og eiginmaður, og jafnvel sem postuli í dag.

Hvenær og fyrir hverju ættum við að biðja

Auðvitað biðjum við ekki aðeins þegar við finnum fyrir afar sterkri andlegri þörf. Hvenær ættum við þá að biðja? Og fyrir hverju ættum við að biðja? Stutta svarið er alltaf og fyrir hverju sem er.

Guð er himneskur faðir okkar. Að vita það breytir því hvernig við biðjumst fyrir. Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Með þekkingu á Guði vitum við hvernig við getum leitað til hans og hvernig við getum beðist fyrir til bænheyrslu. … Þegar við erum reiðubúin að koma til hans, er hann reiðubúinn að koma til okkar.“1

Himneskur faðir okkar er alltaf reiðubúinn að hlusta á okkur og vill að við biðjum til hans oft og reglubundið. Við ættum að „[ráðgast] við Drottin um allt, sem [við tökum okkur] fyrir hendur“ (Alma 37:37) og biðjast fyrir að morgni, degi og kvöldi. Við ættum að biðjast fyrir heima, á vinnustaðnum, í skólanum – hvar sem við gætum verið og fyrir öllu sem við gerum (sjá Alma 34:17–26).

Við ættum að biðjast fyrir í fjölskyldum okkar (sjá 3. Nefí 18:21). Við ættum að biðjast fyrir „[munnlega] og í hjarta, opinberlega og í einrúmi“ (Kenning og sáttmálar 81:3). Og „þegar [við áköllum] ekki Drottin, [látum] þá hjörtu [okkar] vera þrungin og í stöðugri bæn til hans um velferð [okkar] og einnig velferð þeirra, sem umhverfis [okkur] eru“ (Alma 34:27). Og við ættum ávallt að biðja til föðurins í nafni Jesú Krists (sjá 3. Nefí 18:19–20).

Ljósmynd
Joseph Smith þegar hann var ungur maður

Teikning af Joseph Smith, eftir Walter Rane, óheimilt að afrita

Koma til himnesks föður

Faðir okkar á himnum vill blessa okkur. Og hann mun gera það – ef við biðjum hann. Spámaðurinn Joseph Smith kenndi: „Minnist þess að við hljótum ekkert án þess að spyrja. Biðjið þess vegna í trú, og þið munuð hljóta blessanir sem Guð veit að þið þarfnist.“2

Reglubundnar og tíðar bænir eru nauðsynlegur hluti af styrkjandi andlegri endurnæringu fyrir sálir okkar sem hungra. Samskipti við himneskan föður gegnum bæn eru tiltæk og kærkomin, alltaf og alls staðar.

Eitt eftirlætis ritningarvers kennir hvernig okkur ber að koma til föður okkar á himnum krjúpandi í bæn: „Ver auðmjúkur og Drottinn Guð þinn mun leiða þig sér við hönd og svara bænum þínum“ (Kenning og sáttmálar 112:10). Þegar við erum auðmjúk og hlýðin, mun himneskur faðir vera með okkur. Hann mun leiða okkur sér við hönd. Hann mun innblása okkur til að vita hvert við eigum að fara og hvað við eigum að gera. Hann mun svara bænum okkar samkvæmt eigin vilja, aðferð, tímasetningu og þeirri þekkingu sem okkur er holl.

Við ættum að hafa þetta hugfast og dásama að geta komið að hásæti Guðs og hlotið blessanir af hendi hans.

Heimildir

  1. Kenningar forseta kirkjunnar: Joseph Smith (2011), 40.

  2. Kenningar: Joseph Smith, 128.

Prenta