Líahóna
Jesús Kristur er uppspretta „lifandi,“ „góðrar“ og „glæstari vonar“
Desember 2024


„Jesús Kristur er uppspretta ,lifandi,‘ ‚góðrar,‘ og ‚glæstari vonar,‘“ Líahóna, des. 2024.

Mánaðarlegur boðskapur Líahóna, desember 2024

Jesús Kristur er uppspretta „lifandi,“ „góðrar“ og „glæstari vonar“

Þegar við minnumst fæðingar barnsins í Betlehem á þessari sérstöku jólahátíð, megum við þá ætíð minnast þess að Jesús Kristur kom í heiminn til að vera frelsari okkar og lausnari.

María og Jósef með Jesúbarninu

Jólasagan, eftir Sharlotte Andrus

Pétur postuli og spámennirnir Jakob og Moróní í Mormónsbók leggja áherslu á andlega vonargjöf í Kristi á svipaðan upplýsandi hátt.

Pétur sagði til dæmis: „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum“ (1. Pétursbréf 1:3; breytt letur hér ). Gætið vinsamlega að því að orðið „lifandi“ er notað til að lýsa „von.“

Jakob sagði: „Ástkæru bræður, leitið þess vegna sátta hans fyrir friðþægingu Krists, hans eingetna sonar, og þá verður upprisan yðar, samkvæmt þeim krafti upprisunnar, sem býr í Kristi, og þér verðið kynntir fyrir Guði, sem frumgróði Krists, þar eð þér eigið trú og hafið góða von um að vegsamast í honum, áður en hann birtist í holdinu“ (Jakob 4:11; breytt letur hér). Gætið vinsamlega að því að orðið „góða“ er notað til að tákna „von.“

Og Moróni sagði: „Og ég minnist þess einnig, að þú sagðist hafa búið manninum bústað, já, jafnvel í híbýlum föður þíns, sem gæfi manninum glæstari von. Þess vegna verður maðurinn að vona, ella getur hann ekki erft þann stað, sem þú hefur fyrirbúið“ (Eter 12:32; breytt letur hér). Gætið vinsamlega að því að orðið „glæstari“ er notað til að lýsa „von.“

Hvað er von í Kristi?

Hin andlega vonargjöf í Kristi er gleðileg eftirvænting eftir eilífu lífi fyrir „verðleika, miskunn og náð heilags Messíasar“ (2. Nefí 2:8) og sterk þrá eftir hinum fyrirheitnu blessunum réttlætisins. Lýsingarorðin „lifandi“ „góða“ og „glæstari“ í þessum versum, gefa í skyn sívaxandi og lifandi fullvissu um upprisuna og eilíft líf fyrir trú á Jesú Krist.

Spámaðurinn Mormón útskýrði:

„Og enn fremur, ástkæru bræður mínir, vil ég ræða við yður um von. Hvernig getið þér eignast trú án þess að eiga von?

Og í hverju skal von yðar fólgin? Sjá, ég segi yður, að þér skuluð eiga von fyrir friðþægingu Krists og kraft upprisu hans, að vera reistir til eilífs lífs, og það vegna trúar yðar á hann, í samræmi við fyrirheitið.

Eigi maðurinn því trú, hlýtur hann að eiga von, því að án trúar er enga von að hafa“ (Moróni 7:40–42).

Sæluáætlun föðurins

Von á Krist, sem er lifandi, góð og glæst, hefst með vitneskjunni um að Guð hinn eilífi faðir lifir. Hann er Guð okkar og við erum andabörn hans. Við erum bókstaflega andasynir og dætur Guðs og höfum erft frá honum guðlega eiginleika.

Faðirinn er höfundur sæluáætlunarinnar (sjá Abraham 3:22–28). Sem andasynir og dætur Guðs samþykktum við „áætlun hans, en samkvæmt henni gátu börn hans hlotið efnislíkama og öðlast jarðneska reynslu til að þróast í átt að fullkomnun og að lokum gera að veruleika guðleg örlög sín sem erfingjar eilífs lífs.“ Í ritningunum lærum við: „Faðirinn hefur líkama af holdi og beinum, jafn áþreifanlegan og mannslíkaminn er, sonurinn einnig“ (Kenning og sáttmálar 130:22). Það er því nauðsynlegt að hljóta efnislíkama í þróunarferlinu að guðlegum örlögum okkar.

Við erum tvíþættar verur. Andi okkar, hinn eilífi hluti okkar, er íklæddur efnislíkama sem er háður þrám og löngunum jarðlífsins. Hamingjuáætlun föðurins er hönnuð til að veita börnum hans leiðsögn, til að hjálpa þeim að snúa örugg heim til hans með upprisna upphafna líkama og til að meðtaka blessanir eilífrar gleði og hamingju.

María með Jesúbarnið

Barnið Kristur, eftir Sharlotte Andrus

Endurleysandi hlutverk Jesú Krists í áætlun föðurins

Jesús Kristur er eingetinn sonur Guðs, hins eilífa föður. Hann kom í heiminn til að gera vilja föður síns (sjá 3. Nefí 27:13). Jesús Kristur er hinn smurði föðurins til að vera persónulegur fulltrúi hans í öllu er lýtur að sáluhjálp mannkyns. Hann er frelsari okkar og lausnari, því hann sigraði bæði dauða og synd.

Alma spáði fyrir fólki Gídeons um frelsunarverk Messíasar:

„Og hann mun ganga fram og þola alls kyns sársauka, þrengingar og freistingar. Og svo mun verða, til að orðið megi rætast, sem segir, að hann muni taka á sig sársauka og sjúkdóma fólks síns.

Og hann mun líða dauða til að leysa helsi dauðans, sem fjötrar fólk hans. Og hann mun kynnast vanmætti þess, svo að hjarta hans fyllist miskunn samkvæmt holdinu, svo að hann megi vita í holdinu, hvernig fólki hans verður best liðsinnt í vanmætti þess.

Nú veit andinn alla hluti, en samt þjáist sonur Guðs að hætti holdsins til að geta tekið á sig syndir fólks síns og þurrkað út lögmálsbrot þess í krafti frelsunarverks síns” (Alma 7:11–13).

Fyrsta frumregla fagnaðarerindisins er trú á Drottin Jesú Krist. Sönn trú einblínir á frelsarann og gerir okkur kleift að treysta á hann og hafa fullkomið traust á mætti hans til að frelsa okkur frá dauða, hreinsa okkur af synd og blessa okkur með styrk umfram okkar eigin.

Moróní vitnaði og sagði: „Og vegna endurlausnar mannsins, sem kom með Jesú Kristi, eru þeir leiddir aftur í návist Drottins. Já, í því felst endurlausn allra manna, vegna þess að dauði Krists gjörir upprisuna mögulega, sem aftur gjörir endurlausnina úr óendanlegum svefni mögulega, þeim svefni, er allir menn verða vaktir af, með krafti Guðs, þegar básúnan gellur. Og þeir munu koma fram, bæði smáir og stórir, og allir skulu þeir standa frammi fyrir dómgrindum hans, endurleystir og frjálsir úr eilífum fjötrum dauðans, þess dauða, sem er stundlegur dauði“ (Mormón 9:13).

Ég ber vitni um að frelsarinn rauf helsi dauðans. Hann reis upp, hann lifir og hann er eina uppspretta lifandi, góðrar og glæstrar vonar.

Akkeri sálarinnar

Spámaðurinn Eter sagði: „Sá, sem tryði á Guð, gæti því með vissu vonast eftir betri heimi, já, jafnvel samastaðar til hægri handar Guði, en sú von sprettur af trú og er sálum mannanna sem akkeri, er gjörir þá örugga og trúfasta og ætíð ríka af góðum verkum, Guði til dýrðar“ (Eter 12:4; breytt letur hér).

Þegar við minnumst fæðingar barnsins í Betlehem á þessari sérstöku jólahátíð, megum við þá ætíð minnast þess að Jesús Kristur kom í heiminn til að vera frelsari okkar og lausnari. Hann býður okkur hinar ómetanlegu andlegu gjafir lífsins, ljós, endurnýjun, kærleika, frið, yfirsýn, gleði og von.

Ég býð ykkur að leita réttilega að hinni andlegu vonargjöf í frelsaranum, með því að læra kenningar og vitnisburði spámanna fyrr og síðar varðandi friðþægingarfórn hans og bókstaflega upprisu. Er þið gerið það, lofa ég að vitnisburður ykkar um guðleika lausnarans mun styrkjast, að trúarsannfæring ykkar verður dýpri, þrá ykkar og staðfesta um að vera hugdjarft vitni um hann mun aukast og þið verðið blessuð með akkeri sálar ykkar – já, lifandi, góðri og glæstri von.

Ég ber gleðilega vitni, ásamt postulunum sem hafa gefið vitnisburð um hann um aldir, um að Jesús Kristur er lifandi sonur hins lifanda Guðs. Hann er upprisinn lausnari okkar, með dýrðlegan og áþreifanlegan líkama af holdi og beinum. Og vegna endurlausnar og sáttagjörðar við Guð, sem Drottinn gerir öllum mönnum möguleg, getum við hlotið hina andlegu fullvissu, þá lifandi, góðu og glæstu von að „allir [munu] lífgaðir verða vegna sambands síns við Krist“ (1. Korintubréf 15:22).

Heimildir

  1. Fjölskyldan: Yfirlýsing til heimsins,“ Gospel Library.