Kom, fylg mér 2024
10.–16. júní: „Hefur þessi gjörbreyting orðið í hjörtum yðar?“ Alma 5–7


„10.–16. júní: ‚Hefur þessi gjörbreyting orðið í hjörtum yðar?‘ Alma 5–7,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: Mormónsbók 2024 (2024)

„10.–16. júní. Alma 5–7,“ Kom, fylg mér – Fyrir heimili og kirkju: 2024 (2024)

Ljósmynd
Alma yngri kennir Sóramítum

Alma yngri kennir Sóramítum

10.–16. júní: „Hefur þessi gjörbreyting orðið í hjörtum yðar?“

Alma 5–7

Alma vissi ekki um hinar lífgefandi skurðaðgerðir hjartaígræðslna, þar sem heilbrigt hjarta er sett í stað skemmds eða sjúks hjarta. Hann vissi þó um hina undursamlegu „[umbreytingu í hjarta]“ (Alma 5:26) – sem á sér stað þegar frelsarinn gefur okkur nýtt andlegt líf, líkt og að „fæðast andlega“ (sjá Alma 5:14, 49). Alma fékk séð að margir Nefítanna höfðu einmitt þörf fyrir þessa breytingu hjartans. Sumir voru ríkir og aðrir fátækir, sumir drambsamir og aðrir auðmjúkir, sumir ofsækjendur og aðrir sættu ofsóknum (sjá Alma 4:6–15). Allir þurftu þeir þó að koma til Jesú Krists, til að læknast – rétt eins og við öll þurfum. Hvort sem við reynum að sigrast á drambi eða komast í gegnum hörmungar, þá er boðskapur Alma sá sami: „Komið og óttist ekki“ (Alma 7:15). Látið frelsarann breyta hörðu, syndugu og særðu hjarta og gera það auðmjúkt, hreint og nýtt.

Hugmyndir fyrir nám á heimili eða í kirkju

Alma 5:14–33

Ég þarf að upplifa – og halda áfram að upplifa – gjörbreytingu í hjarta.

M. Russell Ballard forseti sagði: „Ég [þarf] að spyrja sjálfan mig reglubundið: ‚Hvernig er ég að standa mig?‘ … Þegar ég sjálfur fer í slíka naflaskoðun, finnst mér gott að lesa og ígrunda hin áminnandi orð í fimmta kapítula Alma“ („Endurkoma og endurgjald,“ aðalráðstefna, apríl 2017).

Íhugið að lesa Alma 5:14–33, líkt og þið væruð að eiga viðtal við ykkur sjálf og að skoða eigið hjarta. Þið gætuð viljað skrá viðbrögð ykkar við þessum spurningum. Hvað lærið þið um sjálf ykkur? Hvað finnst ykkur þið knúin til að gera eftir viðtalið?

Sjá einnig Dale G. Renlund, „Að varðveita gjörbreytingu hjartans,“ aðalráðstefna, október 2009.

Ljósmynd
stúlka við rúm að biðjast fyrir

Þegar við snúum okkur til Guðs getum við upplifað „gjörbreytingu hjartans.“

Alma 5:44–51

Ég get hlotið eigin vitnisburð um frelsarann og kenningar hans með heilögum anda.

Í Alma 5, þar sem Alma útskýrir hvernig hann hlaut vitnisburð sinn um frelsarann, minnist hann ekki á þá upplifun sína að hafa séð engil (sjá Mósía 27:10–17). Hvernig komst Alma að sannleikanum fyrir sig sjálfan? Þið gætuð ef til vill notað það sem þið finnið í Alma 5:44–51 til að skrifa „uppskrift“ að því að öðlast vitnisburð um Jesú Krist og kenningar hans. Hvaða „hráefni“ (sannleika fagnaðarerindisins) og „leiðbeiningar“ (það sem við getum gert til að leita að sannleika) hafði Alma með? Hvaða „hráefni“ og „leiðbeiningum“ gætuð þið bætt við uppskriftina ykkar sem tengjast upplifunum ykkar sjálfra eða einhverra í ritningunum?

Alma 7

„Því að ég sé, að þér eruð á vegum réttlætisins.“

Stundum erum við eins og fólkið í Sarahemla, sem kalla þurfti til iðrunar (sjá Alma 5:32). Á öðrum tímum erum við eins og fólkið í Gídeon, sem reyndi að ganga „á vegum réttlætisins“ (Alma 7:19). Hvað finnið þið í boðskap Alma í Gídeon (í Alma 7) sem svipar til þess sem hann sagði í Sarahemla (í Alma 5)? Hver er munurinn þar á milli? Gætið að því sem Alma kenndi sem getur hjálpað ykkur að vera „á þeim vegi, sem liggur til Guðs ríkis“ (Alma 7:19).

Alma 7:7–16

Ljósmynd
trúarskólatákn
Frelsarinn tók á sig syndir mínar, sársauka og sorgir.

Hefur ykkur einhvern tíma fundist enginn skilja erfiðleika ykkar og áskoranir? Ef svo er, þá getur sannleikurinn sem Alma kenndi hjálpað. Þegar þið lesið, hugleiðið þá hvað þessi vers kenna um tilgang fórnar frelsarans. Þið gætuð búið til töflu með fyrirsögninni Það sem frelsarinn þoldi og Af hverju hann þoldi það og skráð það sem þið finnið í Alma 7:7–16 (sjá einnig Jesaja 53:3–5). Getið þið hugsað um ákveðinn tíma sem hann þoldi eitthvað af þessu? Hér eru nokkur dæmi í ritningunum: Matteus 4:1–13; 26:55–56; 27:39–44; Markús 14:43–46; Lúkas 9:58. Getið þið bætt einhverju við það sem þið skráðuð úr þessum versum?

Eitt er að trúa því að frelsarinn þjáðist fyrir ykkur. En hvernig hafa þjáningar hans gert gæfumun í daglegu lífi ykkar? Hér eru nokkur ritningarvers sem sýna hvernig Jesús Kristur getur hjálpað eða „liðsinnt“ ykkur: Enos 1:5–6; Mósía 16:7–8; 21:15; 24:14–15; 3. Nefí 17:6–7; Eter 12:27–29; Kenning og sáttmálar 121:7–10. Hvað lærðuð þið af þessum versum? Á hvaða annan hátt kemur hann ykkur til hjálpar? Hvenær hafið þið upplifað hjálp hans?

Sálmur eins og „Ver hjá mér hverja stund“ eða „Ég veit minn lifir lausnarinn“ (Sálmar, nr. 31 og 36) gætu aukið þakklæti ykkar fyrir liðsinni frelsarans. Hvaða orðtök í þessum sálmum tjá tilfinningar ykkar til hans?

Sjá einnig Leiðarvísi að ritningunum, „Friðþæging Jesú Krists,“ Gospel Library; „His Grace“ (myndbandasafn), Gospel Library.

Vitnið um Jesú Krist. Íhugið hvernig þið getið gefið vitnisburð ykkar um frelsarann og guðleika hans, náð og kærleika. Þið gætuð hvatt fólkið sem þið kennið til að bera vitni um frelsarann með því að spyrja spurninga sem hvetja það til að segja frá tilfinningum sínum til hans.

Sjá útgáfur þessa mánaðar af tímaritunum Líahóna og Til styrktar ungmennum til að fá fleiri hugmyndir.

Hugmyndir fyrir kennslu barna

Alma 5:44–48

Ég get hlotið eigin vitnisburð með heilögum anda.

  • Til að hjálpa börnum ykkar að læra að leggja rækt við eigin vitnisburð, gætuð þið sýnt þeim myndina að neðan og spurt þau að því hvernig við hjálpum ungum dýrum að vaxa. Þið gætuð síðan tengt þetta við að leggja rækt við vitnisburð okkar. Hvernig á að rækta eigin vitnisburð? Hvernig getum við vitað hvort hann fari vaxandi?

    Ljósmynd
    tveir drengir með ungt dýr

    Þegar við meðtökum fagnaðarerindið, er það eins og að hefja nýtt líf.

  • Hvernig hlaut Alma sinn sterka vitnisburð um Jesú Krist? Þið gætuð lesið Alma 5:44–46 með börnum ykkar til að finna svör við þessari spurningu. Börn ykkar gætu ef til vill skrifað áætlun til að gera eitthvað eitt í þessari viku til að styrkja vitnisburð sinn.

Alma 7:10–13

Frelsarinn tók á sig syndir mínar, sársauka og sorgir.

  • Hvernig getið þið hjálpað börnum ykkar að skilja Alma 7:10–13, svo þau geti vitað að Jesús Kristur ber umhyggju fyrir þeim og getur hjálpað þeim? Þið gætuð ef til vill beðið þau að deila upplifun þar sem þau voru lasin eða fundu fyrir sársauka eða áttu í öðrum vanda sem gerði þau sorgmædd. Hvernig hjálpuðu aðrir þeim að líða betur? Gefið vitnisburð ykkar um að frelsarinn hafi líka upplifað þetta og ræðið um það þegar hann huggaði og hjálpaði ykkur.

  • Þegar þið og börnin ykkar lesið Alma 7:11–13, gætið þá að því sem Jesús Kristur leið fyrir okkur. Bjóðið börnum ykkar að nota orð og orðtök sem þau fundu til að ljúka þessari setningu: „Jesús þoldi svo hann gæti hjálpað mér.“ Hvernig hjálpar það okkur að vita að Jesús skilur erfiðleika okkar? Hvernig hljótum við hjálp hans? Gefið vitnisburð ykkar um fagnaðarerindi Jesú Krists.

Alma 5:14; 7:19–20

Að fylgja Jesú Kristi, heldur mér á hinum krappa vegi sem leiðir mig til himnesks föður.

  • Látið börn ykkar horfa í spegil þegar þið lesið Alma 5:14 (sjá einnig verkefnasíðu þessarar viku). Hver er merking þess að hafa frelsarann greyptan í svip okkar?

  • Hvernig getið þið notað lýsingu Alma á veginum sem liggur aftur til himnesks föður til að hjálpa börnum ykkar að læra að taka góðar ákvarðanir? Þið gætuð lesið Alma 7:19–20 fyrir þau og látið þau leika það að ganga „krókaleiðir“ og ganga beina braut. Hjálpið þeim að hugsa um valkosti sem gera okkur mögulegt að dvelja á veginum og aðra sem leiða okkur afvega. Þið gætuð líka horft saman á mynd af Jesú Kristi og rætt um það sem hann gerði til að sýna okkur veginn sem leiðir okkur aftur til himnesks föður. Söngur eins og „Mig langar að líkjast Jesú“ (Barnasöngbókin, 40) gæti vakið einhverjar hugmyndir.

Sjá útgáfu þessa mánaðar af tímaritinu Barnavinur til að fá fleiri hugmyndir.

Ljósmynd
Jesús í rauðum kirtli

Málsvari okkar, eftir Jay Bryant Ward

Prenta