Ritningar
3 Nefí 1


Þriðji Nefí

Bók Nefís
Sonar Nefís, sem var sonur Helamans

Og Helaman var sonur Helamans, sem var sonur Alma, sem var sonur Alma, en hann var afkomandi Nefís, sem var sonur Lehís, sem kom frá Jerúsalem á fyrsta valdaári Sedekía, konungs Júda.

1. Kapítuli

Nefí, sonur Helamans, hverfur burt úr landinu og sonur hans, Nefí, sér um heimildaskrárnar — Þótt tákn og undur gerist, ráðgera hinir ranglátu að drepa hina réttlátu — Nótt fæðingar Krists rennur upp — Táknið gefið og ný stjarna rís — Lygar og blekkingar aukast og Gadíanton ræningjarnir drepa marga. Um 1–4 e.Kr.

1 Nú bar svo við, að nítugasta og fyrsta árið var liðið og liðin voru sex hundruð ár frá því að Lehí yfirgaf Jerúsalem. Og það ár var Lakóneus yfirdómari og stjórnandi landsins.

2 Og Nefí, sonur Helamans, hafði horfið burt úr Sarahemlalandi og falið elsta syni sínum, Nefí, umsjón með látúnstöflunum og öllum þeim heimildum, sem skráðar höfðu verið, og öllu því helga, sem varðveitt hafði verið frá því að Lehí yfirgaf Jerúsalem.

3 Síðan hvarf hann úr landinu, en hvert hann fór, veit enginn maður. En sonur hans, Nefí, varðveitti heimildirnar í hans stað, já, heimildir þessarar þjóðar.

4 Og svo bar við, að í byrjun nítugasta og annars árs, sjá, þá tóku spádómar spámannanna að koma betur fram, því að stærri tákn og undur urðu meðal þjóðarinnar.

5 En sumir tóku að segja, að tíminn væri liðinn, þegar orðin, sem Lamanítinn Samúel mælti, skyldu uppfyllast.

6 Og hlakka tók í þeim gagnvart bræðrum sínum, og þeir sögðu: Sjá. Tíminn er liðinn og orð Samúels hafa ekki uppfyllst. Gleði ykkar yfir þessu og trú ykkar á það hefur þess vegna verið fánýt.

7 Og svo bar við, að þeir ollu miklu uppnámi um allt landið. En hinir trúuðu urðu áhyggjufullir, ef svo kynni að fara, að það, sem talað hafði verið um, yrði ekki að veruleika.

8 En sjá. Staðfastir væntu þeir þess dags og þeirrar nætur og þess dags, sem verða skyldu sem einn dagur án nokkurrar nætur, er þeir fengju að vita, að trú þeirra hefði ekki verið til einskis.

9 Nú bar svo við, að trúleysingjarnir tiltóku ákveðinn dag, er allir þeir, sem trúðu þessum arfsögnum, skyldu teknir af lífi, ef táknin, sem spámaðurinn Samúel talaði um, kæmu ekki fram.

10 Nú bar svo við, að þegar Nefí, sonur Nefís, sá ranglæti þjóðar sinnar, hryggðist hann mjög.

11 Og svo bar við, að hann gekk út, laut niður að jörðu og hrópaði kröftuglega til Guðs síns vegna fólks síns, já, vegna þeirra, sem tortíma átti vegna trúar sinnar á erfikenningar feðra sinna.

12 Og svo bar við, að hann ákallaði Drottin heitt allan þann dag. Og sjá. Rödd Drottins barst honum og sagði:

13 Lyft höfði þínu og ver vonglaður, því að sjá. Tíminn er í nánd og í nótt verður táknið gefið, og á degi komanda kem ég í heiminn til að sýna heiminum, að ég mun uppfylla allt það, sem ég hef talað um fyrir munn minna heilögu spámanna.

14 Sjá. Ég kem til minna eigin til að uppfylla allt, sem ég hef kunngjört mannanna börnum frá grundvöllun veraldar, og til að gjöra bæði vilja föðurins og sonarins — föðurins sjálfs mín vegna, en sonarins vegna holds míns. Og sjá. Tíminn er í nánd, og þessa nótt munu táknin gefin.

15 Og svo bar við, að orðin, sem Nefí bárust, komu fram eins og þau voru sögð. Því að sjá. Við sólsetur varð ekkert myrkur, og fólkið varð forviða, vegna þess að albjart var, þegar nótt féll á.

16 Og margir voru þeir, sem ekki höfðu trúað orðum spámannanna, er féllu til jarðar sem dauðir væru, því að þeir vissu, að hin mikla áætlun þeirra um að tortíma þeim, sem trúðu orðum spámannanna, var að engu gjörð. Því að táknið sem gefið hafði verið var þegar komið fram.

17 Og þeir tóku að gjöra sér ljóst, að Guðssonurinn hlyti brátt að birtast. Já, svo fór, að allt fólkið á gjörvöllu yfirborði jarðar frá vestri til austurs, bæði í landinu í norðri og í landinu í suðri, varð svo agndofa, að það féll til jarðar.

18 Því að það vissi, að spámennirnir höfðu borið þessu vitni í mörg ár og að táknin, sem gefin höfðu verið, voru nú þegar komin fram. Og það tók að skelfast vegna misgjörða sinna og vantrúar.

19 Og svo bar við, að ekkert myrkur féll á þessa nótt, heldur var albjart sem um miðjan dag. Og svo bar við, að sólin reis upp að morgni á ný í samræmi við sinn rétta gang. Og vegna táknanna, sem gefin höfðu verið, vissu þau að þetta var fæðingardagur Drottins.

20 Og allt hafði komið fram í samræmi við orð spámannanna, já, hvert smáatriði.

21 Og svo bar einnig við, að ný stjarna birtist í samræmi við orðið.

22 Og svo bar við, að eftir þetta tók Satan að breiða út lygar meðal fólksins til að herða hjörtu þess og fá það til að trúa ekki þeim táknum og undrum, sem það hafði séð. En þrátt fyrir þessar lygar og blekkingar trúðu flestir og sneru til Drottins.

23 Og svo bar við, að Nefí fór um á meðal fólksins ásamt mörgum öðrum og skírði iðrunarskírn og mikil syndafyrirgefning var því samfara. Og þannig öðlaðist fólkið aftur frið í landinu.

24 Og engar erjur urðu, nema fáeinir tóku að prédika og reyna að sanna eftir ritningunni, að ekki væri lengur nauðsynlegt að virða lögmál Móse. En þar skjátlaðist þeim, þar eð þeir skildu ekki ritningarnar.

25 En svo bar við, að þeir snerust brátt til trúar og sannfærðust um villu sína, því að þeim var gjört ljóst, að lögmálið var enn ekki uppfyllt og að sérhvert smáatriði þess yrði að uppfyllast. Já, þeim var sagt, að það yrði að uppfyllast og að ekki mundi einn smástafur né stafkrókur undir lok líða, uns allt væri komið fram. Þess vegna voru þeir þetta sama ár fræddir um villu sína og játuðu mistök sín.

26 Og þannig leið nítugasta og annað árið og flutti þjóðinni gleðitíðindi vegna táknanna, sem fram komu í samræmi við spádómsorð allra hinna heilögu spámanna.

27 Og svo bar við, að nítugasta og þriðja árið leið einnig í friði, ef undan er skilinn ófriður vegna Gadíantonræningjanna, sem héldu til í fjöllunum og herjuðu á landið. Því að svo sterk voru vígi þeirra og svo góðir felustaðir þeirra, að ekki reyndist unnt að vinna bug á þeim. Þeir frömdu þess vegna mörg morð og stóðu að miklum manndrápum meðal fólksins.

28 Og svo bar við, að á nítugasta og fjórða ári fjölgaði þeim verulega, vegna þess að margir fráhverfingar meðal Nefíta flúðu til þeirra, og olli það Nefítum, sem eftir voru í landinu, mikilli hryggð.

29 Og Lamanítar höfðu einnig ástæðu til að hryggjast. Því að sjá. Mörg börn þeirra, sem uxu upp til þroska og sjálfstæðis, létu blekkjast af lygum og fagurgala Sóramíta og gengu í lið með þessum Gadíantonræningjum.

30 Og þannig þrengdi einnig að Lamanítum, og trú þeirra og réttlæti minnkaði vegna ranglætis uppvaxandi kynslóðar.