23. Kapítuli
Jesús rómar orð Jesaja — Hann býður fólkinu að kynna sér spámennina — Orðum Lamanítans Samúels um upprisuna er bætt við heimildir þeirra. Um 34 e.Kr.
1 Og sjá. Ég segi yður, að þér ættuð að kanna þessa hluti. Já, ég gef yður fyrirmæli um að kanna þetta af kostgæfni, því að mikil eru orð Jesaja.
2 Því að vissulega talaði hann um allt, er varðaði þjóð mína, sem er af Ísraelsætt. Því hlýtur hann einnig að verða að tala til Þjóðanna.
3 Og allt, sem hann mælti, hefur gerst og mun gerast, já, í samræmi við orð hans.
4 Gefið því gaum að orðum mínum. Skráið það, sem ég hef sagt yður, og þegar faðirinn vill, mun það berast Þjóðunum.
5 Og hver sá, sem hlýða vill orðum mínum og iðrast og lætur skírast, sá hinn sami mun frelsast. Kannið spámennina, því að þeir eru margir, sem um þetta vitna.
6 Og nú bar svo við, að þegar Jesús hafði mælt þessi orð, hélt hann áfram og sagði við þá, eftir að hann hafði útlagt fyrir þeim allar þær ritningar, sem þeir höfðu móttekið: Sjá, ég vil, að þér skráið aðrar ritningar, sem þér hafið ekki.
7 Og svo bar við, að hann sagði við Nefí: Fær þú mér heimildirnar, sem þú hefur haldið.
8 Og þegar Nefí hafði fært honum heimildirnar og lagt þær fyrir hann, leit hann á þær og sagði:
9 Sannlega segi ég yður, að ég bauð þjóni mínum, Lamanítanum Samúel, að vitna fyrir þessari þjóð, að þann dag, er faðirinn mundi dýrðlegt gjöra nafn sitt í mér, þá mundu margir heilagir rísa upp frá dauðum og birtast mörgum og þjóna þeim. Og hann spurði: Var það ekki svo?
10 Og lærisveinarnir svöruðu honum og sögðu: Jú, Drottinn, Samúel spáði í samræmi við orð þín, og þau hafa öll komið fram.
11 Og Jesús spurði þá: Hvers vegna hafið þér ekki fært það í letur, að margir heilagir risu upp og birtust mörgum og þjónuðu þeim?
12 Og svo bar við, að Nefí minntist þess, að þetta hafði ekki verið fært í letur.
13 Og svo bar við, að Jesús bauð þeim að færa það í letur. Þess vegna var það skráð, eins og hann bauð.
14 Og nú bar svo við, að þegar Jesús hafði útlagt allar ritningarnar í einu, sem letraðar höfðu verið, bauð hann þeim að kenna það, sem hann hafði útlagt fyrir þá.