3. Kapítuli
Giddíaní, foringi Gadíantonræningjanna, krefst þess að Lakóneus og Nefítar gefist upp og láti lönd sín af hendi — Lakóneus gjörir Gídgiddóní að yfirhershöfðingja — Nefítar safnast saman í Sarahemla og Nægtarbrunni, ákveðnir í að verjast. Um 16–18 e.Kr.
1 Og nú bar svo við, að á sextánda ári frá komu Krists fékk Lakóneus, stjórnandi landsins, bréf frá leiðtoga og stjórnanda ræningjaflokksins. En þetta eru orðin, sem rituð voru og sögðu:
2 Háttvirtur Lakóneus, yfirstjórnandi landsins. Sjá, ég rita þér þetta bréf og lofa þig hástöfum vegna festu þinnar og festu þjóðar þinnar við að varðveita það, sem þið teljið rétt ykkar og lýðfrelsi. Já, þið standið ykkur vel, líkt og hönd einhvers guðs styðji ykkur til verndar lýðfrelsi ykkar, eigum ykkar og landi ykkar eða því, sem þið kallið svo.
3 En mér þykir leitt, göfugi Lakóneus, að þið skulið vera svo heimskir og auðtrúa að telja, að þið getið staðið gegn jafn mörgum hraustum mönnum og undir stjórn minni eru, sem nú á þessari stundu standa vopnum búnir og bíða með eftirvæntingu eftir þessu boði: Farið gegn Nefítum og tortímið þeim.
4 Og ég þekki ósigrandi anda þeirra eftir að hafa reynt þá á orrustuvellinum og þekki ævarandi hatur þeirra á ykkur vegna alls þess ranglætis, sem þið hafið gjört þeim. Ef þeir þess vegna réðust gegn ykkur, yrði það ykkur til algjörrar tortímingar.
5 Þess vegna hef ég ritað þetta bréf og innsiglað það með eigin hendi með velferð ykkar í huga vegna staðfestu ykkar við það, sem þið trúið, að rétt sé, og vegna göfugmennsku ykkar á vígvellinum.
6 Þess vegna rita ég ykkur og beiðist þess, að þið látið fólki mínu eftir borgir ykkar, lönd og eigur, frekar en að það vitji ykkar með sverði og tortíming komi yfir ykkur.
7 Eða með öðrum orðum: Gefist upp fyrir okkur, sameinist okkur, kynnist leyniverkum okkar og verðið bræður okkar, svo að þið verðið sem við — ekki þrælar okkar, heldur bræður okkar og meðeigendur að öllum eigum okkar.
8 Og sjá. Ég sver þess eið, að ef þið gjörið þetta, skal ykkur ekki tortímt. En ef þið viljið ekki gjöra þetta, þá sver ég þess eið, að í komandi mánuði mun ég senda heri mína gegn ykkur, og þeir munu hvorki halda að sér höndum né hlífa ykkur, heldur drepa ykkur og láta sverðið falla yfir ykkur, þar til ykkur er útrýmt.
9 Og sjá. Ég er Giddíaní, og ég er foringi þessa leynifélags Gadíantons. Og ég veit, að þetta félag og verk þess eru góð, og þau eru frá löngu liðnum tímum og hafa gengið áfram til okkar.
10 Og ég rita þér þetta bréf, Lakóneus, og vona, að þið afhendið lönd ykkar og eigur án blóðsúthellinga, svo að fólk mitt, sem horfið hefur frá ykkur vegna þessa ranglætis ykkar, að neita því um rétt sinn til stjórnunar, megi endurheimta rétt sinn og stjórn. Og ef þið gjörið þetta eigi, mun ég hefna þess óréttar, sem það var beitt. Ég er Giddíaní.
11 Og svo bar við, að þegar Lakóneus fékk þetta bréf, varð hann mjög undrandi yfir dirfsku Giddíanís, er hann krafðist eignarréttar yfir landi Nefíta og ógnaði fólkinu með hefnd vegna óréttar, sem þeir höfðu aldrei verið beittir, nema þá þess óréttar, sem þeir höfðu beitt sjálfa sig með því að hverfa burt til þessara ranglátu og viðurstyggilegu ræningja.
12 Sjá nú. Lakóneus, stjórnandinn, var réttvís maður og lét ekki hræðast af kröfum og hótunum ræningja. Þess vegna tók hann ekki mark á bréfi Giddíanís, foringja ræningjanna, heldur lét hann fólk sitt ákalla Drottin og biðja um styrk á þeim tíma, er ræningjarnir réðust gegn þeim.
13 Já, hann lét boð út ganga meðal alls fólksins, að það skyldi safna saman á einn stað konum sínum, börnum, búpeningi og öllum eigum að undanskildu landi sínu.
14 Og hann lét byggja vígi umhverfis þá, sem vera skyldu sérlega öflug. Og hann lét bæði heri Nefíta og Lamaníta, eða heri allra þeirra, sem töldust með Nefítum, vera á verði umhverfis til að vaka yfir þeim og vernda fyrir ræningjum bæði dag og nótt.
15 Já, hann mælti til þeirra: Svo sannarlega sem Drottinn lifir, munuð þér því aðeins bjargast úr höndum Gadíantonræningjanna, að þér iðrist misgjörða yðar og ákallið Drottin.
16 Og svo sterk og undursamleg voru orð og spádómar Lakóneusar, að ótta sló á alla, og þeir reyndu af öllum mætti að breyta eftir orðum Lakóneusar.
17 Og svo bar við, að Lakóneus tilnefndi herforingja yfir alla heri Nefíta til að stjórna þeim, þegar ræningjarnir kæmu niður úr óbyggðunum gegn þeim.
18 Æðstur allra herforingjanna eða hershöfðingi Nefíta var tilnefndur, og var nafn hans Gídgiddóní.
19 Nú var það siður meðal Nefíta að tilnefna sem hershöfðingja sinn (nema á tímum ranglætis) einhvern þann, sem gæddur var anda opinberunar og einnig spádóms. Þess vegna var nefndur Gídgiddóní mikill spámaður meðal þeirra, eins og einnig yfirdómarinn.
20 Fólkið sagði við Gídgiddóní: Bið til Drottins, og síðan skulum við halda til fjalla og út í óbyggðirnar, svo að við getum ráðist gegn ræningjunum og eytt þeim í þeirra eigin landi.
21 En Gídgiddóní sagði við fólkið: Drottinn bannar það. Því að ef við förum gegn þeim, mun Drottinn selja okkur þeim í hendur. Þess vegna munum við undirbúa okkur mitt í löndum okkar og safna saman öllum herjum okkar, og við förum ekki gegn þeim, heldur bíðum, þar til þeir koma gegn okkur. Og svo sannarlega sem Drottinn lifir, mun hann selja þá í hendur okkar, ef við gjörum þetta.
22 Og svo bar við, að á síðari hluta sautjánda ársins hafði tilkynning Lakóneusar borist um allt landið, og fólkið hafði tekið hesta sína og vagna, nautgripi sína og allar hjarðir sínar og búpening, korn sitt og allar eigur sínar og farið í þúsundatali og tugþúsundatali, þar til það var allt komið til þess staðar, þar sem því hafði verið sagt að safnast saman til að verja sig gegn óvinum sínum.
23 Og landið, sem tiltekið var, var Sarahemlaland og landið sem var á milli lands Sarahemla og lands Nægtarbrunns, já, það náði að mörkum Nægtarbrunns og Auðnarinnar.
24 Og margar þúsundir þeirra manna, sem nefndust Nefítar, söfnuðust saman á þessu landi. Lakóneus lét fólkið safnast saman í landinu í suðri vegna þeirrar miklu bölvunar, sem hvíldi á landinu í norðri.
25 Og það víggirti sig gegn óvinum sínum, og það dvaldi í einu landi og í einum hóp, og það óttaðist svo orðin, sem Lakóneus hafði mælt, að það iðraðist allra synda sinna. Og fólkið beindi bænum sínum til Drottins Guðs síns, um að hann varðveitti það, þegar óvinir þess kæmu gegn því til orrustu.
26 En fólkið var mjög dapurt vegna óvina sinna. Og Gídgiddóní lét það gjöra alls konar stríðsvopn, og það átti að eiga nóg af herklæðum, skjöldum og buklurum, af þeirri gerð, sem hann sagði fyrir um.