Ritningar
Alma 51


51. Kapítuli

Konungssinnar reyna að breyta lögunum og koma á konungsveldi — Þjóðin styður Pahóran og frelsissinna — Moróní neyðir konungssinna til að verja land sitt eða deyja ella — Amalikkía og Lamanítar ná mörgum víggirtum borgum á sitt vald — Teankúm hrindir innrás Lamaníta og drepur Amalikkía í tjaldi hans. Um 67–66 f.Kr.

1 En nú bar svo við í upphafi tuttugasta og fimmta stjórnarárs dómaranna yfir Nefíþjóðinni, að þeir höfðu komið á friði milli íbúa Lehís og Moríantons um lönd sín og höfðu hafið tuttugasta og fimmta stjórnarárið í friði —

2 Engu að síður hélst ekki lengi fullkominn friður í landinu, því að deilur hófust meðal manna um yfirdómarann Pahóran. Því að sjá. Hluti fólks óskaði eftir, að nokkrum ákveðnum lagagreinum yrði breytt.

3 En sjá. Pahóran vildi hvorki breyta lögunum né leyfa, að þeim væri breytt. Þess vegna hlustaði hann ekki á þá, sem sent höfðu beiðni um breytingar á lögunum.

4 Af þessum sökum voru þeir, sem vildu láta breyta lögunum, honum reiðir og vildu, að hann yrði ekki lengur yfirdómari landsins. Þess vegna reis upp djúpur ágreiningur um þetta mál, en þó kom ekki til blóðsúthellinga.

5 Og svo bar við, að þeir, sem koma vildu Pahóran úr valdastóli dómaraembættisins, nefndust konungssinnar, því að þeir vildu, að lögunum yrði breytt þannig, að hin frjálsa stjórn yrði afnumin og konungur settur yfir landið.

6 En þeir, sem vildu, að Pahóran yrði áfram dómari yfir landinu, tóku sér nafnið frelsissinnar, og þannig varð klofningur meðal þeirra, því að frelsissinnar höfðu unnið þess eið eða gjört sáttmála um að varðveita rétt sinn og réttindi trúar sinnar með frjálsri stjórn.

7 Og svo bar við, að rödd þjóðarinnar var látin jafna ágreining þeirra. Og svo bar við, að rödd þjóðarinnar reyndist hliðholl frelsissinnum, og Pahóran hélt dómarasætinu, en það vakti mikinn fögnuð meðal bræðra Pahórans og einnig meðal frelsissinna og þaggaði einnig niður í konungssinnum, svo að þeir þorðu ekki að mótmæla og neyddust til að styðja málstað lýðfrelsisins.

8 En þeir, sem aðhylltust konungsstjórn voru hinir aðalbornu, og þeir sóttust eftir að verða konungar. Og þeir voru studdir af þeim, sem sóttust eftir völdum og yfirráðum yfir fólkinu.

9 En sjá. Áhættusamt var fyrir Nefíþjóðina að eiga í slíkum innbyrðis deilum á þessum tíma, því að sjá, Amalikkía hafði enn á ný egnt hjörtu Lamaníta gegn Nefítum, og hann safnaði saman hermönnum úr öllu landi sínu og vopnaði þá og bjó þá undir styrjöld af mestu elju, því að hann hafði svarið þess eið, að hann skyldi drekka blóð Morónís.

10 En sjá. Við munum sjá, að þetta heit, sem hann gaf, var vanhugsað. Engu að síður bjó hann sig og heri sína undir orrustu gegn Nefítum.

11 En herir hans voru ekki eins fjölmennir og þeir höfðu verið fram að þessu vegna hinna mörgu þúsunda, sem Nefítar höfðu fellt. En þrátt fyrir hið mikla tap þeirra hafði Amalikkía safnað saman furðu miklum her, svo miklum, að hann óttaðist ekki að halda niður í Sarahemlaland.

12 Já, jafnvel Amalikkía sjálfur hélt þangað í fararbroddi Lamaníta. En þetta var á tuttugasta og fimmta stjórnarári dómaranna, og það var á sama tíma og þeir tóku að jafna ágreiningsmál sín varðandi yfirdómarann Pahóran.

13 Og svo bar við, að þegar mennirnir, sem nefndust konungssinnar, heyrðu, að Lamanítar væru að koma niður til að berjast gegn þeim, glöddust þeir í hjörtum sínum. Og þeir neituðu að taka upp vopn, því að þeir voru svo reiðir yfirdómara sínum og einnig frelsissinnum, að þeir vildu ekki taka upp vopn til að verja land sitt.

14 Og svo bar við, að þegar Moróní sá þetta og sá einnig, að Lamanítar voru að koma inn yfir landamæri landsins, varð hann ákaflega reiður vegna þrjósku þessa fólks, sem hann hafði lagt svo mikið á sig við að vernda. Já, hann varð ákaflega reiður, sál hans fylltist reiði gegn þeim.

15 Og svo bar við, að hann sendi bænaskrá með rödd þjóðarinnar til stjórnanda landsins og óskaði eftir því, að hann læsi hana og veitti sér (Moróní) vald til að neyða þessa fráhverfinga til að verja land sitt, eða taka þá af lífi ella.

16 Því að fyrsta hugsun hans var að binda enda á þess háttar deilur og ágreining meðal þjóðarinnar. Því að sjá. Slíkt hafði fram að þessu verið orsök allrar tortímingar þeirra. Og svo bar við, að það var heimilað samkvæmt rödd þjóðarinnar.

17 Og svo bar við, að Moróní skipaði her sínum að halda gegn konungssinnum til að lækka í þeim hrokann og ættardrambið og jafna þá við jörðu — eða þeir tækju að öðrum kosti upp vopn til stuðnings lýðfrelsinu.

18 Og svo bar við, að herirnir héldu fram gegn þeim. Og þeir lækkuðu hroka þeirra og ættardramb, þannig að þegar þeir lyftu stríðsvopnum sínum til að berjast gegn mönnum Morónís, voru þeir höggnir niður og jafnaðir við jörðu.

19 Og svo bar við, að fjögur þúsund þessara fráhverfinga voru höggnir niður með sverði. Og þeir af forsprökkum þeirra, sem ekki voru drepnir í bardaga, voru teknir og þeim varpað í fangelsi, því að enginn tími var fyrir réttarhöld yfir þeim á þessum tíma.

20 Og þeir, sem eftir voru af þessum fráhverfingum, beygðu sig fyrir frelsistákninu — frekar en að vera felldir til jarðar með sverði — og neyddust til að draga frelsistáknið að húni á turnum sínum og í borgum sínum og taka upp vopn til varnar landi sínu.

21 Og þannig batt Moróní enda á tilvist þessara konungssinna, svo að engir þekktust undir nafngiftinni konungssinni. Og þannig batt hann enda á þrjósku og hroka þeirra, sem þóttust hafa aðalsblóð í æðum. En þeir voru látnir auðmýkja sig eins og bræður þeirra og urðu að berjast hraustlega fyrir frelsi sínu undan ánauð.

22 Sjá. Svo bar við, að meðan Moróní var þannig að brjóta á bak aftur stríð og illdeilur meðal sinnar eigin þjóðar og beygja hana til friðar og siðmenningar og var að setja reglur um stríðsundirbúning gegn Lamanítum, sjá, þá voru Lamanítar komnir inn í Moróníland, sem var við sjávarströndina.

23 Og svo bar við, að Nefítar voru ekki nægilega sterkir í Moróníborg. Þess vegna hrakti Amalikkía þá burtu og varð mörgum að bana. Og svo bar við, að Amalikkía hertók borgina, já, hertók öll virki þeirra.

24 Og þeir, sem flúðu út úr Moróníborg, komu til Nefíaborgar. Og íbúar Lehíborgar söfnuðust einnig saman og hófu viðbúnað og voru undir það búnir að taka á móti Lamanítum í orrustu.

25 En svo bar við, að Amalikkía vildi ekki leyfa Lamanítum að herja á Nefíaborg, heldur hélt þeim við sjávarströndina og skildi eftir menn í hverri borg til að halda henni og verja hana.

26 Og þannig hélt hann áfram og lagði undir sig margar borgir. Nefíaborg, Lehíborg, Moríantonsborg, Omnerborg, Gídborg og Múlekborg, sem allar voru að austanverðu við sjávarströndina.

27 Og þannig höfðu Lamanítar náð, með slægð Amalikkía og ótal hersveitum, öllum þessum borgum, sem allar voru vígbúnar samkvæmt vígbúnaði Morónís, og allar urðu þær Lamanítum sterk vígi.

28 Og svo bar við, að þeir héldu til landamæra Nægtarbrunns og hröktu Nefíta á undan sér og réðu marga af dögum.

29 En svo bar við, að Teankúm, sem drepið hafði Moríanton, bauð þeim birginn, en hann hafði stöðvað flótta fólks síns.

30 Og svo bar við, að hann stöðvaði einnig Amalikkía, þegar hann var á leið með fjölmennan her sinn til að hertaka landið Nægtarbrunn og einnig landið í norðri.

31 En sjá. Amalikkía varð fyrir vonbrigðum, því að Teankúm og menn hans hröktu hann til baka, en þeir voru miklir hermenn. Og sérhver maður Teankúms var Lamanítum fremri að styrk og hernaðarlist, þannig að þeir náðu undirtökum í viðureign sinni við Lamaníta.

32 Og svo bar við, að þeir þreyttu þá og héldu áfram að drepa þá til myrkurs. Og svo bar við, að Teankúm og menn hans tjölduðu á landamærum Nægtarbrunns. En Amalikkía tjaldaði við sjávarströndina, og þannig voru þeir reknir brott.

33 Og svo bar við, að þegar nátta tók, læddust Teankúm og þjónn hans út og fóru um nóttina inn í tjaldbúðir Amalikkía. Og sjá. Svefninn hafði borið þá ofurliði vegna mikillar þreytu eftir erfiði og hita dagsins.

34 Og svo bar við, að Teankúm laumaðist inn í tjald konungs og lagði spjót í hjarta hans. Og lét þannig konungur lífið samstundis, án þess að þjónar hans vöknuðu.

35 Og hann sneri með leynd aftur til sinna eigin búða. Og sjá. Menn hans voru sofandi, en hann vakti þá og sagði þeim allt, sem hann hafði gjört.

36 Og hann lét heri sína vera viðbúna, ef Lamanítarnir skyldu vakna og ráðast að þeim.

37 Og þannig lauk tuttugasta og fimmta stjórnarári dómaranna yfir Nefíþjóðinni. Og þannig lauk ævidögum Amalikkía.