Ritningar
Helaman 1


Bók Helamans

Heimildaskrá um Nefíta. Styrjaldir þeirra, deilur og sundurlyndi. Einnig spádómar margra heilagra spámanna fram að komu Krists, samkvæmt heimildum Helamans, sem var sonur Helamans, og einnig samkvæmt heimildum sona hans, allt fram til komu Krists. Margir Lamanítar snúast einnig til trúar. Frásögn af trúskiptum þeirra. Frásögn af réttlæti Lamaníta og ranglæti og viðurstyggð Nefíta, samkvæmt heimildum Helamans og sona hans, sem ná allt fram að komu Krists, en þær nefnast Bók Helamans, og áfram.

1. Kapítuli

Pahóran annar verður yfirdómari en er myrtur af Kiskúmen — Pakúmení sest í dómarasætið — Kóríantumr stjórnar herjum Lamaníta, hertekur Sarahemla og drepur Pakúmení — Morónía sigrar Lamaníta og nær aftur Sarahemla, og Kóríantumr er veginn. Um 52–50 f.Kr.

1 Og sjá. Nú bar svo við, að í upphafi fertugasta stjórnarárs dómaranna yfir Nefíþjóðinni hófust alvarlegir erfiðleikar meðal Nefíþjóðarinnar.

2 Því að sjá. Pahóran hafði látist og var genginn veg allrar veraldar. Alvarlegar deilur hófust þess vegna meðal bræðranna, sona Pahórans, um það, hver þeirra skyldi hljóta dómarasætið.

3 Þetta eru nöfn þeirra, sem kepptu um dómarasætið, og ollu einnig deilum meðal þjóðarinnar: Pahóran, Paankí og Pakúmení.

4 Þetta voru ekki einu synir Pahórans, (því að hann átti marga), en þetta eru þeir, sem kepptu um dómarasætið og skiptu þar af leiðandi þjóðinni í þrjá hópa.

5 Þó fór svo, að með rödd þjóðarinnar var Pahóran tilnefndur dómari og stjórnandi Nefíþjóðarinnar.

6 Og svo bar við, að þegar Pakúmení sá, að hann gæti ekki hreppt dómarasætið, beygði hann sig fyrir vilja þjóðarinnar.

7 En sjá. Paankí og sá hluti þjóðarinnar, sem vildi, að hann yrði stjórnandi, var ákaflega reiður. Við lá, að honum tækist þess vegna með fagurgala að telja þá á að rísa gegn bræðrum sínum.

8 Og svo bar við, að þegar hann vann að þessu, sjá, þá var hann tekinn höndum og yfirheyrður, samkvæmt rödd þjóðarinnar, og dæmdur til dauða, því að hann hafði gjört uppreisn og leitast við að tortíma lýðfrelsi þjóðarinnar.

9 Þegar þeim, sem vildu, að hann yrði stjórnandi þeirra, varð ljóst, að hann hafði verið dæmdur til dauða, urðu þeir reiðir. Og sjá. Þá sendu þeir Kiskúmen nokkurn til sjálfs dómarasætis Pahórans, og myrti hann Pahóran, þar sem hann sat í dómarasætinu.

10 Og þjónar Pahórans eltu hann, en sjá, svo hratt flúði Kiskúmen, að enginn gat náð honum.

11 Og hann fór til þeirra, sem sendu hann, og þeir gjörðu allir sáttmála, já, unnu þess eiða við ævarandi skapara sinn, að þeir mundu engum manni segja, að Kiskúmen hefði myrt Pahóran.

12 Þess vegna þekktist Kiskúmen ekki meðal Nefíþjóðarinnar, þar eð hann var í dulargervi, þegar hann myrti Pahóran. Og Kiskúmen og lið hans, þeir sem höfðu gjört sáttmála við hann, dreifðu sér þannig meðal þjóðarinnar, að ekki var unnt að finna þá alla, en þeir, sem fundust, voru dæmdir til dauða.

13 Og sjá. Samkvæmt rödd þjóðarinnar var Pakúmení tilnefndur sem yfirdómari og stjórnandi hennar til að ríkja í stað bróður síns Pahórans, og var það samkvæmt rétti hans. En allt þetta gjörðist á fertugasta stjórnarári dómaranna, og það rann skeið sitt á enda.

14 Og svo bar við á fertugasta og fyrsta stjórnarári dómaranna, að Lamanítar höfðu safnað saman ótölulegum fjölda hermanna og vopnað þá sverðum og sveðjum, bogum og örvum, hjálmum og brynjum og alls kyns skjöldum.

15 Og þeir komu aftur til að berjast við Nefíta. Og maður að nafni Kóríantumr stjórnaði þeim, en hann var afkomandi Sarahemla og hafði sagt skilið við Nefíta. Og hann var maður mikill vexti og kröftugur.

16 Konungur Lamaníta, sem hét Túbalot og var sonur Ammoróns, taldi þess vegna, að Kóríantumr, sem var kröftugur maður, gæti með öllum krafti sínum ásamt mikilli visku staðið gegn Nefítum, þannig að með því að senda hann gæti hann náð valdi yfir Nefítum —

17 Þess vegna egndi hann þá til reiði og safnaði saman herjum sínum og fól Kóríantumr stjórn þeirra og lét þá halda til Sarahemlalands til orrustu gegn Nefítum.

18 Og svo bar við, að vegna mikilla deilna og erfiðleika við stjórn landsins voru þeir ekki nægilega á verði í Sarahemlalandi, því að þeir töldu ekki, að Lamanítar dirfðust að koma inn í hjarta landsins og ráðast á hina miklu borg Sarahemla.

19 En svo bar við, að Kóríantumr sótti fram í fararbroddi fjölda hersveita sinna og réðst til atlögu gegn íbúum borgarinnar, og sókn þeirra var svo hröð, að Nefítum gafst enginn tími til að safna herjum sínum saman.

20 Kóríantumr drap því verðina við innganginn í borgina og hélt fram með allan her sinn inn í hana, og þeir drápu hvern þann, sem réðst gegn þeim, þannig að þeir náðu allri borginni á sitt vald.

21 Og svo bar við, að Pakúmení, sem var yfirdómari, flúði undan Kóríantumr allt til borgarmúranna. Og svo bar við, að Kóríantumr laust hann við múrinn, svo að hann lést. Og þannig lauk ævi Pakúmenís.

22 Og þegar nú Kóríantumr sá, að hann hafði Sarahemlaborg á sínu valdi og sá, að Nefítar flúðu undan þeim og voru drepnir eða teknir höndum og þeim varpað í fangelsi og að hann hafði náð sterkasta vígi landsins, jókst honum svo kjarkur, að við lá, að hann herjaði gegn öllu landinu.

23 Og hann hélt ekki kyrru fyrir í Sarahemlalandi, heldur hélt áfram með mikinn her í átt að borginni Nægtarbrunni, því að ætlun hans var að brjóta sér leið með sverðinu og ná haldi á norðurhluta landsins.

24 Og þar eð hann taldi, að styrkur þeirra væri mestur um miðbik landsins, hélt hann áfram og gaf þeim engan tíma til að sameinast, nema í smáhópa. Og þannig réðst hann að þeim og felldi þá í valinn.

25 En sjá. Þessi aðför Kóríantumrs um miðbik landsins veitti Morónía mikla yfirburði yfir þeim, þrátt fyrir þann mikla fjölda Nefíta, sem drepnir höfðu verið.

26 Því að sjá. Morónía hafði talið, að Lamanítar dirfðust ekki að fara inn í miðbik landsins, heldur að þeir mundu ráðast á borgirnar hér og þar á útjöðrunum, eins og þeir höfðu hingað til gjört. Morónía hafði því látið sterkustu heri sína verja ystu svæðin.

27 En sjá. Lamanítar voru ekki óttaslegnir eins og hann hafði vonað, heldur voru þeir komnir inn í miðbik landsins og höfðu tekið höfuðborgina, sem var Sarahemlaborg, og héldu áfram gegnum aðalhluta landsins, stráfelldu íbúana, bæði karla, konur og börn, og tóku margar borgir og mörg virki herskildi.

28 En þegar Morónía varð þetta ljóst, sendi hann samstundis Lehí með her manns í veg fyrir þá, áður en þeir næðu til Nægtarbrunns.

29 Og þetta gjörði hann og komst í veg fyrir þá, áður en þeir náðu til Nægtarbrunns, og veitti þeim það harða atlögu, að þeir tóku að hörfa undan til Sarahemlalands.

30 Og svo bar við, að Morónía komst í veg fyrir þá á undanhaldi þeirra og gjörði svo harða atlögu að þeim, að úr varð mjög blóðugur bardagi. Já, margir voru drepnir, og á meðal þeirra, sem féllu í valinn, fannst einnig Kóríantumr.

31 Og sjá. Engin undankomuleið var fyrir Lamaníta, hvorki til norðurs, suðurs, austurs né vesturs, því að Nefítar umkringdu þá gjörsamlega.

32 Og þannig hafði Kóríantumr keyrt Lamaníta mitt á meðal Nefíta, svo að þeir voru á valdi þeirra, og hann var sjálfur drepinn. Og Lamanítar gáfust upp fyrir Nefítum.

33 Og svo bar við, Morónía náði aftur Sarahemlaborg og leyfði þeim Lamanítum, sem teknir höfðu verið til fanga, að hverfa á brott úr landinu í friði.

34 Og þannig lauk fertugasta og fyrsta stjórnarári dómaranna.