Spádómar Nefís, sonar Helamans — Guð hótar Nefíþjóðinni því, að hann muni vitja hennar í reiði sinni, henni til algjörrar tortímingar, ef hún iðrist ekki ranglætis síns. Guð lýstur Nefíþjóðina með drepsótt. Hún iðrast og snýr til hans. Lamanítinn Samúel spáir fyrir Nefítum.
Nær yfir 7. til og með 16. kapítula.
7. Kapítuli
Í norðri er Nefí hafnað og hann snýr aftur til Sarahemla — Hann biðst fyrir úr garðturni sínum og kallar síðan fólkið til iðrunar, ella muni það farast. Um 23–21 f.Kr.
1 Sjá. Nú bar svo við á sextugasta og níunda stjórnarári dómaranna yfir Nefíþjóðinni, að Nefí, sonur Helamans, sneri aftur til Sarahemlalands úr landinu í norðri.
2 Því að hann hafði verið á meðal fólksins í norðri og boðað því orð Guðs, og hann spáði fyrir því um margt —
3 En fólkið hafnaði öllum orðum hans, þannig að hann gat ekki dvalið meðal þess, heldur sneri aftur til ættlands síns.
4 Og hann kom að þjóðinni syndum spilltri, og Gadíantonræningjarnir sátu í dómarasætinu — þeir höfðu sölsað undir sig alla stjórn og allt vald í landinu. Þeir virtu boðorð Guðs að vettugi og gjörðu ekkert, sem rétt var fyrir honum, og þeir sýndu mannanna börnum enga réttvísi —
5 Þeir dæmdu hina réttlátu fyrir réttlæti þeirra, en hinum seku og ranglátu var látið óhegnt vegna peninga þeirra. Þeir héldu jafnframt valdamiklum embættum til að geta stjórnað og breytt að eigin vild, til að hagnast á því og hljóta dýrð heimsins og enn fremur til að eiga auðveldara með að drýgja hór, stela, myrða og breyta að eigin vilja —
6 Þetta mikla siðleysi hafði komið yfir Nefíta á fáeinum árum. Og þegar Nefí sá það, fylltist hann hryggð í hjarta sínu og hrópaði í sálarangist:
7 Ó, að ég hefði mátt lifa á dögum Nefís föður míns, þegar hann fyrst kom frá landi Jerúsalem, að ég hefði mátt gleðjast með honum í fyrirheitna landinu! Þá var auðvelt að fást við fólk hans, það hélt boðorð Guðs af staðfestu og var tregt til að láta leiðast til misgjörða. Og það var fljótt til að hlýða á orð Drottins —
8 Já, hefði ég lifað á þeim dögum, hefði sál mín glaðst yfir réttlæti bræðra minna.
9 En sjá. Mér er úthlutað þessum dögum, og það er hlutskipti mitt, að sál mín fyllist hryggð yfir ranglæti bræðra minna.
10 Og sjá. Nú bar svo við, að Nefí hafði kropið uppi á turni einum í garði sínum, sem lá að þjóðveginum til aðalmarkaðarins í Sarahemlaborg, já, hann hafði kropið uppi á turni á garði sínum, en turninn var einnig nærri garðshliðinu, sem sneri út að þjóðveginum.
11 Og svo bar við, að nokkrir menn fóru hjá og sáu Nefí, þar sem hann opnaði Guði sál sína uppi á turninum. Og þeir hlupu og sögðu fólkinu frá því, sem þeir höfðu séð, og fólkið safnaðist saman í hópum til að fá að vita ástæðu þessarar miklu hryggðar yfir ranglæti þjóðarinnar.
12 Og þegar Nefí reis nú á fætur, sá hann mannfjöldann, sem safnast hafði saman.
13 Og svo bar við, að hann lauk upp munni sínum og sagði við þau: Sjá, hvers vegna hafið þið safnast saman? Til þess, að ég gæti sagt ykkur frá misgjörðum ykkar?
14 Já, því að ég hef farið upp á turn minn til að opna sál mína fyrir Guði mínum vegna djúprar hryggðar minnar yfir misgjörðum ykkar —
15 Og vegna hryggðar minnar og harmakveina hafið þið safnast saman, og þið undrist. Já, og þið hafið mikla ástæðu til að undrast. Já, þið ættuð að undrast, því að þið eruð ofurseld, þannig að djöfullinn hefur náð svo sterkum tökum á hjörtum ykkar.
16 Já, hvernig gátuð þið látið undan freistingum þess, sem leitast við að steypa sálum ykkar í ævarandi vansæld og óendanlegt volæði?
17 Ó, iðrist, iðrist. Hví viljið þið deyja? Snúið ykkur, snúið ykkur til Drottins Guðs ykkar. Hvers vegna hefur hann yfirgefið ykkur?
18 Það er vegna þess, að þið hafið hert hjörtu ykkar. Já, þið viljið ekki hlusta á rödd góða hirðisins. Já, þið hafið vakið reiði hans gegn ykkur.
19 Og sjá. Í stað þess að sameina ykkur, sjá, þá mun hann tvístra ykkur, svo að þið verðið hundum og villidýrum að bráð, ef þið iðrist ekki.
20 Ó, hvernig gátuð þið gleymt Guði ykkar, einmitt á sama tíma og hann varðveitti ykkur?
21 En sjá. Það gerðuð þið til að hagnast á því og hljóta lof mannanna, já, og til að hljóta gull og silfur. Og hjörtu ykkar eru helguð auðæfum og hégóma þessa heims, þeirra vegna myrðið þið, rænið, stelið og berið ljúgvitni gegn náunga ykkar og fremjið alls konar misgjörðir.
22 Og vei sé ykkur af þeim sökum, ef þið iðrist ekki. Því að ef þið iðrist ekki, sjá, þá mun þessi mikla borg og einnig allar þessar miklu borgir hér í grennd, hér á eignarlandi okkar, verða burt teknar, svo að þið finnið þar ekkert athvarf. Því að sjá. Drottinn mun ekki veita ykkur styrk til að standa gegn óvinum ykkar, eins og hann hefur hingað til gjört.
23 Því að sjá. Svo segir Drottinn: Ég mun ekki sýna hinum ranglátu styrk minn, einum fremur öðrum, nema þeim, sem iðrast synda sinna og hlýða á orð mín. Þess vegna vil ég, að þið vitið, bræður mínir, að bærilegar verður Lamanítum en ykkur, ef þið iðrist ekki.
24 Því að sjá. Þeir eru réttlátari en þið, því að þeir hafa ekki syndgað gegn þeirri miklu vitneskju, sem þið hafið hlotið, og þess vegna mun Drottinn verða þeim miskunnsamur. Já, hann mun lengja daga þeirra og fjölga niðjum þeirra, já, á sama tíma og ykkur mun gjörsamlega tortímt, ef þið iðrist ekki.
25 Já, vei sé ykkur vegna hinnar miklu viðurstyggðar, sem meðal ykkar er. Og þið hafið sameinast henni, já, þessum leyniflokki, sem Gadíanton stofnaði!
26 Já, vei sé ykkur vegna hrokans, sem þið hafið látið ná tökum á hjörtum ykkar og sem hefur hreykt ykkur yfir það, sem gott er, vegna mikilla auðæfa ykkar!
27 Já, vei sé ykkur vegna ranglætis ykkar og viðurstyggðar!
28 Og ef þið iðrist ekki, munuð þið farast. Já, jafnvel lönd ykkar verða frá ykkur tekin, og ykkur mun tortímt af yfirborði jarðar.
29 En sjá. Af sjálfum mér segi ég ekki, að svo verði, vegna þess að af sjálfum mér veit ég þetta ekki. En sjá. Ég veit, að þetta er sannleikur, vegna þess að Drottinn Guð hefur kunngjört mér það. Þess vegna ber ég því vitni, að þetta mun koma fram.