9. Kapítuli
Sendimenn finna yfirdómarann látinn við dómarasætið — Þeim er varpað í fangelsi en þeir síðar látnir lausir — Með innblæstri nefnir Nefí Seantum sem morðingjann — Sumir viðurkenna að Nefí sé spámaður. Um 23–21 f.Kr.
1 Sjá, nú bar svo við, að þegar Nefí hafði mælt þessi orð, hlupu nokkrir menn, sem meðal þeirra voru, til dómarasætisins. Já, þeir voru fimm, sem fóru, og þeir sögðu sín á meðal á leiðinni:
2 Sjá. Nú munum við vita með vissu, hvort þessi maður er spámaður, og hvort Guð hefur boðið honum að spá svo undarlegum hlutum í okkar eyru. Sjá, við trúum ekki, að hann hafi gjört það. Já, við trúum ekki, að hann sé spámaður. En ef það, sem hann hefur sagt um yfirdómarann, er sannleikur, að hann sé látinn, þá munum við trúa því, að allt annað, sem hann sagði, sé sannleikur.
3 Og svo bar við, að þeir hlupu sem fætur toguðu og komu að dómarasætinu. Og sjá. Yfirdómarinn hafði fallið til jarðar og lá í blóði sínu.
4 Og sjá. Þegar þeir sáu þetta, urðu þeir svo furðu lostnir, að þeir féllu til jarðar, því að þeir höfðu ekki trúað orðum þeim, sem Nefí mælti um yfirdómarann.
5 En þegar þeir sáu, þá trúðu þeir og urðu slegnir ótta um það, að dómarnir, sem Nefí hafði talað um, mundu falla yfir þjóðina. Þess vegna skulfu þeir og féllu til jarðar.
6 Strax eftir að dómarinn hafði verið myrtur — bróðir hans hafði stungið hann á laun til bana og flúið, og þjónarnir hlupu til og sögðu fólkinu, hrópuðu, að morð hefði verið framið —
7 Og sjá. Menn flykktust að dómarasætinu — og sjá, sér til undrunar sáu þeir þessa fimm menn, sem fallið höfðu til jarðar.
8 Og sjá. Menn vissu ekkert um mannfjöldann, sem safnast hafði saman við garð Nefís. Þess vegna sögðu þeir sín á meðal: Þessir menn eru morðingjar dómarans, Guð hefur lostið þá, svo að þeir gátu ekki flúið frá okkur.
9 Og svo bar við, að þeir tóku þá og bundu og vörpuðu þeim í fangelsi. Og send var út tilkynning þess efnis, að dómarinn hefði verið drepinn og morðingjarnir hefðu verið teknir og þeim varpað í fangelsi.
10 Og svo bar við, að næsta dag safnaðist fólk saman til að syrgja og fasta við greftrun hins mikla yfirdómara, sem drepinn hafði verið.
11 Og þeir dómarar, sem voru í garði Nefís og hlýddu á orð hans, komu einnig til greftrunarinnar.
12 Og svo bar við, að þeir spurðust fyrir meðal fólksins og sögðu: Hvar eru þessir fimm, sem sendir voru til að spyrjast fyrir um það, hvort yfirdómarinn væri látinn? Og fólkið svaraði og sagði: Um þá fimm, sem þið segist hafa sent, vitum við ekkert, en morðingjunum fimm hefur verið varpað í fangelsi.
13 Og svo bar við, að dómararnir vildu láta leiða þá fram. Og þeir voru leiddir fram, og sjá. Þetta voru þeir fimm, sem höfðu verið sendir. Og sjá. Dómararnir spurðu þá um málið, og þeir skýrðu frá öllu, sem þeir höfðu gjört og sögðu:
14 Við hlupum og komum að dómstaðnum, og þegar við sáum, að allt var eins og Nefí hafði vitnað um, urðum við svo furðu lostnir, að við féllum til jarðar. Og þegar við náðum okkur eftir undrunina, sjá, þá vörpuðu þeir okkur í fangelsi.
15 En við vitum ekki, hver myrti þennan mann. En svo mikið vitum við, að við hlupum á staðinn að ykkar ósk, og sjá, hann var dauður í samræmi við orð Nefís.
16 Og nú bar svo við, að dómararnir skýrðu málið fyrir fólkinu og hrópuðu gegn Nefí og sögðu: Sjá, við vitum, að þessi Nefí hlýtur að hafa samið við einhvern um að drepa dómarann til þess að geta síðan sagt okkur það og snúið okkur til trúar sinnar og gjört sig að mikilmenni, Guðs útvöldum og spámanni.
17 En sjá nú. Við munum fletta ofan af þessum manni, og hann skal játa sekt sína og segja okkur, hver hinn rétti morðingi dómarans er.
18 Og svo bar við, að fimmmenningunum var sleppt lausum á greftrunardaginn. Engu að síður andmæltu þeir orðum dómaranna gegn Nefí og deildu við þá, hvern af öðrum, þar til dómararnir urðu ráðþrota.
19 Þó létu þeir taka Nefí og binda og leiða hann fyrir mannfjöldann, og þeir tóku að spyrja hann á ýmsa vegu til að flækja hann í orðum sínum, svo að þeir gætu fundið hjá honum dauðasök —
20 Þeir sögðu við hann: Þú ert samsekur. Hver er maðurinn, sem framið hefur þetta morð? Seg þú oss það og játa sekt þína. Og þeir sögðu: Sjá, hér eru peningar. Við munum einnig gefa þér líf, ef þú segir okkur þetta og viðurkennir samsærið, sem þú hefur gjört með honum.
21 En Nefí sagði við þá: Ó, þið heimskingjar, þið óumskornu í hjarta, þið blindu og þrjóskufullu menn! Vitið þið, hve lengi Drottinn Guð ykkar mun leyfa, að þið haldið áfram á þessum syndavegi ykkar?
22 Ó, þið ættuð að byrja að kveina og hryggjast yfir þeirri miklu tortímingu, sem nú bíður ykkar, ef þið iðrist ekki.
23 Sjá, þið segið, að ég hafi samið við einhvern mann um að myrða Seesóram, yfirdómara okkar. En sjá, ég segi ykkur, að þetta er vegna þess, að ég hef vitnað fyrir ykkur, til að ykkur veittist vitneskja um þessa hluti. Já, það er ykkur jafnframt til vitnis um það, að ég vissi um ranglæti það og viðurstyggð, sem meðal ykkar er.
24 Og vegna þess að ég gjörði það, segið þið mig hafa samið við einhvern mann um að gjöra þetta. Já, vegna þess að ég sýndi ykkur þetta tákn, eruð þið mér reiðir og reynið að tortíma lífi mínu.
25 Og sjá. Ég mun sýna ykkur annað tákn og sjá, hvort þið reynið þess vegna að tortíma mér.
26 Sjá, ég segi ykkur. Farið til húss Seantums, sem er bróðir Seesórams og spyrjið hann —
27 Hefur Nefí, sem segist vera spámaður og spáir svo mörgu illu fyrir þessari þjóð, samið við þig um, að þú myrtir Seesóram, bróður þinn?
28 Og sjá. Hann mun svara því neitandi.
29 Og þið skuluð spyrja hann: Hefur þú myrt bróður þinn?
30 Og hann mun verða óttasleginn og ekki vita, hvað segja skal. Og sjá. Hann mun neita því, og hann mun látast verða undrandi. Þó mun hann segja ykkur, að hann sé saklaus.
31 En sjá. Þið skuluð rannsaka hann, og þið munuð finna blóð á skikkjufaldi hans.
32 Og þegar þið hafið séð það, skuluð þið spyrja: Hvaðan kemur þetta blóð? Vitum við ekki, að það er blóð bróður þíns?
33 Og þá mun hann nötra og fölna, já, eins og dauðinn hafi komið yfir hann.
34 Og þá skuluð þið segja: Vegna óttans og fölvans, sem yfir andlit þitt hefur breiðst, sjá, þá vitum við, að þú ert sekur.
35 Og þá mun enn meiri ótti grípa hann. Og þá mun hann játa fyrir ykkur, en ekki lengur neita að hafa framið þetta morð.
36 Og þá mun hann segja ykkur, að ég, Nefí, viti ekkert um þetta mál, nema mér hafi veist sú vitneskja fyrir kraft Guðs. Og þá munuð þið vita, að ég er heiðvirður maður og að Guð hefur sent mig til ykkar.
37 Og svo bar við, að þeir fóru og gjörðu eins og Nefí hafði sagt þeim. Og sjá, orðin, sem hann mælti, voru sönn, því að í samræmi við orðin neitaði hann og í samræmi við orðin játaði hann einnig.
38 Og hann var látinn sýna, að hann var sjálfur morðinginn, en hinum fimm var gefið frelsi ásamt Nefí.
39 Og nokkrir Nefítanna trúðu orðum Nefís, og einnig trúðu nokkrir vegna vitnisburðar hinna fimm, því að þeir höfðu snúist til trúar, meðan þeir voru í fangelsinu.
40 Og nú voru nokkrir meðal þjóðarinnar, sem sögðu, að Nefí væri spámaður.
41 En aðrir sögðu: Sjá, hann er guð, því að ef hann væri ekki guð, gæti hann ekki vitað allt þetta. Því að sjá. Hann segir okkur hugsanir okkar og fleiri hluti. Já, hann hefur gefið okkur vitneskju um hinn raunverulega morðingja yfirdómara okkar.