Námshjálp
15. Nauvoo musterið


15. Nauvoo musterið

ljósmynd 15

Upprunalega musterið í Nauvoo var byggt úr ljósgráum sandsteini úr nágrenninu. Byggingin var 39 metra löng og 27 metra breið. Turninn náði 48 metra hæð frá grunni. Kirkjumeðlimir færðu miklar fórnir til þess að byggja þetta fagra musteri, en verkið hófst 1841. Sumir unnu mánuðum saman við bygginguna, en aðrir fórnuðu fjármunum sínum. Jafnvel þótt musterið væri ekki fullfrágengið var það troðfullt af kirkjuþegnum sem komu til þess að fá helgiathafnir mánuðina áður en þeir flýðu í vestur. Þótt margir hinna heilögu færu frá Nauvoo snemma vors 1846 vegna hættu á ofbeldi af hendi múgsins, varð sérstakur hópur eftir til þess að fullgera bygginguna. Hinn 30. apríl 1846 vígðu öldungarnir Orson Hyde og Wilford Woodruff úr Tólfpostulasveitinni, og um það bil 20 aðrir, þetta hús Drottins. Musterið var yfirgefið í september þegar þeir sem eftir voru af kirkjuþegnum voru hraktir frá Nauvoo; flokkar múgæsingamanna saurguðu hina helgu byggingu. Innviði hennar eyddist í eldi í október 1848. Hið endurbyggða musteri (sjá á mynd) er nákvæm eftirmynd af hinu upprunalega Nauvoo musteri og var vígt af Gordon B. Hinckley forseta 27.–30. júní 2002.

Merkir atburðir: Aðalráðstefna var haldin í samkomusal musterisins 5. október 1845. Verk við musterisgjafir hófst 10. desember 1845 og stóð fram til 7. febrúar 1846. Yfir 5.500 Síðari daga heilagir fengu musterisgjöf sína, og margar skírnir fyrir dána og innsiglanir voru framkvæmdar.