Jólasamkomur
Gjöf frá föður okkar: Viðtekin eða virt að vettugi


Gjöf frá föður okkar: Viðtekin eða virt að vettugi

Hve dásamleg tónlist og hve dásamlegur boðskapur frá systur Eubank. Hve dásamleg var sú dagrenning endurleysandi náðar! Desember er þegar genginn í garð. Úti er kalt og einhver snjór hefur fallið. Það merkir fyrir flesta að jólin nálgist skjótt. Það er þó ekki mín eigin reynsla af jólunum.

Öll mín ár á þessari jörðu hef ég upplifað langa og heita daga sem boðbera jólanna. Það er vegna þess að desember er sumarmánuður í Ástralíu. Það er líka alltaf heitt í Vestur-Afríku, þar sem ég og eiginkona mín höfum búið síðastliðin fimm ár.

Í desember er því öllu heldur farið á ströndina, brimbrettin og grillað úti. Á jólum er heimili okkar fyllt mangó ilmi og hlátri. Andi jólanna er þó hinn sami hvarvetna. Hvort heldur við erum í Sydney, Salt Lake eða Sierra Leone, Nuku’alofa, Nýfundnalandi eða Nígeríu, þá innblæs fæðing frelsarans okkur til að gera eitthvað gott.

Á flestum stöðum skiptist fólk á gjöfum, heimsækir hvert annað og gerir góðverk, til að fagna anda jólanna. Vinir okkar frá Samóa hafa þann sið að setja mat og góðgæti í kassa daginn eftir jóladag og gefa hann fátækustu fjölskyldunum, ekki aðeins í deildinni þeirra, heldur líka öðrum í samfélaginu. Þau eru einnig með hálfan hektara grænmetisgarð og flestar afurðir hans eru gefnar hinum nauðstöddu.

Afar kær vinur okkar frá Senegal í Vestur-Afríku sagði mér, að í heimaþorpi hans á Fílabeinsströndinni, fari þorpsbúar alltaf á aðfangadag með hverskyns óuppgerð deildumál til leiðtoga sinna, í stað þess að færa þeim gjafir. Þessir leiðtogar vinna síðan allan daginn með viðeigandi fjölskyldum við að leysa deilumálin. Þorpsbúar gera kröfu um að friður og samlyndi ríki á hverju heimili í þorpinu á jólum, því þeir halda fæðingu Krists hátíðlega – hans, sem einmitt fæddist í þeim tilgangi færa heiminum frið.

Fyrr á þessu ári hittum við ungan trúboða, systur Jeanne Ingabire, frá Rúanda, sem er í trúboði í Líberíu. Hún sagði mér hina hörmulegu sögu um áhrifin sem þjóðarmorðið í Rúanda árið 1994 hafði á hana. Faðir hennar tilheyrði Hutu ættflokknum, sem hafði mikla andstyggð á þeim sem tilheyrðu Tutsi ættflokknum. Móðir hennar tilheyrði þó Tutsi ættflokknum. Þessi hugdjarfi faðir faldi fjölskyldu sína á fjarlægum stað, til að bjarga lífi eiginkonu sinnar og fjögurra dætra þeirra, og fór síðan einsamall í þorpið aftur. Eiginkona hans og dætur sáu hann aldrei eftir það og áttu í basli með að draga fram lífið. Þær fóru loks til baka níu árum síðar, til að sækja sáttafund sem stjórnvöld höfðu skipulagt og komust að því þar að eiginmaðurinn og faðir dætranna hefði verið drepinn við komu sína til þorpsins. Ótrúlegt en satt, þá fyrirgáfu móðir systur Ingabire og dætur hennar þeim sem höfðu tekið líf eiginmannsins og föður dætranna.

Á tímabili, er Joseph Smith hefði getað verið fullur reiði, eftir að hafa verið hnepptur í varðhald í Liberty-fangelsinu mánuðum saman og yfir jólin 1838, opinberaði Drottinn kafla 121 í Kenningu og sáttmálum. Í þeirri opinberun hjálpar Drottinn Joseph að sigrast á vonbrigðum og vonleysi, eins og fram kemur í upphafi kaflans, og kennir spámanninum að gæska, langlundargeð, mildi, hógværð og fölskvalaus ást séu kristilegir eiginleikar, nauðsynlegir lærisveininum.

Jólin geyma mér dýrmætar fjölskylduminningar. Allar þær minningar eru þó ekki góðar. Ég minnist þess að hafa fengið grænan fallegan matsbox-kappakstursbíl frá föður mínum, þegar ég var afar ungur drengur. Við vorum tiltölulega fátæk fjölskylda og ég naut þessarar gjafar. Dag einn, í barnalegri bræði yfir einhverju ómerkilegu, fleygði ég bílnum inn í þykkan bláregnsrunna sem óx yfir girðinguna. Ég iðraðist þess um leið, ekki aðeins að hafa fleygt leikfanginu, heldur fannst mér það táknrænt fyrir að hafna kærleiksgjöf föður míns. Ég leitaði hans lengi og vel, en fann hann ekki. Þegar vetraði og laufin féllu af runnanum, leitaði ég aftur, en án árangurs. Mér finnst enn sárt að hafa misboðið föður mínum. Það vekur upp særindi.

Þessu mætti vel líkja við það er við höfnum stundum elsku himnesks föður og gjöfum hans til okkar, sem og hinni æðstu, sem er sú að hann sendi son sinn til að þjást og friðþægja fyrir okkur. Hve sorglegt það væri, ef við höfnuðum friðþægingarfórn hans eða sáttmálum og helgiathöfnum fagnaðarerindis hans!

Ó, að við mættum alltaf vera líkari þeim sem keppa að því að sýna öðrum elsku. Nýlega hafa margir erfiðað við að hjálpa íbúum Flórída og Karólínu, sem urðu fyrir eyðileggjandi stormum og þeim sem hlutu skaða af eldunum í Kaliforníu eða öðrum, sem hafa hafa orðið illa úti víðsvegar um heiminn.

Hinn 25. desember 1974 eyðilagðist höfuðborg norðufylkis Ástralíu. Snemma á þessum jóladegi, skall fellibylurinn Cyclone Tracy á Darwin-borg. Margir týndu lífi og flestir íbúar Darwin-borgar misstu heimili sín. Myndir af hinni nýlegu eyðileggingu í Flórída, eru dæmigerðar fyrir Darwin-borg. Andi jólanna var þó örvæntingunni yfirsterkari. Gjafir bárust hvaðanæva að frá fólki í Ástralíu og margir gerðu hlé á störfum sínum og fóru til Darwin-borgar til að hjálpa við endurbygginguna.

Fyrir mörgum árum, þegar elsta dóttir okkar var aðeins tveggja ára gömul, fótbrotnaði hún rétt fyrir jólin og var margar vikur á sjúkrahúsi með fótinn hengdan í spelkum. Það voru afar erfið jól. Fjárvana fjölskylda nokkur í deildinni okkar heimsótti hana á jóladegi. Hvert hinna ungu barna kom með sína eftirlætis gjöf, sem þau höfðu fengið þá um morguninn, og réttu dóttur okkar sem gjöf frá sér. Ég og eiginkona mín, Kay, urðum snortin og tárfelldum yfir einlægri gæsku þessara barna og foreldra þeirra.

Þetta er hinn raunverulegi jólaandi – fólk að hjálpa hvert öðru. Hvað sem öllu líður, þá er mikilvægur hluti arfleifðar frelsarans að þjóna hinum „eina.“ Þetta er vissulega sú regla sem meðlimir kirkju hans í Afríku tileinka sér og fylgja og hann væntir þess líka af okkur hér.

M. Russell Ballard forseti hefur sagt að friðþægingin sé æðsta verk frelsarans, sem einmitt er fyrir hvert og „eitt“ okkar. Ballard forseti sagði:

„Ef við sannlega skildum friðþæginguna og eilíft gildi hverrar sálar, myndum við leita uppi … sérhvers … villuráfandi barns Guðs. Við myndum hjálpa þeim að skilja hvað elska Krists merkir fyrir þau. Við myndum gera allt sem við gætum til að búa þau undir að taka á móti hinum endurleysandi helgiathöfnum fagnaðarerindisins.

„Ef friðþæging Krists væri efst í huga leiðtoga deilda og greina, yrði vissulega enginn nýr eða líttvirkur meðlimur vanræktur. …

… Kaldhæðni friðþægingarinnar er sú að hún er eilíf og altæk, en er jafnframt einstaklingsbundin, ætluð hinum eina. …

Bræður og systur, vanmetið aldrei verðmæti hins eina.“1

Dásamlegt væri ef við fylgdum öll þessari leiðsögn og spámanns okkar, Russells M. Nelson – um að lifa eftir æðstu boðorðunum tveimur á æðri og helgari hátt. Ef þið efist um getu ykkar til að hafa áhrif, með því að gera það, íhugið þá þetta afríska orðatiltæki: „Ef ykkur finnst þið of lítil til að láta að ykkur kveða, þá hafið þið aldrei varið nóttu með moskítóflugu.“

Við þurfum ekki að fara til Landsins helga til að gera gæfumuninn eða komast nær frelsara okkar. Jólin er sá tími er við einblínum á persónulega gjöf okkar til frelsarans, með því að elska og annast aðra. Þá verður leiðin ekki löng til Betlehem fyrir hvert okkar. Það er undir okkur komið að helga líf okkar Kristi – að veita gjöfum hans viðtöku og gefa honum hjarta okkar. Ég elska hann og ber vitni um ódauðlega elsku hans fyrir hvert okkar, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. M. Russell Ballard, “The Atonement and the Value of One Soul,” Liahona, maí 2004, 86–87.