Jólasamkomur
Lát sérhvert hjarta hýsa hann


Lát sérhvert hjarta hýsa hann

Fyrir um viku var kveikt á jólaljósunum á Musteristorginu og þar með var 53 ára hefð viðhaldið og það markaði upphaf jólahátíðarinnar fyrir marga. Um jólin höldum við upp á fæðingu og líf og ljós Jesú Krists, bókstaflegs sonar Guðs og frelsara heimsins. Við finnum von í þeirri yfirlýsingu sem fylgdi fæðingu hans: „Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.“1 Tónlist, börn full tilhlökkunar, gjafir til að gefa og þiggja, jólatré, skreytingar og ljós eru allt hluti af hinni gleðilegu hátíð.

Hvaða dýrmætu minningar koma upp í huga ykkar, er þið hugsið til jólanna? Fyrir mig kallar þessi árstími alltaf fram minningar frá æsku minni.

Ég man enn eftir mörgum þeirra gjafa sem ég fékk. Ég man eftir fótbolta, körfubolta, leikföngum og fötum. Flestar þessara gjafa eru horfnar og gleymdar, fötin slitin og úr sér gengin. Það sem ég man hins vegar best frá löngu horfnum jólum – áhrifamestu minningar mínar og þær kærustu – hafa ekki að gera með það sem ég fékk heldur það sem ég gaf.

Leyfið mér að útskýra. Á hverju ári hittist æskan í deild okkar í kirkjubyggingunni, laugardaginn fyrir jól. Við fylltum körfur af appelsínum, banönum og heimatilbúnum smákökum og kökum til að fara með til ekkna sem bjuggu þar nærri. Við fórum heim til þeirra, sungum jólasálma og gáfum jólakörfur. Ég man enn eftir þakklátum brosum þeirra. Sumar þeirra voru fyrstu eða annarrar kynslóðar innflytjendur og tjáðu þakklæti sitt með sterkum hreimi á ensku þeirra: Systur Swartz, Zbinden, Groll og Kackler. Ég mun aldrei gleyma þeirri hlýju tilfinningu sem þetta vakti í hjarta mér.

Þegar Lesa og ég urðum foreldrar, hófum við þá hefð að gefa þurfandi fjölskyldum gjafir, eins og mörg ykkar gera. Við fengum oft nöfn frá góðgerðarsamtökum í samfélaginu, ásamt upplýsingum um aldur barnanna. Við lögðum mikinn tíma og vinnu í að finna nákvæmlega réttu gjafirnar fyrir þau. Synir okkar virtust njóta þess til jafns við að fá sínar eigin gjafir á jóladegi! Þessi þjónustuhefð fjölskyldunnar hjálpaði til við að vekja hinn sanna anda jólanna í hjörtum okkar.

Atvinna mín tengdist þróun, framleiðslu og markaðsetningu á líkamsræktartækjum um allan heim. Tæki eins og hlaupabretti, æfingahjól og þrekþjálfar eru hönnuð með það í huga að styrkja hjartað. Við lögðum okkur vissulega fram í fyrirtæki okkar við að tryggja að notendur tækjanna gætu mælt ástand og álag hjartans réttilega með hjartsláttarmælum. Í dag göngum við mörg með tækni á úlnliðum okkar sem fylgist með hjarta okkar og hvetur til hreyfingar til að styrkja hjartað.

Hvað ef það væri til tæki til að mæla ástand hjarta okkar út frá andlegu sjónarmiði – svo kallaður andlegur hjartsláttarmælir? Hvað myndi hjartsláttarmælir ykkar segja? Hve andlega heilbrigt er hjarta ykkar? Jólahátíðin virðist vera tilvalinn tími fyrir okkur til að íhuga vandlega ástand hjartna okkar.

Þið gætuð til að mynda spurt ykkur sjálf: „Er hjarta mitt undir það búið að taka á móti frelsaranum?“ Um jólin syngjum við oft: „Lát sérhvert hjarta hýsa hann.“2 Hvernig getið þið búið hjörtu ykkar undir að hýsa Krist, sérstaklega á þessari annasömu, en þó yndislegu hátíð?

Ritningarnar eru fullar af lýsingum sem geta hjálpað okkur að meta ástand hjartna okkar. Sum versanna innihalda orð eins og „hrein,“3 „hógvær“4 „lítillátur,“5 „sundurkramin,“6 og „sundurmarið.“7 Þessi orð og mörg önnur í ritningunum, veita okkur innsýn inn í hjarta frelsarans. Til að geta meðtekið hann í hjörtu okkar, verða hjörtu okkar vissulega að vera hrein og auðmjúk eins og hans.

Ef ég umorða orð Páls, þá getum við unnið að því að hafa orð og eiginleika Jesú Krists líkt og „bréf… ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum, … bréf Krists … ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi.“8 Þetta gerir meiri kröfu en einungis vingjarnlegrar jólakveðju sem mælt er fram af vörum okkar. Drottinn varaði okkur við þeim sem „nálgast [hann] með vörunum, en eru fjarri [honum] í hjarta sínu.“9 Á meðan á þessari jólahátíð stendur og í gegnum allt árið, eru góðverk okkar besta mælingin á elsku okkar til frelsarans, rituð í hjörtu okkar.

Er ég hugleiði ástand míns eigin hjarta, finn ég innblástur og frábær fordæmi til að fylgja eftir í hjörtum og fórnum þeirra sem aðstoðuðu við stofnun kirkju Jesú Krists á fyrstu árum endurreisnarinnar. Mig langar að deila jólasögu með ykkur af einum hinna Síðari daga heilögu á fyrstu árum kirkjunnar, trúskiptings frá Immingham, Englandi, að nafni Mary Wood Littleton.

Það hvarflaði aldrei að Mary og eiginmanni hennar, Paul, að þau ættu eftir að yfirgefa heimili sitt í Englandi. Þau heyrðu hins vegar boðskap hins endurreista fagnaðarerindis og öðluðust vitnisburð um sannleiksgildi þess. Þau voru skírð og tveimur mánuðum síðar sigldu Mary og Paul, ásamt börnum sínum, til Ameríku til að sameinast hinum heilögu. Þau komu til New York þann 20. desember 1844. Fimm dögum síðar ferðuðust þau með póstvagni til Nauvoo, Illinois. Hugsið ykkur – á ferð sinni í kuldanum, um grófa og erfiða vegi, fögnuðu þau sínum fyrstu jólum í Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir allar þessar breytingar, hélt Mary fast í þá von að fjölskyldan ætti einhvern tíma aftur eftir að halda jólin hátíðleg, eins og þau höfðu gert í Englandi, með krönsum, föður jólanna og jólasálmum. Því miður voru önnur jólin þeirra í Bandaríkjunum, árið 1845, ekki mikið betri – þau vörðu jólunum í landnemavagni, sem Paul hafði breytt í bráðabirgða heimili, á meðan fjölskyldan barðist við að koma sér fyrir í Nauvoo. Enn á ný sagði Mary, með von í hjarta: „Næstu jól verða öðruvísi.“

Næsta ár, 1846, á þriðju jólum fjölskyldunnar í Bandaríkjunum, voru Mary og börnin í Vetrarstöðvunum, að búa sig undir langa ferð vestur, um vorið. Lýðurinn hafði hrakið þau frá Nauvoo og Paul var á gangi vestur með Hersveit Mormóna – mörg hundruð kílómetra í burtu. Enn og aftur voru engir jólasálmar og enginn faðir jólanna. Þess í stað var fastað og einlægar bænir fluttar í þágu átta ára sonar Mary, sem var nær dauða en lífi af vannæringu. Hann lifði af, en 25 aðrir í Vetrarstöðvunum létust þennan jóladag.

Það var ekki fyrr en á fjórðu jólunum Mary í Bandaríkjunum, að hún og fjölskylda hennar, nýkomin til Salt Lake dalsins, fögnuðu jólum saman af nokkurri friðsæld. Jólin voru þá jafnvel ekki eins hátíðleg og hún hafði upplifað þau í Englandi. Samt voru þau á vissan hátt enn betri. Á jólahátið hvíldardags, daginn eftir jóladag, árið 1847, komu hinir heilögu saman til að flytja bænir, færa þakkir og lofsyngja Guð, fyrir björgun þeirra til Síonar. Einn þessara söngva var einlægur flutningur sálmsins „Ó kom þú örugg, Herrans heilög sveit,“ sem hafði verið ritaður á slóð landnemanna og orðið lofsöngur þessara brautryðjenda hinna heilögu. Eftir það varð „Ó kom þú örugg, Herrans heilög sveit“ ávallt kær sálmur, jafnvel jólasálmur á jólahátíðum landnemanna.10

Ég trúi því að áskoranir Mary í gegnum árin hafi á ýmsan hátt breytt hjarta hennar. Hún virtist sjá jólin skýrar, með nýjar jólahefðir og nýjan söng í hjarta. Hún hafði sannlega þroskað með sér hjarta fórnar, grundvallað í von hennar og kærleika til Jesú Krists.

Á þessari jólahátíð væri viðeigandi að íhuga hve andlega heilbrigð hjörtu okkar eru, svo ég lýk þessu með einfaldri tillögu sem getur hjálpað okkur að mæla og styrkja andleg hjörtu okkar: Ég býð öllum að velja, sem gjöfina sem við gefum honum þetta árið, að gera eitthvað ytra verk sem tjáir innri tilfinningar til frelsarans, Jesú Krists.

Eins og Mary Littleton, þá erum við saman komin hér í kvöld, sem trúfastir fylgjendur Jesú Krists, til að vegsama hann. Hlustum nú vandlega á er kórinn syngur með okkur „heilagan lofsöng,“ yndislegan sálm, er býður öllum sem njóta „guðs kristni í heimi“ að sjá að„konungur englanna fæddur er.“ Sama hvar við búum hér í heimi, þá getum við öll „látið lofgjörð hljóma … við jötu lága“ – jafnvel þó það sé einungis í hjörtum okkar – og dáð og heiðrað hann.11

Ég ber ykkur vitni um Jesú Krist, frelsara heimsins. Bæn mín er sú að við megum hafa anda Krists ritaðan á hjörtu okkar um hátíðirnar og inn í nýja árið, í nafni Jesú Krists, amen.