Verið eigi áhyggjufullir
Gætið að, bræður og systur. Við lifum vissulega á örðugum tímum, en ef við höldum okkur á sáttmálsveginum, þurfum við ekki að óttast.
Ég bæti mínu vitni við þann boðskap sem Russell M. Nelson forseti og öldungur Cook fluttu hér rétt áður, um samhljóm og einingu Æðsta forsætisráðsins og Tólfpostulasveitarinnar. Ég veit að þessar opinberuðu tilkynningar eru hugur og vilji Drottins og munu um komandi kynslóðir blessa og styrkja einstaklinga, fjölskyldur og Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
Fyrir nokkrum árum lagði ein ung, gift dóttir okkar, ásamt eiginmanni sínum, þessa afar mikilvægu og lífsmótandi spurningu fyrir mig og systur Rasband: „Er ennþá öruggt og skynsamlegt að eignast börn í þessum rangláta og óttalega heimi?“
Þetta var vissulega mikilvæg spurning til hugleiðingar fyrir pabba og mömmu með sínum kæru giftu börnum. Við gátum greint óttann í rödd þeirra og hjarta. Við svöruðum þeim ákveðið „JÁ“ það er meira en „Í LAGI“ og miðluðum þeim grundvallar trúarkenningum og okkar eigin hjartans innblæstri og lífsreynslu.
Óttinn er ekki nýr af nálinni. Þegar lærisveinar Jesú Krists voru á Galelíuvatni, óttuðust þeir „[stormhrinu mikla og öldurnar]“ á myrkri nóttu. Sem lærisveinar okkar tíma, þá óttumst við líka ýmislegt. Unga fólkið okkar óttast kannski skuldbindingar eins og að ganga í hjónaband. Ung hjón, eins og börnin mín, gætu óttast að færa börn inn í stöðugt ranglátari heim. Trúboðar óttast margt, einkum að tala við ókunnuga. Ekkjur óttast að takast einar á við lífið. Unglingar óttast að vera ekki meðteknir; grunnskólanemendur óttast fyrsta skóladaginn; háskólanemar óttast gefnar prófeinkunnir. Við óttumst mistök, höfnun, vonbrigði og hið óþekkta. Við óttumst fellibylji, jarðskjálfta og eldsvoða sem eyðileggja landið og lífið. Við óttumst að vera ekki valin og svo öfugt, að verða valin. Við óttumst að vera ekki nógu góð; við óttumst að Drottinn hafi engan blessun fyrir okkur. Við óttumst breytingar og ótti okkar getur magnast upp í skelfingu. Hef ég nokkrum gleymt hér?
Allt frá upphafi hefur óttinn takmarkað sýna barna Guðs. Frásögnin um Elísa í 2. Konungabók hefur alltaf verið mér kær. Sýrlandskonungur hafði sent hersveit sem kom „þangað um nótt og [sló] hring um borgina. Henni var ætlað að handsama og drepa spámanninn Elía. Við lesum:
„Þegar Elísa kom út árla næsta morgun, umkringdi her með hestum og vögnum borgina. Þá sagði sveinn hans við hann: Æ, herra minn, hvað eigum við nú til bragðs að taka?“
Þarna var mælt af ótta.
„[Elísa] svaraði: Óttast ekki, því að fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru.“
Hann lét þó ekki staðar numið hér.
„Elísa gjörði bæn sína og mælti: Drottinn, opna þú augu hans, svo að hann sjái. Þá opnaði Drottinn augu sveinsins, og sá hann þá, að fjallið var alþakið hestum og eldlegum vögnum hringinn í kring um Elísa.“
Við gætum kannski eða kannski ekki fengið eldlega vagna senda til slá á ótta okkar og sigrast á forynjum okkar, en lexían er skýr. Drottinn er með okkur, gætir að og blessar okkur á þann hátt sem honum einum er mögulegt. Bænin getur kallað niður nauðsynlegan styrk og opinberun, svo við getum beint hugsunum okkar að Jesú Kristi og friðþægingu hans. Drottinn vissi að við myndum einhvern tíma upplifa ótta. Það hef ég gert og þið líka, sem er ástæða þess að ritningarnar eru uppfullar af leiðsögn Drottins:
„Verið vonglaðir og óttist ei.“
„Beinið öllum hugsunum yðar til mín. Efist ekki, óttist ekki.“
„Óttist ekki, litla hjörð.“ Ég ann hinum ljúfu orðum „litla hjörð.“ Í þessari kirkju gætum við verið fá að tölu og áhrifamætti að mælikvarða heimsins, en ef andleg augu okkar ljúkast upp, munum við sjá að „fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru.“ „Okkar ástkæri hirðir, Jesús Kristur, segir síðan: „Leyfið jörð og helju að sameinast gegn yður, því að ef þér byggið á bjargi mínu, fá þær eigi á yður sigrast.“
Hvernig er slegið á óttann? Ungi sveinninn sigraðist á eigin ótta með því að standa við hlið Elísa, spámanns Guðs. Okkur er lofað þessu sama. Þegar við hlýðum á Russell M. Nelson forseta, er við hlítum leiðsögn hans, erum við að standa við hlið spámanns Guðs. Minnist orða Josephs Smith: „Og nú, eftir þá mörgu vitnisburði, sem gefnir hafa verið um hann, er þetta vitnisburðurinn síðastur allra, sem við gefum um hann: Að hann lifir!“ Jesús Kristur lifir. Elska okkar til hans og fagnaðarerindis hans, slær á óttann.
Sú þrá „að andi hans sé ætíð“ með okkur, mun slá á óttann og auka eilífa sýn á tilgangi jarðlífs okkar. Nelson forseti hefur aðvarað: „Á komandi tíð verður hins vegar ekki mögulegt að komast af andlega, án þess að njóta handleiðslu og huggunar heilags anda.“
Drottinn sagði um plágurnar sem herja myndu á landið og herða hjörtu margra: „Lærisveinar mínir munu standa á helgum stöðum og eigi haggast.“
Síðan er þessi guðlega leiðsögn: „Verið eigi áhyggjufullir, því að þegar allt þetta verður, megið þér vita, að fyrirheitin, sem yður voru gefin, munu uppfyllast.“
Standið á heilögum stöðum – verið eigi áhyggjufullir – og fyrirheitin munu uppfyllast. Við skulum íhuga þetta hvert fyrir sig í tengslum við ótta okkar.
Í fyrsta lagi, standið á heilögum stöðum. Þegar við stöndum á heilögum stöðum – réttlátum heimilum okkar, vígðum kapellum og musterum – finnum við að andi Drottins er með okkur. Við finnum svör við spurningum sem hrjá okkur eða frið til að leggja þær einfaldlega til hliðar. Þetta er andinn í verki. Þessir heilögu staðir í ríki Guðs á jörðu kalla á lotningu okkar, virðingu fyrir öðrum, að við gerum okkar besta til að lifa eftir fagnaðarerindinu og von okkar til að láta af ótta okkar og leita lækningarmáttar Jesú Krists fyrir friðþægingu hans.
Það er ekkert rúm fyrir ótta á þessum heilögu stöðum Guðs eða í hjörtum barna hans. Af hverju? Sökum elsku. Guð elskar okkur – alltaf – og við elskum hann. Elska okkar til Guðs slær á allan ótta og gnægð er af elsku hans á heilögum stöðum. Hugleiðið þetta. Þegar við erum óörugg í skuldbindingu okkar við Drottin, þegar við villumst af veginum til eilífs lífs, þegar við efumst um mikilvægi okkar í hans guðlegu áætlun, þegar við leyfum að óttinn ljúki upp dyrum allra sinna kumpána – vonbrigða, reiði, efasemda, vonbrigða – mun andinn yfirgefa okkur og við verðum án Drottins. Ef þið hafið upplifað það, er ykkur ljóst að þar er ekki gott að vera. Þegar við aftur á móti stöndum á heilögum stöðum, finnum við elsku Guðs og „fullkomin elska rekur allan ótta á braut.“
Næsta fyrirheitið er: „Verið eigi áhyggjufullir.“ Engu skiptir hversu mikið ranglætið og umrótið verða á jörðu, okkur er lofað, ef við erum dag hvern trúföst Jesú Kristi, [friði] Guðs, sem er æðri öllum skilningi.“ Þegar svo Kristur kemur í almætti og dýrð, munu illska, uppreisn og óréttlæti taka enda.
Fyrir löngu spáði Páll postuli um okkar tíma og sagði við hinn unga Tímóteus:
„Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.
Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, …
… elskandi munaðarlífið meira en Guð.“
Minnist þess að „þeir, sem með okkur eru“ báðum megin hulunnar, þeir sem elska Drottin af öllu hjarta, mætti, huga og styrk, „[eru fleiri], en þeir, sem með þeim eru.“. Ef við reiðum okkur í raun á Drottin og vegu hans, ef við tökum þátt í verki hans, munum við ekki óttast sveiflur heimsins eða láta hugfallast yfir þeim. Ég hvet ykkur til að leiða hjá ykkur áhrif og þrýsting heimsins og leita andríkis í daglegu lífi ykkar. Elskið það sem Drottinn elskar – sem meðal annars eru boðorðin hans, hans heilaga hús, okkar helgu sáttmálar við hann, sakramentið á hverjum hvíldardegi og bænasamskipti – og þið munuð ekki láta hugfallast.
Síðasta atriðið: Reiða sig á Drottin og fyrirheit hans. Ég veit að öll hans fyrirheit munu uppfyllast. Ég veit það eins staðfastlega og ég stend hér frammi fyrir ykkur á þessari helgu samkomu.
Drottinn hefur opinberað: „Því að þeir sem vitrir eru og hafa tekið á móti sannleikanum og haft hinn heilaga anda sér til leiðsagnar, og ekki látið blekkjast – sannlega segi ég yður, að þeir munu ekki upp höggnir og þeim eigi á eld kastað, heldur munu þeir standast daginn.“
Þetta er ástæða þess að við eigum ekki að vera áhyggjufull yfir umróti okkar tíma, vegna þeirra sem tilheyra hinni stóru og rúmmiklu byggingu og hæðast að einlægri og trúfastri þjónustu við Drottin Jesú Krist. Bjartsýni, hugrekki og jafnvel kærleikur vaknar í hjarta þess sem ekki er hlaðinn áhyggjum eða sligaður af umróti. Nelson forseti, sem er „bjartsýnn yfir framtíðinni,“ hefur áminnt okkur: „Ef okkur á einhvern veginn að takast að sjá í gegnum ógrynni radda og hugmyndafræði manna sem gera aðför að sannleikanum, verðum við að læra að meðtaka opinberun.“
Við verðum að hafa í fyrirrúmi að lifa eftir fagnaðarerindinu, til að geta hlotið persónulega opinberun, og hvetja aðra, sem og okkur sjálf, til trúfesti og andríkis.
Spencer W. Kimball var einn af spámönnum æskuára minna. Undanfarin ár, eftir að ég var kallaður sem postuli, hef ég fundið frið í fyrsta boðskap hans á aðalráðstefnu í október árið 1943. Honum fannst köllun hans yfirþyrmandi og ég þekki þá tilfinningu. Öldungur Kimball sagði: „Ég ígrundaði og bað mikið og fastaði og bað. Það voru ólíkar hugsanir sem vöknuðu hjá mér – raddir sem sögðu: ,Þú getur þetta ekki. Þú ert ekki verðugur. Þú ert ekki hæfur‘ – en alltaf varð hin sigrihrósandi hugsun ofan á: ,Þú verður að takast á við þetta úthlutaða verk – þú verður að gera þig hæfan og verðugan.‘ Baráttan geysaði svo áfram.“
Ég fæ styrk frá þessum einlæga vitnisburði þessa postula sem síðar varð tólfti forseti þessarar miklu kirkju. Honum varð ljóst að hann varð að láta af eigin ótta til að „takast á við þetta úthlutaða verk“ og reiða sig á að Drottinn veitti sér styrk til að gera sjálfan sig „hæfan og verðugan.“ Við getum líka gert þetta. Baráttan mun geysa áfram, en við munum takast á við hana með anda Drottins. Við munum „[eigi vera] áhyggjufullir,“ því þegar við erum með Drottni og reglum hans og eilífri áætlun hans, þá stöndum við á heilögum stöðum.
Hvað gerðu svo dóttirin og tengdasonurinn, sem spurðu hinnar einlægu og leitandi, óttablöndnu spurningar fyrir mörgum árum? Þau ígrunduðu vandlega samræður okkar þetta kvöld; þau báðust fyrir og föstuðu og komust að eigin niðurstöðu. Til allrar hamingju fyrir þau og okkur, afann og ömmuna, þá hafa þau nú verið blessuð með sjö fallegum börnum og þau sækja fram í trú og kærleika.
Gætið að, bræður og systur. Við lifum vissulega á örðugum tíðum, en ef við höldum okkur á sáttmálsveginum, þurfum við ekki að óttast. Ég blessa ykkur með því að ef þið fylgið þessu, munið þið ekki vera áhyggjufull yfir þeim tímum sem við lifum á eða þeim raunum sem á vegi ykkar verða. Ég blessa ykkur til að standa óhagganleg á heilögum stöðum. Ég blessa ykkur til að þið trúið á fyrirheit Jesú Krists, að hann lifir, og að hann vakir yfir okkur, annast og liðsinnir okkur. Í nafni Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists, amen.