Taka á okkur nafn Jesú Krists
Megum við af trúfesti taka á okkur nafn Jesú Krists – með því að sjá eins og hann sér, þjóna eins og hann þjónar og reiða okkur á að náð hans nægi.
Kæru bræður og systur, er ég ígrundaði nýverið boð Russels M. Nelson forseta um að nefna kirkjuna sínu opinberaða nafni, fletti ég upp á fyrirmælum frelsarans til Nefítanna varðandi nafn kirkjunnar. Þegar ég las orð frelsarans, hnaut ég um þessi orð, þar sem hann býður fólki sínu: „Þér verðið að taka á yður nafn Krists.“ Þetta fékk mig til að líta í eigin barm og spyrja: „Er ég að taka á mig nafn frelsarans eins og hann vill að ég geri?“ Í dag ætla ég að segja frá sumum þeirra hugrenninga sem bárust mér sem svar við þessari spurningu minni.
Í fyrsta lagi, er merking þess að taka á sig nafn Krists að reyna trúfastleg að sjá líkt og Guð sér. Hvernig sér Guð? Joseph Smith sagði: „Þótt annar hluti mannkyns gagnrýni og fordæmi hinn hlutann miskunnarlaust, lítur hið mikla foreldri alheims á allt mannkyn af föðurlegri umhyggju og ástúðlegri forsjá,“ því að „elska hans [er] ómælanleg.“
Fyrir nokkrum árum lést eldri systir mín. Líf hennar hafði verið erfitt. Hún átti erfitt með fagnaðarerindið og var í raun aldrei virk. Eiginmaður hennar yfirgaf hjónabandið og lét henni eftir uppeldi fjögurra barna. Á andlátskvöldi hennar, veitti ég henni blessun um friðsæla heimkomu, í herbergi að börnum hennar viðstöddum. Á þessari stundu varð mér ljóst að ég hafði of oft skilgreint líf systur minnar út frá raunum hennar og óvirkni. Þegar ég lagði hendur á höfuð hennar á þessu kvöldi, fékk ég harðar ávítur frá andanum. Ég varð ákaflega meðvitaður um gæsku hennar og mér var leyft að sjá hana eins og Guð sá hana – ekki sem manneskju sem átti erfitt með fagnaðarerindið og sjálft lífið, heldur sem manneskju sem tókst á við erfið mál, sem ég gerði ekki. Ég sá hana sem dásamlega móður, sem hafði alið upp fjögur falleg og yndisleg börn, þrátt fyrir mikið andstreymi. Ég sá hana sem velgjörðamann móður okkar, sem gaf sér tíma til að annast hana og vera henni félagi, eftir andlát föður okkar.
Á þessu síðasta kvöldi með systur minn, fannst mér Guð spyrja mig: „Færð þú ekki séð að allir umhverfis eru helgar verur?“
Brigham Young kenndi:
„Ég vil brýna fyrir hinum heilögu … að skilja karla og konur eins og þau eru, en ekki eins og þið eruð.“
„Hversu oft er ekki sagt: ,Slík manneskja hefur brotið af sér og getur ekki verið heilög.‘ Við heyrum suma blóta og ljúga … [eða] vanvirða hvíldardaginn. … Dæmið ekki slíka, því þið þekkið ekki hver ásetningur Drottins er varðandi þau. … Sýnið þeim [heldur] þolinmæði.“
Getur nokkur ímyndað sér frelsarann leiða ykkur og byrðar ykkar hjá sér? Frelsarinn leit sömu augum Samverjan, hórkonuna, skattheimtumanninn, hinn holdsveika, hinn andlega sjúka og hinn synduga. Öll voru börn föður hans. Þau var öll hægt að endurheimta.
Getið þið ímyndað ykkur frelsarann snúa frá einhverjum sem efast um stað sinn í ríki Guðs eða einhverjum sem er þjakaður á einhvern hátt? Það get ég ekki gert. Í augum Krists er sérhver sál óendanlega dýrmæt. Engin er forvígður til að falla. Eilíft líf er öllum mögulegt.
Af ávítum andans við rúmstokk systur minnar, lærði ég mikilvæga lexíu: Að þegar við sjáum eins og hann sér, munum við ná fram tvöföldum sigri – endurlausn þeirra sem við liðsinnum og endurlausn okkar sjálfra.
Í öðru lagi, er ekki aðeins nauðsynlegt fyrir okkur að sjá eins og Guðs sér, til að taka á sig nafn Krists, heldur verðum við að vinna verk hans og þjóna eins og hann gerði. Við lifum eftir æðstu tveimur boðorðunum, beygjum okkur undir vilja Guðs, söfnum saman Ísrael og látum ljós okkar „[lýsa] meðal mannanna.“ Við tökum á móti og lifum eftir sáttmálum og helgiathöfnum hans endurreistu kirkju. Þegar við gerum þetta, mun Guð veita okkur kraft til að blessa okkur sjálf, fjölskyldu okkar og líf annarra. Spyrjið ykkur sjálf: „Þekki ég einhvern sem ekki þarfnast himinsmáttar í lífi sínu?“
Guð mun gera undur meðal okkar, er við helgum okkur. Við helgum okkur með því að hreinsa hjörtu okkar. Við hreinsum hjörtu okkar, er við hlýðum honum, iðrumst synda okkar, umbreytumst fyrir trú og elskum eins og hann elskar. Frelsarinn spurði: „Þótt þér elskið þá, sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það?“
Ég las nýlega um reynslu öldungs James E. Talmage, sem fékk mig til að staldra við og hugleiða hvernig ég elska og þjóna samferðafólki mínu. Þegar Talmage var ungur prófessor, áður en hann varð postuli og þegar barnaveikifaraldur geisaði árið 1892, frétti hann af ókunnugri fjölskyldu sem ekki var í kirkjunni, er bjó skammt frá honum og hafði fengið þennan sjúkdóm. Engin vildi setja sig í þá hættu að fara inn á hið sýkta heimili. Öldungur Talmage fór þó þegar í stað á heimilið. Hann fann þar fjögur börn, tveggja og hálfs árs barn látið í rúminu, fimm og tíu ára börn í miklum þjáningum og veikan þrettán ára gamlan ungling. Foreldrarnir þjáðust af mikilli sorg og þreytu.
Öldungur Talmage klæddi hina lifandi og látnu, sópaði herbergið, bar út óhreinan fatnað og brenndi skítugar tuskur, ataðar sýklum. Hann þjónaði þar allan daginn og fór aftur næsta morgun. Tíu ára barnið dó um kvöldið. Hann tók upp og hélt á fimm ára barninu. Hún hóstaði blóðslími yfir andlit hans og klæði. Hann ritaði: „Ég gat ekki lagt hana frá mér“ og hélt á henni þar til hún dó í örmum mínum. Hann hjálpaði til við að jarðsetja öll börnin þrjú og sá hinni sorgmæddu fjölskyldu fyrir matvælum og fatnaði. Þegar bróðir Talmage kom heim, fargaði hann fatnaði sínum, baðaði sig í sinkupplausn, einangraði sig frá fjölskyldu sinni og fékk væga sjúkdómssýkingu.
Svo mörg líf umhverfis okkur eru í hættu. Hinir heilögu taka á sig nafn frelsarans með því að verða heilagir og þjóna öllum, burt séð frá stöðu þeirra – lífum er bjargað, er við gerum það.
Loks í þriðja lagi, trúi ég að við verðum að treysta honum til að taka á okkur nafn hans. Á samkomu sem ég sótti einn sunnudaginn, spurði mig ung kona eitthvað álíka: „Ég og kærastinn minn höfum nýlega skilið að skiptum og hann kaus að yfirgefa kirkjuna. Hann segist aldrei hafa verið hamingjusamari. Hvernig getur það átt sér stað?
Frelsarinn svaraði þessari spurningu er hann sagði við Nefítana: „En [sé líf ykkar ekki byggt] á fagnaðarerindi mínu, heldur [byggt] á verkum manna eða á verkum djöfulsins, þá [munuð þér] gleðjast … yfir verkum [ykkar] um hríð, en smátt og smátt koma endalokin.“ Það finnst einfaldlega engin varanleg gleði utan fagnaðarerindis Jesú Krists.
Á þessari samkomu varð mér þó hugsað um hina mörgu góðu sem glíma við miklar byrðar og boðorð sem þeim finnast ekki árennileg. Ég spurði sjálfan mig: „Hvað annað myndi frelsarinn segja við það? Ég trúi að hann myndi segja: „Treystið þið mér?“ Við konuna með blóðlátið sagði hann: „Trú þín hefur bjargað þér. Far þú í friði.“
Ein eftirlætis ritningargrein mín er Jóhannes 4:4, sem segir: „Hann varð að fara um Samaríu.“
Af hverju er þessi ritningargrein mér kær? Af því að Jesús þurfti ekki að fara um Samaríu. Gyðingar þess tíma fyrirlitu Samverja og fóru veg á svig við Samaríu. Jesús kaus þó að fara þangað til að lýsa yfir í fyrsta sinn fyrir öllum heiminum, að hann væri hinn fyrirheitni Messías. Hann valdi ekki aðeins að færa hinum útskúfuðu þennan boðskap, heldur líka konu – ekki bara einhverri konu, heldur konu sem lifði í synd – þeirri sem á þessum tíma var talin minnst allra. Ég trúi að Jesús hafi gert það svo sérhvert okkar fái ætíð skilið að elska hans er meiri en ótti okkar, særindi, ánetjun, efasemdir, freistingar, syndir, brotnar fjölskyldur, þunglyndi og áhyggjur, þrálátur sjúkdómur, fátækt, misnotkun, örvænting og einmanaleiki. Hann vill að allir viti að það er ekkert og enginn sem hann megnar ekki að lækna og veita varanlega gleði.
Náð hans er nægjanleg. Hann sté líka neðar öllu. Máttur friðþægingar hans er sá máttur að sigrast á sérhverri lífsins byrði. Boðskapurinn um konuna við brunninn, er sá að hann þekkir aðstæður okkar og að við getum ætíð gengið með honum, hver sem staða okkar er. Við hana og hvert okkar, segir hann: „Hvern sem drekkur af vatninu, er ég gef honum, mun aldrei þyrsta að eilífu. Því vatnið, sem ég gef honum, verður í honum að lind, sem streymir fram til eilífs lífs.“
Hvers vegna mynduð þið, í öllum ykkar lífsins ferðum, snúa frá hinum eina frelsara sem hefur allan mátt til að lækna og bjarga ykkur? Hvert sem gjaldið er sem þið þurfið að reiða af hendi til að treysta honum er þess virði. Bræður mínir og systur, veljum að efla trú okkar á himneskan föður og frelsara okkar, Jesú Krist.
Af allri sálu ber ég vitni um að Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu er kirkja frelsarans, sem stjórnað er af lifandi Kristi, fyrir tilstilli sanns spámanns. Ég bið þess að við munum af trúfesti taka á okkur nafn Jesú Krists – með því að sjá eins og hann sér, þjóna eins og hann þjónar og reiða okkur á að náð hans nægi til að leiða okkur heim og njóta varanlegrar gleði. Í nafni Jesú Krists, amen.