2010–2019
Fyrir hann
Október 2018


Fyrir hann

Að þekkja fyrir hver og hvers vegna í þjónustu við aðra, hjálpar okkur að skilja að æðsta tjáningarform kærleika er trúrækni við Guð.

Á þessu sögulega kvöldi tjái ég kærleika minn og þakklæti til ykkar allra, kæru systur mínar. Hver svo sem aldur okkar er, staðsetning eða aðstæður, þá söfnumst við saman í kvöld í einingu, styrk, tilgangi og vitnisburði um að við erum elskaðar og leiddar af himneskum föður, frelsara okkar Jesú Kristi og lifandi spámanni, Russel M. Nelson forseta.

Þegar við vorum ung hjón, vorum ég og eiginmaður minn, kölluð af biskupi okkar til að heimsækja og þjóna fjölskyldu sem hafði ekki komið til kirkju í mörg ár. Við meðtókum þetta verkefni fúslega og fórum heim til þeirra nokkrum dögum seinna. Það var strax mjög greinilegt að þau vildu enga gesti frá kirkjunni.

Því nálguðumst við þau næst með smákökudisk, fullviss um að súkkulaðibitakökurnar myndu bræða hjörtu þeirra. Þær gerðu það ekki. Hjónin töluðu við okkur í gegnum ytri nethurðina og gerðu okkur fyllilega grein fyrir því að við værum ekki velkomin. Er við ókum heim, vorum við nokkuð viss um að þetta hefði gengið betur ef við hefðum bara boðið þeim hrískökur.

Skortur okkar á andlegri sýn gerðu áframhaldandi tilraunir okkar þreytandi. Höfnun er aldrei ánægjuleg. Eftir nokkurn tíma fórum við að spyrja okkur sjálf: „Af hverju erum við að gera þetta? Hver er tilgangur okkar?

Öldungur Carl B. Cook setti þetta fram: „Þjónusta í kirkjunni getur … verið áskorun, ef við erum beðin að gera eitthvað sem hræðir okkur, ef við verðum þreytt á því að þjóna eða, ef við erum kölluð til að gera eitthvað sem í fyrstu virðist okkur fráhrindandi.“ Við upplifðum sannleika orða öldungs Cooks þegar við ákváðum að við yrðum að leita leiðsagnar frá einhverjum sem hefði betri heildarsýn en við.

Eftir að hafa beðist mikið fyrir og kynnt okkur málið, fengum við svar við þeim þætti þjónustu okkar sem féll undir hvers vegna. Skilningur okkar breyttist, það varð hugarfarsbreyting og í raun viss opinberun. Er við leituðum leiðsagnar frá ritningunum, kenndi Drottinn okkur hvernig við gætum gert þjónustustarfið auðveldara og þýðingarmeira. Hér er versið sem við lásum og breytti hjörtum okkar og nálgun: „Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu, öllum mætti þínum, huga og styrk. Og í nafni Jesú Krists skalt þú þjóna honum.“ Þó að þessi vers hljómuðu svo kunnugleg þá virtust þau tala til okkar á nýjan og mikilvægan máta.

Við gerðum okkur grein fyrir því að við vorum einlæglega að reyna að þjóna þessari fjölskyldu og að þjóna biskupnum, en við urðum að spyrja okkur sjálf hvort við værum að þjóna vegna kærleika okkar til Drottins. Benjamín konungur gerði greinarmun á þessu þegar hann sagði: „Sjá, ég segi yður, að enda þótt ég segðist hafa eytt ævidögum mínum í þjónustu yðar, hef ég enga löngun til að miklast, því að ég hef aðeins verið í þjónustu Guðs.

Hverjum var Benjamín konungur þá að þjóna? Himneskum föður og frelsaranum. Að þekkja fyrir hver og hvers vegna í þjónustu við aðra, hjálpar okkur að skilja að æðsta tjáningarform kærleika er trúrækni við Guð.

Þegar áhersla okkar breyttist smátt og smátt, þá breyttust bænir okkar líka. Við fórum að hlakka til heimsóknanna til þessarar yndislegu fjölskyldu, vegna elsku okkar til Drottins. Við vorum að gera það fyrir hann. Hann gerði erfiði okkar ekki lengur erfitt. Eftir marga mánuði af því að standa á tröppunum hjá þeim, fór fjölskyldan að bjóða okkur inn. Að lokum áttum við reglulegar bænar og lærdómsstundir saman um fagnaðarerindið. Langvarandi vináttusamband myndaðist. Við vorum að tilbiðja og elska hann, með því að elska börn hans.

Getið þið hugsað til baka til þess tíma er þið réttuð fram kærleikshönd í einlægum vilja að aðstoða einhvern þurfandi, en funduð að það var hunsað, ekki metið að verðleikum eða jafnvel vanþakkað. Efuðust þið um gildi þjónustu ykkar á þeirri stundu? Ef svo var, mega þá orð Benjamín konungs skipta út efa ykkar og jafnvel særindum: „[Þér eruð] aðeins í þjónustu Guðs yðar.“

Frekar en að ala á gremju, þá getum við byggt fullkomnara samband við himneskan föður okkar í gegnum þjónustu. Kærleikur okkar og trúrækni við hann kemur í staðinn fyrir þörfina á viðurkenningu og leyfir elsku hans að flæða til okkar og í gegnum okkur.

Stundum hefjum við kannski þjónustuna af skyldurækni eða kvöð, en sú þjónusta getur jafnvel leitt okkur til að nýta okkur eitthvað æðra innra með okkur og leitt okkur að „ágætari leið“ til að þjóna - eins og boð Nelsons forseta, að „nýrri og helgari leið til að hlúa að og þjóna öðrum.

Þegar við einblínum á allt það sem Guð hefur gert fyrir okkur, þá flæðir þjónustan frá þakklátu hjarta. Þegar við hugsum minna um það að þjónustan upphefji okkur, þá gerum við okkur grein fyrir því að áhersla þjónustu okkar mun verða á því að setja Guð í fyrsta sæti.

M. Russell Ballard forseti kenndi: „Það er einungis þegar við elskum Guð og Krist af öllu hjarta okkar, sálu og huga, að við getum deild þessum kærleika með nágrönnum okkar í gegnum kærleiksverk og þjónustu.“

Fyrsta boðorðið af hinum tíu leggur áherslu á þennan guðlega vísdóm: „Ég er Drottinn Guð þinn. … Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.“ Með því að setja þetta boðorð fremst, hjálpar það okkur að skilja, að ef við setjum hann í forgang, þá mun allt annað falla á réttan stað – jafnvel þjónusta okkar við aðra. Þegar við setjum hann vísvitandi í algeran forgang í lífi okkar, þá getur hann blessað verk okkar, okkur til góðs og öðrum einnig til góðs.

Drottinn sagði: „Beinið öllum hugsunum yðar til mín.“ Í hverri viku gerum við sáttmála um að gera nákvæmlega það – að „hafa hann ávalt í huga.“ Getum við látið slíka áherslu hafa áhrif á allt sem við gerum? Getur hið lítilmótlegasta verk orðið tækifæri til að sýna elsku okkar og tryggð við hann. Ég trúi því að það geti orðið svo og muni verða það.

Við getum séð til þess að öll verkin á verkefnalistanum okkar verði aðferð til að upphefja hann. Við getum séð hvert verkefni sem forréttindi og tækifæri til að þjóna honum, þrátt fyrir að síðustu forvöð vofi yfir okkur, skylduverk eða skítugar bleyjur.

Eins og Ammon segir: „Já, ég veit, að ég er ekkert, styrkur minn er veikur. Þess vegna miklast ég ekki af sjálfum mér, en ég miklast af Guði mínum, því að með hans styrk get ég gjört allt.“

Þegar þjónusta við Guð verður forgangsatriði lífs okkar, þá týnum við okkur sjálfum og fyrr en síðar finnum við okkur.

Drottinn kenndi þetta lögmál einfaldlega og blátt áfram: „Látið þannig ljós yðar lýsa meðal þessarar þjóðar, til þess að hún sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar, sem er á himni.“

Mig langar að deila með ykkur nokkrum vísdómsorðum sem fundust á vegg á munaðarleysingahæli í Kalkútta, Indlandi: „Ef þið eruð góðhjörtuð, kann fólk að saka ykkur um sjálfselsk og dulin markmið Verið samt góðhjörtuð. Það sem þið eyðið árum í að byggja, gæti einhver eyðilagt á einni nóttu. Byggið samt. Fólk mun oft gleyma á morgun því góða sem þið gerið í dag. Gerið það samt. Gefið heiminum það besta sem þið hafið og það mun aldrei virðast nægilegt. Gefið heiminum samt það besta sem þið hafið. Sjáið til, við lokadóminn verður þetta hvort sem er einungis á milli ykkar og Guðs ykkar.

Systur, það er alltaf á milli okkar og Drottins. Eins og James E. Faust forseti sagði: ‚„Hver er mesta þörfin í heiminum? … ,Er ekki mesta þörfin í heiminum í dag að hver og einn eigi persónulegt, stöðug, daglegt og áframhaldandi samband við Drottin?‘ Ef við höfum slíkt samband getur það leyst guðdómleikann innra með okkur út læðingi og ekkert mun skipta meira máli í lífi okkar, er við lærum að þekkja og skilja guðlegt samband okkar við Guð.“

Á sama hátt útskýrði Alma fyrir syni sínum: „Já, og ákallaðu Guð, þér til stuðnings í öllu. Já, helgaðu Drottni allar gjörðir þínar og lát Drottin stjórna ferðum þínum. Já, lát allar hugsanir þínar beinast til Drottins. Já, lát elsku hjarta þíns beinast til Drottins að eilífu.“

Að sama skapi kenndi Russel M. Nelson okkur: „Þegar við skiljum sjálfviljuga friðþægingu hans, þá fellur öll fórnartilfinning af okkar hálfu algerlega í skuggann af djúpri þakklætistilfinningu fyrir þau forréttindi að fá að þjóna honum.“

Systur, ég ber vitni um, að þegar Jesús Kristur vinnur með okkur og í okkur, í gegnum kraft friðþægingar hans, þá byrjar hann að starfa í gegnum okkur til að blessa aðra. Við þjónum þeim, en gerum svo með því að elska og þjóna honum. Við verðum það sem ritningarnar tala um að: „Sérhver maður [og kona] beri hag náunga síns fyrir brjósti og gjöri allt með einbeittu augliti á dýrð Guðs.“

Kannski vissi biskup okkar að þetta væri lexía sem ég og eiginmaður minn myndum læra af þessum snemmbæru, vel meintu tilraunum, þó ekki fullkomnu, til að veita ástkærum sonum og dætrum Guðs hirðisþjónustu. Ég ber persónulegan og öruggan vitnisburð minn um þá gæsku og elsku sem hann deilir með okkur, er við vinnum að því að þjóna í hans nafni. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.