Þjóna
Þörf er á öllum meðlimum og sérhver meðlimur þarf á þjónustutækifæri að halda.
Þegar ég var drengur naut ég þess að vinna hjá frænda mínum Lyman og konu hans Dorothy á bóndabýli þeirra. Lyman frændi stjórnaði oftast verkefnunum en Dorothy aðstoðaði hann oft og keyrði gamla Dodge jeppann. Ég man eftir því hvernig adrenalínið æddi um mig þegar fórum að spóla í drullunni eða reyndum að komast upp bratta hæð. Lyman frændi mundi þá kalla: „Skelltu honum í fjölgírinn Dorothy!“ Á þeim tímapunkti tók ég að biðjast fyrir. Einhvern veginn, með aðstoð Drottins og eftir að hakka svolítið í gírunum, þá fann Dorothy fjölgírinn. Jeppinn rykktist áfram með drifi og gripi á öllum hjólum og starf okkar hélt áfram.
„Setja í fjölgírinn“ þýðir að skipta yfir í sérstakan gír þar sem nokkrir gírar eru sameinaðir á þann máta að þeir vinna saman til að gefa meiri snúningsátak. Fjölgírinn ásamt fjórhjóladrifi veitir tækifæri á að gíra niður, auka kraft og færast úr stað.
Ég hugsa um sérhvert okkar sem hluta af fjölgírun er við þjónum saman í kirkjunni – í deildum og greinum, í sveitum og aðildarfélögum. Við búum yfir meiri krafti þegar við sameinumst, rétt eins og gírar sameinast til að veita meiri kraft í fjölgírun. Við náum að afreka meira saman en við gætum sitt í hvoru lagi er við sameinumst til að þjóna hvort öðru. Það er spennandi að taka virkan þátt og sameinast er við þjónum og aðstoðum í Drottins starfi.
Þjónusta er blessun
Tækifærið til að þjóna er ein af blessunum þess að vera meðlimur í kirkjunni. Drottinn hefur sagt: „Ef þér elskið mig, skuluð þér þjóna mér“ og við þjónum honum með að því að þjóna öðrum.
Við komumst nærri Guði er við þjónum. Við munum kynnast honum á máta sem við gætum annars ekki gert. Trú okkar á hann eykst. Vandamál okkar eru sett í samhengi. Líf okkar verður ánægjulegra. Kærleikur okkar í garð annarra eykst sem og þrá okkar til að þjóna. Við verðum líkari Guði og undirbúnari til að snúa til hans með þessu blessunarlega ferli.
Marion G. Romney forseti sagði: „Þjónusta er ekki nokkuð sem við þolum á þessari jörðu svo við getum öðlast réttinn til að lifa í himneska ríkinu. Þjónusta er frumefnið sem upphafið líf í himneska ríkinu er gert úr.“
Þjónusta getur verið áskorun
Þjónusta í kirkjunni getur hins vegar verið áskorun ef við erum beðin að gera eitthvað sem hræðir okkur, ef við verðum þreytt á því að þjóna eða ef við erum kölluð til að gera eitthvað sem í fyrstu virðist okkur fráhrindandi.
Nýlega fékk ég nýtt verkefni. Ég hafði þjónað í suðaustur Afríku svæðinu. Það var spennandi að þjóna þar sem kirkjan er frekar ný og er að koma undir sig fótunum og okkur þótti vænt um hina heilögu. Síðan var ég kallaður til að koma aftur til höfuðstöðva kirkjunnar, og ef ég á að vera hreinskilinn, þá var ég ekki of spenntur. Verkefnabreyting færir með sér ákveðna óvissu.
Mig dreymdi um langalangafa minn, Joseph Skeen, nótt eina eftir að hafa íhugað tilvonandi breytingu. Ég hafði lesið í dagbók hans um það þegar Joseph og eiginkona hans, María, fluttu til Nauvoo þá óskaði hann þess að þjóna svo hann leitaði spámanninn Joseph Smith uppi og spurði hvernig hann gæti hjálpað. Spámaðurinn bað hann að vinna á sléttunni og að gera sitt besta, sem var einmitt það sem hann gerði. Hann starfaði á býli Smith-fjölskyldunnar.
Ég íhugaði forréttindi Joseph Skeen að fá verkefnið sitt úthlutað á þennan. Allt í einu rann upp fyrir mér að ég nýt sömu forréttinda, það gerum við öll. Allar kallanir í kirkjunni koma frá Guði – með útnefndum þjónum hans.
Ég fann fyrir sterkri andlegri staðfestingu að nýja verkefnið mitt væri innblásið. Það er mikilvægt að við skiljum þessa tengingu – að kallanir okkar berast okkur bókstaflega frá Guði fyrir tilstilli prestdæmisleiðtoga. Viðhorf mitt breyttist eftir þessa upplifun og ég fylltist innilegri þrá til að þjóna. Ég er þakklátur fyrir blessun iðrunar og fyrir að hjarta mitt breyttist. Ég ann nýja verkefninu mínu.
Jafnvel þótt við teljum að kirkjuköllun okkar sé einfaldlega hugmynd prestdæmisleiðtoga okkar eða við fengjum köllunina því engin annar vildi taka á móti henni, þá munum við blessuð er við þjónum. Þegar við viðurkennum hönd Guðs í köllunum okkar og þjónum af öllu hjarta þá mun þjónusta okkar öðlast viðbótar kraft og við munum verða sannir lærisveinar Jesú Krists.
Þjónusta krefst trúar
Það krefst trúar að uppfylla köllun. Stuttu eftir að Joseph hóf störf á býlinu, veiktust hann og Maria. Þau áttu engan pening og voru meðal ókunnugra. Þetta var erfitt tímabil fyrir þau. Joseph skrifaði í dagbók sína: „Við unnum með [og] héldum fast í kirkjuna af þeirri litlu trú sem við höfðum þótt að djöfullinn reyndi að granda okkur og snúa til baka.“
Ég, ásamt hundruðum annara niðja, mun verða eilíflega þakklátur Joseph og Mariu fyrir að hafa ekki snúið til baka. Blessanir munu koma er við þraukum í köllunum okkar og höldum af trú fast við okkar keip.
Ég þekki dásamlegan sunnudagaskólakennara sem hefur upp bekkinn sinn er hún kennir en svo var ekki alltaf raunin. Hún fékk köllun í Barnafélaginu þegar hún gekk í kirkjuna. Kölluninni tók hún á móti þótt hún taldi sig ekki hafa neitt verksvit sem kennari, því hún vissi af mikilvægi þjónustunnar. Óttinn yfirtók hana fljótt og hún hætti að mæta í kirkju svo hún þurfti ekki að kenna. Sem betur fer tók heimiliskennari hennar eftir fjarveru hennar, heimsótti hana og bauð henni að koma til baka. Biskupinn og deildarmeðlimir aðstoðuðu hana. Að lokum tók hún, með aukinni trú, að kenna börnunum. Hún hagnýtti reglur sem nú eru kenndar í Teaching in the Savior’s Way, Drottinn blessaði erfiði hennar og hún varð hæfileikaríkur kennari.
Hinn náttúrulegi maður eða kona í okkur öllum hneigist til að afsaka sig frá því að þjóna af ástæðum eins og „ég er ekki tilbúinn að þjóna, ég þarf að læra meira,“ „ég er þreyttur og þarf smá hlé,“ „ég er of gömul – röðin er komin að einhverri annari“ eða „ég er einfaldlega of upptekinn.“
Bræður og systur, að taka á móti og efla köllun er trúariðkun. Við getum treyst því sem spámaður okkar, Thomas S. Monson forseti, hefur endurtekið kennt: „Drottinn mun gera þá er hann kallar hæfa til verksins“ og „við eigum rétt á liðsinni Drottins, þar sem við erum í hans erindagjörðum.“ Hvort sem þyrmir yfir okkur eða við verðum vonsvikin, hvort sem við erum dauðhrædd eða dauðleiðist þá vill Drottinn að við gírum niður, aukum kraftinn og þjónum.
Ég get ekki séð að Monson forseti, ráðgjafar hans í Æðsta forsætisráðinu eða meðlimir Tólfpostulasveitarinnar séu of uppteknir eða þreyttir. Þeir sýna á innblásinn hátt þann kraft sem kemur inn í líf okkar er við iðkum trú, tökum á móti verkefnum og uppfyllum þau af skuldbindingu og tileinkun. Þeir „[lögðu] krafta til og [tóku] á“ fyrir mörgum árum og þeir halda áfram að halda fram á við og uppá við.
Jú þeir þjóna í mikilvægum köllunum en allar kallanir og verkefni eru mikilvæg. Gordon B. Hinckley forseti, fyrrverandi spámaður og forseti kirkjunnar sagði: „Við erum öll saman í þessu mikla verki. … Skyldur ykkar eru jafn alvarlegar innan ykkar ábyrgðarsviðs og mínar skyldur eru innan míns ábyrgðarsviðs. Engin köllun í þessari kirkju er smá eða lítilsverð.“ Allar kallanir eru mikilvægar.
Við skulum þjóna
Við skulum rísa upp í trú, „[leggja] krafta til og [taka] á“ og „hrinda verðleikanna verki fram.“ Við skulum, ásamt hinni duglegu Dorothy frænku, „setja í fjölgírinn.“ Sem systkin, þá skulum við þjóna.
Ef þið viljið gera biskupi eða greinarforseta ykkar glaðan dag, spyrjið hann þá: „Hvernig get ég aðstoðað?“ „Hvar vill Drottinn að ég þjóni?“ Hann mun hljóta innblástur fyrir viðeigandi köllun er hann biður og íhugar persónulegar-, fjölskyldu- og atvinnuábyrgðir ykkar. Þið munið hljóta prestdæmisblessun þegar þið eruð sett í embætti og hún mun hjálpa ykkur að verða árangursrík. Þið munið hljóta blessanir! Þörf er á öllum meðlimum og sérhver meðlimur þarf á þjónustutækifæri að halda.
Jesús Kristur er fordæmi okkar
Jesús Kristur, okkar aðal fordæmi, gaf líf sitt fyrir starf föður síns. Á stórþingi, sem haldið var áður en þessi heimur var skipulagður, þá bauð Jesús, sem var útvalinn og smurður frá upphafi, sig fram: „Hér er ég, send mig.“ Með því að gera það, varð hann í raun þjónn okkar allra. Við getum einnig þjónað í gegnum Jesú Krist og þeim krafti sem við hljótum með friðþægingu hans. Hann mun hjálpa okkur.
Ég tjái ykkur einlægan kærleika minn, sem á þessum tíma getið ekki þjónað á hefðbundinn hátt í kirkjunni vegna persónubundna aðstæðna ykkar en lifið lífi ykkar í anda þjónustu. Ég bið þess að þið munið hljóta blessanir í framlagi ykkar. Ég tjá einnig þakklæti til þeirra sem efla köllun sína í hverri viku, sem og þá sem brátt munu hljóta þjónustuköllun. Öll framlög og fórnir eru metin að verðleikum, sér í lagi af honum sem við þjónum. Allir sem þjóna munu öðlast náð Guðs.
Við skulum láta þjónustu vera „aðalsmerki“ okkar, hver sem aldur okkar er. Þjónið í köllun ykkar. Þjónið í trúboði. Þjónið móður ykkar. Þjónið ókunnugum. Þjónið nágrönnum ykkar. Þjónið bara.
Megi Drottinn blessa okkur öll í viðleitni okkar til þjónustu og við að verða sannir fylgjendur Jesú Krists. Ég ber vitni um að hann lifir og leiðir verk sitt. Í nafni Jesú Krists, amen