2010–2019
Hinn réttláti dómari
Október 2016


Hinn réttláti dómari

Það er aðeins ein leið til þess að dæma réttlátlega, líkt og Jesús Kristur gerir, sem er að vera eins og hann er.

Jesús Kristur var ástúðlegur dómari í jarðlífi sinu og óvenjulega vitur og þolinmóður. Í ritningunum er hann kunnur sem „hinn réttláti dómari“ (2 Tím 4:8; HDP Móse 6:57) og hann hvetur okkur til að „kveða upp réttláta dóma“ (sjá Joseph Smith Translation, Matt 7:1–2 [í Matt 7:1, neðanmálsgrein a]) og „set traust þitt á þann anda, sem leiðir til góðra verka … [og] til að dæma réttlátlega“ (K&S 11:12).

Þessi leiðsögn til Nefítanna tólf, hjálpar okkur að dæma á sama hátt og Drottinn: „Og vitið, að þér verðið dómarar þessarar þjóðar samkvæmt þeirri dómgreind, sem ég gef yður og sem réttvís verður. Hvers konar menn ættuð þér því að vera? Sannlega segi ég yður, alveg eins og ég er“ (3 Ne 27:27; skáletrað hér). Við gleymum því stundum að boð hans um að við verðum eins og hann er, tengist því hvernig dæma á réttlátlega.

Ranglátir dómar

Frelsarinn meðal faríseanna og fræðimannanna

Skammarlegt dæmi um ranglátan dóm má finna í dæmisögunni um týnda sauðinn, er fræðimennirnir og farísearnir felldu misráðinn dóm yfir bæði frelsaranum og kvöldverðarsamneyti hans, með því að segja: „Þessi maður tekur að sér syndara og samneytir þeim“ (Lúk 15:2) – þeir voru blindir fyrir þeirri staðreynd að þeir sjálfir voru syndugir. Það var ríkt í fræðimönnunum og faríseunum að fordæma og þeir þekktu ekki gleðina sem felst í því að bjarga týndum sauði.

Frelsarinn ásamt konu sem staðin var að hórdómi

Það voru líka „fræðimennirnir og farísearnir“ sem komu með „konu, staðna að hórdómi“(Jóh 8:3) til frelsarans, til að kanna hvort hann dæmdi hana samkvæmt Móselögmálinu (sjá vers 5). Þið þekkið alla söguna og hvernig hann auðmýkti þá fyrir rangláta dóma og hvernig þeirra eigin samviska sakfelldi þá, svo þeir fóru burt, „einn af öðrum“ (vers 9; skáletrað hér). Hann sagði síðan við konuna: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú. Syndga ekki framar Konan lofaði Guð, upp frá þessari stundu, og trúði á nafn hans“ (Joseph Smith Translation, Jóh 8:11 [í Jóh 8:11, neðanmálsgrein c]).

Frelsarinn ræðir við konu sem staðin var að hórdómi

Hinn náttúrlegi maður í hverju okkar, hneigist til að fordæma aðra og dæma ranglátlega eða með sjálfsréttlætingu. Það gerðist jafnvel hjá Jakobi og Jóhannesi, tveimur postulum frelsarans. Þeir reiddust þegar fólk í samarísku þorpi sýndu frelsaranum vanvirðingu (sjá Lúk 9:51–54):

Frelsarinn ásamt fylgjendum

„Þegar [þeir] sáu það, sögðu þeir: Herra, eigum vér að bjóða, að eldur falli af himni og tortími þeim?

En hann sneri sér við og ávítaði þá og sagði: Ekki vitið þið, hvers anda þið eruð.

Mannssonurinn er ekki kominn til að tortíma mannslífum, heldur til að frelsa“ (vers 54–56).

Í dag ætti „almennur dómari“ (K&S 107:74), biskup okkar eða greinarforseti, að forðast að dæma af slíkri fljótfærni, líkt og Jakob og Jóhannes gerðu í þessu tilviki. Réttlátur dómari mundi bregðast við játningum af samúð og skilningi. Villuráfandi unglingur ætti til að mynda að skynja elsku frelsarans þegar hann yfirgefur skrifstofu biskups, umvafinn gleði og græðandi mætti friðþægingarinnar – aldrei skömm eða fyrirlitningu. Að öðrum kosti, gæti biskupinn óafvitandi hrakið hinn týnda sauð lengra út í óbyggðirnar (sjá Lúk 15:4).

Umvöndun

Hins vegar, þá gerir samúð umvöndun ekki óþarfa. Hugtakið umvöndun er dregið af latneska hugtakinu discere – „að læra“ eða discipulus – „nemi,“ sem vísar til þess að lærisveinn er nemandi og fylgjandi. Umvöndun að hætti Drottins, er að kenna af ástúð og þolinmæði. Í ritningunum notar Drottinn oft hugtakið ögun, þegar hann talar um umvöndun (sjá t.d. Mósía 23:21; K&S 95:1). Hugtakið ögun er dregið af latneska orðinu castus, sem merkir að „vera hreinn“ og chasten sem þýðir „að hreinsa.“

Hvað heiminn varðar, þá er það jarðneskur dómari sem dæmir menn og setur þá í varðhald. Aftur á móti, þá kennir Mormónsbók að þegar við syndgum af ráðnum hug, munum við „fella [sjálf okkar] eigin dóm“(Alma 41:7) og senda okkur sjálf í andlegt varðhald. Kaldhæðnislegt er, í þessu tilviki, að hinn almenni dómari hefur lyklana sem aflæsa fangelsisdyrunum, „því að með öguninni greiði ég veginn fyrir lausn þeirra frá öllu því sem freistar“ (K&S 95:1; skáletrað hér). Málsmeðferð réttláts dómara er miskunnsöm, kærleiksrík og frelsandi, ekki fordæmandi.

Hinn ungi Joseph Smith var agaður með fjögurra ára reynslutíma, áður en hann fékk gulltöflurnar i hendur, „því hann hafði ekki haldið boðorð Drottins.“ Síðar, er Joseph glataði handritssíðunum 116, var hann aftur agaður. Þótt hann hefði vissulega verið iðrunarfullur, þá leyfði Drottinn ekki að Joseph nyti forréttinda sinna um hríð, því „þá, sem ég elska, aga ég einnig, svo að syndir þeirra verði fyrirgefnar“ (K&S 95:1).

Joseph sagði: „Engillinn fagnaði þegar hann afhenti mér aftur Úrim og Túmim og sagði Guð vera ánægðan með trúfesti mína og auðmýkt og gleðjast yfir þolinmæði minni og kosgæfni í bæn.“ Þar sem Drottinn hugðist kenna Joseph áhrifaríka lexíu, þá krafðist það átakanlegrar fórnar af hálfu Josephs – fórnar sem var mikilvægur hluti af ögun hans.

Fórn

„Til forna var merking fórnar að gera einhvern eða eitthvað heilagt,“ með víxltengingu við hugtakið ögun – „að hreinsa.“ Á sama hátt til forna í Ísrael, þá veittist fyrirgefning sökum fórnar vegna synda eða brota. Sú fórn bæði „[benti] til hinnar miklu og síðustu fórnar“ (Alma 34:14) og vakti dýpri þakklæti fyrir friðþægingu frelsarans. Tregða til að fórna sem hluti af iðrun okkar, vanvirðir eða dregur dár að hinni stærri fórn Krists, fyrir sömu syndina, og gerir lítið úr þjáningum hans – sem ber vott um harðlyndi og vanþakklæti.

Aftur á móti hljótum við í raun nokkuð af eilífu virði –miskunn hans og fyrirgefningu – fyrir okkar ljúfsáru fórn og loks „allt, sem faðir [okkar] á“ (K&S 84:38). Fórnin verður okkur líka sem græðandi smyrsl í iðrunarferlinu, og getur létt af okkur „samviskubiti“ (Alma 42:18) og veitt okkur „frið við samviskuna“ (Mósía 4:3). Án fórnar getur mönnum reynst erfitt að fyrirgefa sjálfum sér, vegna stöðugra tilfinninga um að einhverju hafi verið haldið eftir.

Foreldri sem réttlátur dómari

Þótt einungis fáein okkar verði kölluð til að verða almennir dómarar, þá á reglan um réttláta dóma við um okkur öll, einkum foreldra sem beitt geta þessari reglu daglega á börn sín. Kjarni góðs uppeldis er að kenna barni á árangursríkan hátt og kjarni þess að vera réttlátur dómari, er ástúðleg umvöndun.

Joseph F. Smith forseti kenndi: „Ef börn eru þrjósk og óhlýðin, sýnið þeim þá þolinmæði og náið árangri með kærleika … og þá getið þið [mótað] persónuleika þeirra að vild.“

Athyglisvert er að spámennirnir vísa ætíð til kristilegra eiginleika, er þeir kenna hvernig aga á. Í Kenningu og sáttmálum er þessi vel kunna leiðsögn um ögun:

„Engu valdi eða áhrifum er hægt eða ætti að beita af hendi prestdæmisins, heldur með fortölum einum, með umburðarlyndi, með mildi og hógværð og með fölskvalausri ást–

Með góðvild og hreinni þekkingu, sem stórum mun þroska sálina, án hræsni og án flærðar–

Vanda um tímanlega með myndugleik, þegar heilagur andi hvetur til þess, og auðsýna síðan vaxandi kærleik“ (K&S 121:41–43).

Þetta ritningarvers kennir okkur að ávíta „þegar heilagur andi hvetur til þess,“ en ekki þegar reiðin verður ráðandi. Heilagur andi og reiði fara ekki saman, því „að sá, sem haldinn er anda sundrungar er ekki minn, heldur djöfulsins, sem er faðir sundrungar og egnir menn til deilna og reiði hver gegn öðrum“ (3 Ne 11:29). George Albert Smith forseti sagði: „Óvinsamlegir hlutir eru yfirleitt ekki sagðir með innblæstri Drottins. Andi Drottins er andi góðvildar; hann er andi þolinmæðar; hann er andi elsku og kærleika og umburðarlyndis og langlundargeðs. …

… Ef við hins vegar höfum anda aðfinnslu og gagnrýni … sem getur skaðað, þá er hann aldrei ávöxtur anda okkar himneska föður og er ætíð skaðlegur.

… Góðvild er sá eiginleiki sem Guð hefur gefið okkur til að ljúka upp hjörtum harðlyndra og þrjóskufullra sálna.“

Hið sanna auðkenni barna okkar

Þegar frelsarinn vitjaði Nefítanna, þá gerði hann nokkuð einstakt með börnunum:

Frelsarinn með nefískum börnum

„Og svo bar við, að hann kenndi og þjónaði börnunum, sem í mannfjöldanum … og hann losaði um tungur þeirra, og þau mæltu til feðra sinna mikla og undursamlega hluti …

… [sem] bæði [sáu og heyrðu] til þessara; Já, jafnvel ungbörn luku upp munni sínum og mæltu af munni fram undursamlega hluti“ (3 Ne 26:14, 16).

Kannski var þetta ekki það að Drottinn hafi lokið upp munni ungbarna, heldur lauk hann upp augum og eyrum hinna furðulostnu foreldra. Þessir foreldrar höfðu hlotið þá einstöku gjöf að sjá leiftursýn inn til eilífðar og líta hið sanna auðkenni og fortilverustöðu barna sinna. Hlýtur það ekki að hafa haft varanleg áhrif á það hvernig foreldrarnir sáu og komu fram við börnin sín? Ég hrífst af þessari útgáfu af tilvitnun sem eignuð er Goethe: „Viðhorf þitt til [barn] sést á því hvernig þú hirðir um þau, og sú umhirða markar örlög þeirra.“ Að þekkja hið sanna auðkenni barns, er gjöf framsýnis, sem vekur guðlegan innblástur réttláts dómara.

Lokaorð

Thomas S. Monson forseti sagði: „Látið aldrei vandamálið sem leysa á verða mikilvægara en þann sem elska á.“ Hve einstaklega mikilvæg þessi regla er til þess að vera réttlátur dómari, einkum hvað eigin börn varðar.

Það er aðeins ein leið til þess að dæma réttlátlega, líkt og Jesús Kristur gerir, sem er að vera eins og hann er. „Hvers konar menn [og konur] ættuð þér því að vera? Sannlega segi ég yður, alveg eins og ég er“ (3 Ne 27:27). Í nafni Jesú Krists, amen

Heimildir

  1. Sjá „disciple,“ etymonline.com.

  2. Sjá Merriam-Webster’s Collegiate Dictionary, 11. útg. (2003), „chasten.“

  3. Karen Lynn Davidson og fleiri ritstýrðu, Histories, Volume 1: Joseph Smith Histories, 1832–1844, bindi 1 í sögusafnsritröðinni The Joseph Smith Papers (2012), 83.

  4. Teachings of Presidents of the Church: Joseph Smith (2007), 71; skáletrað hér.

  5. Guide to the Scriptures, Sacrifice, scriptures.lds.org.

  6. Sjá Bible Dictionary, Sacrifices.

  7. Fórnin sem við færum í viku hverri á altari sakramentisborðsins, er sundurkramið hjarta og sáriðrandi andi (sjá 2 Ne 2:7; 3 Ne 9:20; Kenning og sáttmálar 59:8). Sundurkramið hjarta er iðrandi hjarta; sáriðrandi andi er hlýðinn andi (sjá D. Todd Christofferson, „When Thou Art Converted,“ Liahona, maí 2004, 12).

  8. Teachings of Presidents of the Church: Joseph F. Smith [1998], 299).

  9. Teachings of Presidents of the Church: George Albert Smith (2011), 225, 226, 228; skáletrað hér.

  10. Eignað Johann Wolfgang von Goethe, brainyquote.com.

  11. Thomas S. Monson, „Finding Joy in the Journey,“ Liahona, nóv. 2008, 86.