2010–2019
Iðrun: Gleðilegur kostur
Október 2016


Iðrun: Gleðilegur kostur

Iðrun er ekki aðeins möguleg, heldur líka gleðileg, sökum frelsara okkar.

Kæru bræður og systur, þegar ég var 12 ára gamall, bjó fjölskylda mín í Gautaborg, strandborg í suðurhluta Svíþjóð. Af lotningu greini ég frá því að það er heimaborg míns kæra samstarfsfélaga, öldungs Per G. Malm, sem lést nú í sumar. Við söknum hans. Við erum þakklát fyrir göfuglyndi hans og dygga þjónustu og fordæmi hans aðdáunarverðu fjölskyldu. Við biðjum þess vissulega að allar blessanir Guðs verði með þeim.

Fyrir fimmtíu árum sóttum við kirkju í stóru endurbyggðu húsi. Dag einn tók vinur minn, Stefán, hinn djákninn í greininni, á móti mér með nokkurri eftirvæntingu. Við fórum inn í hliðarsalinn í kapellunni og hann dró upp úr vasanum stóra púðurkerlingu og eldspýtur. Í ærslafullum mannalátum tók ég púðurkerlinguna og bar eld að löngum gráum kveikiþræðinum. Ég hugðist slökkva í þræðinum áður en púðurkerlinginn myndi springa. Ég brenndi mig i fingurna við þá iðju, svo ég henti púðurkerlingunni á gólfið. Stefán og ég horfðum með skelfingu á þráðinn brenna upp.

Púðurkerlinginn sprakk og fyllti loftið í salnum og í kapellunni af brunalykt. Við flýtum okkur að taka upp hinar dreifðu leyfar púðurkerlingarinnar og opnuðum gluggana til að reyna að lofta út lyktinni, í þeirri von að enginn yrði var við uppátækið. Til allrar lukku, þá meiddist enginn og skemmdir urðu engar.

Þegar meðlimirnir komu á samkomuna, fundu þeir sterka brunalyktina. Hún fór ekki framhjá neinum. Brunalyktin hafði truflandi áhrif á hina helgu umgjörð samkomunnar. Þar sem Aronsprestdæmishafarnir þar voru afar fáir – og ég hafandi aðskilið mig hugsunarlega – þá útdeildi ég sakramentinu, án þess að finnast ég samt verðugur þess að meðtaka það. Þegar mér var réttur sakramentisbakkinn, þá meðtók ég hvorki brauðið, né vatnið. Mér leið ömurlega. Ég var vandræðalegur og var ljóst að breytni mín hafði misboðið Guði.

Eftir kirkju bað greinarforsetinn, Frank Lindbergh, virðulegur gráhærður eldri maður, mig að koma með sér í skrifstofuna sína. Þegar ég hafði sest niður, leit hann góðlátlega á mig og sagðist hafa veit því athygli að ég meðtók ekki sakramentið. Hann spurði um ástæðu þess. Mig grunaði að hann vissi það þegar. Ég var viss um að allir vissu hvað ég hafði gert. Eftir að ég hafði sagt honum ástæðuna, spurði hann hvernig mér liði. Í gegnum tárin sagði ég honum stamandi að mér þætti leitt að hafa brugðist Guði.

Lindbergh forseti tók fram mikið notað eintak Kenningu og sáttmálum og bað mig að lesa undirstrikuð ritningarvers. Ég las eftirfarandi upphátt:

„Þeim sem hefur iðrast synda sinna er fyrirgefið, og ég, Drottinn, minnist þeirra ekki lengur.

„Þannig getið þér vitað hvort maðurinn iðrast synda sinna – sjá, hann játar þær og lætur af þeim.“

Ég gleymi aldrei samúðarfullu brosi Lindberghs forseta þegar hann hann leit upp eftir að ég hafði lokið lestrinum. Af innileika sagði hann mér að honum finndist í lagi að ég héldi áfram að meðtaka sakramentið. Þegar ég yfirgaf skrifstofu hans, fann ég ólýsanlega gleði.

Slík gleði er einn af meðfylgjandi ávöxtum iðrunar. Orðið iðrast felur í sér „að skilja eftir á“ og felur í sér „breytingu.“ Á sænsku er orðið þýtt sem omvänd, sem einfaldlega merkir „að snúa við.“ Hinn kristni rithöfundur C.S. Lewis, ritaði um þörfina á að bæta sig og aðferðina til þess. Hann sagði iðrun fela í sér að „vera settur aftur á hinn rétta veg. Mögulegt er að leiðrétta hið ranga,“sagði hann, „en aðeins með því að fara til baka þar til við finnum villuna og vinna síðan úr henni frá þeim stað, en aldrei með því að halda bara áfram. Að breyta eigin hegðun og snúa aftur á „rétta veginn“ er hluti af iðrun, en þó aðeins hluti hennar. Raunveruleg iðrun felur líka í sér að fela Guði hjarta okkar og huga og að hafna syndinni. Líkt og Esekíel útskýrði: Sá sem iðrast „lætur af synd … iðkar rétt og réttlæti, … skilar aftur veði, … [og] breytir eftir þeim boðorðum, er leiða til lífsins.“

Þetta er samt ekki fullnægjandi lýsing. Hún tilgreinir ekki nægilega vel máttinn sem gerir iðrunina mögulega, sem er friðþægingarfórn frelsara okkar. Trú á Drottin Jesú Krist verður að fylgja sannri iðrun, trú um að hann geti breytt okkur, trú um að hann geti fyrirgefið okkur og trú um að hann hjálpi okkur að forðast fleiri mistök. Slík trú virkjar friðþæginguna í lífi okkar. Þegar við „skiljum eftir á“ og „snúum við“ með hjálp frelsarans, þá munum við finna von í loforðum hans og gleði fyrirgefningar. Án frelsarans mun hin eðlislæga von og gleði hverfa og iðrun verður aðeins vansæl hegðunarbreyting. Með því að iðka trú á hann, munum við hins vegar snúast til trúar á getu hans og fúsleika til að fyrirgefa syndir.

Boyd K. Packer forseti staðfesti hið uppörvandi loforð um iðrun á sinni síðustu aðalráðstefnu, í apríl 2015. Af sinni eigin hreinu visku, sem hann hafði öðlast af yfir hálfrar aldar þjónustu sem postuli, lýsti hann mætti friðþægingar frelsarans til að græða. Packer forseti sagði: „Friðþægingin skilur ekki eftir far, engin vegsummerki. Það hún græðir verður heilbrigt. … Hún læknar bara og það sem læknast, helst læknað.“

Hann hélt áfram:

„Friðþægingin, sem megnar að endurheimta okkur, skilur engin ör eftir. Það merkir að [frelsarinn] hefur lofað aflausn, ef við iðrumst, hvað sem við höfum gert af okkur, hvar sem við höfum verið eða hvernig sem eitthvað hefur gerst. Þegar hann því friðþægði, þá voru sakirnar uppgerðar. …

… Friðþægingin … megnar að hreinsa öll óhreinindi, sama hversu mikil, langvarandi eða þrálát þau eru.“

Víddir friðþægingar frelsarans eru óendanlegar hvað mig og þig varðar. Henni verður hins vegar aldrei þvingað upp á okkur. Líkt og spámaðurinn Lehí sagði: Eftir að menn hafa verið „nægjanlega uppfræddir“ til að „þekkja gott frá illu,“ er þeim „frjálst að velja frelsi og eilíft líf fyrir atbeina hins mikla meðalgöngumanns allra manna, eða velja helsi og dauða.“ Iðrun er, með öðrum orðum, valkostur.

Við getum valið margt af misjöfnu eðli – og stundum gerum við það. Sumir valkostir þurfa ekki að vera eðlislega rangir, en geta komið í veg fyrir einlæga eftirsjá og þannig fyrirbyggt raunverulega iðrun. Við getum til að mynda valið að skellt skuldinni á aðra. Þegar ég var 12 ára gamall í Gautaborg, hefði ég getað skellt skuldinni á Steffan. Það var jú hann sem kom með púðurkerlingarnar og eldspýturnar í kirkju. Þegar við hins vegar skellum skuldinni á aðra, jafnvel þótt réttmætt sé, þá afsökum við okkar eigin breytni. Með því að gera það, þá látum við aðra axla ábyrgðina af okkar eigin breytni. Með því að fyrra okkur ábyrgð, þá skerðist geta og þörf okkar til að bregðast við. Við verðum þá að ógæfusömum fórnarlömbum, frekar en áhrifavaldar, hæfir til sjálfstæðrar breytni.

Annað sem við veljum að gera, sem stendur í vegi fyrir iðrun, er að gera lítið úr eigin mistökum. Í atvikinu með púðurkerlingarnar í Gautaborg slasaðist enginn, skemmdir voru ekki sjáanlegar og samkomunni var haldið áfram, þrátt fyrir það. Það hefði auðveldlega verið hægt að segja að engin ástæða væri fyrir iðrun. Þegar við hins vegar gerum lítið úr eigin mistökum, jafnvel þótt afleiðingarnar virðast engar, þá verður þörfin engin til að bæta sig. Slíkur hugsanagangur varnar því að við fáum séð að eigin mistök og syndir hafa eilífar afleiðingar.

Önnur leið er að telja sér trú um að eigin syndir séu ómarktækar, því hvað sem við gerum þá njótum við elsku Guðs. Það er freistandi að trúa því sem hinn svikuli Nehor kenndi íbúum Sarahemla: „Að allt mannkyn yrði hólpið á efsta degi og þyrfti því ekki að óttast eða skjálfa … og allir menn mundu öðlast eilíft líf, þegar yfir lyki“ Þessi freistandi hugmynd er hins vegar fölsk. Vissulega elskar Guð okkur. Aftur á móti, þá skipta gjörðir okkar hann og okkur máli. Hann hefur kveðið skýrt á um hvernig okkur ber að hegða okkur. Við nefnum þau fyrirmæli boðorð. Velþóknun hans og eilift líf eru háð hegðun okkar, þar með talið fúsleika okkar til einlægrar iðrunar.

Auk þess sneiðum við hjá iðrun, ef við veljum að aðgreina Guð frá boðorðum hans. Hvað sem öllu líður, væri sakramentið ekki heilagt þá hefði það ekki skipt máli að lyktin af púðurkerlingunum hafði truflandi áhrif á sakramentissamkomuna í Gautaborg. Við ættum að fara varlega í að líta framhjá syndugri breytni með því að vanmeta eða hafna höfundardeili boðorða Guðs. Sönn iðrun krefst þess að við viðurkennum guðleika frelsarans og réttmæti síðari daga verks hans.

Við skulum velja iðrun en ekki sjálfsréttlætingu. Iðrun getur hjálpað til við sjálfsvitund okkar, líkt og í dæmisögunni um glataða soninn, og stuðlað að því að við ígrundum breytni okkar í eilífu samhengi. Þegar við skiljum hvernig syndir okkar geta haft áhrif á eilífa hamingju okkar, þá upplifum við ekki aðeins einlæga eftirsjá, heldur reynum við líka að bæta okkur. Þegar freisting vaknar, þá erum við líklegri að spyrja okkur sjálf, svo notuð séu orð Williams Shakespeare:

Hver er ávinningur þess sem ég keppi að?

draumur, andartak, skammvin, hverful gleði:

Hver kaupir sér stutta sælu til að þjást um ævi?

eða selur eilífð til að njóta leikfangs?

Ef við höfum misst sjónar á eilífðinni vegna leikfangs, þá getum við valið að iðrast. Sökum friðþægingar Jesú Krists, þá veitist okkur annað tækifæri. Við getum, á myndrænan hátt, skipt á leikfangi sem við keyptum á svo óskynsamlegan hátt og hlotið að nýju vonina um eilífð. Eins og frelsarinn hefur sagt: „Því að sjá, Drottinn lausnari yðar leið píslardauða í holdinu. Hann leið þess vegna kvalir allra manna, svo að allir menn gætu iðrast og komið til hans.“

Jesú Kristur getur fyrirgefið, því hann greiddi gjaldið fyrir syndir okkar.

Frelsari okkar velur að fyrirgefa sökum sinnar óviðjafnanlegu samúðar, miskunnar og elsku.

Frelsari okkar vill fyrirgefa, vegna þess að það er guðlegur eiginleiki hans.

Frelsarinn gleðst þegar við veljum að iðrast, því hann er jú góði hirðirinn.

Þegar við upplifum guðlega sorg vegna breytni okkar, og veljum að iðrast, þá bjóðum við frelsarann þegar í stað í líf okkar. Líkt og spámaðurinn Amúlek sagði: „Ég vildi, að þið stigjuð fram og hertuð eigi hjörtu ykkar lengur. Því að sjá, nú er tíminn og dagur hjálpræðis ykkar. Og ef þið þess vegna iðrist og herðið ekki hjörtu ykkar, þá mun hin mikla endurlausnaráætlun samstundis ná til ykkar.“ Við getum á sama tíma upplifað guðlega sorg vegna eigin breytni og gleði þess að hafa frelsarann okkur til hjálpar.

Sú staðreynd að við getum iðrast eru hin góðu tíðindi fagnaðarerindisins! Mögulegt er að svifta burtu sektarkennd. Við getum fyllst gleði, hlotið fyrirgefningu synda okkar og öðlast samviskufrið. Við getum losnað undan byrðum örvæntingar og syndaánauðar. Við getum fyllst hinu dásamlega ljósi Guðs, svo sál okakr „kvelst ekki lengur.“ Iðrun er ekki aðeins möguleg, heldur líka gleðileg, sökum frelsara okkar. Ég man enn eftir þeim tilfinningum sem helltust yfir mig í skrifstofu greinarforsetans, eftir atvikið með púðurkerlinguna. Ég vissi að mér hafði verið fyrirgefið. Sektarkenndin og sorgin hvarf og mér létti um hjartað.

Bræður og systur, er við ljúkum þessari ráðstefnu, þá hvet ég ykkur til að leita aukinnar gleði – gleði í þeirri vitneskju að friðþæging Jesú Krists er raunveruleg; gleði í getu, fúsleika og þrá frelsarans til að fyrirgefa; og gleði í því vali að iðrast. Megum við fylgja boði frelsarans og „með fögnuði vatni ausa úr lindum hjálpræðisins.“ Megum við velja að sjá að okkur, láta af syndum okkar og einsetja okkur í huga og hjarta að fylgja frelsara okkar. Ég ber vitni um lifandi raunveruleika hans. Ég ber vitni um hina óviðjafnanlega miskunn, samúð og elsku hans, sem ég er aðnjótandi að. Ég bið þess að þið megið nú þegar njóta hinna endurleysandi blessana friðþægingar hans – og stöðugt og endurtekið alla ykkar ævidaga, eins og ég sjálfur hef gert. Í nafni Jesú Krists, amen

Heimildir

  1. Öldungur Per Gösta Malm (1948–2016) þjónaði sem aðalvaldhafi Sjötíu frá 2010 til dauðadags Þótt hann hefði fæðst í Jönköping, Svíðþjóð, þá stofnuðu hann og eiginkona hans, Agneta, heimili í Gautaborg, Svíþjóð. Í sinni merkilegu ræðu á aðalráðstefnu í október 2010, þá ræddi öldungur Elder Malm líka um spegilmynd frá Gautaborg (sjá „Rest unto Your Souls,“ Liahona, nóv. 2010, 101–2).

  2. Þótt Stefán sé ekki hið rétta nafn vinar míns, þá er frásögnin sögð með hans leyfi.

  3. Kenning og sáttmálar 58:42–43.

  4. Gríska orðið metanoeo merkir bókstaflega „að skilja eftir á“ (meta, „eftir,“ felur í sér „breytingu“; noeo, „að skilja”; nous, „hugur, aðsetur siðferðilegrar ígrundunar“). Sjá James Strong, The New Strong’s Expanded Exhaustive Concordance of the Bible [2010] Greek Dictionary section, 162.

  5. Mín þýðing á omvänd. Om mætti þýða sem „í hring.“ Vänd mætti þýða sem „snúa.“

  6. C. S. Lewis, The Great Divorce (1946), 6. Í inngangi bókarinnar ritaði Lewis að sumir reyndu að sameina himinn og helju í stað þess að velja annað hvort. Hann sagði sum okkar álíti að „þróun eða aðlögun eða lagfæring geti á einhvern hátt breytt illu í gott. … Að trúa slíku tel ég vera hörmulega villu. … Við lifum ekki í heimi þar sem allir vegir eru líkt og radíus í hring, þar sem allir munu að lokum komast saman að miðju hans, ef þeir fylgja honum nógu lengi. …

    … Ég tel ekki að allir þeir sem velja ranga vegi munu farast; en björgun þeirra felst í því að setja þá aftur á rétta veginn. … Mögulegt er að aflétta hinu illa, en ekki að ‚þróa‘ það í hið góða. Tíminn læknar það ekki. Vinda verður smám saman ofan af álögunum … ef ekki þá standa þau óhögguð“ (5–6).

  7. Sjá Bible Dictionary, „Repentance.“

  8. Esekíel 33:14–15.

  9. Vitnisburður Boyds K. Packers forseta á leiðtogafundi í tengslum við aðalráðstefnu í apríl 2015 hefur ekki verið birtur. Þessi athugasemdir eru mínar eigin og skrifaðar á þeim tíma.

  10. Boyd K. Packer, „The Plan of Happiness,“ Liahona, maí 2015, 28.

  11. 2 Ne 2:5.

  12. 2 Ne 2:27.

  13. Sjá 2 Ne 2:26.

  14. Alma 1:4. Nehor og fylgjendur hans trúðu ekki á iðrun (sjá Alma 15:15).

  15. Sjá Russell M. Nelson, „Divine Love,“ Liahona, feb. 2003, 12–17.

  16. Sjá Lúk 15:17; sjá einnig vers 11–24.

  17. William Shakespeare, The Rape of Lucrece, línur 211–14.

  18. Kenning og sáttmálar 18:11.

  19. Sjá Jes 53:5.

  20. Sjá Lúk 15:4–7; Kenning og sáttmálar 18:10–13.

  21. Sönn iðrun felur í sér „guðlega sorg“ (2 Kor 7:10). Öldungur M. Russell Ballard kenndi: „Frelsarinn hefur séð þeim sem villast frá, fyrir leið til baka. Sú leið er hins vegar ekki sársaukalaus. Iðrun er ekki einföld; hún er tímafrek – sársaukafullur tími!“ („Keeping Covenants,“ Ensign, maí 1993, 7). Öldungur Richard G. Scott kenndi einnig: „Stundum eru skref iðrunar erfið og sársaukafull í upphafi“ („Finding Forgiveness,“ Ensign, maí 1995, 77). Þótt guðleg sorg og sársauki séu raunveruleg í ferli iðrunar, þá munum við upplifa gleði þegar við skynjum fyrirgefningu synda okkar.

  22. Alma 34:31; skáletrað hér.

  23. Sjá Bible Dictionary, „Gospels.“

  24. Enos 1:6.

  25. Mósía 4:3.

  26. Mósía 27:29.

  27. Jes 12:3.

  28. Sjá Mósía 26:29–30. Þótt Guð lofi að fyrirgefa fúslega, þá er það Guði viðurstyggð, ef menn reiða sig á að miskunn frelsarans leyfi yfirborðskennda iðrun (sjá Hebr 6:4–6; 10:26–27). Öldungur Richard G. Scott sagði: „Það eru gleðifréttir fyrir hvern þann sem vill losna við afleiðingar fyrri slæmra ákvarðana, að Drottinn sér veikleika í öðru ljósi en hann sér uppreisn. Þótt Drottinn vari við því að iðrunarlaus uppreisn muni kalla yfir okkur refsingu, þá talar Drottinn ætíð um veikleika af miskunnsemi“ („Personal Strength through the Atonement of Jesus Christ,“ Liahona, nóv. 2013, 83).