Reglur og loforð
Megum við bera umhyggju fyrir líkama okkar og huga, með því að lifa eftir reglunum sem fram koma í Vísdómsorðinu, hinni guðlegu framsettu áætlun.
Bræður, í kvöld bið ég um handleiðslu okkar himneska föður, er ég miðla ykkur boðskap mínum.
Árið 1833 opinberaði Drottinn spámanninum Joseph Smith áætlun um heilbrigt líferni. Þá áætlun má finna í 89. kafla Kenningar og sáttmála og hún er kunn sem Vísdómsorðið. Hún veitir skýra leiðsögn um þann mat sem við neytum og leggur bann við notkun efna sem skaðleg eru líkama okkar.
Þeir sem hlýða boðorðum Drottins og lifa trúfastlega eftir Vísdómsorðinu, hafa fyrirheit um ákveðnar blessanir, sem meðal annarrs eru góð heilsa og aukinn líkamsþróttur.
Ég las nýlega áhrifaríka frásögn sem staðfestir þetta fyrirheit. John A. Larsen, sem var trúfastur meðlimur kirkjunnar, var í herþjónustu Bandaríkjanna í Síðari heimsstyrjöldinni, á strandgæsluskipinu USS Cambria. Í orrustu við Filippseyjar bárust skilaboð um að sprengjusveit flugvéla og kamikaze-orrustuvéla stefndi að þeim. Fyrirskipun var gefin um tafarlausan brottflutning. Þar sem skipið USS Cambria var þegar farið, þá tóku John og þrír aðrir félagar hans búnaðinn sinn og hröðuðu sér að ströndinni í þeirri von að fá far út í eitthvert skipanna sem voru á leið burtu. Til allrar lukku, þá fengu þeir far með landtökufley, sem sigldi á fullri ferð að síðasta skipinu á leið út flóann. Mennirnir á því skipi voru önnum kafnir uppi á dekki við að skipuleggja flóttann og til þess að allt gengi eins fljótt fyrir sig og mögulegt var, þá hentu þeir reipum úr fyrir borðstokkinn til mannanna fjögurra, í þeirri von að þeir næðu að klifra um borð.
John, sem hafði þunga talstöð á bakinu, náði tökum á hinu 12 metra reipi og dinglaði í því við borðstokk skipsins, sem sigldi út á opið hafið. Hann tók að klifra upp reipið, eitt grip í einu, og var ljóst að ef hann missti takið, væri næsta víst að hann léti lífið. Þegar hann hafði einungis klifrað þriðjung reipisins, fann hann sárt til í handleggjunum. Svo mikið var af honum dregið að hann taldi sig ekki geta haldið sér áfram uppi.
Þorrin að mætti varð John hugsað alvarlega til þeirra örlaga sem biðu hans, tók hann þá að ákalla Guð í hjóði og að minna hann á að hann hefði ætíð haldið Vísdómsorðið og lifað hreinu lífi – og hann væri nú í mikilli neyð fyrir hinar fyrirheitnu blessanir.
John sagði síðar, að hann hefði fundið gríðarlegan styrk koma yfir sig, eftir að hann hafði lokið ákalli sínu. Hann tók að toga sig upp aftur og flaug næstum upp reipið. Þegar hann kom náði upp fyrir borðstokkinn, var andardráttur hans eðlilegur og alls ekkert móður eftir erfiðið. Hann hafði upplifað blessanirnar um aukinn líkamsþrótt, eins og fyrirheit Vísdómsorðsins kveður á um. Hann færði himneskum föður þakkir, bæði þá og líka allt sitt líf, fyrir að svara örvæntingarfullri bæn hans um hjálp.
Bræður, megum við bera umhyggju fyrir líkama okkar og huga, með því að lifa eftir reglunum sem fram koma í Vísdómsorðinu, hinni guðlegu framsettu áætlun. Af öllu hjarta og allri sálu, ber ég vitni um hinar dýrðlegu blessanir sem bíða okkar, ef við gerum það. Ég bið þess að svo megi verða, í nafni Drottins okkar og frelsara, Jesú Krists, amen.