Fjórða hæð, síðustu dyr
Guð „verðlaunar þá sem leita hans í einlægni,“ haldið því áfram að knýja á. Systir, gefist ekki upp! Leitið Guðs að öllu hjarta.
Kæru systur og vinir, hve blessuð við erum að safnast saman aftur á þessari heimsráðstefnu undir stjórn og leiðsögn áskærs spámanns okkar, Thomas S. Monson. forseta. Við unnum þér og styðjum þig! Við vitum að þú elskar systur þessarar kirkju.
Ég nýt þess að sitja þennan dásamlega fund aðalráðstefnunnar sem tileinkaður er systrunum í kirkjunni.
Systur þegar ég horfi á ykkur þá get ég ekki annað en hugsað um þær konur sem hafa haft svo mikil áhrif á líf mitt; ömmu mína og móður, sem voru þær fyrstu sem þáðu boðið að koma og sjá hvað kirkjan snérist um. Það er einnig ástkær kona mín, Harriet, sem ég varð ástfanginn af, um leið og ég sá hana. Svo er það móðir Harrietar, sem gekk í kirkjuna stuttu eftir að hún missti eiginmann sinn úr krabbameini. Síðan eru það systir mín, dóttir, afastelpan mín og langafastelpan, þær hafa allar haft göfgandi áhrif á mig. Þær færa sannarlega sólskin inn í líf mitt. Þær blása mér í brjóst að verða betri maður og nærgætnari kirkjuleiðtogi. Hve líf mitt væri öðruvísi án þeirra.
Kannski gerir það mig auðmjúkastan að vita að sömu áhrif margfaldast milljónfalt út um alla kirkjuna, í gegnum hæfni, hæfileika, þekkingu og vitnisburð trúaðra kvenna eins og ykkur.
Sumum ykkar finnst þið kannski ekki eiga skilið slík há hrós. Ykkur finnst þið kannski vera of lítilvægar til að hafa merkjanleg áhrif á aðra. Kannski lítið þið ekki á ykkur sjálfar sem „trúaðar konur“ vegna þess að þið kljáist stundum við efa og ótta.
Í dag langar mig að tala við þær sem hafa einhvern tíma upplifað þetta - og það á eflaust við okkur öll á einhverjum tímapunkti. Mig langar að ræða um trú, hvað hún er, hvað hún getur og getur ekki gert og hvað við verðum að gera til að virkja kraft trúarinnar í lífi okkar.
Það sem trúin er
Trú er sterk sannfæring um eitthvað sem við trúum, sannfæring sem er svo sterk að hún ýtir okkur út í að gera hluti sem við myndum annars ekki gera. „Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá.“
Á sama tíma og þetta er skiljanlegt trúuðu fólki þá er þetta oft truflandi fyrir trúlausa. Þeir hrista höfuðið og spyrja: „Hvernig getur einhver verið fullviss um eitthvað sem þeir geta ekki séð?“ Hvað þá varðar er þetta sönnun á rökleysi trúarbragða.
Það sem þeir skilja ekki er að það eru fleiri en ein leið til að sjá en bara með augum okkar, fleiri en ein leið til að finna en með höndum okkar og fleiri en ein leið til að heyra en með eyrum okkar.
Þetta er eitthvað svipað upplifun ungrar stúlku sem var úti að ganga með ömmu sinni. Litlu stúlkunni fannst söngur fuglanna stórkostlegur og hún benti ömmu sinni á hvert hljóð.
„Heyrðirðu þetta?“spurði litla stúlkan aftur og aftur. Amma hennar heyrði hins vegar illa og gat ekki numið hljóðin.
Að lokum kraup amman niður og sagði:“ Fyrirgefðu elskan mín, Amma heyrir ekki mjög vel.“
Litla stúlkan tók andlit ömmu sinnar ergilega í hendur sér, horfði ákveðin í augu hennar og sagði „amma, hlustaðu betur!“
Það er lærdómur í þessari sögu fyrir bæði vantrúaða og trúaða. Bara vegna þess að við heyrum ekki eitthvað, þýðir ekki að það sé ekkert til að heyra. Tveir einstaklingar geta heyrt sömu skilaboðin eða lesið sama ritningaversið en einungis annar þeirra finnur fyrir vitnisburði andans á meðan að hinn skynjar ekkert.
Hins vegar er það kannski ekki besta samskiptaleiðin að segja þeim að „hlusta betur“ ef við viljum aðstoða ástvini okkar við að upplifa rödd andans og hina víðáttumiklu, eilífu og djúpu fegurð fagnaðarerindis Jesú Krists
Kannski væri það betra ráð, fyrir hvern þann sem vill efla trú sína að hlusta öðruvísi. Postulinn Páll hvetur okkur til að leita þeirrar raddar sem talar til anda okkar en ekki einungis eyrna. Hann kenndi „Maðurinn án anda veitir ekki viðtöku því, sem Guðs anda er, því að honum er það heimska og hann getur ekki skilið það, af því að það dæmist andleg.“ Kannski ættum við að íhuga orð Saint-Exupéry í Litla prinsinum, sem sagði: „Maður sér einungis skýrt með hjartanu. Allt sem máli skiptir er ósýnilegt augunum.“
Kraftur og takmörk trúar
Stundum er ekki auðvelt að þroska trú á andlega hluti þegar við búum í veraldlegum heimi. Það er samt þess virði því að kraftur trúarinnar á líf okkar getur verið djúpstæður. Ritningarnar kenna okkur að heimarnir voru formaðir í gegnum trú, vötnin aðskilin, dauðir reistir upp, ár og fjöll færð úr stað.
Samt kunna sumir að spyrja: „Ef trúin er svona kraftmikil, af hverju get ég þá ekki fengið svar við einlægri bæn? Ég þarf ekki á því að halda að haf skiptist í tvennt eða að fjall færist úr stað Ég þarfnast þess bara að veikindi mín hverfi, að foreldrar mínir geti fyrirgefið hvort öðru eða að eilfur félagi birtist á dyrastafnum hjá mér með blómvönd í annarri hendi og trúlofunarhring í hinni. Af hverju getur trú mín ekki komið því til leiðar?“
Trú er kröftug og getur oft leitt til kraftaverka. Sama hve mikla trú við höfum, þá er tvennt sem trú getur ekki gert. Til að byrja með þá getur hún ekki troðið á sjálfræði neins.
Kona ein bað í mörg ár um að villuráfandi dóttir hennar myndi snúa aftur í faðm Krists og var vondauf þegar hún virtist ekki fá svar við bænum sínum. Þetta var einstaklega sárt þegar hún heyrði af öðrum týndum börnum sem höfðu iðrast gjörða sinna.
Vandamálið var ekki skortur á bænum eða trú. Hún þurfti einungis að skilja að sama hve sársaukafullt það gæti verið fyrir himneskan föður okkar, þá mun hann ekki neyða neinn til að velja veg réttlætis. Guð neyddi sín eigin börn ekki til að fylgja honum í fortilverunni. Því síður mun hann neyða okkur, nú þegar við ferðumst í gegnum þetta jarðneska líf.
Guð mun bjóða og tala um fyrir okkur. Guð mun aldrei þreytast á að teygja sig til okkar með kærleika, innblæstri og hvatningu Guð mun hins vegar aldrei þvinga okkur, það myndi grafa undan hinni miklu áætlun hans fyrir eilífan þroska okkar.
Í öðru lagi þá getur trú aldrei neytt vilja okkar á Drottin. Við getum ekki neytt Guð til að fara að okkar vilja, sama hve okkur finnst við hafa rétt fyrir okkur eða hve heitt við biðjum. Íhugið reynslu Páls sem ítrekað grátbað Drottinn um lausn frá persónulegum vanda, sem hann kallaði „flein í holdi sínu.“ Það var samt ekki vilji Guðs. Að lokum gerði Páll sér grein fyrir því að erfiðleikar hans voru blessun og hann þakkaði Guði fyrir að svara ekki bænum sínum á þann veg sem hann hafði vonast eftir.
Traust og trú
Nei, tilgangur trúar er ekki að breyta vilja Guðs en að gera okkur kleift að fara eftir vilja Guðs. Trú er traust, traust á það að Guð sjái það sem við getum ekki séð og að hann viti það sem við vitum ekki. Stundum nægir ekki að reiða sig á eigin skilning og dómgreind.
Ég lærði þetta sem atvinnuflugmaður, þá daga sem ég varð að fljúga inn í þykka þoku eða ský og gat einungis séð nokkur fet framundan. Ég varð að treysta á stjórntækin sem sögðu mér hvar ég var og hvert ég stefndi. Ég varð að hlusta á rödd flugumferðarstjórnarinnar. Ég varð að fylgja leiðsögn einhvers með réttari upplýsingar en ég hafði. Einhvers sem ég gat ekki séð en sem ég hafði lært að treysta. Einhver sem gat séð það sem ég gat ekki. Ég varð að treysta og framkvæma samkvæmt því ef ég ætlaði að komast örugglega á leiðarenda.
Trúin þýðir að við treystum ekki einungis á visku Guðs, heldur einnig á kærleika hans. Það þýðir að treysta því að Guð elski okkur fullkomlega, að allt sem hann geri, allar þær blessanir sem hann veitir og allar þær blessanir sem hann heldur til baka, tímabundið, er fyrir eilífa hamingju okkar.
Með þess konar trú getum við vitað að þrátt fyrir að við skiljum ekki hvers vegna sumir hlutir gerast eða ekki fást svör við sumum bænum, þá kemur að því að fáum þennan skilning. „Allt mun samverka til góðs þeim sem elska Guð.“
Allt verður gjört rétt. Allt verður í lagi.
Við getum verið viss um að svörin munu koma og við megum vera örugg um að við verðum ekki einungis sátt við svörin heldur verðum við gagntekin af náð, miskunn, örlæti og kærleika himnesks föður til okkar, barna hans
Haldið aðeins áfram að knýja á
Þangað til að því kemur, þá göngum við í hverri þeirri trú sem við höfum, ávallt í leit að því að auka við trú okkar. Stundum er þetta ekki auðvelt verk. Þeim sem eru óþolinmóðir, óákveðnir eða kærulausir finnst trú eflaust torskilin. Það er ólíklegt að þeir sem gefast fljótt upp eða eru viðutan, upplifi hana yfirleitt. Trú kemur til þeirra sem eru auðmjúkir, iðnir og úthaldssamir.
Hún kemur til þeirra sem greiða gjald trúfestu.
Þessi sannleikur sést best á reynslu tveggja ungra trúboða sem þjónuðu í Evrópu, á svæði þar sem voru fáar trúskiptiskírnir. Ég geri ráð fyrir því að það hefði verið auðvelt fyrir þá að hugsa sem svo að hvað sem þeir gerðu myndi ekki breyta miklu.
Þessir tveir trúboðar höfðu hins vegar trú, og þeir höfðu skuldbundið sig. Viðhorf þeirra var að ef enginn hlustaði á boðskap þeirra, þá yrði það ekki af því að þeir hefðu ekki reynt sitt besta.
Dag einn fengu þeir það á tilfinninguna að þeir ættu að tala við íbúa snyrtilegs fjögurra hæða fjölbýlishúss. Þeir byrjuðu á fyrstu hæð og bönkuðu á hverjar dyr, kynntu sáluhjálpandi boðskap Jesú Krists og endurreistrar kirkju hans.
Enginn á fyrstu hæð vildi hlusta á þá.
Það hefði verið svo auðvelt að segja: „Við reyndum. Hættum hér. Förum og reynum aðra byggingu.“
Þessir tveir trúboðar höfðu hinsvegar trú og voru fúsir að vinna,, svo þeir bönkuðu á allar dyr annarar hæðar.
Aftur vildi enginn hlusta.
Þriðja hæðin var eins. Einnig sú fjórða – það er þar til þeir bönkuðu á síðustu dyr fjórðu hæðar.
Þegar þær opnuðust, brosti ung stúlka til þeirra og bað þá að bíða á meðan hún talaði við móður sína.
Móðir hennar, sem var einungis 36 ára gömul, hafði nýverið misst eiginmann sinn og var engan vegin í skapi til að tala við Mormónatrúboða. Hún sagði dóttur sinni því að senda þá í burtu.
Dóttirin þrábað hana. Þessir ungu menn væru svo viðkunnalegir, sagði hún. Það myndi bara taka nokkrar mínútur.
Móðirin samþykkti, þó treglega. Trúboðarnir fluttu boðskapinn og afhentu móðurinni bók að lesa, Mormónsbók
Eftir að þeir fóru ákvað móðirin að hún myndi að minnsta kosti lesa nokkrar blaðsíður.
Hún kláraði alla bókina á nokkrum dögum.
Ekki löngu eftir þetta, steig þessi fjölskylda einstæðs foreldris ofan í skírnarvatnið.
Þegar litla fjölskyldan mætti í svæðisdeild þeirra í Frankfurt í Þýskalandi þá tók ungur djákni eftir fegurð einnar dætranna og hugsaði með sér: „Þessir trúboðar eru að vinna gott verk!“
Þessi ungi djákni hét Dieter Uchtdorf Þessi heillandi unga kona – sem hafði þrábeðið móður sína að hlusta á trúboðana – heitir hinu fallega nafni Harriet. Hún er elskuð af öllum sem hitta hana er hún fylgir mér á ferðalögum mínum. Hún hefur blessað líf margra í gegnum ást hennar á fagnaðarerindinu og með geislandi persónuleika hennar. Hún er sannarleg sólin í lífi mínu.
Hve oft hef ég ekki lyft hjarta mínu í þakklæti fyrir þessa tvo trúboða sem hættu ekki á fyrstu hæðinni! Hve oft sem hjarta mitt fyllist þakklæti vegna trúar þeirra og starfs. Hve oft hef ég þakkað fyrir það að þeir héldu áfram, alla leið að fjórðu hæð, síðustu dyr.
Fyrir yður mun upplokið verða.
Í leit okkar að varanlegri trú, í leit okkar að tengjast Guði og tilgangi hans, minnumst þá loforðs Drottins: „Knýið á og fyrir yður mun upplokið verða.“
Munum við gefast upp eftir að banka á einar eða tvennar dyr? Eina eða tvær hæðir?
Munum við kannski halda áfram að leita þar til við höfum komist að fjórðu hæð, síðustu dyrum?
Guð „[umbunar] þeim, er hans leita.“ en þau verðlaun eru yfirleitt ekki á bak við fyrstu dyrnar. Við þurfum því að halda áfram að knýja á. Systur, gefist ekki upp. Leitið Guðs að öllu hjarta. Iðkið trú. Gangið í réttlæti.
Ég lofa því að ef þið gerið þetta, alla leið að síðustu dyrum, fjórðu hæðar, þá munið þið öðlast svörin sem þið leitið að. Þið munið finna trú. Dag einn munið þið vera uppfullar af ljósi sem verður „skærara og skærara þar til hinn fullkomna dag.“
Ástkæru systur mínar í Kristi, Guð eru raunverulegur.
Hann lifir.
Hann elskar ykkur.
Hann þekkir ykkur.
Hann skilur ykkur.
Hann þekkir hljóðar bænir hjarta ykkar.
Hann hefur ekki yfirgefið ykkur.
Hann mun ekki yfirgefa okkur.
Það er vitnisburður minn og postulleg blessun til ykkar allra að þið munið finna þennan göfuga sannleik í hjörtum ykkar og huga. Lifið í trú, kæru vinir, og „Drottinn Guð okkar mun auka ykkur þúsundfalt og blessa eins og hann hefur lofað!“
Ég skil eftir hjá ykkur trú mína, sannfæringu og ákveðið og óhaggandi vitni mitt um að þetta er verk Guðs. Í helgu nafni okkar ástkæra frelsara, í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.