2010–2019
Hinn fullkomni hamingjuvegur
Október 2016


Hinn fullkomni hamingjuvegur

Ég ber vitni um hina dásamlegu gjöf, sem er áætlun föður okkar fyrir okkur. Hún er hinn fullkomni vegur til friðar og hamingju.

Kæru bræður og systur, bæði hér í Ráðstefnuhöllinni og um allan heim, hve þakklátur ég er að geta miðlað ykkur hugsunum mínum þennan dag.

Fyrir fimmtíu og tveimur árum, í júlí árið 1964, fékk ég úthlutað verkefni í New York borg, á þeim tíma er Heimssýningin var höfð þar. Snemma morguns, á þeirri sýningu, fór ég í sýningarskála mormóna. Ég kom rétt áður en sýna átti kirkjumyndina Leit mannsins að lífshamingju, sem er kynning á sáluhjálparáætluninni, en myndin hefur orðið sígild í kirkjunni. Ég sat við hlið ungs manns, sem gæti hafa verið um 35 ára gamall. Við ræddumst stuttlega við. Hann var ekki meðlimur kirkjunnar. Ljósin voru síðan slökkt og sýningin hófst.

Við hlustuðum á þulinn kynna hinar áhrifamiklu og altæku spurningar: Hvaðan kom ég? Hvers vegna er ég hér? Hvert fer ég að þessu lífi loknu?“ Allir lögðu við eyru til að hlusta á svörin og störðu á myndirnar sem sýndar voru. Fortilverunni var lýst og tilgangur jarðlífsins útskýrður. Við hlustuðum á hjartnæma lýsingu á dauða aldraðs afa og dýrðlega endurfundi hans við ástvini sína, sem farið höfðu á undan í andaheiminn.

Við loks þessarar dásamlegu kynningar á áætlun okkar himneska föður, fóru sýningargestir hljóðlega út og margir þeirra voru augljóslega snortnir af boðskap myndarinnar. Ungi áhorfandinn við hlið mér sat kyrr. Ég spurði hvort hann hefði notið kynningarinnar. Hann svaraði af hluttekningu: „Þetta er sannleikur!“

Áætlun föður okkar fyrir hamingju okkar og sáluhjálp er miðlað um heim allan af trúboðum okkar. Þeir sem heyra þennan guðlega boðskap taka ekki allir á móti honum. Hins vegar, þá upplifa karlar og konur hvarvetna sannleika hans, eins og hinn ungi vinur minn á Heimssýningunni í New York gerði, og þau fara inn á veginn sem leiðir þau örugg heim. Líf þeirra verður varanlega breytt.

Kjarni áætlunarinnar er frelsari okkar, Jesús Kristur. Án friðþægingar hans, væri allt glatað. Það nægir þó ekki að trúa bara á hann og hlutverk hans. Við þurfum að vinna og læra, leita og biðja, iðrast og þroskast. Við þurfum að þekkja lögmál Guðs og lifa eftir þeim. Við þurfum að taka á móti endurleysandi helgiathöfnum hans. Aðeins á þann hátt munum við öðlast sanna eilífa hamingju.

Við erum blessuð að hafa sannleikann. Okkur ber skylda til að miðla sannleikanum. Við skulum lifa samkvæmt sannleikanum, svo við fáum notið alls þess sem faðirinn ætlar okkur. Hann gerir ekkert nema það verði okkur til farsældar. Hann hefur sagt: „Því að sjá. Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“

Af allri sálu, og af allri auðmýkt, þá ber ég vitni um hina dásamlegu gjöf, sem er áætlun föðurins fyrir okkur. Hún er hinn fullkomni vegur til friðar og hamingju, bæði hér og í komandi heimi.

Bræður mínir og systur, ég færi ykkur elsku mína og blessanir, er ég lýk máli mínu, og það geri ég í nafni frelsara okkar og lausnara, já, Jesú Krists, amen.