Sæluáætlunin
Í lok dagsins þá er það lokatakmarkið í kirkjunni að sjá mann og konu, með börnum þeirra, hamingjusöm heimavið, innsigluð um eilífð.
Fyrir mörgum árum, að lokinni Síðari heimsstyrjöldinni, þegar ég var í framhaldsskóla, kynntist ég Donnu Smith. Á svipuðum tíma las ég að tveir ómissandi þættir í árangursríku hjónabandi væru smákaka og koss. Mér fannst nokkuð gott vægi þar á milli.
Ég fór í skólann um morguninn og fór svo aftur til Brigham City, til síðdegisstarfa á bílaverkstæði föður míns. Síðasta kennslustund Donnu um morgunin var heimilisfræði. Ég gekk framhjá kennslustofunni hennar áður en ég hélt af stað. Á hurðinni var gluggi með hömruðu gleri og ef ég stóð nálægt glugganum gat hún séð glitta í útlínur mínar fyrir utan. Hún smeygði sér þá út og gaf mér köku og koss. Það sem á eftir kom er segin saga. Við giftumst í Salt Lake musterinu og tókumst svo á við lífsins ævintýri.
Í gegnum árin hef ég oft kennt þessa mikilvægu lífsreglu: Lokamarkmið alls sem á sér stað í kirkjunni, er að sjá mann og konu, með börnum þeirra, hamingjusöm heimavið, innsigluð um tíma og alla eilífð.
Í upphafi:
„Guðirnir fóru niður til að skipuleggja mann í sinni eigin mynd, í mynd guðanna mótuðu þeir hann, karl og konu mótuðu þeir þau.
„Og guðirnir sögðu: Vér viljum blessa þau. Og guðirnir sögðu: „Vér viljum gjöra þau frjósöm, svo að þau margfaldist og uppfylli jörðina og gjöri hana sér undirgefna“ (Abraham 4:27–28).
Þannig hófst hringrás hins jarðneska lífs mannsins, er „Adam kenndi konu sinnar og hún ól honum syni og dætur og þau tóku að margfaldast og uppfylla jörðina.
„Og … synir og dætur Adams [fóru] að dreifa sér, tvö og tvö um landið … og þau gátu einnig syni og dætur“ (HDP Móse 5:2–3).
Boðorðið um að margfaldast og uppfylla jörðina var aldrei afnumið. Það er nauðsynlegur hluti endurlausnaráætlunarinnar og leggur grunn að hamingju mannsins. Með réttlátri notkun þess kraftar, getum við komist nær föður okkar á himnum og upplifað fyllingu gleðinnar, jafnvel guðdóm. Sköpunarkrafturinn er ekki tilfallandi hluti af áætluninni; hann er sæluáætlunin; hann er lykillinn að hamingjunni.
Sú þrá mannsins að para sig er stöðug og sterk. Hamingja okkar í jarðlífinu, gleði okkar og upphafning, er háð því hvernig við bregðumst við þessum stöðugu og sterku líkamlegu þrám. Eftir því sem sköpunarkrafturinn þroskast á fyrstu árum karldóms og kvendóms, taka afar persónulegar tilfinningar að vakna, á eðlilegan hátt, sem er ólík allri annarri líkamlegri upplifun.
Pörun ætti helst að hefjast á rómantík. Þótt hefðir kunni að vera ólíkar, þá blómstrar hún með skáldsagnakenndum tilfinningum tilhlökkunar og eftirvæntingu og stundum jafnvel höfnun. Henni fylgja tunglsljós og rósir, ástarbréf, ástarsöngvar, ljóð, að leiðast hönd í hönd og önnur ástúðleg tjáning á milli ungs karlmanns og konu. Þau sjá ekki veröldina fyrir hvort öðru og gleðin er allsráðandi.
Ef þið haldið að hin mikla alsæla sem ungt og ástfangið fólk upplifir sé hámark þeirra möguleika sem hljóta má frá uppsprettu lífsins, þá hafið þið ekki lifað nógu lengi til að skilja þá hollustu og huggun sem finna má í ástúðlegu langlífu hjónabandi. Hjón eru reynd með freistingum, misskilningi, fjárhagsvanda, fjölskylduvanda, sjúkdómum og í öllu þessu verður ástin sterkari. Þroskuð ást býr yfir alsælu sem hinir nýgiftu hafa ekki skilning á.
Sönn ást krefst þess að sú ástúð sem lýkur upp helgum krafti þessarar uppsprettu lífsins sé varðveitt þar til eftir stofnun hjónabands. Það merkir að forðast skuli aðstæður þar sem líkamlegar þrár taka völdin. Hrein ást lítur svo á, að aðeins eftir loforð um eilífa tryggð, löglega og gilda vígslu, og helst eftir innsiglunarathöfn í musterinu, sé þessi lífvekjandi kraftur Guðs frjáls til fullrar ástartjáningar. Hann á einungis að nota með okkar eilífa maka.
Þegar stofnað er til slíks af verðugleika, þá felur þessi samtenging í sér undurfagrar og upphefjandi líkamlegar, tilfinningalegar og andlegar tifinningar, sem tengjast hugtakinu ást. Sá hluti lífsins á sér enga hliðstæðu, enga samsvörun, í allri sögu mannkyns. Séu sáttmálar gerðir og haldnir, mun það vara að eilífu, „því að þar í eru lyklar hins heilaga prestdæmis vígðir, svo að þér fáið meðtekið heiður og dýrð“ (K&S 124:34), „og sú dýrð skal vera fylling og áframhald niðjanna alltaf og að eilífu“ (K&S 132:19).
Rómantísk ást er ófullnægjandi; hún er bara upphafið. Ástin er nærð með barneignum, sem eru afsprengi þessarar uppsprettu lífsins sem hjónum er treyst fyrir. Getnaður á sér stað í vígðu hjónabandi eiginmanns og eiginkonu. Lítill líkami tekur að myndast í dásamlegu og flóknu ferli. Barn verður til í kraftaverki fæðingar, skapað í mynd síns jarðneska föður og móður. Í sínum jarðneska líkama er andi sem getur skynjað og meðtekið andlega hluti. Í dvala í þeim jarðneska barnslíkama er sá kraftur að geta getið af sér afsprengi í eigin mynd.
„Andinn og líkaminn eru sál mannsins“ (K&S 88:15) og hlíta þarf andlegum og líkamlegum lögmálum, ef við viljum verða hamingjusöm. Það eru eilíf lögmál, líka lögmál sem tengjast þessum krafti til að geta líf, „ákvarðað áður en grundvöllur þessa heims var lagður, sem öll blessun er bundin við“ (K&S 130:20). Þetta eru andleg lögmál sem ákvarða siðferðisstaðla mannkyns (sjá Þýðingu Josephs Smith, Róm 7:14–15 [í Bible appendix]; 2 Ne 2:5; K&S 29:34; 134:6). Það eru sáttmálar sem binda, innsigla og varðveita og gefa loforð um eilífar blessanir.
Alma hvatti son sinn Siblon: „Gættu þess að hafa taumhald á ástríðum þínum, svo að þú fyllist elsku. Gættu þess að forðast iðjuleysi“ (Alma 38:12). Taumhald er notað til að leiðbeina, stjórna og halda í skefjum. Nauðsynlegt er að temja ástríður okkar. Þegar sköpunarkrafturinn er réttilega notaður, mun hann blessa og helga (sjá Teachings of Presidents of the Church: Joseph F. Smith [1998], 158).
Freistingar umlykja okkur. Þar sem óvinurinn getur ekki eignast afkvæmi, þá er hann afbrýðisamur út í alla sem hafa þann guðlega kraft. Honum og þeim sem honum fylgdu var varpað burtu og þau fyrirgerðu sér réttinum til að hljóta jarðneskan líkama. „Hann sækist eftir því, að allir menn verði jafn vansælir og hann er sjálfur“ (2 Ne 2:27). Hann mun freista, og ef hann getur það, fá okkur til að smána, óvirða og ef mögulegt er, eyðileggja þessa gjöf sem getur gert okkur eilífa aukningu mögulega, ef við erum verðug (sjá K&S 132:28–31).
Ef við smánum uppsprettu lífsins eða leiðum aðra til syndar, verður refsingin „nístandi“ og „[erfiðari] að bera“ (K&S 19:15) en alls ekki virði okkar stundlegu ánægju.
Alma sagði við son sinn, Kóríanton: „Veistu ekki, sonur minn, að þetta er viðurstyggð í augum Drottins? Já, synd, sem er öllum öðrum syndum viðurstyggilegri að því undanskildu að úthella saklausu blóði eða afneita heilögum anda“ (Alma 39:5). Við getum ekki sloppið við afleiðingar þess að syndga.
Eina rétta og heimilaða tjáning sköpunarkraftsins er á milli eiginkonu og eiginmanns, karls og konu, sem eru löglega gift. Allt annað en það gengur gegn borðorðum Guðs. Látið ekki undan skelfilegum freistingum óvinarins, því frá syndinni kemst maður ekki „fyrr en [maður] hefur borgað síðasta eyri“ (Matt 5:26).
Hvergi kemur gæska og miskunn Guðs betur í ljós en í iðruninni.
Verði efnislíkami okkar fyrir hnjaski megnar hann að lækna sjálfan sig, stundum með hjálp læknis. Sé skaðinn hins vegar mikill, þá skilur hann oft ör eftir sig og minnir okkur á skaðann.
Annað á við um andalíkama okkar. Andi okkar skaðast þegar við gerum mistök og drýgjum syndir. Andstætt við um efnislíkama okkar, þá verða engin ör eftir þegar iðrun er lokið, sökum friðþægingar Jesú Krists. Loforðið er: „Þeim sem hefur iðrast synda sinna er fyrirgefið, og ég, Drottinn, minnist þeirra ekki lengur“ (K&S 58:42).
Þegar við ræðum um hjónabandið og fjölskyldulífið, þá hugsum við óhjákvæmilega: „Hvað með undantekningarnar?“ Sumir fæðast með hömlur og geta ekki getið börn. Sumir saklausir einstaklingar búa við brostið hjónaband vegna hjúskaparbrots maka. Enn aðrir giftast ekki og lifa verðugu einlífi.
Ég veiti nú þessa huggun: Guð er faðir okkar! Allur sá kærleikur og gæska sem fram kemur hjá hinum fyrirmyndar jarðneska föður, er margfaldaður í honum sem er faðir okkar og Guð, meira en við fáum skilið með okkar jarðneska huga. Dómar hans eru réttvísir; miskunn hans takmarkalaus; máttur hans til að umbuna án jarðneskrar hliðstæðu. „Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna“ (1 Kor 15:19).
Af lotningu nota ég nú orðið musteri. Ég sé fyrir mér innsiglunarherbergi og par þar krjúpandi saman. Þessi helgiathöfn musterisins er miklu meira en giftingarathöfn, því slíkt hjónaband getur verið innsiglað með heilögum anda fyrirheitsins og ritningarnar staðhæfa að við munum „erfa hásæti, ríki, hátignir og völd, yfirráð, alla hæð og dýpt“ (K&S 132:19). Ég skynja gleðina sem þau upplifa sem taka á móti þessari guðlegu gjöf og nota hana verðuglega.
Systir Donna Smith Packer og ég höfum verið hlið við hlið í hjónabandi í nærri 70 ár. Hvað eiginkonu mína snertir, sem er móðir barna okkar, þá skortir mig orð. Tilfinningar mínar til hennar rista svo djúpt og þakklætið er svo yfirþyrmandi að ég fæ vart tjáð það. Mesta umbun okkar í þessu lífi og komandi lífi eru börn okkar og barnabörn. Þegar draga fer að lokum okkar jarðneska lífs saman, þá er ég þakklátur fyrir hverja þá stund sem ég hef hana við hlið mér og fyrir loforðið sem Drottinn hefur gefið um að enginn endir verði á því.
Ég ber vitni um að Jesús er Kristur og sonur hins lifandi Guðs. Hann er höfuð kirkjunnar. Sökum friðþægingar hans, og valds prestdæmisins, þá geta fjölskyldur sem verða til í jarðlífinu verið saman um eilífðir. Friðþægingin, sem megnar að endurheimta okkur, skilur engin ör eftir. Það merkir að hann hefur lofað aflausn, ef við iðrumst, hvað sem við höfum gert af okkur, hvar sem við höfum verið eða hvernig sem eitthvað hefur gerst. Þegar hann því friðþægði, þá voru sakirnar uppgerðar. Svo mörg okkar berjast áfram full sektarkenndar, án þess að finna útgönguleið. Útgönguleiðin er að meðtaka friðþægingu Krists og hvaðeina sem hrjáir ykkur getur snúist upp í fegurð og kærleika og eilífð.
Ég er innilega þakklátur fyrir blessanir Drottins Jesú Krists, fyrir sköpunarkraftinn, fyrir endurlausnarkraftinn, fyrir friðþæginguna – sem megnar að hreinsa hverja synd, sama hversu erfið hún er, hve langvin hún er eða þrálát. Friðþægingin megnar að veita ykkur frelsi að nýju, til að sækja fram, hrein og verðug, á þeim lífsins vegi sem þið völduð.
Ég ber vitni um að Guð lifir, að Jesús er Kristur, að friðþægingin er ekki alsherjarlausn fyrir kirkjuna í heild. Friðþægingin er persónuleg og ef þið hafið eitthvað sem angrar ykkur – sem gæti hafa gerst fyrir svo löngu að þið fáið vart munað það lengur – virkið þá friðþæginguna í lífi ykkar. Hún mun hreinsa syndir ykkar, svo að hvorki þið sjálf, né hann munuð minnast þeirra lengur. Í nafni Jesú Krists, amen.