2010–2019
Við munum stíga upp saman
Apríl 2015


Við munum stíga upp saman

Sem konur og menn sem höfum gert sáttmála, þá þurfum við að lyfta hvort öðru upp og hjálpast að við að verða það fólk sem Drottinn vill að við séum.

Margar systranna hafa sagt mér að eitt af því sem þær njóta hvað mest, fyrir utan innblásnar ræðurnar, tónlistina og bænirnar, er þegar Æðsta forsætisráðið og Tólfpostulasveitin stíga niður af ræðupallinum með eilífðar lífsförunautum sínum. Erum við ekki öll jafn glöð að heyra bræðurna tjá þeim ást sína svo blíðlega?

President Boyd K. Packer and his wife, Donna, at the Brigham City Utah Temple cornerstone ceremony, 23 September 2012.

Boyd K. Packer forseti ræddi um eiginkonu sína, Donnu, og sagði: „Sökum þeirrar stöðu sem ég gegni, þá hef ég þá hátíðlegu skyldu að segja sannleikann. Hún er fullkomin.“1

President Dieter F. Uchtdorf and his wife.

„Hún er sólskinið í lífi mínu“2 sagði Dieter F. Uchtdorf um eiginkonu sína, Harriet.

President Henry B. Eyring and Sister Eyring at their wedding.

Henry B. Eyring forseti sagði um eiginkonu sína, Kathleen:„Hún [er] sú manneskja sem hefur alltaf hvatt mig til að vera eins góður og ég mögulega get verið.“3

LDS Church President Thomas S. Monson gives his wife, Frances, a kiss at their 60th anniversary celebration, 10/6/2008, at the Lion House. The two met in 1944 and were married in the Salt Lake Temple on Oct. 7, 1948.

Thomas S. Monson forseti sagði um sína ástkæru Frances: „Hún var ástin í lífi mínu, trúnaðarvinur minn og nánasti vinur. Að segja að ég sakni hennar, nægir engan veginn til að lýsa tilfinningum mínum.“4

Mig langar líka til að tjá ást mína á ástkærum förunaut mínum, Craig. Hann er mér dýrmæt gjöf! Það kæra og helga loforð kemur fram í patríarkablessun minni að líf mitt og líf barna minna verði „í góðum höndum hjá honum.“ Mér er það ljóst að Craig uppfyllir það loforð. Ég fæ lánuð orð Marks Twain og segi að „líf án [Craigs] er ekkert líf.“5 Ég elska hann af hjarta og sál!

Guðdómleg hlutverk og ábyrgðir

Í dag langar mig að heiðra eiginmenn, feður, bræður, syni og frændur sem vita hverjir þeir eru og eru að gera sitt besta í því að uppfylla hin guðdómlegu hlutverk sem lýst er í fjölskyldu-yfirlýsingunni, svo sem að leiða fjölskyldu sína í réttlæti, sjá henni farborða og veita henni vernd. Þið megið vita það að ég geri mér grein fyrir því, af biturri reynslu, að mörgum finnst óþægilegt að ræða um feður, mæður og hjónabandið. Ég veit að sumum kirkjuþegnum finnst, að þeirra eigin mati, að heimili þeirra geti aldrei náð því að verða til fyrirmyndar. Margir þjást vegna vanrækslu, ofbeldis, fíknar og slæmra hefða og menningargilda. Ég get ekki samþykkt hegðun þeirra karla og kvenna sem hafa valdið sársauka, angist eða örvæntingu inni á heimilum sínum, hvort heldur af ásettu ráði eða af vanþekkingu. Í dag er ég hins vega að tala um annað.

Ég er sannfærð um að eiginkonu finnst eiginmaður hennar aldrei jafn aðlaðandi eins og þegar hann er að þjóna í því hlutverki sem Guð hefur falið honum, sem verðugur prestdæmishafi, einkum á heimilinu. Ég ann og trúi þessum orðum sem Packer forseti talaði til verðugra eiginmanna og feðra: „Þið hafið kraft prestdæmisins beint frá Drottni til að vernda heimili ykkar. Sá tími mun koma að sá kraftur verður eina skjólið sem fjölskylda ykkar hefur gegn skaðsemi óvinarins.“6

Andlegir leiðtogar og kennarar á heimilinu.

Snemma á þessu ári fór ég í jarðaför einstaks manns - Dons, frænda mannsins míns. Einn sona Dons frænda deildi með okkur reynslu sem hann hafði átt sem lítið barn, skömmu eftir að foreldrar hans keyptu sitt fyrsta heimili. Þar sem það voru fimm börn á heimilinu til að fæða og klæða þá var ekki nægilegur peningur til fyrir girðingu í kringum garðinn. Þar sem Don frændi tók guðlega skyldu sína sem verndari heimilisins alvarlega þá rak hann nokkrar viðarstikur í jörðina, tók snæri og strengdi það á milli stikana í kringum garðinn. Því næst kallaði hann börnin til sín. Hann sýndi þeim stikurnar og snærið og útskýrði fyrir þeim að ef þau myndu halda sig fyrir innan þessarar bráðabirgðagirðingar þá yrðu þau örugg.

Dag einn horfðu heimsóknarkennarar á í furðu er þær nálguðust húsið og sáu fimm börn standa hlýðin við endann á bandinu, horfandi með löngun á bolta sem hafði skoppað út fyrir mörk þeirra og út á götuna. Eitt barnanna hljóp til pabba síns, sem hljóp þá til og náði í boltann.

Seinna í jarðaförinni tjáði elsti sonurinn, klökkur, að allt sem hann hefði óskað sér í lífinu væri að verða eins og ástkær faðir hans.

Sister Burton's son and grandson reading together.

Ezra Taft Benson forseti sagði:

„Ó, eiginmenn og feður í Ísrael, þið getið gert svo mikið fyrir sáluhjálp og upphafningu fjölskyldna ykkar! …

Minnist helgrar köllunar ykkar sem feður í Ísrael – mikilvægustu köllunar ykkar um tíma og alla eilífð – köllunar sem þið verðið aldrei leystir frá.

Sister Burton's son and grandson on a bed together.

Þið verðið að aðstoða við að skapa heimili þar sem andi Drottins fær dvalið.“7

Hve þessi orð eiga vel við á okkar tíma.

Það hlýtur að vera mjög erfitt í dag fyrir karlmenn sem hafa gert sáttmála, að lifa í heimi sem lítillækkar ekki bara hlutverk þeirra og ábyrgðir heldur sendir einnig fölsk skilaboð um hvað það þýði að vera „karlmenni.“ Ein af þessum fölsku skilaboðum eru: „Þetta snýst allt um mig.“ Á hinum enda kvarðans eru þau niðurlægjandi og háðungslegu skilaboð að ekki sé lengur þörf fyrir eiginmenn og feður. Ég sárbið ykkur um að hlusta ekki á lygar Satans! Hann hefur algjörlega fyrirgert sér þeim rétti að verða eiginmaður eða faðir. Þar sem hann er afbrýðisamur út í þá sem hafa þetta helga hlutverk, þá er hann ákveðinn í því að gera „[alla] menn … jafn [vansæla] og hann er sjálfur!“8

Að upplyfta og hrósa í samsvarandi hlutverkum

Bræður og systur, við þörfnumst hvors annars! Sem konur og menn sem höfum gert sáttmála, þá þurfum við að lyfta hvort öðru upp og hjálpast að við að verða það fólk sem Drottinn vill að við séum. Við þurfum líka að vinna saman að því að lyfta upp komandi kynslóð og hjálpa þeim að ná guðdómlegum möguleikum sínum sem erfingjar eilífs lífs. Við getum líka gert eins og öldungur Robert D. Hales og eiginkona hans, Mary, hafa gert og fylgt orðunum: „Lyftu mér og ég mun lyfta þér, og við munum stíga upp í sameiningu.“9

Við þekkjum það frá ritningunum að „eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall.“ Þess vegna hefur himneskur faðir gert „honum meðhjálp við hans hæfi“10 Orðin meðhjálp við hæfi þýða „verðug hans eða samsvarandi honum.“11 Hendur okkar eru t.d. samsvarandi en ekki nákvæmlega eins. Í raun eru þær gagnstæðar hvor annarri, en bæta hvor aðra upp og eru samhentar. Samvinnan gerir þær sterkari.12

Í handbók kirkjunnar, í kafla um fjölskyldur, má finna þessi orð. „Andlegt atgervi karla og kvenna er slíkt að þau bæta hvort annað upp.“13 Takið eftir að hér segir að þau „bæti hvort annað upp,“ en ekki „keppi við hvort annað!“ Við erum hér til að aðstoða, upplyfta og gleðjast með hvort öðru, er við vinnum að því að verða eins góðir einstaklingar og framast er unt. Systir Barbara B. Smith hefur svo viturlega sagt: „Það er svo mikið meiri hamingja sem felst í því að geta fagnað yfir velgengni hvors annars, enn ekki bara yfir eigin velgengni.“14 Þegar við leitumst við að „bæta upp,“ fremur en að „keppa við,“ þá er svo mikið auðveldara að hvetja hvort annað áfram!

Það var engin jafn áköf og ég að syngja barnasálminn „Ég er svo glöð þegar pabbi kemur heim.“15 Ung móðir með mörg lítil börn, í lok dags fullum af bleyjum, uppvaski og agamálum. Það syrgir mig samt að viðurkenna að ég var ekki alltaf kát þegar hann kom arkandi inn um dyrnar eftir erfiðan vinnudag. Hann heilsaði okkur öllum með faðmlagi og kossi og snéri mörgum vonlausum dögum í yndislegar pabbastundir. Ég vildi óska þess að ég hefði getað verið minna upptekin af endalausum verkefnalistum og einbeitt mér skynsamlegar að því sem skipti máli, eins og hann gerði. Ég hefði stoppað oftar og notið helgra fjölskyldustunda og þakkað honum oftar fyrir blessanir lífs okkar.

Við skulum oft mæla ljúf orð til hvors annars

Fyrir ekki löngu síðan deildi trúföst systir áhyggjum sínum með mér, varðandi mál sem hún hafði verið að biðja fyrir í nokkurn tíma. Hún hafði áhyggjur af nokkrum systrum í deildinni sinni. Hún sagði að það særði hjarta hennar að þær töluðu af óvirðingu við eiginmenn sína og um þá, jafnvel fyrir framan börnin þeirra. Hún sagði mér hvernig hún hefði sem ung stúlka þráð einlæglega og beðið fyrir því að hún gæti fundið og gifst verðugum prestdæmishafa og byggt hamingjuríkt heimili með honum. Hún hafði alist upp á heimili þar sem móðir hennar hafði stjórnað öllu og pabbi hennar hefði gefið sig undan kröfum móður hennar til að halda friðinn á heimilinu. Henni fannst að það hlyti að vera til betri leið. Hún hafði ekki séð það á sínu uppeldisheimili en er hún bað heitt um leiðsögn þá blessaði Drottinn hana með vitneskju um hvernig hún og eiginmaður hennar gætu byggt heimili þar sem andinn væri velkominn. Ég hef komið á það heimili og get vitnað um það að það er helgur staður.

Bræður og systur, hve oft mælum við „ljúf orð til hvors annars“16 af ásetningi?

Við gætum prófað okkur með því að leggja fyrir okkur sjálf nokkrar spurningar. Með smá aðlögun, þá gætu þessar spurningar átt við okkur flest, hvort sem við erum í hjónabandi, einhleyp eða hverjar sem heimilisaðstæður okkar kunna að vera.

  1. Hvenær hrósaði ég maka mínum einlæglega síðast, hvort heldur í einrúmi eða í návist barna okkar?

  2. Hvenær þakkaði ég, tjáði ást mína eða bað heitt fyrir honum eða henni í bæn?

  3. Hvenær stoppaði ég mig síðast frá því að segja eitthvað vísvitandi særandi?

  4. Hvenær bað ég auðmjúklega afsökunar - án þess að bæta við orðunum „ef þú hefðir aðeins“ eða „ef þú hefðir ekki?“

  5. Hvenær valdi ég síðast að vera glaður/glöð frekar en að krefjast þess að hafa „rétt fyrir mér?“

Hafi einhver þessara spurninga vakið ykkur sektarkennd, minnist þá að öldungur David A. Bednar sagði: „Sektarkenndin er anda okkar líkt og sársaukinn er líkama okkar ‒ hættuaðvörun og vernd gegn aukinni skaðsemi.“17

Ég hvet okkur öll til að hlusta á einlæg tilmæli öldungs Jeffrey R. Hollands: „Bræður og systur, í þessari löngu eilífu leit eftir því að líkjast frelsara okkar, megum við reyna að vera „fullkomnir karlar og konur,“ hið minnsta á þennan eina veg núna – með því að misbjóða ekki í orði, eða sagt jákvæðar, með því að tala nýrri tungu, tungu engla.“18

Er ég hef undirbúið mig fyrir þetta tækifæri hér í dag þá hefur andinn kennt mér, og ég hef ásett mér, að nota oftar vinsamleg orð við ástkæran maka minn og um hann, að lyfta upp mönnunum í fjölskyldu minni og tjá þeim þakklæti fyrir það hvernig þeir uppfylla guðleg og styðjandi hlutverk sín. Ég hef einnig ákveðið að fara eftir orðunum: „Lyftu mér og ég mun lyfta þér, og við munum stíga upp í sameiningu.“

Viljið þið sameinast mér í því að leita liðsinnis heilags anda til að skilja hvernig við getum betur lyft hvort öðru í okkar samsvarandi hlutverkum, sem sáttmáls synir og dætur okkar himnesku foreldra?

Ég veit að með virkjandi krafti friðþægingarinnar og trú á Jesú Krist, þá getum við gert það. Ég bið þess að við munum setja traust okkar á hann til að hjálpa okkur við að hjálpa hvort öðru að lifa hamingjusamlega og eilíflega er við stígum upp saman, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Boyd K. Packer, í „Donna Smith Packer Receives Family History Certificate from BYU,“ news.byu.edu/archive12-jun-packer.aspx.

  2. Dieter F. Uchtdorf, í Jeffrey R. Holland, „Elder Dieter F. Uchtdorf: On to New Horizons, „Ensign, mars 2005, 12; Liahona, mars 2005, 10.

  3. Henry B. Eyring, í Gerald N. Lund, „Elder Henry B. Eyring: Molded by Defining Influences,“ Ensign, sept. 1995, 14; Liahona, apríl 1996, 31.

  4. Thomas S. Monson, „I Will Not Fail Thee, nor Forsake Thee,“ Ensign eða Liahona, nóv. 2013, 85.

  5. Mark Twain, Eve’s Diary (1905), 107.

  6. Boyd K. Packer, „The Candle of the Lord,“ Ensign eða Liahona, maí 2010, 9.

  7. Ezra Taft Benson, „To the Fathers in Israel,“ Ensign, nóv. 1987, 51, 50.

  8. 2 Ne 2:27.

  9. Sjá Robert D. Hales, „Strengthening Families: Our Sacred Duty,“ Ensign, maí 1999, 34; Liahona, júlí 1999, 40; sjá einnig LaRene Gaunt, „Elder Robert D. Hales: Return with Honor,“ Ensign, júlí 1994, 51; Liahona, apríl 1995, 31.

  10. 1 Mós 2:18.

  11. 1 Mós 2:18 neðanmálsgrein b.

  12. Sjá Bruce K. Satterfield, „The Family under Siege: The Role of Man and Woman“ (ræða í Ricks College Education Week, 7. júní 2001), 4; emp.byui.edu/SATTERFIELDB/PDF/RoleManWoman2.pdf.

  13. Handbook 2: Administering the Church (2010), 1.3.1.

  14. Barbara B. Smith, „Hearts So Similar,“ Ensign, maí 1982, 97.

  15. „Daddy’s Homecoming,“ Children’s Songbook, 210.

  16. „Let Us Oft Speak Kind Words,“ Hymns, nr. 232.

  17. David A. Bednar, „We Believe in Being Chaste,“ Ensign eða Liahona, maí 2013, 44.

  18. Jeffrey R. Holland, „The Tongue of Angels,“ Ensign eða Liahona, maí 2007, 18.