2010–2019
Hin eilífa yfirsýns fagnaðarerindisins
Apríl 2015


Hin eilífa yfirsýns fagnaðarerindisins

Nauðsynlegt er að hafa yfirsýn fagnaðarerindisins við ákvarðanatökur sem snerta eilífðina.

Í opinberun sem gefin var Móse, er okkur greint frá yfirlýstu ætlunarverki himnesks föður: „Því að sjá. Þetta er verk mitt og dýrð mín – að gjöra ódauðleika og eilíft líf mannsins að veruleika.“1 Í samhljóm við þessa yfirlýsingu, þá þráir faðirinn að veita öllum það tækifæri að taka á móti fyllingu gleðinnar. Síðari daga opinberanir staðfesta að faðir okkar á himnum gerði undursamlega sæluáætlun fyrir öll sín börn, afar sérstaka áætlun, svo við gætum dvalið hjá honum aftur.

Skilningur á þessari sæluáætlun veitir okkur eilífa yfirsýn og auðveldar okkur að meta sannlega boðorðin, helgiathafnirnar, sáttmálana og raunir og þrengingar.

Ein megin reglan er sett fram af Alma: „Guð gaf þeim þess vegna boðorð, eftir að hafa kunngjört þeim endurlausnaráætlunina.“2

Athyglisvert er að taka eftir efnisröð kennslunnar. Fyrst kenndi himneskur faðir Adam og Evu áætlun endurlausnar og síðan gaf hann þeim boðorð.

Þetta er dásamlegur sannleikur. Skilningur á áætluninni auðveldar fólki að halda boðorðin, taka betri ákvarðanir og hafa réttan ásetning.

Á þeim tíma sem ég hef þjónað í kirkjunni, hef ég orðið vitni að hollustu og staðfestu kirkjumeðlima í hinum ýmsu löndum, og sumum sem glíma við stjórnmálalega, félagslega eða fjárhagslega erfiðleika. Eitt af því sem þessi trúföstu meðlimir eiga yfirleitt sameiginlegt er hin eilífa yfirsýn þeirra. Hin eilífa yfirsýn fagnaðarerindisins eykur skilning okkar á því hvar við erum stödd í áætlun Guðs, gerir okkur sáttari við erfiðleika og auðveldar okkur að takast á við þá og að taka ákvarðanir og að einblína á okkar guðlegu möguleika.

Yfirsýn er að geta séð hlutina úr ákveðinni fjarlægð, sem gerir okkur kleift að greina rétt samhengi og gildi þeirra.

Það er líkt og að vera í skógi með tré fyrir framan okkur. Við getum ekki séð hvernig skógurinn lítur úr, nema við færum okkur svolítið aftar. Eitt sinn fór ég í Amazon skóginn í Leticiu, Kólombíu, nærri landamærum Brasilíu og Perú. Ég fékk ekki séð umfang skógsins fyrr en ég hafði flogið yfir hann og fengið yfirsýn.

Þegar börnin okkar voru lítil, horfðu þau oft á barnaefni í sjónvarpinu sem nefndist Hvað færðu séð? Á skjánum var einhver hlutur sýndur í mikilli aðdrægni og börnin urðu að geta sér til hver hann væri meðan aðdrægnin var smám saman minnkuð. Þegar hluturinn hafði allur komið í ljós, reyndist auðvelt að sjá hvort um kött, plöntu, ávöxt eða eitthvað álíka væri að ræða.

Ég minnist þess, er þau horfðu eitt sinn á þáttinn, að eitthvað var sýnt í mikilli aðdrægni sem þeim virtist óaðlaðandi og jafnvel ógeðslegt, en þegar aðdrægnin minnkaði, var þeim ljóst að þetta var afar gómsæt pizza. Þá varð þeim að orði: „Pabbi, vildu kaupa eina svona handa okkur!“ Eftir á skildist þeim hvað þetta var. Í fyrstu hafði hluturinn sýnst ógeðfeldur, en þegar uppi var staðið var hann afar eftirsóknarverður.

Ég ætla að segja frá öðru dæmi. Á heimili okkar, þá finnst börnunum gaman að raða saman púsli. Við höfum líklega öll einhvern tíma raðað saman púsli. Í sumum þeirra er fjöldi lítilla púsla. Ég minnist þess að eitt barna okkar (ég gef ekki um nafn þess, til að vernda það) einbeitti sér yfirleitt að hinu einstaka púsli og þegar það passaði ekki þar sem honum fannst það eiga að vera, þá varð hann argur, taldi það óásættanlegt og hugðist fleygja því í burtu. Hann lærði loks að púsla þegar honum skildist að hvert púsl ætti sinn stað í heildarmyndinni, þótt hann vissi ekki hvar það ætti að vera á einhverjum tilteknum tíma.

Þetta er ein aðferð til að reyna að skilja áætlun Drottins. Við ættum ekki einungis að einblína á hina einstaku hluta hennar, heldur fremur að reyna að sjá heildarmyndina og minnast þess hver hin endanlega niðurstaða verður. Drottinn veit þekkir samhengi hlutanna, svo allt falli að áætlun hans. Öll boðorðin eru af eilífu mikilvægi í samhengi hinnar dásamlegu sæluáætlunar.

Afar mikilvægt er að taka ekki ákvarðanir af eilífu gildi út frá jarðneskri yfirsýn. Nauðsynlegt er að hafa yfirsýn fagnaðarerindisins við ákvarðanatökur sem snerta eilífðina.

Öldungur Neal A. Maxwell sagði: „Þótt við séum ‚reyrð‘ hinni mikilfenglegu og endanlegu von, þá eru okkar stundlegu vonir annars eðlis. Við gætum vonast eftir kauphækkun, ákveðnu stefnumóti, kosningasigri eða stærra húsi – einhverju sem gæti eða gæti ekki verið raunhæft. Trú á áætlun föðurins eflir okkur þrótt, jafnvel þótt slíkar nærtækar vonir verði að engu. Vonin fær okkur til að ‚starfa af kappi‘ fyrir góðan málstað, jafnvel þótt sá málstaður eigi undir högg að sækja (sjá K&S 58:27).“3

Ef við höfum ekki eilífa yfirsýn, eða glötum henni, getur það fengið okkur til að hafa jarðneska yfirsýn að lífsstaðli og að taka ákvarðanir sem ekki eru í samhljóm við vilja Guðs.

Í Mormónsbók er bent á það viðhorf sem Nefí tileinkaði sér og viðhorf Lamans og Lemúels. Þeir höfðu gengið í gegnum fjölda rauna og erfiðleika, en viðhorfið til þeirra var afar ólíkt. Nefí sagði: „Blessun Drottins hvíldi yfir okkur í svo ríkum mæli, að enda þótt við yrðum að nærast á hráu kjöti í óbyggðunum, höfðu eiginkonur okkar fyllilega nóg fyrir börn sín að sjúga, og þeim óx svo þrek, að þær urðu sem næst jafnokar karlmannanna og fóru að þola ferðalögin möglunarlaust.“4

Laman og Lemúel mögluðu hins vegar stöðugt og beisklega. „Þannig mögluðu Laman og Lemúel, sem elstir voru, gegn föður sínum. Og þeir gjörðu svo, vegna þess að þeir þekktu eigi vegu þess Guðs, sem skóp þá.“5 Að þekkja ekki „vegu Guðs“ er ein leið til að glata eilífri yfirsýn og að mögla er aðeins eitt einkenni þess. Þótt Laman og Lemúel hefðu orðið vitni að mörgum kraftaverkum með Nefí, andmæltu þeir og sögðu: „Við höfum nú reikað um óbyggðirnar í öll þessi ár. Og eiginkonur okkar hafa mátt strita, jafnvel komnar að falli. Og þær hafa alið börn sín í óbyggðunum og allt mátt þola nema dauðann. Og betur hefði farið, að þær hefðu orðið dauðanum að bráð, áður en þær fóru frá Jerúsalem, en verða að þola allar þessar þrengingar.“6

Þetta lýsir tvennskonar afar ólíku lífsviðhorfi, jafnvel þótt raunirnar og þrengingarnar fólksins væru svipaðar. Það hafði greinilega ekki sömu yfirsýn.

Spencer W. Kimball forseti ritaði eftirfarandi: „Ef við teldum að þetta dauðlega líf væri öll tilveran, þá væru sársauki, sorg, mistök og skammlífi ógæfa. En ef við lítum á lífið sem eilíft, að það nái langt inn í fortilveruna og áfram inn í eilífa framtíð að loknum dauðanum, þá er hægt að setja allt sem gerist í rétt samhengi.“7

Öldungur David B. Haight sagði sögu um myndhöggvarann Michelangelo, til að útskýra mikilvægi þess að sjá hlutina í réttu samhengi: „Meðan myndhöggvarinn var að meitla í marmarann, var þar feiminn drengur sem fylgdist með honum dag hvern. Hann horfði á myndina af Davíð koma fram og mótast í steininum, og þegar henni var lokið fyrir heiminn til að dást að, spurði drengurinn Michelangelo: ‚Hvernig vissirðu að hann væri þarna inni?‘“8

Myndhöggvarinn leit marmarablokkina öðrum augum en drengurinn, sem hafði fylgst með störfum hans. Skilningur listamannsins á möguleikunum sem bjó í steininum, gerði honum kleift að skapa listaverk.

Drottinn veit hverju hann getur komið til leiðar í hverju okkar. Hann veit hvaða beytingum hann vill koma á í lífi okkar og okkur ber ekki að segja honum fyrir verkum. Hugsanir hans eru æðri okkar hugsunum.9

Ég ber vitni um að við eigum kærleiksríkan, réttlátan og miskunnsaman föður, sem hefur búið okkur áætlun til eilífrar hamingju. Ég ber vitni um að Jesús Kristur er sonur hans og frelsari heimsins. Ég veit að Thomas S. Monson forseti er spámaður Guðs. Ég segi þetta í nafni Jesú Krists, amen.