2010–2019
Dveljið við tréð
Apríl 2015


Dveljið við tréð

Sýn Lehís um tré lífsins er áhrifarík samlíking við það að standast allt til enda.

Stuttu áður en Heber J. Grant forseti lést, vitjaði einn bræðranna heimilis hans. Áður en hann fór bað Grant forseti þessara bænarorða: „Ó, Guð, blessaðu mig svo ég glati ekki vitnisburði mínum og verði trúfastur allt til enda!1 Eftir 27 ára þjónustu sem forseti kirkjunnar, þá var þetta heit bæn hans. Þetta fordæmi hans er sláandi áminning um að enginn, hver sem aldurinn er, er ónæmur fyrir áhrifum Satans. Tvö áhrifaríkustu vopn Satans eru að blekkja og dreifa athygli okkar.

Að standast allt til enda er aðalsmerki hins sanna lærisveins og nauðsynlegt fyrir eilíft líf. Þegar við svo upplifum þrengingar og þrautir er okkur oft einfaldlega sagt að „halda þetta út.“ Ég segi skýrt og skorinort: Að „halda þetta út,“ er ekki regla fagnaðarerindisins. Að standast allt til enda er að koma stöðugt til Krists og fullkomnast í honum.

Af hverju eigum við erfitt með að vera trúföst, ef nauðsynlegt er að standast allt til enda til að hljóta eilíft líf? Við heyjum baráttu þegar forgangsatriðin taka að stangast á. Treg hlýðni og hálfshugar skuldbinding eru trúarletjandi. Að standast allt til enda krefst þess að við skuldbindum okkur algjörlega frelsaranum og sáttmálum okkar.

Sýn Lehís um tré lífsins er áhrifarík samlíking við það að standast allt til enda. Lærið og ígrundið vandlega draum Lehís með bæn og heimfærið hann síðan upp á ykkur. Þegar þið gerið það, hugleiðið þá sex mikilvægar reglur sem hjálpa okkur að standast til enda.

1. Gleymið ekki að biðja

Við byrjum á Lehí „úti í dimmri og drungalegri eyðimörkinni“2 Öll upplifum við dimmar og einmanalegar stundir. „Þegar sár þér veröld veitti, varstu í bænarhug?“3 Fylgið fordæmi Hebers J. Grant forseta. Biðjið um styrk til að standast allt til enda. Spyrjið föðurinn: „Hvað annað viltu að ég geri?“

2. Komið til Krists og fullkomnist í honum

Tré lífsins er þungamiðjan í draumi Lehís. Allt vísar á tré lífsins. Tréð táknar Krist, sem er skýr staðfesting á elsku Guðs. Ávöxturinn er hin óendanlega friðþæging hans og undursamleg staðfesting á elsku Guðs. Eilíft líf með ástvinum okkar er ljúfara og eftirsóknarverðara en allt annað. Við verðum að „[koma] til Krists [og] fullkomnist í honum,“ til að uppgötva þessa gjöf.“4 Hann er „vegurinn, sannleikurinn og lífið.“5 Við getum unnið mörg afreksverk og látið gott af okkur leiða, en þegar uppi er staðið, þá missum við algjörlega marks, ef við gerum ekki helga sáttmála um að fylgja Kristi og höldum þá síðan af trúmennsku.

3. Sækið áfram í trú

Það er vegur sem liggur að tré lífsins, að Kristi. Hann er krappur og þröngur, stífur og strangur. Boðorð Guðs eru afmarkandi en ekki takmarkandi. Þau vernda okkur gegn andlegum og líkamlegum hættum og sjá til þess að við villumst ekki.

Hlýðni eflir trú á Krist. Trú er grundvallarregla verka og máttar. Ef við fylgjum stöðugt fordæmi frelsarans, munum við hljóta andlegan kraft og hæfni. Án styrkjandi og virkjandi kraftar friðþægingarinnar, er ómögulegt að halda stefnunni og standast.

„[Sækið] fram, [staðföst] í Kristi.“6

4. Mormónsbók er lykill að andlegri tilvist

Lífsins ferðalag er krefjandi. Það er auðvelt að missa einbeitinguna, fara af veginum og villast. Mótlæti er óumflýjanlegt og ómissandi hluti af okkar eilífu framþróun. Þegar mótlætið dynur yfir, látið þá ekki það sem þið ekki skiljið til fulls yfirskyggja allt sem þið vissulega vitið. Verið þolinmóð, haldið ykkur fast að sannleikanum; skilningur mun hljótast. Raunir eru líkar þéttri þoku sem getur blindað og hert hjörtu okkar. Við verðum andlega blind, fremur en andlega sinnuð, nema við „[höldum] stöðugt fast í“7 orð Guðs og lifum eftir því. Ígrundið Mormónsbók og orð lifandi spámanna hvern einn og einasta dag! Það er lykill að því að þrauka andlega og láta ekki blekkjast. Án þess að gera það, erum við andlega týnd.

5. Látið ekki fipast eða blekkjast

Að gefa gaum er að veita sérstaka athygli. Að gefa þeim gaum sem ekki trúa á Krist, mun ekki hjálpa ykkur að finna hann. Að leita að hugtakinu #rúmgóðbygging til að afla ykkur þekkingar, mun ekki leiða ykkur í sannleikann. Hann er ekki skráður þar. Aðeins frelsarinn hefur „orð eilífs lífs,“8 Allt annað er bara orðin tóm. Hin rúmgóða bygging táknar „hégómafulla ímyndun og dramb“9 heimsins – eða, með öðrum orðum, truflun og blekkingu. Hún er yfirfull af fólki sem virðast hafa allt af öllu. Það hæðist samt að frelsaranum og þeim sem fylgja honum. Það er „alltaf að reyna að læra, en [getur] aldrei komist til þekkingar á sannleikanum.“10 Það kann að vera rétttrúað, en er andlega týnt.

6. Dveljið við tréð

Boðskapur Lehís er að dvelja við tréð. Við dveljum þar, því við höfum snúist til trúar á Drottin. Alma kenndi: „Hann breytti hjörtum þeirra. Já, hann vakti þá af djúpum svefni, og þeir vöknuðu til Guðs.“11 Þegar við gefum Guði hjarta okkar, mun heilagur andi breyta okkur eðlislega. Við snúumst algjörlega til trúar á Drottin og látum af því að leita að hinni rúmgóðu byggingu. Ef við hættum að gera það sem kemur trúarumbreytingu til leiðar, hnignar okkur andlega. Fráhvarf er andstæða trúarumbreytingar.

Við alla trúboða, fyrr og nú, segi ég: Öldungar og systur, þið getið einfaldlega ekki komið heim af trúboði, tekið u-beygju aftur inn í Babýlon og varið ómældum tíma í að vinna ykkur inn merkingarlaus stig í innantómum tölvuleikjum, án þess að falla í djúpan andlegan svefn. Þið getið heldur ekki skoðað netklám og vanrækt dyggð og skírlífi, án þess að upplifa ömurlegar andlegar afleiðingar. Ef þið glatið andanum, munið þið týnast. Missið ekki einbeitinguna eða látið blekkjast.

Sannur lærisveinn er dag hvern meðvitaður um Guð í innihaldsríkri bæn, kostgæfnu ritningarnámi, hlýðni og óeigingjarnri þjónustu. Dveljið við tréð og verið á varðbergi.

Fyrir nokkrum árum vorum ég og systir Pearson kölluð til að vera í forsæti Tacoma trúboðsins í Washington. Sú köllun kom algjörlega á óvart. Með beyg í hjarta hitti ég formann og framkvæmdastjóra fyrirtækisins sem ég starfaði hjá og tilkynnti þeim um trúboðsköllun mína. Þeir voru sýnilega ósáttir yfir þeirri ákvörðun minni að fara frá fyrirtækinu. „Hvenær tókstu þessa ákvörðun og afhverju sagðirðu okkur ekki frá þessu fyrr?“ sögðu þeir krefjandi.

Á augnabliki skýrleika kom mjög afgerandi svar í huga mér. Ég sagði: „Ég tók þessa ákvörðun þegar ég var 19 ára gamall ungur maður, er ég gerði helga sáttmála við Guð í musterinu, um að fylgja frelsaranum. Ég hef grundvallað allt mitt líf á þessum sáttmálum og hef einsett mér að fylgja þeirri stefnu nú.“

Þegar við gerum sáttmála við Guð, verður ekki aftur snúið. Ekki er í myndinni að láta undan, að gefast upp og hætta við. Í ríki Guðs er fullkomnunarstaðall til upphafningar. Hann gerir kröfu um hugdjarfa breytni lærisveinsins. Þar er ekkert rúm fyrir miðlungsgóða eða værukæra lærisveina. Meðalmennskan er óvinur fullkomnunar og hálfshugar skuldbinding nægir ekki til að standast allt til enda.

Ef þið eigið í baráttu, eruð ráðvillt eða andlega týnd, þá hvet ég ykkur eindregið til að gera hið eina sem leiðréttir stefnu ykkar. Lesið Mormónsbók aftur í bænaranda og lifið eftir kenningum hennar, hvern einn og einasta dag! Ég ber vitni um hinn mikla kraft Mormónsbókar, sem getur breytt lífi ykkar og eflt ykkur þrótt til að fylgja Kristi. Heilagur andi mun breyta hjörtum ykkar og gera ykkur kleift að sjá „hlutina eins og þeir í raun eru“12 Hann mun sýna ykkur næsta nauðsynlega skref. Þetta er loforð Nefís til ykkar:

„Ég sagði þeim, að … hver sá, sem fylgir orði Guðs og varðveitir það, mun aldrei farast, né heldur geta freistingar eða eldtungur andstæðingsins blindað þá og leitt þá þannig til tortímingar.

„Þess vegna hvatti ég … þá … til að gefa gaum að orði Guðs og láta sér ekki úr minni falla að halda boðorð hans alltaf og í öllu.“13

Bræður og systur, hin mikla prófraun lærisveinsins er að standast allt til enda. Okkar daglega lærisveinsbreytni mun ákvarða okkar eilífu örlög. Vaknið til meðvitundar um Guð, lifið eftir sannleikanum, haldið ykkar helgu sáttmála og dveljið við tréð!

Ég ber vitni um hinn upprisna lifandi Krist. Ég veit að hann lifir. Mín dýpsta þrá er að vera sannur og trúfastur allt til enda í því að fylgja hinu undursamlega fordæmi hans. Í hinu heilaga nafni Drottins Jesú Krists, amen.