2010–2019
Finnst ykkur það enn dásamlegt?
Apríl 2015


Finnst ykkur það enn dásamlegt?

Að lofa og dásama fagnaðarerindið, er trúartákn. Með því viðurkennum við hönd Drottins í lífi okkar og öllu umhverfis okkur.

Ég og eiginkona mín höfum hlotið mikla gleði af uppeldi barnanna okkar fimm, ekki fjarri hinni stórbrotnu borg, París. Á þeim árum vildum við að þau hefðu ótal tækifæri til að uppgötva undur þessa heims. Á hverju sumri fórum við fjölskyldan í langar ferðir til að sjá mestu stórvirki, söguslóðir og náttúruundur Evrópu. Loks, eftir að hafa búið 22 ár nærri París, vorum við tilbúin að flytja í burtu. Ég minnist enn dagsins er börnin mín komu til mín og sögðu: „Pabbi, þetta er alveg til skammar! Við höfum búið hér alla okkar ævi og höfum aldrei farið í Eiffel-turninn!“

Það eru svo ótal mörg undur í þessum heimi. Oft er það þó svo að þegar við höfum þau stöðugt fyrir augunum, að við lítum á þau sem sjálfsagðan hlut. Við horfum en sjáum í raun ekki; við heyrum en hlustum í raun ekki.

Jesús sagði við lærisveina sína í sinni jarðnesku þjónustu:

„Sæl eru þau augu, sem sjá það sem þér sjáið.

Því að ég segi yður: Margir spámenn og konungar vildu sjá það sem þér sjáið, en sáu það ekki, og heyra það sem þér heyrið, en heyrðu það ekki.“1

Oft hef ég velt fyrir mér hvernig það hefði verið að vera uppi á tíma frelsarans. Getið þið séð ykkur sitja við fætur hans? Finna faðminn hans? Sjá hann þjóna öðrum? Samt voru svo margir sem skynjuðu ekki – „sáu“ ekki – að sonur Guðs var meðal þeirra.

Við njótum líka þeirra forréttinda að vera uppi á einstökum tíma. Hinir fornu spámenn sáu endurreisnina sem „dásemdarverk, … já, … dásemdarverk og undur.“2 Í engri annarri ráðstöfun hafa svo margir trúboðar verið kallaðir, svo margar þjóðir verið meðtækilegar fyrir boðskap fagnaðarerindisins og svo mörg musteri verið byggð um heim allan

Hvað okkur varðar, sem Síðari daga heilaga, þá gerast undur líka í lífi okkar. Þau eru til að mynda trúarumbreyting okkar, bænheyrsla okkar og hinar ljúfu blessanir sem Guð veitir okkur alla daga.

Að lofa og dásama fagnaðarerindið, er trúartákn. Með því viðurkennum við hönd Drottins í lífi okkar og öllu umhverfis okkur. Hrifning okkar leiðir líka af sér andlegan styrk. Hún gerir okkur kleift að vera rótföst í trú okkar og helga okkur sáluhjálparstarfinu.

Verðum samt á varðbergi. Hæfni okkar til að undrast er vand með farin. Að halda boðorðin af hálfum hug, af kæruleysi eða ef við erum stöðugt úrvinda, getum við smám saman orðið ónæm fyrir hinum undraverðu táknum og kraftaverkum fagnaðarerindisins.

Í Mormónsbók er sagt frá tímabili, keimlíku okkar, sem varaði fyrir komu Messíasar til Ameríku. Táknin um fæðingu hans birtust skyndilega á himnum. Fólkinu varð svo furðulostið að það auðmýkti sig og nær allir snérust til trúar. En aðeins að fjórum árum liðnum: „Tók [fólkið] að gleyma þeim táknum og undrum, sem það hafði heyrt, og tákn og undur frá himni fóru að vekja stöðugt minni furðu þess … og það tók að efast um allt, sem það hafði heyrt og séð.“3

Bræður mínir og systur, finnst ykkur fagnaðarerindið enn dásamlegt? Getið þið enn séð, heyrt, fundið og undrast? Hefur andleg skynjun ykkar kannski dofnað? Ég hvet ykkur til að gera þrennt, hverjar sem aðstæður ykkar eru.

Í fyrsta lagi ættuð þið aldrei að reyna að uppgötva eða enduruppötva sannleika fagnaðarerindisins. Rithöfundurinn Marcel Proust sagði: „Sannur könnunarleiðangur snýst ekki bara um það að finna náttúruperlur, heldur að sjá þær í nýju ljósi.“4 Munið þið eftir því þegar þið funduð fyrst að Drottinn væri að tala beint til ykkar, eftir lestur einhverrar ritningargreinar? Munið þið eftir því þegar þið fyrst funduð hin ljúfu áhrif heilags anda koma yfir ykkur, kannski áður en ykkur varð ljóst að um heilagan anda var að ræða? Voru það ekki helgar og einstakar stundir?

Okkur ætti að hungra og þyrsta alla daga eftir andlegri þekkingu. Slík skynjun á rætur í námi, ígrundun og bæn. Stundum getum við freistast til að hugsa: „Ég þarf ekki að læra ritningarnar í dag; ég hef lesið þær allar áður“ eða „ég þar ekki að fara í kirkju í dag; það gerist ekkert nýtt þar.“

Fagnaðarerindið er uppspretta þekkingar sem aldrei verður tæmist. Það er alltaf eitthvað nýtt sem má læra og skynja hvern sunnudag, á hverjum fundi og í hverju versi ritninganna. Í trú reiðum við okkur á loforðið: „Leitið, og þér munuð finna.“5

Í öðru lagi ættuð þið að grundvalla trú ykkar á hinum einfalda og skýra sannleika fagnaðarerindisins. Hrifning okkar ætti að beinast að megin reglum trúar okkar, skírleika sáttmála og helgiathafna okkar og látlausustu tilbeiðsluathöfnum okkar.

Trúboðssystir sagði frá þremur mönnum sem hún kynntist á umdæmisráðstefnu í Afríku. Þeir voru frá fjarlægu afskekktu þorpi í skóginum, þar sem kirkjan hafði enn ekki verið stofnuð. Þar voru 15 trúfastir meðlimir og næstum 20 trúarnemar. Mennirnir höfðu komið fótgangandi og ferðast næstum 480 km, yfir foruga vegi eftir miklar rigningar, svo þeir gætu verið á ráðstefnunni og afhent tíund meðlimanna sem í þorpinu voru. Þeir ráðgerðu að eiga einnar viku viðdvöl, svo þeir gætu notið þeirra forréttinda að meðtaka sakramentið næsta sunnudag og síðan vonast til þess að geta tekið með sér kassa fulla af Mormónsbókum, sem þeir hugðust bera á höfðum sér, til að gefa þær fólkinu í þorpinu.

Systirin sagði frá því hve snortin hún hefði verið yfir þeirri dásemd sem þessir bræður sýndu og einlægri fórn þeirra til að verða sér úti um það sem alltaf hefði verið henni innan seilingar.

Hún velti fyrir sér: „Ef ég vaknaði sunnudagsmorgun einn í Arisóna og kæmist að því að bíllinn væri bilaður, færi ég þá gangandi í kirkju, sem aðeins er í fáeinna kílómetra fjarlægð frá heimili mínu? Yrði ég kannski eftir heima, því mér findist það of langt eða vegna þess að það rigndi?“6 Þessar spurningar eru okkur öllum hollar að hugleiða.

Loks, þá hvet ég ykkur til að sækjast eftir og hlú að samfélagi heilags anda. Flest undur fagnaðarerindisins verða ekki greind með okkar náttúrlega auga. Þetta er það „sem auga sá ekki og eyra heyrði ekki … allt það sem Guð fyrirbjó þeim, er elska hann.“7

Þegar við höfum andann með okkur, munu okkar andlegu skynfæri skerpast og minni okkar skýrast, svo við gleymum ekki þeim kraftaverkum og táknum sem við höfum orðið vitni að. Þetta er ástæða þess að hinir nefísku lærisveinar Jesú, sem vissu að hann væri á förum, „báðu um það, sem þeir þráðu heitast. Þeir þráðu, að heilagur andi mundi veitast þeim.“8

Þótt þeir hefðu litið frelsarann með augum sínum og snert sár hans með höndum sínum, vissu þeir að vitnisburður þeirra gæti dofnað, án stöðugrar endurnýjunar fyrir kraft anda Guðs. Bræður og systur, gerið aldrei neitt sem getur orðið til þess að þið missið þessa dýrmætu og dásamlegu gjöf – samfélag heilags anda. Sækist eftir henni með heitum bænum og réttlátu lífi.

Ég ber því vitni að verkið sem við helgum okkur er„dásemdarverk og undur.“ Þegar við fylgjum Jesú Kristi, mun Guð vitna fyrir okkur „með táknum og undrum og margs konar kraftaverkum og gjöfum heilags anda, sem hann [útbýttir] að vild sinni.“9 Á þessum sérstaka degi, ber ég vitni um að undur og dásemd fagnaðarerindisins eiga rætur í hinni undursamlegustu gjöf allra Guðs gjafa – friðþægingu frelsarans. Hún hin fullomna kærleiksgjöf, sem faðirinn og sonurinn, sameinaðir í tilgangi, hafa gefið sérhverju okkar. Ég tek undir með ykkur og segi: „Um Jesú ég hugsa og undrast hans ást til mín.“ … Ó, hve dásamleg dýrð, dýrð hans fyrir mig.“10

Ég bið þess að við megum alltaf hafa augu sem sjá, eyru sem heyra og hjörtu sem skynja undur og dásemd fagnaðarerindisins, í nafni Jesú Krists, amen.

Heimildir

  1. Lúk 10:23–24.

  2. 2 Ne 27:26.

  3. 3 Ne 2:1.

  4. „Marcel Proust,“ Guardian, 22. júlí 2008, theguardian.com/books/2008/jun/11/marcelproust.

  5. Matt 7:7.

  6. Sjá Lorraine Bird Jameson, „The Giants of Kinkonkja“ (grein á vefsíðu Suðaustur-Afríkusvæðisins, 2009), web.archive.org/web/20101210013757/http:/www.lds.co.za/index.php/news-a-events/news/aseanews/91-the-giants-of-kinkondja.

  7. 1 Kor 2:9.

  8. 3 Ne 19:9.

  9. Hebr 2:4.

  10. „Um Jesú ég hugsa,“ Sálmar, nr. 65).