„Sú fasta, sem mér líkar“
Föstufórnir ykkar gera meira en að fæða og klæða aðra. Þær munu græða og umbreyta hjörtum.
Kæru bræður og systur, mér er það gleði að tjá ykkur kærleika minn á þessari aðalráðstefnu Kirkju Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu. Sú gleði á rætur í því vitni andans að kærleikur frelsarans nær til okkar allra og allra barna himnesks föður. Himneskur faðir þráir að blessa börn sín andlega og stundlega. Hann skilur þarfir, sársauka og vonir þeirra allra.
Þegar við réttum öðrum hjálparhönd, lítur frelsarinn á það sem við værum að liðsinna honum.
Hann sagði það vera svo, er hann dró upp mynd af þeirri stund sem bíður okkar allra, að fá að líta hann augum eftir að lífi okkar í þessum heimi lýkur. Sú mynd hefur orðið skýrari í huga mér á þeim síðastliðnu dögum er ég hef beðið og fastað til fá vitneskju um boðskap minn í dag. Drottinn dró upp mynd af þessum framtíðarviðburði fyrir lærisveina sína, sem við þráum af öllu hjarta að verði líka okkar hlutskipti:
Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims:
Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig,
nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.
Þá munu þeir réttlátu segja: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?
Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig?
Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?
„Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér“1
Við þráum öll slíka ljúfa viðtöku frá frelsaranum. Hvernig getum við verðskuldað hana? Það eru fleiri börn himnesks föður hungruð, heimilislaus og einmana en við fáum mögulega náð til Fjöldin þeirra verður því meiri sem lengra dregur frá okkur.
Drottinn hefur því séð okkur fyrir nokkru sem hvert okkar getur gert. Það er boðorð, svo einfalt að barn fær það skilið. Það er boðorð bundið dásamlegu fyrirheiti fyrir hina nauðstöddu og líka fyrir okkur.
Það er föstulögmálið. Orðin í Bók Jesaja greina frá því boðorði og þeirri blessun sem stendur til boða þeim okkar í kirkjunni sem þannig er ástatt fyrir.
„Nei, sú fasta, sem mér líkar, er að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok,
það er, að þú miðlir hinum hungruðu af brauði þínu, hýsir bágstadda, hælislausa menn, og ef þú sér klæðlausan mann, að þú þá klæðir hann og firrist eigi þann, sem er hold þitt og blóð.
„Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér.
Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp, og hann segja: ‚Hér er ég!‘ Ef þú hættir allri undirokun, hæðnisbendingum og illmælum,
Ef þú réttir hinum hungraða brauð þitt og seður þann, sem bágt á, þá mun ljós þitt renna upp í myrkrinu og niðdimman í kringum þig verða sem hábjartur dagur.
Þá mun Drottinn stöðugt leiða þig og seðja þig, þótt þú sért staddur á vatnslausum stöðum, og styrkja bein þín, og þá munt þú verða sem vökvaður aldingarður og sem uppsprettulind, er aldrei þrýtur.“2
Drottinn hefur því gefið okkur einfalt boðorð með dásamlegu fyrirheiti. Í kirkjunni eigum við kost á að fasta einu sinni í mánuði og gefa föstufórn af örlæti, sem fer um hendur biskups okkar eða greinarforseta, til velsældar hinum fátæku og þurfandi. Eitthvað af því sem þið gefið verður notað til hjálpar þeim sem umhverfis eru, hugsanlega einhverjum í fjölskyldu ykkar. Þjónar Drottins munu biðja og fasta til að fá opinberun um hverjum og hvernig skal hjálpa. Það sem ekki er þörf á til hjálpar fólki á svæði ykkar kirkjueiningar, mun notað til blessunar öðrum nauðstöddum kirkjumeðlimum víða um heim.
Margar blessanir eru bundnar boðorðinu um að fasta í þágu hinna fátæku. Spencer W. Kimball forseti sagði það dýrkeypta vanrækslusynd, ef við létum misfarast að hlíta þessu lögmáli. Hann skrifaði: „Drottinn hefur lofað þeim sem fasta og hjálpa hinum bágstöddu ríkulegum blessunum. … Innblástur og andleg handleiðsla mun leiða af réttlæti og nánu sambandi við himneskan föður. Að vanrækja þessa réttlátu gjörð, mun svipta okkur þessum blessunum.“3
Ég hlaut eina slíka blessun fyrir nokkrum vikum. Þar sem aðalráðstefna er á þeirri helgi sem yfirleitt er ráðgerð fyrir föstu- og vitnisburðarsamkomu, þá fastaði ég og baðst fyrir til að vita hvernig ég gæti þrátt fyrir það haldið boðorðið um að huga að hinum bágstöddu.
Ég vaknaði klukkan 6 á laugardegi, enn fastandi, og baðst aftur fyrir. Mér fannst ég knúinn til að lesa heimsfréttirnar. Þar las ég þessa grein:
„Öflugur hitabeltisstormur eyðileggur mörg hús, er hann skellur beint á Port Vila, höfuðborg Vanuatu. Hið minnsta sex manns létu lífið í Vanuatu, sem eru fyrstu tölur, eftir að einn öflugugasti stormur frá upphafi skellur yfir landið.
Varla nokkurt tré stóð beint eftir, er fellibylur fór yfir þessa þjóð á Kyrrahafseyjum.“4
Neyðarsveit frá World Vission ráðgerði að skoða eyðilegginguna eftir að storminn lægði.
Það ráðlagði fólki að leita sér skjóls í traustum byggingum, svo sem skólabyggingum.
Þar sagði líka: ‚Það traustasta sem fólkið hefur, eru steinsteyptar kirkjubyggingar,‘ sagði Inga, fulltrúi samtakanna CARE International. … ‚Sumir hafa ekkert slíkt. Það er ekki auðvelt að finna hús sem gætu staðist vindhraða af fimmta stigi (fellibylur).‘“5
Ég minntist þess að hafa vitjað fábrotinna heimila á Vanuatu er ég las greinina. Ég sá fyrir mér fólk í hnipri í húsum sínum sem stormar eyðilögðu. Þá runnu upp fyrir mér hinar ljúfu viðtökur fólksins á Vanuatu. Ég sá fyrir mér fólkið og nágranna þess flýja í okkar steinsteyptu kirkjukapellu til skjóls.
Ég sá síðan fyrir mér biskupinn og Líknarfélagsforsetann ganga um á meðal þess, hughreysta, dreifa ábreiðum, matvælum og drykkjum. Ég sá fyrir mér hrædd börnin hnipra sig saman.
Þau eru svo langt í burtu frá heimili mínu, þar sem ég las frásögnina, en samt vissi ég hvað Drottinn hugðist gera með þjónum sínum. Ég vissi að það sem gerði þeim mögulegt að liðsinna þessum börnum himnesks föður voru föstufórnir, sem fúslega voru gefnar af þeim lærisveinum Drottins sem voru afar fjarri þeim en þó nærri Drottni.
Ég beið því fram á sunnudag. Ég færði biskupi mínum föstufórn mína um morguninn. Ég veit að mín fórn verður notuð af biskupinum eða Líknarfélagsforsetanum til að liðsinna einhverjum í býr mér nærri. Mín smávægilega fórn kemur kannski ekki að notum einhversstaðar nærri þar sem ég og fjölskylda mín búum, en það sem afgangs verður, gæti jafnvel náð til Vanuatu.
Aðrir stormar og hörmungar munu koma yfir heiminn og þá sem Drottinn elskar og hvers sorg hann skynjar. Hluti af föstufórnum ykkar og mínum verður þennan mánuð notaður til að liðasinna einhverjum, einhversstaðar, og Drottinn mun skynja líkn þess sem væri hún veitt honum sjálfum.
Föstufórnir ykkar gera meira en að fæða og klæða aðra. Þær munu græða og umbreyta hjörtum. Ávöxtur frjálsra fórna getur verið þrá gefanda til að ná til annarra bágstaddra. Það á sér stað víða um heim.
Það gerðist í tilviki systur Abie Turay, sem býr í Sirerra Leone. Borgarastyrjöld braust út árið 1991. Hún landinu áþján í mörg ár. Sierra Leone var fyrir það eitt fátækasta land heims. „Á meðan stríðið stóð yfir var óljóst hver stjórnaði landinu – bankar … lokuðu, opinberar stofnanir voru lagðar niður, lögregla [mátti sín einskis gegn uppreisnaröflunum] … og ringulreið, dráp og sorg voru í algleymingi. Tugir þúsunda týndu lífi og yfir tvær milljónir fóru nauðugar frá heimilum sínum til að forðast blóðbaðið.“6
Jafnvel á slíkum tímum óx Kirkja Jesú Krists hinna Síðari daga heilögu.
Ein fyrsta greinin var stofnuð í borginni þar sem systir Turay átti heima. Eiginmaður hennar var fyrsti greinarforsetinn. Hann þjónaði sem umdæmisforseti á tíma borgarastyrjaldarinnar.
„Þegar gestir heimsóttu systur Turay, hafði hún unun af því að sýna þeim tvær [gersemar] frá striðinu: Röndótta, bláa og hvíta skyrtu [sem hún fékk] úr bala fullum af fatnaði, [sem gefinn var af meðlimum kirkjunnar], og ábreiðu, sem nú var slitin og götótt.“7
Hún sagði: „Þessi skyrta var fyrsti … fatnaðurinn sem ég [fékk]. … Ég var vön að fara í henni til vinnu – hún var svo fín. [Mér fannst ég svo falleg í henni.] Ég átti ekki önnur föt.
„Þessi ábreiða hélt hlýju á mér og börnunum meðan stíðið stóð yfir. Þegar uppreisnarmennirnir gerðu aðför að okkur, var þetta það eina sem ég [gat] gripið með mér, [er við flýðum út í kjarrið]. Við tókum því ábreiðuna með okkur. Hún hélt hita á okkur og veitti vernd gegn moskítóflugunum.“8
„Systir Turay tjáði þakklæti sitt fyrir trúboðsforseta sem lagði á sig að koma í stríðshrjáð landið með [peninga] í vasanum.“ Það fé, sem voru föstufórnargjafir einhvers eins og ykkar, gerði hinum heilögu kleift að kaupa matvæli, sem flestir í Sierra Leoneans höfðu ekki ráð á.9
Systir Turay, sem ræddi um þá sem voru nægilega örlátir til að gefa svo þau gætu lifað, sagði: „Þegar ég hugsa [um] þá sem gáfu þannig … finnst mér [þeir hafa] verið sendir af Guði, því venjulegt fólk gerði þetta góðverk í [okkar] þágu.“10
Gestur frá Bandaríkjunum ræddi við Abie ekki alls fyrir löngu. Meðan hann var þar, kom hann „auga á ritningar sem voru á borði.“ Hann sá að þær voru gersemar, „vel undirstrikaðar, með skráðum athugasemdum. Síðurnar voru [snjáðar] og sumar rifnar. Kápan var laus úr bindingunni.“
Hann tók ritningarnar „sér í hönd og fletti þeim varlega. Þegar [hann gerði það, sá hann] gult eintak tíundarseðils. [Hann] fékk séð að í landi þar [sem dollarinn er virði] þyngdar sinnar í gulli, að Abie Turay hafði greitt einn dollar í tíund, einn dollar í trúboðssjóð og einn dollar í föstusjóð, í þágu þeirra sem að hennar sögn voru ‚sannlega fátækir.‘“
Gesturinn lauk aftur ritningum systur Turay og hugsaði með sér, er hann stóð við hlið þessarar afrísku móður, að hann væri á helgri jörð.11
Á sama hátt og blessanir föstufórna okkar geta umbreytt hjörtum, þá getur fasta öðrum til góðs líka gert það. Jafnvel barn fær skynjað það.
Mörgum börnum, og sumum fullorðnum, finnst erfitt að fasta í 24 klukkustundar, af persónulegum ástæðum. Svo kann að vera að þeim finnst fastan vera líkt og „bágt á“ sál þeirra, svo notað sér orðalag Jesaja. Vitrir foreldrar koma auga á þann möguleika og fara vandlega eftir þessari handleiðslu Josephs F. Smith forseta: „Betra er að kenna þeim regluna og láta þau tileinka sér hana þegar þau verða nægilega gömul til að velja viturlega.“12
Ég sá blessun þessarar handleiðslu nýverið. Einn af sonarsonum mínum finnst ómögulegt að fasta í 24 klukkustundir. Skynsamir foreldrar hans innrættu honum samt þessa reglu. Einn af skólafélögum hans missti nýlega frænda sinn í dauðaslysi. Sonarsonur minn spurði móður sína á föstusunnudegi, um það leyti sem honum fannst hvað erfiðast að halda föstunni áfram, hvort fastan gæti bætt líðan hins syrgjandi félaga hans, ef hann héldi henni áfram.
Spurning hans var staðfesting á handleiðslu Josephs F. Smith forseta: Sonarsonur minn var kominn á það stig að skilja ekki aðeins hvað í föstunni felst, heldur var hún líka að skjóta rótum í hjarta hans. Hann hafði fundið að fastan og bænir hans yrðu til þess að einhver bágstaddur gæti hlotið blessun frá Guði. Ef hann lifir nægilega lengi eftir föstureglunni, mun það hafa dásamleg áhrif á hann sjálfan, líkt og Drottinn hefur lofað. Hann mun njóta þeirrar andlegu blessunar að geta hlotið innblástur og aukinn kraft til að standast freistingar.
Við þekkjum ekki allar ástæður þess að Jesús Kristur fór í eyðimörkina til að fasta og biðja. Við vitum samt hið minnsta að það hafði þessi áhrif: Frelsarinn stóðst fullkomlega freistingar Satans, til að fá hann til að misnota vald sitt.
Sá stutti tími sem við föstum í hverjum mánuði og sú litla upphæð sem við látum af hendi til fátækra, gæti gætt okkur þeirri smáu eðlislægu breytingu að þrá ekki lengur að gera illt. Það er líka dásamlegt fyrirheit sem fylgir því að gera allt sem skynsamlegt er, til að biðjast fyrir, fasta og gefa í þágu bágstaddra:
„Þá skal ljós þitt bruna fram sem morgunroði og sár þitt gróa bráðlega, þá mun réttlæti þitt fara fyrir þér, dýrð Drottins fylgja á eftir þér.
Þá munt þú kalla á Drottin, og hann mun svara, þú munt hrópa á hjálp, og hann segja: ‚Hér er ég!‘“13
Ég bið þess að við sækjum þessar undursamlegu blessanir fyrir okkur sjálf og fjölskyldu okkar.
Ég ber vitni um að Jesús er Kristur, um að okkur sé boðið í kirkju hans að hjálpa honum við að annast fátæka, að hans hætti, og að hann lofi að eilífar blessanir hljótist af því að hjápa honum. Í hinu helga nafni Jesú Krists, amen.