Fjölskyldan er Guðs
Við tilheyrum öll fjölskyldu Guðs og okkar er þörf þar.
Er nokkuð fallegra eða djúpstæðara en sá einfaldi og hreini sannleikur fagnaðarerindisins sem kenndur er í barnafélagssálmunum? Þið barnafélagsstúlkur sem eruð hér í kvöld þekkið lagið sem ég ætla að tala um. Þið lærðuð það fyrir Barnafélagssamkomuna ykkar í fyrra.
Í orðum lagsins „Fjölskyldan er Guðs“1 – sem var sungið fyrr á fundinum – erum við minntar á hreina kenningu. Við lærum ekki einungis að fjölskyldan er Guðs heldur einnig að við erum öll hluti af fjölskyldu Guðs.
Fyrsta hendingin í laginu kennir: „Faðir vor á fjölskyldu Það er ég! Það ert þú, við öll: við erum hans börn.“ Við lærum úr Fjölskylduyfirlýsingunni að „Í fortilverunni þekktu og tilbáðu andasynir og dætur Guðs hann sem eilífan föður.“ Í þeim heimi lærðum við um hina eilífu kvenkyns sjálfsmynd okkar. Við vissum að hver og ein okkar væri „ ástkær …dóttir himneskra foreldra.“2
Jarðvist okkar breytti þessum sannleika ekki. Við tilheyrum öll fjölskyldu Guðs og okkar er þörf þar. Jarðneskar fjölskyldur líta ólíkt út. Þó að við gerum okkar besta til að skapa sterkar, hefðbundnar fjölskyldur þá er aðild okkar að fjölskyldu Guðs ekki háð neinni stöðu - hjúskaparstöðu, stöðu sem foreldrar, fjármálastöðu, félagslegri stöðu eða jafnvel þeirri stöðu sem við setjum á félagsmiðlana.
Við tilheyrum. „Við erum dætur himnesks föður, sem elskar okkur, og við elskum hann.“3
Önnur hendingin í laginu leggur upp úr þeirri fyrri. „Hann sendi´ okkur öll til jarðar, til að fæðast, lifa og læra hér sem fjölskyldur.“
Í fortilverunni lærðum við að við myndum þurfa jarðneskt tímabil. Við „[samþykktum] áætlun [himnesks föður], en samkvæmt henni gátu börn hans hlotið efnislíkama og öðlast jarðneska reynslu til að feta í átt að fullkomnun og að lokum gera að veruleika guðleg örlög sín sem erfingjar eilífs lífs.“4
Öldungar Richard G. Scott útskýrði: „Okkur var kennt í fortilverunni að tilgangur okkar hér á jörðinni væri að vera reynd, prófuð og á okkur teygt.“5 Þessi teygja kemur í eins fjölbreyttum útgáfum eins og einstaklingarnir sem upplifa hana. Ég hef aldrei þurft að fara í gegnum skilnað, þann sársauka og óöryggi sem fylgir því að vera yfirgefin, eða upplifað þá ábyrgð sem fylgir því að vera einstæð móðir. Ég hef ekki upplifað barnamissi, ófrjósemi eða samkynhneigð. Ég hef ekki þurft að reyna misnotkun, langvinna sjúkdóma eða fíkn. Þetta hefur ekki verið það sem ég hef þurft að takast á við.
Þar af leiðandi hugsa sumar ykkar núna: „Systir Stephens, þú skilur þetta bara ekki!“ Svarið er kannski að þið hafið rétt fyrir ykkur. Ég skil ykkar áskoranir ekki fyllilega. Hins vegar, í gegnum mínar persónulegu prófraunir og áskoranir - sem hafa komið mér niður á hnéin – þá hef ég kynnst honum sem skilur – honum sem var „kunnugur þjáningum“6 sem reyndi allt og skilur allt. Þar að auki hef ég upplifað allar þessar jarðnesku raunir sem ég taldi upp, í gegnum linsu dóttur, móður, ömmu, systur, frænku og vinar.
Tækifæri okkar sem dætur Guðs, sem halda sáttmála sína, er ekki bara að læra af okkar eigin áskorunum; það er að sameinast í samhygð og samúð er við styrkjum aðra sem tilheyra fjölskyldu Guðs, í erfiðleikum þeirra, eins og við höfum gert sáttmála um að gera.
Þegar við gerum það þá munum við einnig læra að skilja og treysta því að frelsarinn þekkir erfiðleika leiðarinnar og getur leiðbeint okkur í gegnum hvaða sorgir eða vonbrigði sem verða á vegi okkar. Hann er sannur kærleikur og elska hans „varir að eilífu“7 – að hluta til í gegnum okkur er við fylgjum honum.
Sem dætur Guðs og lærisveinar Jesú Krists þá „[störfum við] samkvæmt þeirri samkennd sem Guð hefur gróðursett“ í hjörtum okkar.8 Áhrifasvið okkar takmarkast ekki við fjölskyldumeðlimi okkar.
Nýlega fékk ég það tækifæri að heimsækja systur Yazzie úr Chinle stikunni í Arizona, í indjánahýbýlum hennar. Þegar hún bauð mig velkomna á heimili sitt þá tók ég strax eftir hinum ýmsu fjölskyldu og trúboðsljósmyndum á veggjum hennar og borðum. Því spurðu ég hana: „Systir Yazzie, hvað áttu mörg barnabörn?“
Hissa á spurningu minni þá yppti hún öxlum. Ég var óviss með svar hennar og leit á dóttur hennar, systur Yellowhair, sem svaraði: „Hún veit ekki hve mörg barnabörn hún á. Við höfum ekki tölu á þeim. Öll börn kalla hana ömmu – hún er amma allra.“
Systir Yazzie takmarkar kærleika sinn og áhrif ekki við líffræðilega fjölskyldu sína. Hún skilur hvað það merkir að teygja áhrifasvið sitt er hún fer um og vinnur góðverk, blessar, nærir og ver fjölskyldu Guðs. Hún skilur að „hvenær sem kona styrkir trú barns þá leggur hún af mörkum til styrks fjölskyldunnar, núna og í framtíðinni.“9
Þriðja hendingin í laginu útskýrir betur tilgang okkar hér í jarðlífi okkar. „Guð gaf okkur fjölskyldur til að geta orðið eins og hann vill.“ Frelsarinn kenndi: „Verið eitt, og ef þér eruð ekki eitt, eruð þér ekki mínir.“10 Fjölskylduyfirlýsingin kennir að sem ástkærar andadætur himneskra foreldra þá höfum við guðlegt eðli, eilífa sjálfsmynd og tilgang. Guð vill að við séum eitt. Guð þarfnast þess að við séum eitt – dætur sem höldum sáttmálana, sameinaðar í margbreytileika einstaklingslífs okkar,11 sem þrá að læra allt sem okkur er nauðsynlegt til að komast aftur í návist hans, innsiglaðar honum sem hluti af eilífri fjölskyldu hans.
„Helgiathafnir og sáttmálar í heilögum musterum [gera okkur] mögulegt að komast aftur í návist Guðs og fjölskyldum að sameinast að eilífu.“12 Helgiathafnirnar sem við meðtökum og þeir sáttmálar sem við gerum við skírn okkar og í helgum musterum, tengja fjölskyldu Guðs báðum megin hulunnar – tengja okkur við föðurinn í gegnum soninn, sem bað:„að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér,svo séu þeir einnig í okkur.“13
Á sama tíma og við nýtum tíma okkar í jarðlífinu til að læra og heimfæra kenningar frelsarans yfir á líf okkar þá verðum við líkari honum. Við lærum að skilja að hann er vegurinn - eini vegurinn - við getum sigrast á jarðneskum áskorunum, læknast og snúið aftur til himneska heimilis okkar.
Síðasta hendingin í laginu kemur aftur að upphafinu: „Þannig deilir hann ást sinni, því að fjölskyldan er Guðs.“ Áætlun föðurins fyrir börn sín, er kærleiksáætlun. Hún miðar að því að sameina börn hans – fjölskylduna hans – honum. Öldungur Russell M. Nelson sagði: „Himneskur faðir þráir einungis tvennt fyrir börn sín…ódauðleika og eilíft líf, sem þýðir líf með honum heima.“14 Þessi þrá getur einungis orðið að raunveruleika ef við deilum þessum kærleika, sem himneskur faðir hefur gagnvart fjölskyldu sinni, með því að ná til og deila áætlun hans með öðrum.
Fyrir tuttugu árum síðan talaði Æðsta forsætisráðinu og Tólfpostulasveitinni til allrar heimsbyggðarinnar þegar þeir gáfu út fjölskylduyfirlýsinguna. Síðan þá hafa árásir á fjölskylduna margfaldast.
Ef við ætlum að vera farsæl í heilagri ábyrgð okkar sem dætur Guðs þá verðum við að skilja eilíft mikilvægi og persónulega ábyrgð þess að kenna sannleikann um áætlun himnesks föður fyrir fjölskyldu hans. Howard W. Hunter forseti sagði:
„Það er mikil þörf á því að safna konunum í kirkjunni saman til að standa með og fyrir bræðurna til að stemma stigu við flóði hins illa sem umkringir okkur og að halda fram á við með verk frelsarans. …
… Við biðjum ykkur innilega um að þjónusta í krafti góðra áhrifa ykkar við að efla fjölskyldur okkar, kirkju og samfélag.“15
Systur, við tilheyrum. Við erum elskaðar. Okkar er þörf. Við höfum guðlegan tilgang, stað og hlutverk í kirkjunni og í ríki Guðs og hans eilífu fjölskyldu. Vitið þið, djúpt í hjörtum ykkar, að himneskur faðir elskar ykkur og þráir að þú og þeir sem þú elskar, verði með honum? Á sama hátt og „himneskur faðir og sonur hans, Jesús Kristur eru fullkomnir … þá eru vonir þeirra fyrir okkur fullkomnar.“16 Áætlun þeirra fyrir okkur er fullkomin og loforð þeirra eru örugg. Í þakklæti ber ég vitni um þennan sannleik, í nafni Jesú Krists, amen.