Fórn
Fyrr á tímum táknaði að fórna að helga einhvern eða eitthvað. Nú er það farið að tákna að afneita eða sjá á bak þessa heims gæðum fyrir Drottin og ríki hans. Meðlimir kirkju Drottins ættu að vera fúsir til að fórna öllu fyrir Drottin. Joseph Smith kenndi að „trúarbrögð sem ekki krefjast fórnar í öllu hafa aldrei nægilegan kraft til að skapa þá trú sem er nauðsynleg til lífs og sáluhjálpar.“ Frá sjónarhóli eilífðarinnar, eru blessanir sem fást með fórn stærri en nokkuð það sem til er fórnað.
Eftir að Adam og Eva voru rekin út úr Edensgarði, gaf Drottinn þeim fórnarlögmálið. Í því lögmáli fólst fórn frumburðar hjarða þeirra. Sú fórn var táknræn fyrir þá fórn, er hinn eingetni sonur Guðs mundi færa (HDP Móse 5:4–8). Sá siður hélst fram að dauða Jesú Krists, er batt enda á dýrafórn sem helgiathöfn fagnaðarerindisins (Al 34:13–14). Í kirkju nútímans neyta hinir heilögu brauðs og vatns sakramentisins til minningar um fórn Jesú Krists. Meðlimum Kirkju Krists er nú á dögum einnig boðið að fórna sundurkrömdu hjarta og sáriðrandi anda (3 Ne 9:19–22). Það táknar að þeir eru auðmjúkir, iðrandi og fúsir til að halda boðorð Guðs.