Námshjálp
Samúel, spámaður í Gamla testamenti


Samúel, spámaður í Gamla testamenti

Sonur Elkana og Hönnu. Samúel fæddist sem svar við bænum móður sinnar (1 Sam 1). Strax í bernsku var hann fenginn í hendur Elí, æðsta prests í helgidómnum í Síló (1 Sam 2:11; 3:1). Drottinn kallaði Samúel þegar á unga aldri til spámanns (1 Sam 3). Að Elí látnum varð Samúel mikill spámaður og dómari í Ísrael og endurreisti lögmálið, reglu og hefðbundið guðsþjónustuhald í landinu (1 Sam 4:15–18; 7:3–17).

Í Fyrri Samúelsbók 28:5–20 er að finna frásögn af því að Samúel hafi verið kallaður fram úr ríki dauðra af særingakonu frá Endór að beiðni Sáls konungs. Þetta getur ekki hafa verið sýn frá Guði, vegna þess að særingamenn eða aðrir andamiðlar geta ekki fengið spámann til þess að birtast að hans eða hennar vilja.

Fyrri og síðari Samúelsbækur

Í sumum Biblíuútgáfum eru bækurnar felldar saman, í öðrum aðgreindar. Bækurnar ná yfir um 130 ára tímabil, frá fæðingu Samúels og fram undir dauða Davíðs.

Fyrri Samúelsbók

Kapítular 1–3 lýsa því að Drottinn refsaði og lagði bölvun á fjölskyldu Elís og kallaði Samúel til embættis æðsta prests og dómara. Kapítular 4–6 greina frá hvernig sáttmálsörkin féll í hendur Filista. Kapítular 7–8 greina frá aðvörun Samúels vegna falsguða og spillts konungs. Kapítular 9–15 segja frá krýningu Sáls og stjórnartíð hans. Kapítular 16–31 segja sögu Davíðs og hvernig hann kemst til valda — Samúel smurði Davíð sem hafði fellt Golíat. Sál hataði Davíð, en Davíð neitaði að drepa Sál þótt honum gæfist færi á því.

Síðari Samúelsbók

Bókin greinir frá atburðum í stjórnartíð Davíðs sem konungs Júdeu og að lokum alls Ísraels. Kapítular 1–4 sýna langa baráttu milli fylgismanna Davíðs, eftir að hann var krýndur í Júdeu og fylgismanna Sáls. Kapítular 5–10 sýna að Davíð verður áhrifamikill í mörgum löndum. Kapítular 11–21 sýna hrörnun andlegs styrks Davíðs vegna synda hans og uppreisnar innan fjölskyldu hans. Kapítular 22–24 lýsa tilraunum Davíðs til að ná sáttum við Drottin.